Þriðjudagur, 12. febrúar 2013
Hún kann þetta, þessi ríkisstjórn
Ríkisstjórnin kann hinn pólitíska feluleik.
Þegar einhverju þarf að fresta er hægt að bera fyrir sig tungumálaörðugleikum. Allt þarf að vera á íslensku áður en það megi ræða.
Þegar gegnsæi þarf að fórna má kaupa sér frest með því að tala hátt og mikið og opinskátt um aukið gegnsæi. Sá sem kvartar yfir skorti á gegnsæi er varla að fela neitt sjálfur, er það? Þeir sem hneykslast yfir mataræði og áfengisdrykkju annarra hljóta að borða hollan mat og drekka lítið, ekki satt?
Hægt er að setja mál í nefnd, teygja lopann með því að óska eftir áliti óteljandi aðila, fela óþægileg sannindi með því að skrifa í kringum þau stóra skýrslu sem enginn les, og svona má lengi telja.
Hægt er að draga fram hvert umdeilda málið á fætur öðru til að tryggja að sem minnst umræða eigi sér stað og sem mestar líkur á að þingmenn samþykki allt bara til að komast heim eða í langþráð frí.
Þetta er ákveðin snilld satt að segja. Almenningur lætur blekkjast, blaðamenn hafa svo mikið að gera að þeir ná í mesta lagi að skrifa stuttar fréttir um það sem er í gangi, og stjórnarandstaðan gerir svörin hæfilega loðin til að ýta vandanum á undan sér.
Ég held að allir þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem missa vinnuna í vor muni eiga auðvelt með að fá vinnu sem fjölmiðlafulltrúar umdeildra fyrirtækja og stofnana, t.d. mafíunnar, smyglara og klámsíðna.
Tekur lengri tíma að þýða álitið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Rúv-fréttamaskínan kom með "niðurstöðu"-fréttir frá feneyjarfárinu "óþýdda" í hádegisfréttum í dag. Á sama tíma höfðu þingmenn/konur allra flokka á alþingi "lýðveldisins" Íslands ekki fengið sömu upplýsingar og rúv? Það átti víst að heita svo, að það væri "leynd" yfir herlegheita-áliti feneyjarfársins! Hverjum datt slík vitleysa í hug? Er alveg búið að blása heilann úr öllu yfir-elítuliðinu og rúv-stjórninni?
Alþingismenn/konur voru kjörin í "lýðveldis"-kosningum til að ræða, meta og setja lög um hvernig stjórna skuli þessu Íslands-ríki? Finnst virkilega einhverjum þessi vinnubrögð eðlileg og lýðræðisleg af stjórnsýslu-klíkunni?
Skilaboðin frá æðstu íslands-embættisklíkunni gjörspilltu og dómarastýrðu eru þau, að kjörnum þingmönnum/konum komi ekki við hvað verið er að gera á alþingi Íslands! Þurfum við þá nokkuð alþingi?
Það verður fróðlegt fyrir umheiminn að lesa fréttir af bankamafíustýrðu einræðisstjórninni á Íslandi í erlendum fjölmiðlum, því svona einræði og svikavinnubrögð verða ekki þögguð niður. Það finnast fleiri en Wikileaks, sem láta sig upplýsingafrelsi og almannahagsmuni varða í veröldinni!
Það verða að lokum allir nafngreindir í erlendum fjölmiðlum, sem komu að því að þiggja laun fyrir að blekkja og ljúga að almenningi á Íslandi, og jafnframt lugu á erlendum vettvangi í þessu máli, og öðrum málum!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.2.2013 kl. 23:30
Sæl Anna,
Til að sagan muni er einmitt gott að iðnir einstaklingar séu duglegir að skrifa bækur um umdeild mál og almenningur að kaupa þær. Dæmi: Rosabaugur yfir Íslandi eftir Björn Bjarnason, Síðasta vörnin – Hæstiréttur á villigötum í eitruðu andrúmslofti, Þeirra eigin orð, Stoðir FL bresta og Valdablokkir riðlast eftir Óla Björn Kárason og Icesave samningarnir - afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson.
Þetta eru auðvitað ekki "fullkomnar" bækur því þær eru skrifaðar mjög nálægt atburðunum og e.t.v. er ekki allt sem skiptir máli komið fram ennþá. En þetta eru mikilvægar bækur.
Ég vona að einhver sé núna að setja saman bók sem fer í gegnum loforð og svik núverandi ríkisstjórnar. Af nægu er að taka en flestir ættu að hafa séð munstrið núna: Allt skal sagt og gert til að halda völdum.
Geir Ágústsson, 13.2.2013 kl. 07:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.