Mánudagur, 14. júlí 2014
Forsætisráðherra með hagfræðigráðu úr morgunkornskassa
En er hægt að ráðst í boðaðar skattalækkanir þegar slík teikn eru um þenslu? Fjármálaráðherra boðaði meiri skattalækkanir á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl. Við erum rétt að byrja. Skattar munu lækka frekar eins og maðurinn sagði: You ain't seen nothing yet! sagði hann þá. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, fagnaði þessu, svigrúm væri til staðar í ríkissjóði og skattalækkanir hefðu jákvæð áhrif á hagvöxt. Menn hljóta auðvitað að fara hægar í sakirnar varðandi slíka hluti þegar það eru þenslumerki, heldur en þegar þarf innspýtingu í hagkerfið.
Frá þessu segir RÚV. Vandfundinn er jafnstuttur texti með jafnmörgum pólitískum skoðunum pökkuðum inn í tungutak hagfræðinnar. Háir skattar eru mikil eyðsla ríkisvaldins á fé annarra. Þensla hvorki eykst né minnkar við að ríkisvaldið hirði fé og eyði í eitthvað annað en einkaaðilar hefðu eytt í. Sú hætta er hins vegar til staðar að ríkisvaldið eyði mun meira fé í eitthvað sem skilar lélegum, engum eða neikvæðum arði, enda er tilhneiging þeirra sem eyða peningum annarra sú að taka meiri áhættu, eyða meira en nauðsynlegt er og elta atkvæðin frekar en arðinn. Og þannig er það nú.
Forsætisráðherra gæti e.t.v. lagt meira af launum sínum aftur inn á bankareikning ríkisvaldsins ef hann hefur áhyggjur af þensluvaldandi áhrifum þeirra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ekki hefur vitið drepið Framsóknarmenn hingað til..
Vilhjálmur Stefánsson, 15.7.2014 kl. 14:32
Ég man nú ekki eftir neinu skárra í tíð seinustu ríkisstjórnar. Og betri er skattalækkun á bremsum en skattahækkun. En nei, það er langt í að ég kjósi Framsóknarflokkinn.
Geir Ágústsson, 15.7.2014 kl. 18:29
Sæll.
Ætli það sé dæmi um adverse selection að við fáum alltaf fólk sem veit nákvæmlega ekkert um efnahagsmál í stjórnmál? Eða eru lélegir stjórnmálamenn kannski afleiðing þess að menntakerfinu hefur mistekist algerlega að kenna kjósendum eitthvað um efnahagsmál? Eru lélegir stjórnmálamenn ekki afleiðing þess að kjósendur eru illa að sér? Mér finnst alltaf svo hallærislegt þegar fólk er að bölva stjórnmálamönnum. Hver kom þeim í valdastöður?
Á 7. áratugnum lækkaði Kennedy forseti hæstu skatta úr 91% í 70%. Á árunum 1961-68 stækkaði bandaríska efnahagskerfið um 42% og hlutdeild hinna ríku í skattgreiðslum fór úr 11,6% í 15,1%. Er þetta tilviljun?
Í forsetatíð Reagan (1981) var hæsta skattþrepið lækkað í 28% úr 70% í þrepum. Næstu ár stækkaði bandaríska efnahagskerfið og skatttekjur snarjukust. Skatttekjur af tekjuskatti einstaklinga voru 28% hærri 1989 en 1981. Á árunum 1978-1982 stækkaði bandaríska efnahagskerfið um 0,9% að meðaltali á ári. Skattalækkanir Reagan voru samþykktar 1981 eins og ég gat um að ofan og á árunum 1983-86 stækkaði bandaríska efnahagskerfið um 4,8% að meðaltali á ári. Tilviljun? Höfum samtímis í huga hvað Volcker gerði í forsetatíð Reagan.
Helgi (IP-tala skráð) 21.7.2014 kl. 06:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.