Sósíalismi getur virkað ef...

Þeir eru til sem telja að sósíalismi geti gengið upp. Þeir eru ennþá til sem trúa því að sósíalisma megi koma á án þess að brytja niður stóran hluta af samfélaginu ofan í fjöldagröf. 

Yfirleitt skjátlast þessu fólki. Bæði rök og saga tala einu máli: Sósíalismi er stefna harðræðis, blóðsúthellinga, hungurs, volæðis og varanlegrar fátæktar fram að hruni kerfisins, sem er óumflýjanlegt.

En það er von fyrir sósíalista sem vilja ekki fjöldamorð og aftökur á öllum sem eru ekki sammála þeim: Frjáls markaður!

Sósíalismi getur nefnilega gengið upp efnahagslega ef hann getur stuðst við verðmyndun á frjálsum markaði. Sósíalismi er þannig úr garði gerður að hann reikar stefnulaus um í efnahagslegu myrkri miðstýringar, en ef hann er bara eyland innan hins frjálsa markaðar þá getur hann apað eftir verðlagi hins frjálsa markaðar og þannig komist af efnahagslega. Þeir sem vilja ekki flýja sósíalismann gætu þá nokkurn veginn stundað framleiðslu og fínstillt athafnir sínar án þess að myrða samborgara sína og sólunda öllum takmörkuðu gæðum sínum (frá vinnuafli til hráefna í jörðu).

Sósíalistar: Það er von! Hún heitir: Frjáls markaður! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er áhugaverð útvíkkun á því sem Ludwig von Mises staðhæfði fyrir um 100 árum; að sósíalisminn væri dæmdur til að mistakast, ekki endilega vegna þess að hann væri með öllu ómannúðlegur heldur vegna þess að reikningur í efnahagslegu tilliti væri ómögulegur í miðstýrðu hagkerfi, þar sem skipting takmarkaðra gæða yrði að byggja á framboði og eftirspurn en ekki á duttlungum ráðamanna.

Murray Rothbard minnist á þetta og fleira í skemmtilegu og fróðlegu erindi [1]. Sér í lagi nefnir hann pólskan sósíalista og hagfræðing sem á að hafa viðurkennt að hið sósíalíska stórveldi brúkaði einfaldlega alþjóðleg verð á ýmsum vörum; hann á svo að hafa látið ósagt hvað gera skyldi ef sósíalisminn legði undir sig allan heiminn!

[1] http://www.youtube.com/watch?v=O1T6WMerD9g

Magnús (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 11:36

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Magnús,

Ég þekki skrif Mises um miðstýrð hagkerfi og það hvernig hann sá fyrir hrun Sovétríkjanna löngu á undan öllum öðrum, og raunar á tíma þar sem stór hluti hins vestræna heims taldi Sovétríkin alveg eiga möguleika.

En já ég sé alveg möguleika á því að menn geti t.d. rekið götufélag eða jafnvel lítið sveitarfélag á sósíalískum grunni. Menn innan þess samfélags geta reynt að koma sér saman um einhverja reglu, aðra en eignaréttinn, til að skiptast t.d. á notkun og viðhaldi sláttuvéla og bifreiða. Sú vinna sem væri innan samfélagsins og fyrir þá sem búa í samfélaginu, t.d. hárklipping, gæti farið fram gegn einhvers konar samkomulagi um "framfærslu" við t.d. lögfræðinginn sem sækir vinnu sína utan samfélagsins og kemur með verðmæti inn í samfélagið.

Þetta er vægast sagt þrautin þyngri, og tilraunir í þessa veruna hafa verið gerðar (t.d. í svokölluðum "kollektivs" sem eru vinsæl meðal ungs fólks í Danmörku), en verða að vera mjög takmarkaðar í umfangi og samfélagsmeðlimirnir þurfa að vera mjög samstilltir (eða harðhentir við þá sem víkja af hinni sósíalísku línu án þess að hreinlega flytja í burtu).

Geir Ágústsson, 15.1.2013 kl. 18:10

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Svo er nú hægt að bæta því við að hrun hins vestræna velferðarkerfis er jafnóumflýjanlegt og hrun Sovétríkjanna var á sínum tíma. Vandamál hvoru tveggja eru hin sömu aö mörgu leyti, þótt munur sé á umfangi hins opinbera.

Geir Ágústsson, 19.1.2013 kl. 21:05

4 identicon

Þetta er áhugavert. Ég hef fylgst með þessu bloggi þínu um nokkurra ára skeið, þó með hléum, og þar áður man ég eftir þér á samskiptafyrirbærinu Huga. Ef mig minnir rétt talaðirðu þá fyrir þess konar hægristefnu sem íslenskir nútímasósíalistar kalla nýfrjálshyggju; þegar ég lít til baka var engin önnur hægristefna í boði á Íslandi og þó víðar væri leitað. Það var t.d. ekki fyrr en eftir efnahagshrunið 2008 sem ég fór að lesa mig til og uppgötvaði þá hagfræðikenningar von Mises og anarkókapítalisma Rothbards — aldrei hafði mér dottið í hug að til gæti verið stjórnmálastefna sem tæki jafn afdráttarlausa stöðu gegn ríkisvaldinu. Það var þá sem ég yfirgaf „norrænu velferðarmiðjustefnuna“ fyrir fullt og allt. Mér leikur forvitni á að vita hvenær og hvernig þú komst í kynni við þessar hugmyndir.

Að öðru, á meðan ég man: Er hægt að nálgast ritdóm þinn um bók furðufuglsins Stefáns Snævarrs, Kredda í kreppu, á netinu?

Magnús (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband