Miðvikudagur, 15. apríl 2015
Rífið plásturinn af
Hvað segir fullorðið fólk við börn sem vilja ekki láta taka af sér plástur því límið rífur í húðina?
Fullorðna fólkið segir að það sé best að kippa plástrinum bara af og ljúka óþægindunum af.
Sama viðhorf hefði fyrir löngu geta losað Íslendinga við gjaldeyrishöftin. Mér er í fersku minni þegar Seðlabanki Íslands fór af fastgengisstefnu fljótlega eftir árið 2000. Ég var í námi erlendis. Íslenska krónan tók skell. Lífsstíll minn snarhækkaði í verði. Síðan liðu nokkrir mánuðir og þá var allt að mestu leyti gengið til baka.
Stærsti skaðinn við höftin er einfaldlega tilvist haftanna. Þau skapa óvissu og það þýðir áhætta sem kostar alltaf mikið, annaðhvort í beinum fjárhæðum eða töpuðum tækifærum. Að höftin fari - einhvern veginn - er það mikilvægasta.
Svo burt með þau!
Blönduð leið við afnám hafta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvers vegna?
Ef þú værir nýbúinn að ná heilsu eftir alvarlegt umferðarslys sem varð vegna þess að bremsurnar voru fjarlægðar úr bílnum, en á meðan þú varst á sjúkrahúsinu hafa þær verið settar aftur í, myndirðu þá gera það þitt fyrsta verk þegar þú kæmir heim að fjarlægja bremsurnar aftur?
Hvers vegna???
Guðmundur Ásgeirsson, 15.4.2015 kl. 19:05
Þú minnir mig á spurningu sem var spurð hér:
http://www.vb.is/frettir/116083/
En látum okkur sjá. Hver er kaupmáttur íslensku krónunnar? Það veit enginn. Skattgreiðendur í dag og í framtíðinni eru lagðir að veði til að búa til eitthvað gengi sem enginn veit hvort er rétt eða rangt. Þetta er eins og að segja: Bananar á Íslandi eiga að kosta 10 kr. stykkið og öllum ráðum er beitt (niðurgreiðslur, reglur, innflutningskvótar, auglýsingaherferðir, eftirlit með öllum viðskiptum) til að þetta sé verðið.
Samlíkingin ætti frekar að vera: Lítið barn labbar í sífellu á borðbrúnir og rekur hausinn í. Í stað þess að kenna barninu að forðast hætturnar er hjálmur spenntur á það svo það geti haldið áfram að labba utan í allt án þess að meiða sig á hausnum. En síðan breytast aðstæður og í stað borðbrúna eru heitar eldunarhellur úti um allt. Barnið brennir sig í sífellu á þeim. Hjálmurinn dugir ekki. Eigum við að setja barnið í logsuðuvettlinga núna eða kenna því að aðlagast aðstæðum?
Geir Ágústsson, 16.4.2015 kl. 08:05
Það er nú ekki beint ábyrgt foreldri sem býr barninu sínu slíkt umhverfi, þar sem eru hvöss horn og heitar hellur á hverju strái. Það vantar bara opinn þvottaefnispoka á miðju stofugólfinu til að toppa þetta.
Spurning mín var mjög einföld og snerist ekkert um kaupmátt eða krónu, heldur hvers vegna ættti að leyfa hömlulausa fjármagnsflutninga á ný, eftir þá skelfilegu reynslu sem fengist hefur af slíkum tilraunum?
Guðmundur Ásgeirsson, 16.4.2015 kl. 08:40
Það sem þú kallar "hömlulausa fjármagnsflutnigns" - eru það t.d. innflutningur á osti, útflutningur á þorskhausum eða hvað?
Því ef ríkisvaldið ætlar að skammta okkur peninga og miðstýra því hvaða gjaldmiðla má nota á Íslandi þá er rökréttast að taka skrefið alla leið strax frekar en smátt og smátt: Að setja á inn- og útflutningshöft þar sem leyfi þarf fyrir öllu.
En ef ótti þinn er ekki vegna osta og þorskahausa heldur bara milljarða sem flæða frá einni bankabók á aðra þá er lausnin ekki sú að setja einokunargjaldmiðil í höft, heldur leyfa markaðinum að finna sér gjaldmiðla sem standast smávegis tilfærslur í ólgusjó hins daglega markaðar óteljandi viðskipta.
Svo gott og vel - ég skal ekki andmæla fjármagnshöftum á íslensku krónu hins íslenska seðlabanka, en vil þá í staðinn fá frelsi til að gefa út minn eigin gjaldmiðil, eða notast við einhvern annan, án þess að brjóta lög Alþingis og reglur Seðlabanka Íslands.
Geir Ágústsson, 16.4.2015 kl. 10:28
Annars er ég aðeins farinn að skilja af hverju höftin eru ekki farin fyrir löngu.
1) Þeir eru margir sem þrífast ágætlega innan þeirra
2) Þeir eru margir sem óttast afdrif ríkiseinokunargjaldmiðilsins, en vilja samt ekki sleppa honum
3) Þeir eru fáir sem hafa ímyndunarafl í annað kerfi en ríkiseinokun á peningaútgáfu (þar sem bankarnir sjá vissulega um að prenta) + ríkistryggðra innistæða.
Geir Ágústsson, 16.4.2015 kl. 10:31
Sæll.
Höftin eru líka að hluta til til staðar til þess að falsa gengi krónunnar, falsa kaupmátt og halda verðbólgutölum niðri.
Hin hliðin er sú að gjaldeyrishöftin koma illa við útflytjendur og hamla sköpun starfa í þeim geira. Þau eiga að fara sem fyrst enda flýja menn ekki hinn efnahagslega veruleika nema stutta stund.
Helgi (IP-tala skráð) 18.4.2015 kl. 08:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.