Mánudagur, 23. júní 2014
Einföld og góð hugmynd
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að hið íslenska vörugjaldakerfi sé ósanngjörn skattheimta sem mismuni vöruflokkum og atvinnugreinum. Hann segir kerfið vera úrelt og að stjórnmálamenn verði nauðsynlega að sýna kjark og afnema tolla og vörugjöld á öllum sviðum.
Amen!
Hér er á ferðinni hugmynd sem er allt í senn góð, einföld og réttlát.
Margir Íslendingar hafa flækt sig í þeim frumskógi sem innflutningur til Íslands er. Gegnsæið er vægast sagt lítið í því ferli. Ekki er nóg með að innflutningi fylgi oft tollur og nær alltaf virðisaukaskattur. Ofan á allt þetta bætist allskyns önnur bein og óbein skattheimta (t.d. aðflutningsgjald, oft vörugjald, ýmsar tegundir úrvinnslugjalda og stundum eftirlitsgjald). Kerfið er svo flókið að ríkisvaldsins rekur svokallaðan tollskóla fyrir starfsmenn sína. Stundum dugir ekkert minna en svolítil skólaganga til að vita hvernig á að tolla koparvír úr hreinsuðum kopar sem er meira en 6 mm að þvermáli (sem ber vel á minnst 0% toll en 25,5% virðisaukaskatt auk þess sem 15 kr bætast við í úrvinnslugjald á pappírsumbúðir og 16 kr í úrvinnslugjald á plastumbúðir, skv. Tollskránni, flokkur 7408.1100).
Ég sendi t.d. móður minni gjöf með pósti til Íslands um daginn (lítið raftæki). Varan kostaði um 7000 íslenskar krónur fyrir mig (með sendingarkostnaði og virðisaukaskatti hér í landi). Sendingin skilaði sér til Íslands og hvað gerist þá? Önnur eins upphæð bættist við í innheimtu. Samt var heildarverðmæti varningsins undir þeim mörkum sem íslensk yfirvöld telja tollskyld. Að eitthvað sé kallað tollfrjálst er engin ávísun á að varan komist inn í landið án mikillar opinberrar gjaldheimtu.
Ég segi stundum að því verra sem ástandið er í einhverju ríki, því erfiðara er að fá vegabréfsáritun inn í það. Ætli megi ekki segja svipaða sögu um vöruinnflutning?
Það kæmi mér ekki á óvart ef 95% Íslendinga hefðu einhverja reynslu af "ólöglegum innflutningi" á einhverju. Betra er krókur en kelda, eins og einhver sagði, og ég tala nú ekki um ef keldan er svona fjárþyrst.
Vilja afnema tolla og vörugjöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:03 | Facebook
Athugasemdir
hvað ertu eiginlega að reyna segja?
ertu ósáttur að það sé sér tollflokkur fyrir koparvír meira en 6mm?
tollskráin er aðgengileg öllum á netinu með allar prósentur og gjöll þannig að allir með reiknivél geta komist í gegnum þetta og svo er auðvitað reiknivél á síðunni þeirra líka.
auðvitað eru gerð mistök þarna eins og á öðrum stöðum hvað varðar td ipod að þá tók það alltof langan tíma.
er eitthvað athugavert að það sé til eitthvað sem heitir tollskóli? öll utanríkisverslun sem og flutningur á fólki inn og út úr landinu fer í gegnum þetta embætti.
ef þú ert ósáttur við vinnubrögð póstsins og tollvarðanna þar og finnst að það hafi ekki verið farið eftir lögunum þar endilaga kvartaðu. hins vegar stendur skýrt á tilkynningunni að tollverðir meti hvort sendingin sé gjafasending.
fyrir utan sérhagsmunina sem stýra þessari umræðu og pressu að þá hreinlega næ ég ekki af hverju tollar og vörugjöld eru stærsta málið. í fyrra var tryggingargjaldið að gera útaf við fyrirtæki og ég hlýt að hafa misst af fréttunum um öll jákvæðu áhrifin og mannaráðningarnar sem fylgdu því að það var lækkað.
ef atvinnulífið vill finna frumskóg hvað með að skoða bankakerfið, reiknistofu bankanna, tryggingarfyrirtækin, fjarskiptafyrirtæki, flugfélög osfrv
almenningur á ekki að láta blekkja sig að halda að þau muni nokkurn tíma fá lægri verið ef einhver gjöld verða felld niður.
tryggvi (IP-tala skráð) 24.6.2014 kl. 12:38
Sæll tryggvi og takk fyrir athugasemd þína,
Ríkisvaldið getur auðveldlega aflað sér tekna af innflutningi án þess að leggja á hann frumskóg sem krefst reiknivélar, tollskóla, leitarvéla og landakorta til að rata í gegnum (það að krókaleiðin sé kortlögð gerir hana lítið skárri en beina veginn með litlu hraðahindruninni).
Hvað kostar að reikna allskonar gjöld og tolla út? Það hlýtur að kosta milljónir á ári.
Tollafrumskógurinn þjónar líka hlutverki sem fáir tala um: Neyslustýring. Því ef ekki væri fyrir neyslustýringarmarkmiðið þá væri hægt að einfalda kerfið til muna og leggja einfaldan flatan virðisaukaskatt á allt innflutt, plús eitthvað fast gjald sem refsing fyrir að versla frá útlöndum (gæti kallast "tollur" eða "vörugjald" eða einfaldlega "refsigjald fyrir að kaupa ekki íslenska lopapeysu og þess í stað eitthvað plastdrasl frá útlöndum").
Nú fyrir utan að þeir sem starfa við að innheimta tolla vilja vitaskuld gæta starfs síns.
Segðu mér, hvað segir tollaskrá um
Geir Ágústsson, 30.6.2014 kl. 11:45
Þarna endaði ég óvart í miðjum klíðum, en sem sagt: Segðu mér, hvað segir tollskrá um svokallaðar rafsígarettur? Ég leitaði og fann ekkert.
Geir Ágústsson, 30.6.2014 kl. 11:46
Af hverju má notast við reiknivél á kassa í verslunum landsins en ekki í tollstjóraembættinu? Af hverju má vera til skóli fyrir lögfræðinga en ekki þá sem vinna með utanríkisverslun landsins?
Skilur þú eitthvað í verðlagningu icelandair? Af hverju kostar 10 kr að senda sms?
Hvað kostar að borga lögfræðingum fyrir að senda pappíra á milli í skilnaðarmáli? Það sjást fréttir að kannski það eina sem þrotabú nær að greiða út er þóknun skiptastjórans.
Hvað kostar að láta fasteignasala sjá um sölu á fasteign? Ég leyfi mér að efast að gjöld fyrir tollafgreiðslu séu hærri en dæmin sem ég nefni að ofan.
Þetta það sem við köllum neyslustýringu kemur í gegnum ríkisvaldið en margt eftir þrýsting frá iðnaðnum í landinu. Skattkerfið væri líka mun einfaldara og léttara fyrir flesta ef það væri ekki endalaust gefið eftir til aðila sem geta varla borgað neitt sjá td nýlega umfjöllun í viðskiptablaðinu um allar ívilnanir sem verið er að gefa.
Auðvitað er mikið mál að eltast við allar nýjar uppfinningar og tæki og svo bætirðu við að textinn á netinu er ansi formlegur og því kannski ekki nógu læsilegur. Ég td skil ekki af hverju hvert land virðist vera með sér tollskrá og flokkun. Ég skil af hverju % og gjöld geta verið mismunandi á milli landa en ekki hitt.
Ef fyrirtæki í landinu vilja einfalda allt svona með hag almennings fyrir brjósti væri ekki nær að þau löguðu til hjá sér fyrst?
tryggvi (IP-tala skráð) 1.7.2014 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.