Kína og fríverslunarsamningurinn

Í frétt á vefsíðu Viðskiptablaðsins segir:

Alþingi samþykkti í gær þingsályktun um fríverslunarsamning við Kína. Samkvæmt þingsályktunartillögunni er ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda samninginn sem var undirritaður i apríl.

Þetta hljóta að vera góðar fréttir, ekki satt? Hann opnar á stóran markað fyrir íslenskan útflutning, ekki satt? 

Samningurinn kveður á um niðurfellingu tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslendinga, í flestum tilvikum frá gildistöku samnings. Allar sjávarafurðir verða tollfrjálsar en algengir tollar á þeim eru á bilinu 10-12%. Tollar á fáeinum vörum falla niður í áföngum, á 5 eða 10 árum. 90% útflutnings til Kína eru sjávarafurðir.

..segir á sérstakri heimasíðu um þennan samning.  

Einnig:

Í tilefni af undirritun fríverslunarsamningins gáfu forsætisráðherrar Íslands og Kína út sameiginlega sérstaka yfirlýsingu, um reglubundið pólitískt samráð sem tekur meðal annars til mannréttinda. Yfirlýsingin tryggir vettvang til að taka upp hver þau mál sem stjórnvöld telja mikilvægt að ræða. 

Frábært, ekki satt?

Ekki eru allir sannfærðir um það. Vefþjóðviljinn, af öllum, maldar í móinn og leggst allt að því gegn því að þessi samningur sé gerður. Þingmenn Pírata hafa mótmælt þessum samningi og gefa margar ástæður fyrir þeim mótmælum.

En er þá fríverslun, eða frjálsari verslun en hún var áður, bara verkfæri til að ná ákveðnum öðrum markmiðum?

Það finnst mér ekki að eigi að vera hugsunin. Fríverslun sé ég sem góða í sjálfu sér. Skilin rétt er hún einfaldlega verslun sem er einfaldlega látin í friði. Á hana eru ekki lagðir skattar eða tollar, en til vara mjög hóflega. Á hana eru ekki lagðar þungar byrðar af lögum og reglum og skilyrðum. Hún snýst einfaldlega um það að tveir einstaklingar verða sammála um kaup og kjör og geta stundað viðskipti, ýmist þvert á bæjarmörk eða þvert á landamæri. 

Það að stjórnmálamenn njóti aukinnar fríverslunar með þeirri stækkun á hagkerfi (og þar með "skattstofnum") sem slík verslun hefur yfirleitt í för með sér er svo allt annar handleggur.  

Almenningur á Íslandi og almenningur í Kína eiga núna aðeins auðveldar með að stunda verslun og viðskipti sín á milli en áður. Það er gott í sjálfu sér. Allt hitt - það er allt hitt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband