Læknar gegn verslunarfrelsi! Hvað næst?

Læknafélag Íslands telur það ekki vera nein sérstök rök að einhver breyting frá núverandi fyrirkomulagi auki verslunarfrelsi á Íslandi. Gott og vel. Þeir eru þá á móti auknu verslunarfrelsi.

Það er ótrúlegt hvað svona lítið og sjálfsagt mál hefur fengið mikla athygli. Í stað þess að hafa runnið mótstöðulaust í gegnum þingið hefur heill her manna eytt ógrynni klukkustunda í að greina, rýna, ræða og rífast yfir þessu saklausa máli. Í stað þess að Íslendingar taki t.d. Dani og Þjóðverja sér til fyrirmyndar er öllum aðferðum breytt til að viðhalda markaðsstöðu smyglara og heimabruggara á Íslandi og það talið vera til bóta fyrir hinn almenna áfengisneytanda á Íslandi.

En úr því menn eru að fiska á eftir rökum fyrir auknu verslunarfrelsi, og telja aukið frelsi í sjálfu sér ekki vera eftirsóknarvert, þá eru hér nokkur:

- Kaupmaðurinn á horninu fær á ný möguleika á að standa sig í samkeppninni við stórmarkaðina (sem oftar en ekki deila bílastæði með ÁTVR).

- Ungt fólk sem jafnvel og að jafnaði er bíllaust sér fram á að geta keypt sér áfengi í næstu búð frekar en næsta landasala (sem er jafnvel með heimsendingarþjónustu innifalda í verðinu).

- Löglegt og hreint áfengi, með innihaldslýsingu og framleitt með einhvers konar gæðastjórnun að leiðarljósi, verður e.t.v. tekið fram fyrir landann sem var bruggaður í gömlu og skítugu baðkari.

- Áfengi missir aðeins glansinn sem stórhættulegur en um leið gríðarlega spennandi neysluvarningur sem fullorðnir innbyrða um leið og þeir þykjast geta bannað stálpuðum unglingum að gera það sama.

- Hugsanlega minnkar líka hátíðleikinn við að sækja sér áfengi fyrir helgina eða með þriðjudagspastanu þegar þessi innkaup eru ekki lengur þvinguð inn í sérstakar verslanir sem yfirleitt eru langt frá öllum heimahúsum.

- Hugsanlega minnkar líka hvatinn til að byrgja sig upp á meðan opnunartíminn leyfir og kaupa frekar lítið og oftar frekar en sjaldnar og mikið, og kannski mun það hafa áhrif á neysluvenjurnar.

- Hugsanlega - og ég meina bara hugsanlega - á fullorðið fólk sjálft að geta ráðið því hvernig það fer með eigin líkama. Að vísu þýðir það stundum að kostnaði vegna heilsubresta er velt yfir á aðra (líkt og þegar knattspyrnumaðurinn slítur liðbönd eða skokkarinn skemmir á sér hásinarnar), en slíku má breyta með því að einkavæða heilbrigðiskerfið, sem ég legg hér með til að sé gert.

Vona að læknar taki það svo ekki nærri sér þegar ég held því fram að þeir sjálfir geti trútt um talað að predika. Ég er nokkuð viss um að þeir troðfylli alltaf innkaupapokann í fríhöfninni af áfengi eftir fylleríið erlendis á lyfjaráðstefnunni þar sem var vodki í hverju púnsglasi. En þeir um það. 


mbl.is Læknar vilja ekki vín í verslanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju voru aðrir dópsalar ekki spurðir álits?  Af hverju eru bara dópsalar með fimm háskólagráður í menginu?  Dópsalar uggandi um sinn hag hefði verið fyrirsögn við hæfi.  Hræddir við að missa spón úr aski sínum sömuleiðis.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.3.2015 kl. 12:58

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Freyðandi kampavín í kokteilboðum er fallegt í viðeigandi ljósi, eftir erfiðan dag á ráðstefnu. Innhaldið verður heldur snautlegt þegar það fellur á borðið. Þegar læknar sjá lifrina hjá drykkjusjúkling er það eins og falinn eldur sem hefur opinberast. Þá gefa þeir kannski antabus, lyf sem breytir niðurbroti í lifrinni. Lyfjabúðir keppa líka við vínbúðir um kúnna.

Fíklar eru alltaf samir við sig. Matarfíklar, kókfíklar og aðrir sem kaupa ávanabindandi lyf eru allir í sama farinu ef þeir ofnota. Misjafnlega meðvitaðir.

Góður læknir vill vera leiðandi. Taka skynsamlegar ákvarðanir. Þeir vilja t.d. byggja á rúmgóðri lóð eins og á Vífilístöðum, miðsvæðis. Spursmálið er hvað þingmenn gera.

Sigurður Antonsson, 29.3.2015 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband