Mánudagur, 17. ágúst 2015
Um áhrif viðskiptaþvingana
NATO, Rússland, Evrópusambandið og bandamenn og meðlimir allra þessara fyrirbæra eru núna í vel þekktum leik sem heitir að reyna berja hvern annan til hlýðni með viðskiptaþvingunum.
Óháð því hver er að haga sér illa eða ólöglega eða ósiðlega þá langar mig að benda á nokkrar afleiðingar viðskiptaþvingana, hvar svo sem þeim er beitt.
Í fyrsta lagi valda þær öllum sem að þeim koma skorti eða óhagkvæmni. Þeir sem neita að kaupa með hagkvæmum hætti þurfa að afla sér með óhagkvæmari leiðum eða hreinlega að neita sér um ákveðnar vörur og þjónustu.
Í öðru lagi valda þær öllum sem að þeim koma fjárhagslegu tapi. Það sem áður mátti kaupa að utan ódýrt og selja aðeins dýrar en engu að síður ódýrt þarf nú að afla sér með dýrari leiðum og selja enn dýrar.
Í þriðja lagi leiða þær til þjáninga fyrir þá sem annaðhvort geta ekki keypt á hinu dýra verði eða missa hreinlega möguleikann á kaupum alveg. Fátækir hafa ekki efni á mat, ríkir þurfa að eyða meiru í mat og minna í fjárfestingar. Hungur og vannæring eru algengir fylgifiskar viðskiptaþvingana, og þeir sem minnst mega sín finna fyrst fyrir því.
Í fjórða lagi leiða viðskiptaþvinganir til ógna eða árása, beint eða óbeint. Þegar Bandaríkjamenn lokuðu á olíusölu til Japana í aðdraganda annarrar heimstyrjaldar (en áður en þessi ríki voru í stríði) fannst Japönum ekki annað í stöðunni en að afla sér olíu með árásarstríðum á olíurík svæði í suðri. Það kæmi mér ekkert á óvart ef Rússar reyndu að bæta sér upp skort á einhverju með svipuðum aðferðum, og verður þá bara að hluta til sakast við þá sjálfa.
Í fimmta lagi styrkja viðskiptaþvinganir stjórnmálamenn í valdabrölti. Þessir stjórnmálamenn geta bent þegnum sínum á að þeir þurfi nú að standa saman og á eigin fótum gegn hinum ósanngjörnu útlendingum. Völd þeirra styrkjast. Ekki líða þeir valdamestu heldur mikið fyrir viðskiptaþvinganir. Stjórnmálamenn ná alltaf að fá sitt.
Jón Sigurðsson "forseti" hvatti Íslendinga á sínum tíma til að skipta sér ekki af málefnum erlendra ríkja en stunda þess í stað frjáls viðskipti við alla sem vildu. Eiga orð hans ekki bara ágætlega við ennþá?
Bjarni: Efasemdir um þvinganirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.