Miðvikudagur, 27. ágúst 2014
Skiptir engu máli
Enn og aftur á að hringla með ráðuneytin. Gott og vel. Ríkisstjórnin ræður. Hún getur stofnað 50 ráðuneyti ef þannig liggur á henni. Hún getur sópað þeim öllum saman í eitt eða tvö ráðuneyti. Ekkert af þessu skiptir máli. Ríkisstjórnin ræður. Hún getur skipað ráðherra úr flokkum eða embættismenn sem fylgja fyrirmælum. Niðurstaðan er sú sama. Ef ríkisstjórnin vill lengja eða stytta tíma sem eitthvað innan einhvers ráðuneytis tekur þá gerir hún það, hvort sem ráðuneytin eru tvö eða tuttugu. Ef ríkisstjórnin vill að allir Íslendingar þurfi að fylla út eitt eyðublað á ári þá gera Íslendingar það. Ef ríkisstjórnin vill afnema umsóknarskyldu fyrir einhverju þá gerir hún það.
Rekstrarkostnaður ráðuneyta er dropi í haf ríkisrekstursins. Hann er aukaatriði. Ráðherrar hafa verið að bæta á sig hjörð aðstoðarmanna og fjölmiðlafulltrúa seinustu ár. Gott og vel. Kannski lágmarkar það skaðann af ráðherrunum. Kannski ekki. Það er líka aukaatriði.
Aðalatriðið eru heildarumsvif hins opinbera. Þau eru mikil, hvort sem ráðuneytin eru tvö eða tuttugu. Það sem skiptir máli er að minnka þessi umsvif. Ég er ekki að meina 5% niðurskurð hér og þar eða 20% lækkun framlaga til einhvers málaflokksins. Ég er að tala um að afnema eða einkavæða heilu afkima ríkisrekstursins, lækka skatta gríðarlega, afnema heilu lagabálkana og gefa Íslendingum svigrúm til að anda á ný.
Þetta ráðuneytatal er upplagt til að dreifa athyglina frá því sem skiptir máli. Hérna er fjallað um það sem skiptir máli: Bólgið ríkisbákn sem heldur áfram að sjúga takmarkað blóðið úr máttlausum skattgreiðendum.
Skoða frekari skiptingu ráðuneyta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.