Miðvikudagur, 15. október 2014
Fé sogað í svarthol ríkisrekstursins
Allir skattar eru tilflutningur á verðmætum úr vösum þeirra sem þau skapa og í vasa stjórnmálamanna eða embættismanna ríkisvaldsins.
Ríkisvaldið hefur sterka hvata til að eyða hverri einustu krónu sem það aflar með skattheimtu og helst aðeins meira. Skuldsetning ríkisins bitnar fyrst og fremst á stjórnmálamönnum framtíðar. Stjórnmálamenn dagsins í dag geta eytt peningunum og skilið skuldirnar eftir handa öðrum.
Veiðigjöld áttu að vera mikil búbót fyrir ríkissjóð. Þau áttu að krækja í fé sem að öðrum kosti hefði runnið í vasa hluthafa sjávarútvegsfyrirtækja eða í nýfjárfestingar og viðhald á fiskiskipaflotanum.
Hvað hefur svo gerst síðan veiðigjöldin voru lögð á? Ríkisvaldið hefur bara fitnað. Rekstur þess er ennþá í molum. Skuldir ríkisvaldsins eru ennþá í himinhæðum. Hin aukna skattheimta hefur bara fitað offitusjúklinginn.
Ríkisvaldið getur auðvitað gert hvað sem það vill á meðan því er ekki veitt nein mótspyrna. En að halda að nýir skattar eða hærri skattar geti leyst rekstrarvandræði ríkissjóðs - það er viðhorf sem styðst hvorki við rök né reynslu.
Greiða 4,1 milljarð í veiðigjöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ríkisvaldið hefur með nokkrum sanni skapað þessi verðmæti sem þú eignar útgerðinni.
Fiskveiðiauðlindin var af stjórnvöldum afhent útgerðarmönnum sem hafa nýtt hana í trássi við almenn mannréttindi og í trássi við það pólitíska erindi sem Sjálfstæðisflokknum var fengið við stofnun, til að vinna með.
Þessi auðlind hefur verið stórlega vannýtt til hagsbóta fyrir lánastofnanir sem með skorttökunni hafa getað "eignast" veð í óveiddum fiski.
Hvort þetta er glæpur eða bara lögvarin fjármálaspilling skal látið ósagt, en á þessu skelfilega samspili hefur þjóðin tapað slíkum verðmætum á mörgum árum að það verður seint eða aldrei reiknað til raunvirðis.
Þetta mál er nefnilega stærra í eðli sínu og ljótara en svo að það verði afgreitt af sanntrúuðum sendimanni þess pólitíska stjórnmálaafls sem á því ber einna mesta ábyrgðina í dag.
Með bestu kv.
Árni Gunnarsson, 15.10.2014 kl. 11:22
Sæll Árni,
Takk fyrir athugasemd þína (en færri þakkir fyrir uppnefnin).
Ríkisvaldið hefur slegið eign sinni á hafsvæðið umhverfis Ísland sem og á allt lífríkið sem þrífst þar. Hvernig ríkisvaldið gat það er mér hulin ráðgáta en sennilega er skortur á andspyrnu stór ástæða.
Víðast hvar hleypir ríkisvaldið svo miklum fjölda veiðafæra á hafsvæði sitt að lífríkið ber stóran skaða af. Enginn hefur heldur persónulegan hag af vernd eða skynsamlegri nýtingu. Fiskveiðar eru í flestum ríkjum niðurgreidd atvinnugrein.
Á Íslandi var fyrirkomulagi komið á sem gerði mönnum kleift að byggja upp arðbæran rekstur. Menn geta deilt um ágæti þess. Menn geta deilt um réttlætið sem flest í að einhver eigi eitthvað og hafi hvata til að gera að arðbærri eign (hvort sem það er land eða veiðiréttur).
En hvað sem líður tilfinningum manna til þess þá sá ríkisvaldið hér tækifæri til að fita sig á kostnað útgerðarmanna, og gerir það. Að ríkisvaldið fitni er slæmur hlutur, rétt eins og fitun krabbameinsfruma eða fitun blóðtappa í æðakerfinu.
Ríkisvaldið er ekki betur statt fjárhagslega eftir að það fékk milljarða í veiðigjöld í hirslur sínar. Almenningur ekki heldur. Og þá síst útgerðarmenn. Þeir sem hafa hagnast eru stjórnmálamenn sem fá meira til að kaupa vinsældir fyrir og embættismenn sem fá vinnu við að deila út peningum annarra.
Geir Ágústsson, 15.10.2014 kl. 13:32
Í guðs bænum farðu ekki að segja mér sögur um fiskvernd eða ástand fiskistofna.
Þú tekur til máls eins og kennari í grunnskóla og ég finn mig í hlutverki nemandans.
Það er ósannað blaður að "víðast hvar hleypi ríkisvaldið svo miklum fjölda veiðarfæra á hafsvæði sitt að lífríkið beri stóran skaða af". Hinsvegar er þetta viðtekin skoðun sem hefur leitt af sér vannýtingu og ofsetin fiskimið af hungruðum smáfiski sem að sjálfsögðu hefur leitt af sér ómældan skaða fyrir fiskistofna, sjómenn, útgerðir og samfélögin. Ríkin sem nýta Barentshafið gerðu uppreisn gegn ráðgjöf fiskifræðinga og juku aflaheimildir úr 110 þúsund tonnum af þorski í 1 milljón tonna á 13 árum.
Skorttaka í aflaheimildum í aflamarkskerfi með framsalsheimild er pólitískt gerræði sem virkar fyrir banka og stærri útgerðir.
Þetta mál er miklu yfirgripsmeira og brúklegar röksemdir gildishlaðnari en svo að hægt sé að nálgast það eftir upplýsingum frá LÍÚ, fyrrverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokks eða úttekt fiskifræðinga sem hefur blátt áfram brugðist í hverju einasta atriði sem ég man. Minni mitt nær reyndar ekki að ráði lengra en þegar við færðum fiskveiðilögsöguna í 12 mílur.
Fiskimiðin eru vannýtt í dag og fyrsta vísbending um ofveiði er aukning í vaxtarhraða ungviðis. Sú ályktun er óhrekjanleg og byggð á þeirri líffræði sem allir bændur heimsins hafa búið yfir frá upphafi.
Ef stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að vannýta sína dýrmætustu auðlind til að gæta að veðhæfi aflaheimilda sægreifa til trygginga í bönkunum sem eru taldir verðmætari en mannlífið í landinu, þá er lágmarkið að útgerðirnar borgi vel fyrir. Það er nefnilega lygi að uppboð á aflaheimildum drepi smærri útgerðir. Smærri útgerðir eru að leigja til sín frá stærri útgerðum aflaheimildir - heimild til að veiða úr sameign þjóðarinnar sem hefur verið afhent sérvöldum fjölskyldum - þorskkíló á allt að 250 krónur! Eru stóru útgerðirnar að greiða til ríkisins í dag meira en 250 krónur á kíló af þorski? Nei. Fáeinar krónur eru þeir að borga.
Það er velkomið að leiða þig í allan sannleika um þetta mál á svona tveggja klukkustunda fundi ef þú hefur áhuga. Reyndar eru tveir klukkutímar fremur stuttur tími til að leiðrétta alla lygina og allar blekkingarnar sem búið er nánast að lögfesta um "besta fiskveiðikerfi í heimi" sem Færeyingar gátu þó ekki notað eftir tveggja ára reynslutíma.
Árni Gunnarsson, 15.10.2014 kl. 17:24
Ps. Því hvað sem skattlagningu líður þá er kjarni málsins milljarðatuga árlegt tap þjóðarinnar á vannýttri auðlind.
Árni Gunnarsson, 15.10.2014 kl. 18:16
"Ríkisvaldið hefur með nokkrum sanni skapað þessi verðmæti sem þú eignar útgerðinni."
Einmitt. Ríkið setti fiskinn í sjóinn. Og kom stjörnunum fyrir á himninum, og fann upp Bítlana.
Right.
Ásgrímur Hartmannsson, 15.10.2014 kl. 18:31
Ríkið skapaði útgerðinni þau verðmæti með því að afhenda henni þau.
Þessi ívitnuðu orð mín sem þú leikur þér að Ásgrímur hefði mátt orða betur. Ágreiningur okkar Geirs er þó ekki um orðalag heldur sanngirnina - eða ósanngirnina - við skattlagninguna.
Árni Gunnarsson, 15.10.2014 kl. 21:06
Hvað sem líður fyrirkomulagi fiskveiða og veiðiheimilda á Íslandi þá er engum greiði gerður með því að mjólka neinn ofan í ríkishirslurnar. Ríkt ríkisvald getur gert miklu meiri skaða en fátækt ríkisvald.
Sanngirni skattheimtu er jöfn sanngirni þjófnaðar, hvort sem afrakstur þjófnaðarins er nýttur í góð verkefni eða til að fljúga embættismönnum á himinháum dagpeningum um heiminn til að drekka kaffi og áfengi.
Geir Ágústsson, 16.10.2014 kl. 07:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.