Þriðjudagur, 8. maí 2007
Er VG þversagnakenndasti flokkur Íslands?
Má til með að benda á reiðipistil sem fjallar um þversagnakenndar kosningalofræður Vinstri-grænna, a.m.k. nokkura af helstu spámönnum þeirra.
Menn hafa verið að verja sinnaskipti ýmissa vinstrimanna á seinustu árum, t.d. þegar kemur að frjálsu útvarpi og afnámi banns við bjórsölu á Íslandi. Auðvitað hafa stjórnmálamenn og aðrir "leyfi" til að skipta um skoðun. Ég vona bara að Steingrímur J. og félagar geri það aðeins oftar en margir aðrir! Ef Steingrímur J. þykir bjórinn góður (betri í dag en í gær) þá er honum í lófa lagt að hætta að leggjast gegn því að bæta aðgengi sitt og allra annarra að honum. Meiri sinnaskipti bið ég ekki um, en þó einhver. Ef Steingrímur J. í dag er hrifnari af bruggun bjórs en virkjun fallvatna (ólíkt því sem gilti þegar Steingrímur kaus gegn bjórsölu og með virkjunarframkvæmdum í efrihluta Þjórsár) þá lái ég honum það í sjálfu sér ekki. Sinnaskipti eru ekki alslæm.
Ég hef verið vændur um að "styðja" ríkisframkvæmdirnar við Kárahnjúka af því ég hef nú póstlagt atkvæðaseðil sem á stendur listabókstafurinn D. Slíkan stuðning er ekki að finna hjá mér. Margir hafa áhyggjur af ástandi umhverfismála ef Sjálfstæðismenn halda völdum á Íslandi. Ég skil áhyggjur allra sem hafa áhyggjur af stjórn og yfirráðum stjórnmálamanna yfir einhverju. Gildir það bæði um Elliðaárnar (hvers árbakka ég lék mér á þegar ég var að vaxa úr grasi í Árbænum) og heilbrigðiskerfið, svo eitthvað sé nefnt. Þess vegna er ég einarður stuðningsmaður þess að fjarlægja sem mest af völdum stjórnmálamanna á sem flestum sviðum (raunar öllum, en það er önnur saga).
Í kaldhæðni íslenskra stjórnmála þýðir það að ég kýs stjórnmálaflokkinn sem er valdamestur allra á Íslandi í dag. Ástæðan er sú að hann er sá eini sem leggur þunga í einkavæðingar og skattalækkanir og þarf að múta samstarfsflokkum sínum með bitlingum til að fá atkvæði til slíkra mála.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.