Ísland: Draumaland svarta markaðarins?

Getur verið að Ísland sé draumaland svarta markaðarins? Lítum framhjá því að oft getur verið erfitt að smygla inn til landsins. Á móti kemur er ávinningurinn af því að takast vel upp mikill.

Íslendingar banna yfirleitt eins mikið og þeir geta. Sé eitthvað bannað í Svíþjóð en ekki Noregi er það bannað á Íslandi. Sé eitthvað bannað í Danmörku en ekki Svíþjóð er það líka bannað á Íslandi. Íslendingar apa upp boðin og bönnin en hika við að leyfa.

Í Svíþjóð má framleiða og selja munntóbak, bæði í lausu en einnig í hentugum litlum pokum. Í Danmörku má selja þetta í lausu en ekki það í pokunum (það er samt gert víða í löglegum verslunum gegn því að kallast tyggitóbak en ekki munntóbak). Í Noregi er hægt að kaupa munntóbak í miklu úrvali í öllum matvöruverslunum. Á Íslandi er hið sænska munntóbak bannað með öllu. Dósin af því er rándýr á hinum íslenska svarta markaði.

Í Danmörku er hægt að kaupa sérstakar rafsígarettur og vökva í þær, með og án nikótíns. Á Íslandi er vökvinn með nikótíni tæknilega bannaður enda nikótín flokkað sem "lyf" og því vafið inn í reglur og rándýr leyfi. Svartur markaður með nikótínvökva fer ört vaxandi á Íslandi.

Í Danmörku geta einstaklingar allt niður í 16 ára aldur keypt bjór í hvaða búð og sjoppu sem er, allan sólarhringinn alla daga ársins. Í Noregi er áfengiskaupaaldurinn aðeins hærri, en bjórinn fæst í öllum matvöruverslunum til kl. 20 á kvöldin. Í Svíþjóð er sérstök ríkisverslun með áfengi. Íslendingar ganga auðvitað jafnlangt og sá sem lengst gengur. Landabruggarar brosa og græða á því. Unglingar drekka jafnvel mengað áfengi.

Dönum datt í hug að setja á sérstakan sykurskatt til að sporna við sykurneyslu Dana og moka fé í ríkissjóð (og um leið styrkja þýska sælgætisframleiðslu). Íslendingar fengu sömu hugmynd.

Í Danmörku er heimilt að leyfa reykingar innandyra á skemmti- og veitingastöðum sé útbúið sérstakt reykrými (eins og IKEA býður upp á í Danmörku) eða á öllu þjónustuflatarmálinu sé það undir 40 fermetrar að stærð (eitthvað sem gerir litlu rónapöbbunum kleift að halda kúnnunum innandyra). Íslendingum datt aldrei neitt slíkt í hug. Þeir bönnuðu bara eins mikið og þeir gátu. Þeir fundu harðasta bannið og hermdu eftir því.

Í Danmörku er ýmislegt bannað en um leið umborið. Eitt dæmi eru hassreykingar. Lögreglan veit vel hvar hasshausar safnast saman og hver er að selja þeim. Lögreglan fer í einstaka herferð til að friða siðapostulana en lætur svo eins og ekkert vafasamt sé í gangi. Á Íslandi er tekið eins hart á minnstu fíkniefnanotkun og hægt er. 

Er eitthvað skrýtið að lögreglan á Íslandi hafi ekki undan þegar kemur að alvöruglæpum? Hið opinbera lengir og lengir í verkefnalista hennar. Lögreglan eyðir örugglega meiri tíma í að eltast við friðsama borgara en glæpamenn. Fangelsin eru fyllt af fólki sem hefur aldrei sett hnefa í andlit neins eða þvingað neinn til neinna viðskipta. Úr fangelsinu "útskrifast" fólk svo með blettótta sakaskrá og góða þjálfun í glæpastarfsemi.

Dettur engum í hug að spyrna við þessari þróun? Er ekki kominn tími til að sparka í fílabeinsturninn sem ríku, valdamiklu og fríhafnarheimsækjandi vínþambararnir sitja í og líta úr og niður á okkur hin? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband