Af hverju reykja Kanar minna en Evrópubúar?

Deiglupenninn Jón Steinsson spyr sig og aðra í grein á Deiglan.com eftirfarandi spurningar: Af hverju reykja Evrópubúar meira en Bandaríkjamenn? Hann nefnir m.a. eftirfarandi ástæðu: "Í ljós kemur að mun færri Evrópubúar [en Bandaríkjamenn] telja að reykingar séu verulega heilsuskaðlegar." Einnig segir Jón "að milli 25% og 50% á muninum á tíðni reykinga megi rekja til mismunandi viðhorfa til þess hversu heilsuspillandi reykingar eru." Sem sagt: Evrópubúar, sem ætíð og iðulega hrósa sér fyrir að vera upplýstari og greindari en Kaninn, vita ekki að innsog á tjöru svo árum skiptir er nokkurn veginn sú mest heilsuspillandi iðja sem er ekki bönnuð með lögum í dag. Getur einhver sjálfumglaður Evrópubúi sætt við þess konar útskýringu? Það efast ég um.

Í mínum huga er alveg hrópandi fjarvera á einni tilgátu í umfjöllun Jóns, og sennilega á það sama við um skýrsluna sem hann styðst við, en það eru vensl reykinga og uppbyggingar heilbrigðiskerfis Bandaríkjanna annars vegar og Vestur-Evrópu hins vegar. Í Bandaríkjunum er a.m.k. og fyrir suma einhver fjárhagslegur hvati fólginn í því að passa upp á heilsu sína, m.a. af því margir kaupa sínar eigin heilbrigðistryggingar (þótt það sé ekki einhlítt í gríðarlega flóknu heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, sem spannar allt frá harðasta sósíalisma og til frelsis til að kaupa sér nánast hvaða þjónustu sem er án milligöngu kerfisins). Með því að reykja, og þar með rífa niður eigin heilsu, er að myndast kostnaður sem er augljóslega best að vera laus við, en bara að því gefnu að kostnaðurinn lendi á þeim sem honum veldur.

Í Vestur-Evrópu er engan slíka hvata að finna. Menn reykja sig einfaldlega í hel, telja sjálfum sér í trú um að kostnaður vegna komandi sjúkdóma hafi þegar verið greiddur með himinháum tóbaksálögum svo árum og áratugum skiptir, og pæla ekki í því meira. Heilbrigðiskerfið er einn aðili - sá sami og innheimtir skatta til að fjármagna það - og hver sem er sem veikist af hvaða ástæðu sem er hefur "rétt" til að nota það. Sjálfur heyrði ég einu sinni dæmisögu um aldraða konu á Íslandi sem var nýbúin að taka á móti niðurgreiddum lungnaþembulyfjum fyrir hundruð þúsunda króna, og kona sú var ekki lengi að kveikja sér í einni þegar hún var komin undir beran himinn.

Hvað mundi verða um kostnað vegna bílatrygginga ef allir gætu farið eins illa með bíla sína og þeim sýndist, og fengju skaðann alltaf jafnóðum bættan úr sameiginlegum sjóði sem allir væru þvingaður til að greiða í (sem hlutfall af launum og vöruverði, en ekki sem iðgjald tengt tjónleysi og öðru eins)? Yrði kostnaður ekki fljótur að springa úr öllu valdi, þjónustan fljót að versna og biðlistar eftir viðgerðum snöggir að vaxa úr öllu valdi, öllum til ama og gremju? Lýsing sem er óneitanlega ekki ólík þeirri sem á við um "ókeypis" og "aðgangsopna" heilbrigðiskerfið okkar.

Kanar reykja minna en Evrópubúar, og gera það sjálfsagt af mörgum ástæðum (ein þeirra er þó ekki hærra verð á sígarettum í Bandaríkjunum). Ég sé ekki betur en að umgjörð hins vestur-evrópska heilbrigðiskerfis sé a.m.k. líkleg til að vera ein af ástæðum þess að við reykjum meira en Kanar.

Ef einhver getur grafið upp hversu stórt hlutfall Svisslendinga reykir þá yrði ég ákaflega þakklátur. Þeir (og fleiri) starfrækja nefninlega ansi athyglisvert heilbrigðiskerfi, séð í gegnum gleraugu markaðssinnans (þótt ekki af annarri ástæðu en þeirri en að það er heilbrigðisráðherralaust!). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband