Góður punktur

Í könnun sem Viðskiptaráð lét framkvæma í aðdraganda Viðskiptaþings kom fram að margir Íslendingar vilji mikið fyrir lítið. Þeir telja skattbyrði sína of háa en telja á sama tíma ónauðsynlegt að minnka opinber umsvif.

Þetta er góður punktur. Íslendingar þjást meira miðað við marga aðra af þeirri ranghugsun að halda að hið opinbera geti alltaf látið alla aðra borga fyrir ríkisreksturinn. Íslendingar halda t.d. að það sé nóg að hækka skatta á þá "ríku" til að fjármagna ríkisreksturinn. Þetta er ákveðið heilkenni ef svo má segja - ákveðin aftenging hugsana og raunveruleika.

Nú eru skattar svipað háir á Íslandi og hinum Norðurlöndunum, en svo ég taki Danmörku sem dæmi þá er ekki - ofan á háa skattana - innheimt aukalega hér og þar fyrir notkun ríkisrekstursins, t.d. ekki fyrir læknisheimsóknir eða háskóla. Danir heimta að skattheimtan sé látin duga fyrir ríkisrekstrinum.

Ríkisreksturinn er líka að vissu leyti betur skilgreindur í Danmörku (þótt vissulega sé hann umfangsmikill). Danir eru íhaldssamir á ríkisreksturinn. Hann á að vera eins og hann er. Íslendingar á hinn bóginn horfa gapandi á ríkisvaldið æða út í allskonar brennslu á skattfé ef þannig liggur á sitjandi ríkisstjórn. Síðan kvarta þeir yfir of háum sköttum. En það má ekki skera niður.

Ríkisvaldið þarf að minnka á Íslandi til að skattar geti lækkað, en skattar þurfa að hækka (á alla) ef ríkisvaldið á að halda núverandi stærð. Þetta er orðið svona einfalt. 


mbl.is Íslendingar vilja mikið fyrir lítið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Fleiri góðir punktar koma frá þér.

Ein besta greinin um nýja stjórnvaldið er grein þín um skipulagsvaldið 11. febrúar.

Stjórnmálamennirnir hafa spunnið nýjan vef sem kann að verða þeim ofjarl. Ný valdakerfi eru að myndast og fæstir átta sig á frumskóginum. Menn eru að reka sig heldur betur á. Þeir sem vilja skapa ný atvinnutækifæri eins og rafmagnsframleiðslu í ám eða með stíflum, eða vindorku ganga í gegnum fleiri þrautir en áður fyrr.

Sem dæmi: Félag sem á jörð og ætlaði að selja hluta úr henni undir smábýli eins og gert var ráð fyrir í skipulagi. Það sem venjulega tók 2-4 vikur tekur nú ár og tíð ef það gengur eftir. Í millitíðinni bað borgin um að jörðin yrði metið hættusvæði vegna ofanflóðahættu. Engin dæmi voru til um að flóð hefðu valdið manntjóni eða skemmdum á jörðinni frá því byggð hófst á þessum stað fyrir 1000 árum. Flóðahættuverktakar, sérfræðingar Veðurstofu komu samt með þau rök að flóð hefðu valdið manntjóni og skaða á Vestfjörðum, í 400 km fjarlægð. Eignarétturinn var að engu gerður af opinberum starfsmönnum sem áttu engra hagsmuna að gæta annarra en að þiggja laun sem voru tengd menntun þeirra. Borgarráð hefur ekki að ég best veit fjallað um ofanflóðamatið sem kostaði offjár. Matið var ekki greitt af borginni né veðurstofu, heldur Ofanflóðasjóði, skattgreiðendum. Ráðherra er sá eini sem getur komið í veg fyrir að "hættumatið" er varðar tugi ábúenda taki gildi. Eina hálmstráið væri að hefja hópmál og fá bætur dæmdar frá ríki og borg. Það sérkennilega gerðist þó degi áður en hættumatið var birt að ný reglugerð ráðuneytis um bætur var breytt. 

Þeir sem ekki vilja una slíku ofríki eru margir bundnir hátthagafjötrum. Aðrir verða að læra af nýju ofríki og reyna að átta sig á hvar þeir búa, reyna að fá lögunum breytt eða að fara burt sneyptir og niðurlægðir ella.

Þessar vangaveltur þínar og skrif eru með því merkilegra sem sést á netinu. 

Sigurður Antonsson, 15.2.2015 kl. 21:25

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sigurður,

Takk fyrir athugasemdina og vingjarnleg orð!

Ég er líka með annað dæmi: Um árabil hefur verið unnið grjót í vegagerð í námu einni í Mosfellssveit. Dag einn ákveður sveitarstjórn svo að skilgreina svæðið upp á nýtt sem einhvers konar útivistarsvæði eða friðsæla náttúru og setur stein í götu grjótnámsins (ef svo má að orði komast). Fyrir vikið þurfti að fara út í innflutning á rándýru grjóti frá Noregi og án þess að gamla grjótnáman yrði eitthvað fallegri fyrir vikið. Þarna var skipulagsvaldinu beitt, si svona, og leiðir nú til mikillar sóunar á fé.

Þetta var sem sagt ekki þjóðnýting, sem stjórnarskráin segi að þurfi að koma með skaðabótum, heldur breyting á litakóðum á landakorti, og eflaust tekin af því sveitarstjórnarmönnum fannst þeir þarna geta hnyklað vöðvana afleiðingalaust.  

Geir Ágústsson, 16.2.2015 kl. 06:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband