Þriðjudagur, 19. ágúst 2014
Heilræði
Ég ætla að leyfa mér að bjóða þingmönnum Sjálfstæðisflokksins upp á eftirfarandi heilræði fyrir vinnufund þeirra:
1) Lesið landsfundarályktanir ykkar eigin stjórnmálaflokks. Þar er margt gott að finna (en líka slæmt). Svo virðist sem þessar ályktanir séu yfirleitt nýttar eins og klósettpappír og það hefur farið í taugarnar á mörgum kjósendum ykkar og flokksfélögum. Hvernig væri að breyta til og fylgja þeim eftir í þetta skipti?
2) Gerið hnébeygjur. Sterk hné kikna síður undan álagi og þrýsting en veik hné. Mörgum hefur fundist hné ykkar vera í veikara lagi. Í viðleitni til að forðast neikvæða umfjöllun og neikvæða gagnrýni hafa hné ykkar kiknað hvað eftir annað. Hnébeygjur eru því við hæfi.
3) Gleymið næsta kjörtímabili. Nú veit ég að þingmennska er vel borguð og leiðir jafnvel til einstaka flugferða í gegnum fríhafnir heimsins þar sem áfengi og tóbak er ódýrt, en reynið samt að gleyma næsta kjörtímabili. Þess í stað ættuð þið að fylgja sannfæringu ykkar, ef einhver er, og reyna að berjast fyrir hugsjónum en ekki vinsældum. Hver veit, kannski leiðir hugsjónabaráttan til þess að almenningur fer að bera virðingu fyrir störfum ykkar og endurnýjar þingsæti ykkar!
4) Hættið að blína á peninga í vösum annarra. Ég veit að það er gaman að eyða peningum annarra, en reynið að gera eins lítið af því og þið getið. Þeir sem vilja borga fyrir rekstur ríkisvaldsins geta millifært á bankareikning þess. Enginn gerir það. Enginn vill því borga til ríkisvaldsins. Skattlagning er þjófnaður. Því minna sem er stolið, því betra. Hafið það í huga.
5) Klifrið úr fílabeinsturninum. Fílabeinsturnar eru hættulegir andlegri heilsu fólks og leiða til mikilmennskubrjálæðis. Úr fílabeinsturni virðast allir drekka of mikið, eyða í vitleysu og haga sér eins og kjánar. Þannig er það samt ekki. Venjulegt fólk kann að drekka áfengi og á að fá að kaupa það hvar sem er, kann alveg að eyða eigin launum og hagar sér yfir það heila bara ágætlega. Úr fílabeinsturninum sést þetta samt illa. Í fílabeinsturnum finnst fólki það haga sér betur en aðrir, drekka hófsamar og eyða fé af skynsemi. Þannig er það samt ekki. Fólk í fílabeinsturnum er eins og annað fólk.
6) Reynið að hafa sem minnst að gera í vetur. Veljið mikilvæg mál til að vinna að en ekki óendanlega mörg mál sem halda öllum þingmönnum uppteknum í allan vetur. Þingmenn eiga skilið að vera í löngum fríum og hafa lítið að gera, helst ekki neitt. Alþingissalurinn er lítill og loftlaus, borðin lítil og bergmálið mikið. Það er ekki á nokkurn mann leggjandi að eyða miklum tíma þar. Reynið að hafa sem minnst að gera í vetur.
Að því sögðu óska ég þingmönnum góðs vinnufundar.
Fundað um mál komandi þingvetrar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:11 | Facebook
Athugasemdir
ég get tekið undir þessar athugasemndir
góð samantekt
Sleggjan og Hvellurinn, 19.8.2014 kl. 11:35
Fín úttekt. Tími heilræða er enn ekki liðinn.
Ragnhildur Kolka, 19.8.2014 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.