Er 'danska leiðin' í boði?

Á Íslandi er vinsælt að apa upp alla vitleysuna sem finnst í útlöndum. Norræna "velferðarstjórnin" apaði upp norræna skattheimtu þar sem hún er hæst. Allskonar boð og bönn eru öpuð eftir þeim sem banna mest. Regluverkið er afritað þaðan sem það er strangast í okkar heimshluta. 

Gott og vel. Lítið land leitar innblásturs frá "stærri ríkjum" og "þeim löndum sem við viljum miða okkur við".

Hvernig væri samt til tilbreytingar að apa upp eitthvað sem er skárra en það sem nú er við lýði á Íslandi? Ég tek sem dæmi hið danska heilbrigðiskerfi (sem er fjarri því fullkomið og hefur í raun óteljandi vankanta, en ég tel samt vera að mörgu leyti skárra en hið íslenska). 

Miðað við umræðuna á Íslandi er hið danska kerfi sennilega það sem má kalla "tvöfalt": Samhliða hinu opinbera kerfi finnst mýgrútur einkaaðila sem bjóða upp á sjúkratryggingar og allskyns meðhöndlun, frá lýtaaðgerðum til krabbameinsmeðferðar. Einkaaðilar hafa möguleika á að kaupa sjúkratryggingar (t.d. hér og hér) og fyrirtæki kaupa gjarnan sjúkratryggingar fyrir starfsmenn sína (t.d. hér og hér). Það gera þau af tvennum ástæðum: Sem hluta af launakjarapakka sínum í hinni eilífu samkeppni um starfsfólk, og til að tryggja að starfsmenn sem veikjast festist ekki á margra mánaða biðlistum hins opinbera kerfis.

Ávinningar af hinu "tvöfalda kerfi" miðað við hið "einfalda" kerfi á Íslandi eru margir. Einn er sá að með því að borga sig út úr röðinni í hinu opinbera kerfi þá styttist sú röð fyrir hina sem láta skattféð duga fyrir sjúkratryggingu sinni. Annar er sá að einkaaðilar eru til staðar sem þurfa að keppa í bullandi samkeppni, og það þvingar verð niður og gæði upp. Nýjungar í heilbrigðisvísindum rata fyrr inn í þess konar kerfi. Þetta þekkja Íslendingar í þeim afkimum læknavísinda sem eru óskaddaðir af opinberum afskiptum, t.d. lýtaaðgerðum, sjónleiðréttingum og augnlækningum almennt.

Enn einn ávinningur er svo sveigjanleikinn þegar þjónustuaðilar eru margir. Enn annar er sá að heilbrigðisþjónusta getur jafnvel skapað gjaldeyri enda er góð heilbrigðisþjónusta mjög eftirsótt í heiminum og ekki allstaðar í boði. 

Meira mætti telja upp.

Boðskapur minn er þessi: Geta Íslendingar ekki til tilbreytingar hermt eftir einhverju sem virkar betur en það sem nú tíðkast á Íslandi í stað þess að apa bara upp það versta sem finnst?  


mbl.is Vilja ræða við Ragnar um grein hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband