Miðvikudagur, 29. október 2014
Læknar og laun
Læknar eru nú í verkfalli. Þeir krefjast hærri launa. Miklu hærri launa. Þeim finnst nóg komið.
Ég hef ákveðna samúð með málstað þeirra. Hver vill leggja á sig mikið og krefjandi nám til þess eins að þurfa vinna myrkranna á milli við ömurlegar aðstæður og með laun sem verðlauna engan veginn menntun þeirra eða getu?
Samúð mín dofnar samt þegar ég rifja það upp, fyrir hönd lækna, að þeir menntuðu sig til að verða ríkisstarfsmenn (ef þeir vilja á annað borð vera á Íslandi). Hvergi hef ég séð lækna berjast af neinni alvöru fyrir neinu öðru fyrirkomulagi en ríkisrekstri heilbrigðiskerfisins og því að ríkisvaldið sé nánast þeirri eini mögulegi atvinnuveitandi. Þeir vita kannski eins og aðrir að það hefur ákveðin forréttindi í för með sér að vera ríkisstarfsmaður: Meira starfsöryggi en gengur og gerist, tryggari lífeyrisréttindi og fleira slíkt. En samt. Hvers vegna að mennta sig til að verða ríkisstarfsmaður?
Ríkisvaldið er ekkert að flýta sér að skera heilbrigðiskerfið úr snöru sinni. Það er svo gott sem eini aðilinn á Íslandi sem getur veitt læknum og hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum vinnu (undanþágur eins og augnlæknar, heyrnalæknar og lýtalæknar fara ekki í verkföll. Hvenær ætlar ríkisvaldið að sópa þeim í kæfandi faðm sinn?).
Þetta er sama saga og með kennara. Laun þeirra eru lág miðað við árafjölda í námi og hvað þeim sjálfum finnst þeir eiga skilið, en þeim líður samt svo vel í faðmi ríkisvaldsins, með sín góðu lífeyrisréttindi, mýgrút veikindadaga og starfsöryggi sem leit er að utan hins opinbera.
Við lækna og kennara og aðrar ríkisstéttir segi ég: Ef þið viljið raunverulegar breytingar og betri möguleika til að vinna ykkur upp í kjörum og sveigjanleika og út fyrir þrönga ramma kjarasamninga verkalýðsfélaga og ríkisvalds - berjist fyrir því að losna úr snöru ríkisvaldsins!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.