Fimmtudagur, 10. maí 2007
Hver lofar skattahækkunum í kosningabaráttu?
Hér er sniðug grein eftir fyrrum ritstýru Vefþjóðviljans, Sigríði Andersen, þar sem meðal annars segir:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri var spurð út í þessar skattahækkanir [R-listans í Reykjavík] í sjónvarpsfréttum og svaraði fréttamanni með annarri spurningu: Þekkir þú einhver dæmi þess, að þeir sem eru að bjóða sig fram til kosninga lofi skattahækkunum?"
Ef undan eru skildir Vinstri-grænir þá hittir Ingibjörg naglann gjörsamlega á höfuðið hérna. Hver lofar skattahækkunum í kosningabaráttu?
Við skulum samt ekki velkjast í vafa um það sem bíður Íslendinga ef vinstrimenn ná völdum á Íslandi. Það skiptir í raun engu máli hvað stjórnarandstaðan segir, því verkin tala, og verk vinstrimanna í Reykjavík eru þar hrópandi skýr og ekki til að mistúlka. Verk vinstrimanna á Alþingi eru ekki síðri vísbending um það sem koma skal, ef vinstrimenn ná völdum: Þeir kjósa þar samviskusamlega gegn nær öllum skattalækkunum (eða sitja hjá), og með herkjum með þeim örfáu sem teljast ekki tæknilega gallaðar, rangt tímasettar eða beint að vitlausum hópum (t.d. þótti niðurfelling eignaskattsins, sem aldraðir í eigin húsnæði hafa hagnast mikið á, ekki henta rétta fólkinu að mati vinstrimanna).
Atkvæði til vinstrimanna er æpandi og blikkandi ljósaskilti sem á er letrað: Hækkaðu skattana á mig og mína, kæri stjórnmálamaður, og takmarkaðu fjárráð mín yfir uppskeru míns eigin brauðstrits, því ég hef ekki vit á því að styðja við góð mál milliliða- og þvingunarlaust!
Nema viðkomandi haldi að það séu einhverjir aðrir sem muni blæða í hagkerfi og samfélagi hækkandi skatta? Think again!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.