Fimmtudagur, 18. júní 2015
Icesave-málið í hundraðasta veldi
Skattgreiðendur í Evrópu eiga nú við mál sem má kannski líkja við Icesave-málið á Íslandi, nema í hundraðasta veldi. Þeim er sagt að nema þeim blæði og blæði til að borga undir eyðslu og skuldir annarra - jafnvel banka og heilu ríkjanna - þá fari allt í kalda kol. Íslendingar hrintu sem betur fer af sér slíkum hræðsluáróðri, þvert á vilja ráðandi afla. Spurningin er hvort íbúum Evrópusambandsins takist það líka.
Íslendingum var sagt að lánstraust þeirra myndi aukast við að taka á sig auknar skuldbindingar vegna Icesave - öfugmæli í besta falli. Evrópubúum er sagt að þeirra hagur sé betri með því að hafa grískar skuldir á bakinu - svipuð öfugmæli það.
Grikkland er auðvitað gjaldþrota fyrir löngu og fjármagnar nú afborganir með nýjum lántökum. Skuldbindingar gríska ríkisvaldsins eru miklu, miklu, miklu meiri en það ræður nokkurn tímann við. Það er bara spurning um tíma hvenær Grikkir verða skornir úr snörunni og hvenær gríska ríkisvaldið verður lýst formlega gjaldþrota. Spurningin er bara hvað á að kreista mikið úr vösum skattgreiðenda utan Grikklands áður en sá dagur rennur upp.
Evran mun sennilega styrkjast við brotthvarf Grikkja.
Weidmann: Evran mun ekki falla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fjárhagslega hefði Icesave verið nánast smámál ef samningurinn hefði verið samþykktur.
Upphæðin sem við hefðum þurft að greiða var mun lægri en það fé sem sólundað var í skuldalækkun til þeirra sem höfðu hagnast á eigin skuldum eða voru svo vel staddir að skuldalækkun var beinlínis fráleit.
Auk þess virðistu vera að misskilja. Það er ekki verið að hóta þeim þjóðum sem vilja ekki taka á sig skuldir Grikkja heldur þvert á móti er verið að vara aðrar þjóðir við að feta í fótspor Grikkja.
Vandi Grikkja er allt annars eðlis en vandi Íslendinga í hruninu. Það voru skuldir banka sem ollu hruninu hér. Í Grikklandi eru það skuldir ríkisins. Skuldir einkafyrirtækja er hægt að afskrifa ef þau fara í þrot en ekki skuldir ríkja. Það þarf að semja um lækkun þeirra.
Vandi Grikkja verður hrikalegur ef þeir neita að taka á honum í samstarfi við lánardrottna. Öfugt við önnur ríki í vanda geta þeir ekki búist við neinni aðstoð frá AGS eða öðrum því að þeir eru búnir að fá hana og neita nú að standa í skilum.
Í Icesave var tekin gífurleg áhætta með því að hafna samningnum. Þó að við slyppum með skrekkinn eru engar líkur á að Grikkir geri það enda engin ágreiningur um að þeim beri að greiða þessar skuldir.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.6.2015 kl. 10:40
Margir lögfróðir menn voru óhræddir við að Ísland hafnaði Icesave-kröfum Breta og Hollendinga. Helsta óvissan var ekki lagaleg, heldur pólitísk - sú að ESB hefði áhrif á dóm hins ráðgefandi EFTA-dómstóls (sem hefði þýtt að Bretar og Hollendingar hefðu líklega tekið næsta skref: Að kæra íslenska ríkið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur).
Gjaldþrot ríkja er sögulega ekki fáheyrður viðburður og ber að skoða mjög opið í tilviki Grikkja.
Geir Ágústsson, 18.6.2015 kl. 10:56
Þó að það hafi kannski ekki verið mikil lagaleg óvissa um ríkisábyrgðina á innistæðutryggingarsjóðnum var hún miklu meiri vegna þeirrar mismununar sem fólst í að ríkið ábyrgðist innlendar innistæður en ekki erlendar.
Auðvitað var það mikið glapræði að hafna samningi sem nefnd færustu sérfræðinga höfðu landað og mælt með að yrði samþykktur, samningi sem langflestir alþingismenn samþykktu nema framsóknarmenn. Þetta var því alls ekki pólitík.
Það sem samið var um var eins konar trygging gegn miklu hærri álögum ef málið hefði tapast. En þessi vegferð kostaði sitt. Meðal annars lækkaði lánshæfismatið niður í ruslflokk þegar ÓRG boðaði fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þar vorum við næstu árin.
Svo má velta því fyrir sér hvort að það hafi ráðið úrslitum um að við sluppum með skrekkinn að einn þriggja dómara var Íslendingur en enginn þeirra Breti eða Hollendingur.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.6.2015 kl. 14:00
Eitt er víst: Þeir sem voru óhræddir við að hafna kröfum Breta og Hollendinga, sem höfðu engar lagastoðir á bak við sig, höfðu rétt fyrir sér.
Geir Ágústsson, 18.6.2015 kl. 18:42
Nei, Geir. Þó að menn sleppi með skrekkinn hafa menn ekki rétt fyrir sér. Það er rangt að taka svona gífurlega áhættu að óþörfu.
Auk þess er líklegt að beinn kostnaður af því að hafa hafnað Buchheit-samningnum sé meiri en það sem við hefðum þurft að greiða ef hann hefði verið samþykktur.
Lækkun lánshæfismats hafði áhrif til hækkunar á vaxtakjörum ríkissjóðs og íslenskra fyrirtækja. Tafir á lausn málsins höfðu margvíslegar skaðlegar og dýrar afleiðingar. Hvað skyldi svo samninganefndin hafa kostað eða málreksturinn fyrir EFTA-dómstólnum?
Versta afleiðing þess að hafna Icesave er þó þessi skelfilega ríkisstjórn sem skirrist einskis í að ganga gegn vilja þjóðarinnar og valda henni gífurlegu tjóni jafnvel þvert gegn loforðum um annað.
ásmundur (IP-tala skráð) 18.6.2015 kl. 22:37
Íslendingar ákváðu að standa fast á sínu gegn ólögmætum kröfum erlendra ríkja. Það kostaði vissulega útgjöld í lögfræðinga.
Íslendingar ákváðu að verða ekki peð fyrir tafl stjórnmálamanna í ESB-leik. Það tók vissulega á.
Ég er hjartanlega ósammála þér að þetta hafi verið mistök.
Ég vona að fólk eins og þú verði hvergi nærri ef og þegar næsta erlenda ríki reynir að kúga hið íslenska í krafti stærðar og áhrifa innan ESB eða annars ríkjasambands.
Geir Ágústsson, 19.6.2015 kl. 06:38
Geir, að taka slíkar óþarfa áhættur er fullkomið dómgreindarleysi. Gerirðu þér enga grein fyrir að við hefðum þurft að greiða margfalt meira ef við hefðum tapað málinu sem verulegar líkur voru á að mati hæfustu manna.
Það er hrollvekjandi þegar þjóðremba og vænisýki villa mönnum svona sýn. Hér var ekki verið að neyta aflsmunar. Þvert á móti er líklegt að við höfum sloppið með skrekkinn vegna smæðarinnar.
Ásmundur (IP-tala skráð) 19.6.2015 kl. 09:38
Ásmundur,
Þeir sem streittust á móti þessum kröfum höfðu sigur á endanum. Þeir töldu það ekki vera að taka áhættu heldur standa á rétti sínum. Ráðgefandi dómstóll EFTA var sammála. Bretar og Hollendingar hafa enn ekki kært íslenska ríkið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þú kallar það dómgreindarleysi.
Ég held að við komumst ekki mikið lengra með þá umræðu.
Geir Ágústsson, 19.6.2015 kl. 10:07
Væri annars gaman að fá afstöðu þína til þorskastríðanna svokölluðu, þegar Íslendingar ýttu erlendum fiskiskipum út af fiskimiðum sem þau höfðu vissulega sögulegt tilkall til, en var allt í einu ákveðið að væri einskis virði.
Var það glæfraleg áhætta? Var kostnaðurinn þess virði? Voru Íslendingar hér að troða vinsamlegum vinaþjóðum um tær? Var verið að stefna lánshæfi íslenskra fyrirtækja í hættu að óþörfu? Hefðu Íslendingar átt að leggjast eins og hryggleysingjar á jörðina og gefast upp eins og margir vildu að yrðu viðbrögðin við Icesave-kröfunum?
Geir Ágústsson, 19.6.2015 kl. 10:13
Hernaðartaktík Íslendinga eins og sumir óska sér hana:
Geir Ágústsson, 19.6.2015 kl. 10:28
Geir, fylgistu ekki með fréttum? Veistu ekki að það eru málaferli í gangi vegna Icesave fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafist er allt að 1000 milljarða í bætur frá ríkinu ef ég man rétt?
Annars virðist þú ekki frekar en margir aðrir skilja út á hvað Icesave-deilan gekk og þýðir því lítið að útskýra það fyrir þér einu sinni enn.
Hefurðu nokkra hugmynd um hvers vegna ríkið ákvað að ganga til samninga við Breta og Hollendinga úr því að ekki var ástæða til að nota samninginn þótt hann þætti almennt góður? Hefurðu hugsað það til enda hvað felst í því að taka áhættu?
Hélduð þið kannski að ef málið tapaðist fyrir EFTA-dómstólnum að þá væri samningurinn í fullu gildi? Nei öll sú vinna var ónýt um leið og samningnum var hafnað.
Ásmundur (IP-tala skráð) 19.6.2015 kl. 14:10
Gætir etv byrjad a ad skrifa til Indefence og Advice hopanna. Kannski sannfærast their um ad fyrri sigrar seu tap og hvetji stjornvold til ad leggja nidur varnir, og hvetja ESB til ad taka upp beinar rikisabyrgdir a öllu vafstri banka i einkaeigu.
Geir Ágústsson, 19.6.2015 kl. 14:45
Samningar eru varnir. Ef þeir þykja góðir, eins og í þessu tilviki, eru þeir góðar varnir. Það eru góðar varnir að semja um miklu lægri greiðslur en annars hefðu getað orðið.
Það er galið að fara samningaleiðina með góðum árangri en hafna síðan samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka þannig þá áhættu að þurfa að greiða margfalt meira en samningurinn kveður á um.
Flestir sem greiddu atkvæði gegn samningnum höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru að gera. Þeir héldu að þeim hefði verið gefinn kostur á að ákveða hvort ríkið greiddi Icesave eða ekki. Ertu einn þeirra?
Þetta kemur jafnvel fram í ummælum þingmanna sem ítrekað hafa orðið uppvísir að því að fullyrða að einhverjir hafi viljað greiða Icesave. Svo veruleikafirrtir eru þeir að þeir nefna jafnvel allan Icesave höfuðstólinn í þessu sambandi.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 19.6.2015 kl. 18:02
Sei, sei thetta lydrædi.
Geir Ágústsson, 19.6.2015 kl. 22:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.