Miðvikudagur, 30. apríl 2014
Hvert er hlutverk foreldra?
Þeir sem vilja loka nammibörum, halda aldri sem heimilar áfengiskaup háum, háa neysluskatta og tóbak í felum eiga gjarnan eitt sameiginlegt: Að vilja hafa vit fyrir öðru fólki, og sérstaklega foreldrum.
Er hlutverk foreldra ekki að stilla af sælgætisneyslu barna sinna? Sem foreldri finnst mér það. Ég labba oft á viku í gegnum heilu hillusamstæðurnar troðfullar af sælgæti með tveimur strákum sem vilja nammi ef það er í boði, en fá það ekki nema á ákveðnum dögum. Það hefur ekki alltaf verið létt að drepa suðið í þeim en í dag finnst það varla. Það er líka mitt hlutverk að skammta ofan í þá óhollustu. Ég ræð.
Að loka nammibörum til að "takmarka sælgætisneyslu barna" er jafngildi þess að svipta foreldra ábyrgð á uppeldi barna sinna að hluta. Það er gríðarlega neikvætt. Hvað gerist seinna meir fyrir sömu krakka þegar þeir eru orðnir nógu gamlir til að fjármagna eigin neyslu á óhollustu? Æða þeir ekki í þetta af því þetta hefur verið svo forboðið og spennandi en í felum og óaðgengilegt? Er ekki betra að kenna krökkum að umgangast óhollustu?
Hvað gerist þegar sömu krakkar eru orðnir unglingar sem geta alveg útvegað sér áfengi, gjarnan ólöglega? Í Danmörku getur 16 ára unglingur keypt sér áfengi upp að ákveðnum styrkleika (18% minnir mig) alveg löglega, í hverri einustu matvöruverslun og sjoppu í öllu landinu. Á Íslandi kaupa unglingar landa og annað heimabrugg - jafnvel með heimsendingu. Þeir bjarga sér. Þeim hefur ekki verið kennt annað en að ÁTVR sé þeim lokað land. Það er "bannað" að kaupa áfengi fyrir tvítugt. Einmitt. Ætli það sé fyrsta löggjöfin sem unglingar læra að bera enga virðingu fyrir?
Nammibörum mætti gjarnan fjölga og verðlag á þeim mætti gjarnan lækka. Það myndi setja aukna pressu á foreldra að rækta hlutverk sitt sem foreldrar betur, í stað þess að fela sig á bak við "þetta er bannað" eða "sælgætið er í felum".
Jákvætt að loka nammibörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:26 | Facebook
Athugasemdir
Hjartanlega sammála!
Sigurjón Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 11:24
Þótt ég sé á móti allri forræðishyggju og álít að uppeldi barna eigi alfarið að vera í höndum foreldra án afskipta utanaðkomandi, þá finnst mér jákvætt að nammibarirnir loki alls staðar. Það er ekki bara þessi gríðalega sóðaskapur, sem maður verður vitni að, heldur er þetta sælgæti framleitt úr sláturúrgangi og þess vegna álíka geðslegt og ef verzlanir væru með úldnar rottur til sölu í kælidiskum sínum.
Við hættum að gefa börnum okkar þetta rusl, hjá okkur var nammidagur bara á laugardögum og þá fengu þau öðruvísi sælgæti, sem var hollara, ef hægt er að nota það orð yfir sælgæti.
Í raun hefði átt að loka þeim alfarið fyrir löngu síðan. En matvælaeftirlitin hafa ekki verið að standa sig, og hafa aldrei gert. Það er lágmarkskrafa að verzlanir eigi ekki að komast upp með það að selja sóðalegan úrgang.
Pétur D. (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 12:06
Styrkir það ekki bara ónæmiskerfi barnanna? Sjálfur finnst mér fátt betra en sveitt pulsa frá götuvagni sem hefur nákvæmlega enga hreinlætisaðstöðu. Á að banna götusölu á pulsum? Þá yrði nú eitthvað sagt, a.m.k. í Danmörku.
Núna geta Íslendingar samt sagt: "Sjáið nú bara þessar ógeðslegu Norðurlandaþjóðir sem umbera ennþá þessa skítugu sælgætisbari! Við erum svo miklu hreinni en þeir!"
Ekki furða að ég kalla Íslendinga oft kaþólskari en páfann þegar kemur að því að apa upp boðin og bönnin annars staðar frá nema þau séu hreinlega heimatilbúin.
Geir Ágústsson, 30.4.2014 kl. 12:13
Það ætti að hafa eftirlit með því að börn fái heilsusamlegt mataræði og öll helstu næringarefni, því annars búa þau ekki við sama langlífi og heilsu og lífsgæði og aðrir í framtíðinni. Foreldrar hafa engan rétt á að stytta líf barna sinna og skemma heilsu þeirra. Frelsi eins endar þar sem það byrjar að skaða annan. Skiptir aldur hans eða blóðtengsl þeirra engu þar um. Það er svínarí, en ekki siðmenning, að leyfa þá misnotkun á börnum að venja þau á óhollustu um of, og brot á mannréttindum þeirra að þau búi við ófullnægjandi mataræði.
Sigurður J. (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 13:44
Fyrst þú nú nefnir Danmörku, þar sem ég þekki til, þá er það áhugavert að bera saman Ísland og Danmörku hvað varðar almennt hreinlæti og sóðaskap. Þá kemur á daginn, að næstum allt er þveröfugt.
.
Ísland: Mínus: Allt rusl, drulla, sígarettustubbar, glerbrot, hundaskítur o.fl. á almannafæri fær að liggja vikum, mánuðum og árum saman því að enginn tekur ábyrgð á að hreinsa það upp. Færibönd og kælar í kjörbúðum eru ekki hreinsuð nema endrum og eins, jafnvel þótt umbúðir hafi lekið, sums staðar aðeins einu sinni á ári. Skólp fer óhreinsað út í ár, stöðuvötn og strandsvæði.
Ísland: Plús: Við afgreiðslu á heitum pylsum, ís og brauðum eru notaðir einnotahanzkar.
.
Danmörk: Plús: Rusl og glerbrot er hreinsað upp, sums staðar daglega, því að það er alltaf einhver sem hefur ábyrgð á því. Færibönd í kjörbúðum eru hreinsuð eftir hvern kúnna eða eftir þörfum, kælidiskar eru einnig þrifnir jafnóðum eða eftir þörfum. Allt skólp er hreinsað í þremur þrepum áður en því er hleypt út í hafið.
Danmörk: Mínus: Við afgreiðslu á óinnpökkuðum matvörum (pylsur, brauð, hamborgarar) eru notaðar berar lúkur, sem aðeins eru þvegnar endrum og eins; í bakaríum á haustin eru vespur, sem nota vínarbrauðin sem göngustíga og veizluborð, látnar óáreittar.
.
Þetta voru andstæðurnar. Síðan gæti einhver sagt: Það er alls staðar hundaskítur á götunum í Danmörku, sérstaklega Kaupmannahöfn. Það er rétt, það er plága, en það er ekki vegna þessa að skíturinn er ekki þrifinn upp af götusópurum, heldur af því að það er svo gríðarlega mikið af hundum þar og hundaeigendum sem láta hundana sína (sem þeim þykir jafnvænt um og börnin sín) skíta alls staðar og út um allt án þess að hafa fyrir því að þrifa upp eftir þá.
.
Síðan eru reykingarnar. Það var ekki fyrr en nýlega (á síðustu árum), að það voru sett lög, sem banna reykingar alls staðar innandyra (líka á veitingastöðum og börum) í Danmörku, enda eru Danir með mestu reykingamönnum í Evrópu. En á Íslandi hafa þessi nauðsynlegu lög, til að vernda reyklausa, verið í gildi í tvo áratugi. Hins vegar er enn mikið af ábyrgðarlausum foreldrum bæði hér á landi og í Danmörku sem reykja innan um börnin sín heima og bílum.
.
Þar eð ég þoli ekki sóðaskap, hef ég áætlanir um að flytja til einhverrar borgar, þar sem sóðaskapur er í algeru lágmarki. Uppástungur eru vel þegnar.
Pétur D. (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 14:22
Á tvo syni, einn kominn yfir tvítugsaldurinn og hinn á táningsaldri, einusinni skemmd í þeim eldri og aldrei í þeim yngri, allt vegna aga á tannhirðu, takmörkun á neyslu og reglubundnu eftirliti tannlæknis.
L.T.D. (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 16:06
Sama segi ég, LTD. Börnin mín sem eru allt frá þrítugu niður í sextán, hafa fínar tennur vegna aga í sælgætisaldri. Óhamið sælgætisát (auk ofeldis á ruslfæði) skapar ekki bara ónýtar tennur, heldur líka feit börn -> feita unglinga -> feita fullorðna. Sumt fólk hafa einfaldlega ekki forsendur til að vera góðir foreldrar.
Hægt er að segja, að foreldrar sem leyfa lífi barna sinna að þróast þannig vegna eigin leti, sjálfselsku og skorts á ábyrgðartilfinningu valda börnunum óbætanlegan skaða.
Ef þetta eru afleiðingar slæms uppeldis foreldra og þeirra foreldra, þá verður að rjúfa þennan vítahring.
Pétur D. (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 20:17
Það átti að standa: "... hafa fínar tennur vegna aga í sælgætisneyzlu."
Ég þarf víst að temja mér meiri aga í prófarkalestri.
Pétur D. (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 20:21
Pétur,
Eitthvað er þín upplifun af götuhirðun í Danmörku önnur en mín. Í austurbæ Álaborgar, þar sem ég bý, er götuhirða alveg hræðilega. Vissulega eru stórir hlutar svæðisins yfirleitt kallaðir "gettó", en glerbrot og rusl er út um allt og virðist sjaldan verið hirt.
Danir bönnuðu svo ekki alveg reykingar innandyra. Barir með 40fm þjónustuflatarmál eða minna mega heimila reykingar innandyra (hugsað svo að rónarnir gætu fengið að reykja í friði yfir bjórnum, en margir aðrir sækja þessa staði). Stærri stöðum er heimilt að innrétta reykingarrými, t.d. af þessu tagi:
http://www.smokesolution.dk/products-catagories/
(IKEA í Álaborg býður t.d. upp á prýðilega reykingaraðstöðu innandyra.)
Geir Ágústsson, 30.4.2014 kl. 20:50
Mér finnst gott og vel að sumt fólk hafi áhyggjur af öðru fólki. Leysa boð og bönn samt einhver vandamál?
Ég minni á að tannlæknaþjónusta er niðurgreidd fyrir börn á Íslandi. Það slævir ábyrgðartilfinningu foreldra. Heilsufarsvandamál barna og fullorðinna eru einnig niðurgreidd í gegnum niðurgreidda heilbrigðisþjónustu. Er það til að viljandi koma kostnaði frá þeim sem valda honum yfir á aðra? Sælgæti er skattlagt frá upphafi til enda og samt sækjast margir í það. Á að bæta enn á tabúið með því að gera það að freistandi smyglvarningi eða jafnvel heimaframleiðslu? Hverjum er þá greiði gerður?
Fólk gleymir sér oft í banngleðinni og það getur haft verri afleiðingar en ef höfðað væri til ábyrgðartilfinningar einstaklinga, t.d. með því að láta þá sem valda kostnaði bera hann. Það er engin ástæða fyrir neinn til að fá holur í tennurnar. Tannhirða er einföld og ódýr. Holur í tönnum krakka eiga að skrifast algjörlega á bæði uppeldi og reikning foreldra. Það væri ágæt byrjun á bættri tannhirðu barna á Íslandi (og jafnvel leið að minna holdafari á þeim líka).
Geir Ágústsson, 30.4.2014 kl. 20:55
Pétur,
Ég mæli með Hamborg í Þýskalandi fyrir götur sem má borða af. Köln var líka eins og nýsleginn túnskildingur.
Geir Ágústsson, 30.4.2014 kl. 20:58
Ef Bónus sæi hagnað í því að reka nammibarina áfram, þá myndu þeir laga hreinlætisaðstöðuna. Það er ekki eins og kröfurnar séu einhver geimvísindi.
Steinarr Kr. , 30.4.2014 kl. 22:05
En það er bara nýlega (frá 2013) sem tannviðgerðir hafa verið ókeypis fyrir börn og unglinga, því að einhverjum einskisnýtum hagfræðingi á góðum launum datt í hug fyrir 20 árum að leggja niður skólatannlæknana til að spara einhverjar krónur.
Afleiðingarnar urðu þær, að láglaunafólk (og það eru tugir þúsunda af þeim) hafði ekki lengur ráð á að láta gera við tennur barna sinna. Á Norðurlöndum, þar sem er velferðarkerfi, ólíkt íslenzka bananalýðveldinu, eru ókeypis tannlækningar fyrir börn allt að 16 ára.
Hvað á að gera við íslenzka hagfræðinga/stjórnmálafræðinga sem leggja niður tannlækningar fyrir börn?
a) Hengja þá?
b) Pynta þá til dauða?
c) Draga úr þeim allar tennurnar og hengja þá svo?
Ef ég mætti velja, þá veldi ég c), en hitt til vara.
Pétur D. (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 22:59
Í sumum löndum er allur heilbrigðiskostnaður allra vegna allra kvilla niðurgreiddur, stundum kallað "ókeypis". Í þeim löndum er ekki endilega hægt að ganga að því vísu að öllum lífsstílssjúkdómum hafi verið útrýmt. Að setja samhengi milli niðurgreiðslu á baráttunni gegn einhverju, og að þar með hverfi viðkomandi vandamál, er einföldun í besta lagi.
Raunar má snúa dæminu við: Sé eitthvað niðugreitt þá má gera ráð fyrir meira af því. Ríkið niðurgreiðir t.d. kostnað vegna íþróttaiðkunar í von um að fleiri iðki íþróttir. Það niðurgreiðir hins vegar tannlæknakostnað til að hvað? Fækka tannskemmdum? Ekki er heil brú í þessu.
Geir Ágústsson, 1.5.2014 kl. 08:29
Það er líka til fyrirbyggjandi skoðun hjá tannlæknum og þetta hefur EKKI verið ókeypis hér á landi sl. 20 ár, þótt ríkið (TR) greiði helminginn. Þótt foreldrare eiga að sjá til þess að börnin bursti tennurnar, þá getur margt farið úrskeiðis og það geta myndazt holur, enda ekki hægt að tjóðra börnin við stofuofninn 24/7.
Þegar skaðinn er skeður, þá uppgötvast þetta í reglubundnu eftirliti, sem á líka að vera ókeypis. Efnafólki munar ekkert um tannlæknaútgjöld, en láglaunafólki og bótaþegum, sem varla eiga til hnífs og skeiðar, munar um þetta. Og það hjálpar ekki barninu, þegar á endanum verður að draga úr því allar tennurnar vegna fátæktar foreldranna, að vísa í "dog-eat-dog"-kenningar Friedmanns og Hayeks.
Að mínu áliti á ríkið að niðurgreiða að fullu allt heilbrigðiskerfið, og barnatannlækningar, eins og gert er á hinum Norðurlöndunum. Svo mætti niðurgreiða kírópraktora, sem eru þeir einu, sem geta lagað bakverki. Ef lífsstílskvillar, eins og þú kallar þá, eiga að vera undanþegnir, þá verður að skilgreina nákvæmlega hverja. Sumir kalla sykursýki 2 lífsstílskvilla, sem er sjúklingnum sjálfum að kenna. En margir fá þennan kvilla þrátt fyrir heilbrigðan lífsstíl. Á samt að hóprefsa þeim með mismunun?
Auðvitað er margt sem er hægt að undanskilja, en það á ekki að gera með einu pennastriki eins og yfirleitt er gert, heldur þarf að færa rök fyrir því. Margir álíta, að fólk með geðræn vandamál eigi að éta það sem úti frýs og það hefur svo verið gert hér á landi með þeim afleiðingum, að fólk sem ætti að vera á geðdeild, lendir ýmist á götunni eða í fangelsi vegna óhæfis geðlækna, sem hugsa meira um pyngju ríkisins en velferð skjólstæðinga/sjúklinga. Varðandi offituvandmál, þá er það fyrst og fremst ábyrgð foreldra, en þegar þeir bregðast, hvað á þá að taka við?
Fjármögnun til að niðurgreiða heilbrigðiskerfið allt getur gerzt á margan hátt: Kannski þarf að hækka skatta lítillega þar sem þörf er á, t.d. mætti hækka verulega skatt á arð af viðskiptum með hlutabréf fjarmálafyrirtækja, það bitnar bara á gráðugum hræfuglum, en það er líka hægt að skera niður a.m.k. á tveimur stöðum: "Þjóð"kirkjuna og RÚV. Þetta tvennt má einkavæða strax í dag án nokkurra neikvæðra afleiðinga, enda er bæði ríkiskirkja og ríkisfjölmiðill tímaskekkjur.
Á móti þarf að lækka álögur á eldsneyti til að koma hagkerfinu í gang og til að styrkja ákveðnar atvinnugreinar. Uppbygging atvinnulífsins, sérstaklega á nýjum útflutningsiðnaði, er forsenda hagsældar. En það þarf líka að vera niðurgreitt menntakerfi, niðurgreitt heilbrigðiskerfi og almannatryggingakerfi, án bruðls. Þetta fer saman í þeirri stefnu sem heitir félagsleg frjálshyggja og gengur alveg í berhögg við bæði sósíalisma vinstristjórnar andskotans og laissez-faire frjálshyggju núverandi stjórnar.
Fyrir utan þessi þrjú svið (heilbrigðis-, almannatrygginga- og menntakerfis) á hið opinbera ekki að vera í neinni samkeppni við einkarekstur, en hafa virkar eftirlitsstofnanir sem eiga að tryggja frjálsa samkeppni. Í öllu þessu og meira fær íslenzka ríkið falleinkunn í hvívetna. Enda er Alþingi og embættismannakerfið yfirfullt af fólki, sem aldrei hefur sinnt alvöru störfum og hefur enga þekkingu á frjálsu þjóðfélagi vegna þess að það hefur flotið ofan á þessu spillta þjóðfélagi.
Og meðan við erum að ræða um embættismannabáknið, þá mætti reka fleiri þúsund embættismenn úr ráðuneytunum til að fjármagna þjóðfélagslegar úrbætur. Vissirðu, að í Velferðarráðuneytinu vinna tæplega 100 manns við að ýta skjalabunkum bæði á milli sín og upp og niður í margra hæða lagskiptingu sem myndi drepa hvaða einkarekið fyrirtæki sem er? Það er ekki þörf á öllu þessu fólki, enda fjölmargir sem hafa fengið tilbúna stöðu vegna kunningsskapar, ekki vegna hæfni eða af nauðsyn. Ég hef skrifað áður um þetta, hvernig eigi að skera niður hjá ríkinu, hvað varðar yfirmenn í ráðuneytum og ýmsum óþarfa stofnunum, sem hafa verið búnar til fyrir bitlingaliðið. Og hvernig losa megi a.m.k. eitt stöðugildi hjá borginni (reka JG).
Hitt er svo annað mál, að atferlisstjórnandi álögur svo og skattar sem eru bygðir á rangindum, eiga ekki að líðast. Þegar frjálst, gagnsætt, VIRKT atvinnulíf í frjálsri samkeppni án pólítískra tengsla og án pólítískra hindrana fær að skjóta rótum hér á landi einhvern tíma í framtíðinni, þá munum við komast út úr kreppunni. Ekki fyrr.
Þetta er nóg í bili, enda kominn langt út fyrir efnið (nammibari), en þar eð við vorum að ræða niðurgreiðslur á tannlækningum, þá tel ég fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar koma því við.
Þú þarft auðvitað ekki að vera sammála mér. Sumir álíta, að þessu bananalýðveldi sé ekki viðbjargandi. Hvað finnst þér?
Pétur D. (IP-tala skráð) 1.5.2014 kl. 13:05
Leiðrétting: "Og meðan við erum að ræða embættismannabáknið, þá mætti reka fleiri þúsund embættismenn, þ.á.m. mörg hundruð úr ráðuneytunum til að fjármagna þjóðfélagslegar úrbætur."
Pétur D. (IP-tala skráð) 1.5.2014 kl. 13:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.