Fatahreinsun Frikka fína

Frikki fíni rak fatahreinsun. Hún var sú eina á svæðinu, og bjó að auki við þau hagstæðu skilyrði að engin þvottavél var til á stóru svæði í kringum hana, því skilyrðin fyrir því að geta eignast þvottavél voru of ströng fyrir flesta. Allir þurftu því að fara til Frikka fína til að láta þvo fötin sín.

Þetta gekk ágætlega framan af. Frikki fíni rukkaði hóflegt gjald fyrir minniháttar þrif og flestir höfðu efni á því að staðgreiða það, en vitaskuld rukkaði hann mun meira fyrir umfangsmeiri þrif. Viðskiptavinir hans vissu af þessu, enda hékk verðskrá Frikka fína uppi á áberandi stað. Margir, sem unnu við aðstæður sem mættu kallast skítugar, og þeir sem áttu börn sem komu alltaf heim í skítugum fötum, gátu keypt afsláttarkort hjá Frikka fína. Frikki fíni bauð líka upp á að láta greiða sér minniháttar upphæð í hverjum mánuði ef ske kynni að bestu sparifötin lentu í drullupolli eða fengu á sig olíubrák. Þannig var hægt að tryggja sig gegn sjaldgæfum og tiltölulega ólíklegum óhöppum, sem myndu annars kosta stórfé í eingreiðslu. 

Viðskiptavinir Frikka fína töldu að þjónusta hans væri mikilvæg og þótt sumt af henni væri dýrt töldu allir engu að síður að verðlagið væri réttlætanlegt, enda kalla umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir á mikinn tíma og notkun dýrra hreinsiefna.

En dag einn breyttist allt. Frikki fíni fór að eyða um efni fram, kaupa hús í helstu borgum heims og stóra bíl, tók stór neyslulán og lifði hátt. Þegar kom að skuldadögum neyddist Frikki fíni svo til að hækka verðið á þjónustu sinni. Einföldustu þrif hækkuðu margfalt í verði, og hið sama gerðu stærri þrif.

Viðskiptavinir Frikka fína fundu fyrir þessu. Sumir hættu að láta þrífa fötin sín fyrr en þau voru orðin mygluð í gegn, og nýttu sér svo áskrift sína til að fá þau þrif á lægra verði. Frikki fíni hækkaði iðgjöld áskriftar sinnar til að mæta þeim kostnaði og eiga afgang fyrir afborgunum af neyslulánum sínum.

Fólk fór í auknum mæli að reyna þvo heima hjá sér, og tók sér jafnvel frí til að eyða deginum heima og þrífa föt með miklum erfiðismunum og lélegum árangri.

Frikka fína hafði tekist að koma á lögum sem bönnuðu opnun á nýrri fatahreinsun nema að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum um eiginfjárhlutfall, umhverfisreglur, skipulagsreglur, vottun, menntun, þjálfun og reglur um notkun hreinsiefna. Enginn hafði efni á því að uppfylla allar reglurnar og samkeppni varð því ekki til.  

Aðild að áskriftarkerfi Frikka fína var nú orðin lögskylda því það var talin samfélagsleg nauðsyn að dreifa kostnaði vegna fataþrifa á sem flesta til að lækka greiðslubyrðina á hvern og einn. Sumir létu því þrífa oftar en aðrir og óðu jafnvel í drullupollum á hverjum degi og létu þrífa þá í lok dags, og aðrir urðu því óbeint að niðurgreiða það, þá sérstaklega þeir sem pössuðu fötin sín vel og þurftu ekki að láta þrífa þau oft.

Smátt og smátt fengu viðskiptavinir Frikka fína það á tilfinninguna að þjónusta hans kostaði meira og meira, en í staðinn fékkst minna og minna. Fatnaður fólksins varð skítugri og skítugri og verr og verr lyktandi. Lyktin vandist smátt og smátt. Frikki fíni fékk áfram viðskiptavini, því á einhverjum tímapunkti varð þrifum ekki frestað lengur. 

Frikki fíni er hið íslenska heilbrigðiskerfi og ríkisvaldið allt. Við hin erum skítugur almenningurinn. 


mbl.is Ónákvæmni á ónákvæmni ofan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband