Vúdú-hagfræði eða Excel-hagfræði?

Orðið "vúdú-hagfræði" hefur nú skotið upp kollinum yfir þá hagfræði sem boðar aukna verðmætasköpun með lækkun og fækkun skatta. Hin aukna verðmætasköpun á, að sögn vúdú-hagfræðinga, að leiða til "breiðari" og "stærri" skattstofna, sem á endanum skila ríkisvaldinu aukinni skattheimtu af hinum lægri skatthlutföllum. Þetta kalla sumir "vúdú" og spyrja: Hvaða trygging er fyrir því að lækkun skatta muni skila sér í aukinni verðmætasköpun? Gefið að aukin verðmætasköpun eigi sér stað, hvaða trygging er fyrir því að hún muni skila af sér í aukinni skattheimtu? Gefið að engar tryggingar eru til staðar, er þá lækkun skatta ekki óábyrg leið til að reka ríkissjóð, og nánast örugg leið til að auka á skuldir hins opinbera?

Spurningar af þessu tagi eru eðlilegar. Engar tryggingar er heldur hægt að gefa fyrir því að lækkun skatta skili ríkisvaldinu á endanum auknum fjármunum. Segjum að skattur á starfsemi A sé lækkaður en haldist óbreyttur á starfsemi B. Flytjast umsvif ekki bara frá starfsemi B yfir í starfsemi A og svipta þar með ríkisvaldinu "skattstofni" sem áður mjólkaði mjög vel? Kannski.

Rökin fyrir því að lækkandi skattar skili ríkisvaldinu að lokum auknum skatttekjum eru sterk - mjög sterk. Hinn svokallaði "Laffer-bogi" virðist oft birtast þegar gögn eru skoðuð yfir tímabil þar sem skattar eru að breytast: Lækkandi skattar veita hagkerfinu svigrúm til að vaxa og lægri skatthlutföll af stækkandi köku leiða á endanum til aukinnar skattheimtu.

Hvað sem því líður er ekki hægt að gefa út neinar tryggingar.

Hvað bjóða gangrýnendur "vúdú-hagfræði" þá upp á í staðinn? Þeir boða það sem ég vil kalla Excel-hagfræði: Gera ráð fyrir að allar stærðir séu óbreyttar og að hækkandi skatthlutföll af hinum óbreyttu stærðum skili sér í aukinni skattheimtu. Excel-hagfræðingar gera ekki ráð fyrir breytingum í hegðun. Þeir sjá ekki verðmætin sem urðu ekki til vegna hinnar auknu skattheimtu (t.d. vegna frestun framkvæmda).  Ef Excel-hagfræðingar eru spurðir hvers vegna hækkandi skattar hafi ekki skilað sér í eins mikilli aukningu skatttekna og líkanið spáði fyrir um hafa þeir engin svör. Þeir skilja ekki að á bak við allar tölurnar eru einstaklingar sem eru að reka heimili, fyrirtæki, bíl og svo framvegis, og að þessir einstaklingar bregðast við þegar skattheimta er aukin (eða minnkuð).

Bæði vúdú-hagfræðin og Excel-hagfræðin eru svo, þegar allt kemur til alls, ekki annað en leikur að tölum, eða fikt á tilraunastofu. Rökin fyrir skattalækkunum eiga að vera réttlætisrök. Rökin fyrir lækkun og afnámi skatta eiga að grundvallast á þeirri staðreynd að ríkisvaldið er blóðsuga og að þorsta hennar eigi að temja. Auðvitað á meiri verðmætasköpun sér stað þegar ríkisvaldið er minnkað, en það er bara bónus.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Margir átta sig engan vegin á því að skattar hafa áhrif á hegðun fólks alveg eins og vöruverð. Halda menn að það sé tilviljun að fleiri og fleiri velja sér hybrid bíla?

Á árunum 1991-2001 voru skattar á fyrirtæki hérlendis lækkaðir í þrepum úr 45% í 18%. Þessi lækkun skattprósentu hafði þau áhrif að tekjur af skattstofninum þrefölduðust.

Helgi (IP-tala skráð) 23.6.2013 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband