Þriðjudagur, 25. mars 2014
Bílalánasjóð vantar
Á Ísland sárvantar bílalánasjóð. Of auðvelt er að taka bílalán á Íslandi. Of auðvelt er að steypa sér í skuldir vegna bílakaupa. Bílar eldast mun hraðar en fasteignir svo það að skulda bílalán er glapræði. Íslenska ríkið á að stofna Bílalánasjóð. Með því nást mörg markmið í einu:
- Fé skattgreiðenda streymir í bílalán, bæði beint í formi vaxtaniðurgreiðsla og óbeint í formi björgunaraðgerða á Bílalánasjóði.
- Ríkisvaldið tekur lán til skamms tíma og lánar út til langs tíma. Þetta tryggir gríðarlega óvissu og tryggir að stjórnmálamenn hafa úr nægu að moða.
- Verðbólur á ákveðnum svæðum og á ákveðnum tegundum bíla skjóta upp kollinum. Margir munu njóta þess í formi skammtímaávinnings og skammtímaánægju.
- Öllum er tryggður aðgangur að bíl enda munu kröfur til lánshæfis verða háð skilyrðum stjórnmála en ekki hins grimma markaðar.
- Alltof fáir Íslendingar eiga bíla og ríkið liggur á alltof fáum ónýttum bílum sem gera ekkert nema safna vaxtagreiðslum.
- Bílar eru dýr fjárfesting og afborganir hlaupa stundum upp í leiguverð á sæmilegu húsnæði. Alveg ljóst er að enginn ræður við slíkar fjárfestingar án aðstoðar ríkisvaldsins.
- Fólk úti á landi þarf jafnan stærri bíla en fólk á höfuðborgarsvæðinu en stórir bílar eru að jafnaði dýrari en þeir smærri, og það kemur illa niður á landsbyggðinni. Þessari mismunun þarf að útrýma.
- Sumir hafa efni á nýjum bílum með nýjustu tækni en ekki allir. Þetta er óréttlátt og þarf að leiðrétta með notkun skattfjár. Annaðhvort geta allir keyrt um á BMW, eða enginn (eins og gildir um heilbrigðiskerfið þar sem allir sitja við sama borð og eru jafnósáttir).
- Starfsfólk fyrirtækja sem lána til bílakaupa þurfa að vinna við óþolandi aðstæður hins frjálsa markaðar. Þetta veldur því álagi og tryggir alltof mikið aðhald sem á endanum bitnar á almenningi í formi markaðsvaxta og verðlags sem endurspeglar ávöxtunarkröfu lánveitenda frekar en vaxtarverðmiða hins opinbera.
Mörg pólitísk markmið gætu náðst í einu ef ríkisvaldið hefði bara vit á því að stofna Bílalánasjóð. Ég sé einfaldlega ekki ókostina.
Gagnrýnin oft ósanngjörn og óvægin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.