400 milljónir í súginn á ári

Samkeppniseftirlitið svokallaða kostar íslenska skattgreiðendur um 400 milljónir í ár, eða 50 milljónum meira en í fyrra, eða 75 milljónum meira en árið þar á undan (á gildi verðlags hvers árs að vísu). Hver króna sem fer í rekstur Samkeppniseftirlitsins er sóun á fé. 

Samkeppni var til áður en Samkeppniseftirlitið (og fyrirrennarar þess, allskyns verðlagsráð og þess háttar) var sett á laggirnar. Samkeppnislög svokölluð eru notuð eins og barefli af fyrirtækjum til að berja á keppinautum sínum. Það er atvinnuskapandi fyrir lögmenn en sóun á fé annarra. Samkeppnislög hindra halda aftur af samkeppni á marga vegu, t.d. með því að koma í veg fyrir ýmsar tegundir hagræðingar hjá fyrirtækjum (t.d. sameining þeirra) sem aftur heldur uppi verðlagi og óhagkvæmni á tilteknum markaði og fælir hugsanlega nýja samkeppnisaðila frá honum.

Ég geri mér grein fyrir að það sé erfitt að sjá fyrir sér heiminn án Samkeppniseftirlitsins. Það er af því að bæði tilvist þess og afnám breytir framtíðinni. Það eina sem sést er að Samkeppniseftirlitið er til í dag. Enginn veit hvernig heimurinn liti út án þess.

Vinsælt er að halda að án Samkeppniseftirlitsins muni "samkeppni minnka" því enginn sé til staðar til að skrifa niður verð á bensínlítranum á hinum ýmsu bensínstöðvum og bera saman. Ég segi hins vegar: Samkeppni mun aukast, því minna regluverk greiðir leið nýrra aðila að markaði. Reglufrumskógurinn er dýr og heldur uppi verði og það ver markaðsaðila sem eru nú þegar með stóra "markaðshlutdeild" og stórt teymi lögfræðinga. Einfaldara og minna regluverk laðar að frumkvöðla sem eru e.t.v. ekki þeir sterkustu í lögfræðinni og kunna ekki mjög mikið fyrir sér í bókhaldi, en gætu kannski boðið betri þjónustu á betra verði en risarnir á markaðnum í dag. Hver veit, kannski kæmu fleiri útlendingar til Íslands til að blása til blússandi samkeppni!

Samkeppniseftirlitið er þröskuldur sem heldur mögulegum samkeppnisaðilum úti. Samkeppniseftirlitið einblínir á núverandi markaðsaðstæður og heldur breytingum á þeim í skefjum. Það segir fyrirtækjum að lækka verð ef því finnast það of hátt, hækka verð ef því finnst það of hátt, og breyta verðum ef öll verð eru farin að líkjast hverju öðru. Þetta er óaðlaðandi rekstrarumhverfi fyrir ófædd fyrirtæki sem gætu, en gera ekki, boðið upp á aukna samkeppni (þar sem ég skilgreini "samkeppni" sem auðvelt aðgengi að markaði, án lagahindrana og lágmarks-eitthvað-ákvæða).  

Samkeppniseftirlitið má leggja niður með breytingum á löggjöf, og á morgun þess vegna. Ekkert þyrfti að koma í staðinn. Þessar 400 milljónir sem spöruðust gætu nýst í eitthvað annað, t.d. skattalækkanir á fyrirtæki. 


mbl.is Starfsmennirnir með mökum til Marokkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Það var einu sinni húsasmiður, sem fór að selja timbur í samkeppni við Kaupfélagið. Svo þegar kúnninn vildi kaupa nagla til að getað smíðað, þá var bara sagt þú færð þá bara upp í kaupfélagi.

Þarna var bara rjóminn fleyttur ofan af og engin ábyrgð tekin á hvort hægt væri að smíða úr efninu.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 13.5.2014 kl. 12:41

2 identicon

Samkeppniseftirlitið skoðar markaðsaðstæður og heldur óeðlilegum breytingum á þeim í skefjum. Þannig fá stór fyrirtæki ekki að kaupa þau smærri bara til að koma í veg fyrir samkeppni. Eina aðkoma Samkeppniseftirlitsins að verðlagningu er að koma í veg fyrir verðsamráð og að vörur séu seldar á undirverði. En það eru auðveldustu leiðir sterkra fyrirtækja til að útrýma nýliðum og samkeppni.

Í apríl 2013 var Valitor sektað um 500 milljónir króna fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína. --2013 Alvarleg brot Lyf og heilsu á samkeppnislögum, gert að greiða 100 milljónir króna í sekt. --2013 Lagðar eru 390 milljónir króna sektir á Símann fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði. Og lagðar eru 50 milljón króna sektir á Símann fyrir ranga og misvísandi upplýsingagjöf í málinu. --2012 Icelandair misnotaði markaðsráðandi stöðu á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar og gert að greiða 80 mkr. í sekt. --2011 Síminn sektaður um 60 milljónir króna vegna tilboðs í 3G netlykil og áskrift sumarið 2009. --...."Markaðsráðandi fyrirtækjum er heimilt að mæta samkeppni af afli, með hliðsjón af hagrænum aðstæðum hverju sinni, og ná skyldur markaðsráðandi fyrirtækja ekki til þess að hlífa keppinautum á viðkomandi markaði sem ekki geta staðist eðlilega samkeppni. Markaðsráðandi fyrirtækjum er hins vegar óheimilt að grípa til aðgerða sem fela í sér undirverðlagningu. Ef markaðsráðandi fyrirtæki mætir þannig samkeppni með verðlækkun sem ekki byggir á rekstrarlegri frammistöðu getur það gert það að verkum að skilvirk fyrirtæki, sem hafa ekki nægilegan fjárhagsstyrk til þess að standa af sér slíkt verðstríð, hrökklist af markaðnum þannig að dragi úr samkeppni á honum. Jafnvel þótt neytendur njóti þess til skamms tíma að fá vöru eða þjónustu á mjög lágu verði getur óeðlileg verðlækkun markaðsráðandi fyrirtækis valdið alvarlegri röskun á samkeppni til lengra tíma litið og skaðað þannig hagsmuni neytenda."

Eins og sést á þessari litlu upplistun er full ástæða til að hafa eftirlit með þeim aðferðum sem fyrirtæki beita í samkeppni hvort við annað. Án samkeppniseftirlits væri til dæmis bara eitt flugfélag, ein lyfjaverslun, eitt símafyrirtæki og engin samkeppni á þeim mörkuðum.

Samkeppniseftirlitið kemur í veg fyrir að markaðir verði eins og fótboltaleikur þar sem annað liðið fær að mæta með 50 vopnaða leikmenn.

Gústi (IP-tala skráð) 13.5.2014 kl. 13:16

3 Smámynd: Tryggvi Helgason

Það á að leggja niður þetta Samkeppniseftirlit.

Tryggvi Helgason, 13.5.2014 kl. 20:55

4 identicon

Núverandi og sjáfskipaður forstjóri Samkeppniseftirlitsins er páll Gunnar Pálsson,áður forstöðumaður fjármálaeftirlitsins.

Páll þessi á stóran þátt í ýmsum ´´vinargreiðum,,sem stundaðir voru á hans árum hjá Fjármálaeftirlitinu,hann horfði sinkt og heilagt framhjá ýmsum aðkallandi málum sem Fjármálaeftirlitið átti að taka föstum tökum,en nei þessi ofverndaði embættismaður hefur komist upp með ótrúlegustu hluti í starfi sínu og gerir enn.Ekki má gleyma því hvernig hann fékk starf sem Forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins á sínum tíma,þá rétt nýskriðin útúr skóla.Páll Gunnar er eftirlitslaus og hefur ætíð verið,er ofverndaður fýri,og punktur hér.

Númi (IP-tala skráð) 14.5.2014 kl. 00:55

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Burtséð frá því hvaða embættismaður situr í stóli forstjóra Samkeppniseftirlitsins og berst þar til fyrir tilvist stofnunarinnar sem hann stjórnar þá er þetta eftirlit með öllu óþarft.

Upptalning Gústa er góð og gild og byggist á því sem sést. Það er samt ekki bara hið sýnilega sem skiptir máli. Segjum að ríkisvaldið ákveði að láta grafa stóra holu með skóflum. Menn sjást í vinnu. Hola sést í jörðinni. Það sem sést ekki er allt sem fór í súginn til að fjármagna vinnuna: Öll launin sem skattgreiðendur sáu á eftir til að fjármagna hana - öll raftækin sem þeir höfðu ekki efni á lengur - öll barnafötin sem urðu eftir í búðinni í stað þess að komast í notkun - allar fjárfestingarnar sem ekkert varð af vegna skattheimtunnar.

Hvaðan halda menn svo að allar sektargreiðslurnar koma? Þær koma úr vösum neytenda. Verðlag til þeirra hækkaði. Möguleikar fyrirtækjanna til að fjárfesta í arðbærri og hagkvæmnri tækni minnkuðu. Græddu keppninautarnir þá ekki bara? Nei. Þeir gátu hækkað verð sitt líka, upp að hærra verðlagi fyrirtækisins sem var látið borga sektir.

Auðvitað þarf að refsa fyrir glæpi, en það eitt að kaupa upp keppinauta er ekki glæpur. Ekkert fyrirtæki getur haldið út til eilífðar að kaupa upp keppinauta. Hafa menn gleymt því hvernig stór og stöndug fyrirtæki enduðu á að tapa með því að fjárfesta í eilífum uppkaupum í stað arðbærra framkvæmda eða betrumbóta? Gleyma menn því að einu sinni var Nokia með nánast allan farsímamarkaðinn, eða Apple, en ekki lengur?

Hafa menn gleymt sögunni af Standard Oil, aðalhvatanum á bak við "anti-trust" löggjöf Bandaríkjanna?

https://www.andriki.is/getOneArticle.asp?art=06012004

Samkeppni er ekki mæld í fjölda fyrirtækja á markaði heldur aðgengi að markaðinum. Sé bara eitt fyrirtæki á tilteknum markaði (gefið að skilgreining á einhverjum tilteknum "markaði" sé til og marktæk) þá er það ekki til marks um að samkeppni skorti.

Geir Ágústsson, 14.5.2014 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband