Mánudagur, 30. apríl 2007
Er BANNAÐ að kenna eigin barni að lesa, skrifa og reikna?
Í hvert sinn sem einhver nefnir eitthvað um að ríkið eigi að sleppa klóm sínum af einhverju þá æða vinstrimenn fram og heimta réttlætingu frá hinum hlekkjuðu þegnum ríkisvaldsins fyrir því af hverju eigi að losa um hlekkina. Útgangspunkturinn er sjaldnast sá að eitthvað vandamál eða ástand sé til staðar sem þurfi á hlýjum faðmi yfirvalda að halda til að hljóta úrlausn. Nei, útgangspunkturinn er hinn kremjandi faðmur ríkisins, og ætli sér einhver að sleppa úr honum verði viðkomandi að færa fyrir því rök, semja skýrslur og helst grátbiðja um leyfi til fá að prófa eitthvað upp á eigin spýtur.
Þetta hugarfar er algjör ráðgáta fyrir mér. Vel meinandi vinstrimenn halda að launþegar hins opinbera séu alltaf og án undantekningar betur vaxnir í einhver hlutverk en fólk sem þiggur laun sín annars staðar frá, eða vinnur launalaust. Þetta á jafnt við um afgreiðslumenn sem afgreiða áfengi og kennara sem lesa upp úr Gísla sögu Súrssonar fyrir framan hóp af krökkum.
Er þetta virkilega hugarfar sem margir aðhyllast? Er allt verkefni ríkisvaldsins þar til óyggjandi rök hafi verið færð fyrir því að einkaaðilar eigi líka að fá að sinna einhverju? Ég held að fæstir hugsi á þessum nótum frá degi til dags, en um leið og umræðan berst að stjórnmálum sé eins og menn byrji að tala gegn eigin vitund.
Ég held að margir foreldrar geti alveg kennt börnum sínum að lesa, skrifa og reikna, rétt eins og margir eru fullfærir um að mála eigin stofu og dytta að eigin garði. Þeir sem hafa ekki tíma, þekkingu eða þolinmæði kaupa sér bara þjónustu utan frá, rétt eins og sumir kjósa að ráða málara eða garðyrkjumann. Aðkoma ríkisins að fjármögnun slíkrar þjónustu er svo sér kapítuli út af fyrir sig, og á ekki að trufla dómgreind okkar þegar kemur að því að LEYFA fólki að gera það sem ÞAÐ VILL, í stað þess að BANNA fólki með lögum og valdi að ala upp börn sín eins og því þykir best.
Mér þykir þeir vera ansi kræfir sem segja að það sé allt í lagi fyrir ríkið að ráðstafa námsefninu þannig að upp vaxi góðir og þögulir skattgreiðendur sem láti ráðskast með sig, eigur sínar og börn um alla framtíð, en það að lesa nokkur vers upp úr Biblíunni fyrir barn sitt sé argasti heilaþvottur sem eigi að ríkisvæða í burtu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.