Menntun er ...tímasóun?

Sum menntun er hrein tímasóun (og um leið sóun á fé). Nokkur dæmi:

Háskólanám fyrir þá sem eiga ekki erindi í háskóla er tímasóun. Af hverju þurfa allir að fara í háskóla? Hin mikla áhersla á háskólanám hefur margar afleiðingar í för með sér, sem margar eru slæmar: Háskólar byrja að "létta" gamalt og gott nám til að fleiri komist í gegnum það. Háskólar finna upp allskonar nám til að soga til sín fólk sem komst t.d. ekki inn í arkitektarnám eða sálfræði ("light" útgáfur ýmis konar). Mörgum er talin trú um að háskólanám sé hið eina rétta, og hætta þá kannski við að mennta sig í því sem viðkomandi finnst áhugavert og spennandi, og þessir einstaklingar flosna gjarnan upp úr námi og missa móðinn og finnst tíma hafa verið sóað í skóla og sleppa því þá alveg að fá sér menntun.

Ekki er allt nám gott. Allskyns kjaftafög og "light" útgáfur af rótgrónara námi nýtast atvinnurekendum ekki, og þessir einstaklingar þurfa því að leita á náðir ríkisvaldsins til að búa til störf handa sér (annaðhvort beint sem opinberir starfsmenn, eða óbeint með því að skylda fyrirtæki til að hafa t.d. jafnréttisfulltrúa/kynjafræðinga á launaskrá sinni ef starfsmannafjöldi þeirra fer yfir ákveðið lágmark).

Við þurfum klárt fólk sem velur að fara ekki í háskóla. Þetta gleymist. Margir telja að allt "klára fólkið" sem getur lært eigi að fara í háskóla. En af hverju? Samfélagið þarf klára smiði, pípara, suðumenn og rafvirkja. Þessir kláru iðnaðarmenn þéna vel en það gleymist oft að nefna. Gríðarleg áhersla á að koma fólki í gegnum menntaskóla, t.d. með því að létta námið, og þaðan í háskóla, þar sem létt nám er sífellt að aukast í framboði, er banvæn. Hún eykur á fordóma fyrir þeim sem velja ekki háskólanám. 

Ríkisvaldið segir að nám eigi að vera "ókeypis" eða a.m.k. ekki á kostnað þeirra sem fara í nám. Ríkisvaldið innheimtir fé frá vinnandi fólki og notar til að niðurgreiða nám námsmanna. Þannig hefur hið opinbera skorið rækilega á tengsl framboðs og eftirspurnar. Nemendur ættu að öllu jöfnu að þurfa fjármagna nám sitt sjálfir, og vega kostnað við nám upp á móti væntigildi tekna að námi loknu (sem stjórnast af verðmætasköpun tiltekinnar getu og þjálfunar). Þannig má samstilla markað við menntun. Þetta er ekki sú leið sem farin er. Þess vegna sitjum við núna uppi með þúsundir einstaklinga, sprenglærða í einhverju sem enginn kærir sig um, og þetta fólk situr því áfram á spena skattgreiðenda sem opinberir starfsmenn sem búa til þykkar skýrslur sem enginn les. 


mbl.is Verðbólga í einkunnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rosalega er ég þér sammála. Þetta háskóla bull er algjörlega komið

í algjört rugl og er því miður enn að aukast

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 23.8.2012 kl. 09:24

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Geir. Mikið innilega er ég sammála þessum þarfa pistli. Menntasnobb-stjórnsýslan er að ganga frá þessu samfélagi á Íslandi. 

Það er skortur á tækni og iðnmenntuðu fólki á Íslandi, en mennta-elítu-stjórnsýslan hefur greinilega ekki frétt af því, enda eru menntamála-yfirvöld ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.8.2012 kl. 09:39

3 identicon

Svo sannarlega. Æðri menntun ætti einungis að vera á færi þeirra sem hafa efni á því. Hinir mega eta það sem úti frýs, eða vera "klárir iðnverkamenn". Og markaðurinn ætti að sjálfsögðu að ráða námsefninu. Verðmætasköpun er allt og þekking þekkingar vegna..? Ku vera helvítis menntasnobb. Örugglega runnið undan rifjum femínista sem vilja skapa sér störf hjá hinu opinbera.

Jóhann Björn Birkisson (IP-tala skráð) 23.8.2012 kl. 11:59

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Jóhann,

Nokkrar athugasemdir við þína athugasemd:

- Þú talar um "æðri menntun" og átt þar greinilega ekki við iðnmenntun. Er það til þess fallið að auka virðingu fyrir menntun annarra en háskólagenginna?

- Þú telur að í fjarveru nánast algjörrar niðurgreiðslu á námskostnaði við háskóla verði þeir eingöngu aðgengilegir þeim sem hafa hér og nú efni á því að staðgreiða skólagöngu sína. Slíkt tal á ekki við nein rök að styðjast. Niðurgreiðsla ríkis á skólagjöldum hefur þau áhrif að háskólinn verður dýrari í rekstri en ella, enda ekkert aðhald frá greiðandi kúnnum, nemendur dunda sér í mörg ár við að læra hitt og þetta án þess að klára gráðu, og svona mætti lengi telja.

- Hvað er "þekking þekkingar vegna"? Háskólar hafa alltaf verið staður fyrir rannsóknir og það löngu áður en ríkisvaldið yfirtók þá að mestu leyti. En ef menn vilja ólmir eyða stórfé og miklum tíma í að túlka frönsk ljóð frá 18. öld þá kalla ég slíka iðju áhugamál, og þeir sem hafa þann áhuga mega fjármagna það úr eigin vasa.

Geir Ágústsson, 23.8.2012 kl. 12:20

5 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Góður pistill. Það er mikil nauðsyn að segja þetta og þvinga fram umræðu. Ég var kennari í framhaldsskóla í 34 ár og veit að í skólakerfinu er umfjöllun um þetta tabú.

Magnús Óskar Ingvarsson, 23.8.2012 kl. 13:46

6 identicon

Ég er að mestu leyti sammála þessu fyrir utan þá staðhæfingu Önnu Sigríðar um skort á iðn og tæknimenntuðu fólki . Svo ég taki sjálfan mig sem dæmi þá er ég með sveinsbréf í málmsuðu , hef lokið námi í blikksmíði og klárað hluta af sveinsprófinu , og er með töluvert af vinnuvélaréttindum sem og reynslu . Ég hef verið án vinnu í hátt í 2 ár ! , en ég skal játa það að ég væri líklega í starfi núna væri ég vélvirki , pólverji , lithái eða unglingur á unglingalaunum .

Valgarð (IP-tala skráð) 23.8.2012 kl. 14:28

7 identicon

Ég er að nokkru leyti sammála þér en vildi frekar sjá þau viðhorf breytast að allir eigi að fara í háskólanám en að hækka skólagjöld. Við erum ekkert betur sett ef það er fjárhagsstaða fremur en hæfileikar sem ráða því hver fer í nám.

Annars hef ég aldrei heyrt um manneskju sem komst ekki inn í sálfræði. Er búið að taka upp inntökupróf í sálfræði?

Eva (IP-tala skráð) 24.8.2012 kl. 07:35

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Eva,

Nú þegar getur hver sem er skráð sig í háskólanám og nóg virðist vera af "lausum plássum".

Á Íslandi geta allir skráð sig í grunnnám í sálfræði en stífar fjöldatakmarkanir eru á framhaldsnáminu. Í t.d. Danmörku eru stífar fjöldatakmarkanir í grunnnámið (enda gríðarleg aðsókn) en á móti kemur fá þeir úr grunnnáminu að öllu jöfnu boð um framhaldsnám.

Danska ríkið er með það "markmið" að 60% fullorðinna eigi að vera með háskólapróf. Það er alveg galið. Háskólar hafa brugðist við þessu með því að bjóða upp á allskyns "light" útgáfur af vinsælu námi, "light" arkitekt og "light" verkfræði svo dæmi séu tekin. Hvað á atvinnulífið að gera við þetta fólk?

Geir Ágústsson, 24.8.2012 kl. 07:40

9 identicon

Eg er sammála því að það er fáránlegt markmið að 60% allra borgara taki háskólapróf. Það er hinsvegar ekki atvinnulífið sem ég hef í huga heldur frekar fánýti þess að vera að þvæla fólki í gegnum langt nám bara af því að það er norm. Mér finnst áhugi eiga að vera aðalforsenda þess að fólk fari í nám.

Reyndar við nánari umhugsun þá held ég líka að það væri allt í lagi að hækka skólagjöld svo fremi sem hægt er að taka aukalán fyrir þeim.

Eva (IP-tala skráð) 25.8.2012 kl. 18:34

10 identicon

Þitt er menntað afl og önd,

eigirðu fram að bjóða:

hvassan skilning, haga hönd

hjartað sanna og góða.

Út frá marki manninn þann

ég menntaðastan dæmdi:

flest og best sem var og vann,

það vönduðum manni sæmdi.

Stephan G. Stephansson, 1901

Er þetta ekki í fullu gildi ennþá?

Sverrir Gestsson (IP-tala skráð) 25.8.2012 kl. 19:30

11 identicon

Einu sinni fyrir löngu var það forritað inn í kollinn á páfuglshænum að láta þann karlfugl sem breiddi út stærsta stélið frjóvga egg sín. Þetta var að því leyti skynsamlegt að það var hraustleikamerki hjá svona fiðurfé að geta í senn breytt úr stélinu og staðið í lappirnar. Hænurnar voru því að auka líkurnar á að eignast hrausta unga því hraustleiki erfist að jafnaði. En það gerir stórt stél líka og því fór sem fór. Nokkrum milljónum ára seinna er stél páfugla orðið slíkt ógnarfarg að þeir komast illa úr sporunum og geta alls ekki hafið sig til flugs. Rándýr geta auðveldlega gengið að þeim. Þar sem páfuglshani stendur er nánast búið að leggja á borð fyrir þau. Ég veit ekki hvar þetta endar. Sennilega deyr tegundin út.

Fyrir nokkru var það neglt fast í skipulag margra stórra fyrirtækja og opinberra stofnana að ráða alltaf þann umsækjanda sem lengsta skólagöngu hefur. Þetta var að því leyti skynsamlegt að það var til marks um dugnað og vitsmunalega getu að klára langt nám. Fyrirtækin og stofnanirnar voru því að auka líkurnar á að fá hæfa starfsmenn. Nokkrum árum ára seinna er hálf þjóðin fram eftir allri ævi að rembast við að ná sér í háskólagráður …

[Lesandi semji framhaldið sjálfur ef hann hefur menntun til.]

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 25.8.2012 kl. 19:37

12 identicon

Ætti það ekki að vera helsta hlutverk skóla og menntakerfis að kenna fólki að afla sér þekkingar og færni sjálft, sem og að kenna gagnrýna og skapandi hugsun? Við getum svo haldið áfram alla ævi sjálf að mennta okkur. Það er orðið ótrúlega auðvelt í dag með þekking mannkyns aðgengilega hvar sem er í gegnum internetið. Það þarf vísu stundum aðstöðu til að læra tæknilega færni (learning by doing), en samfélagið gæti komið upp fleiri tæknisetrum eins og fablab.is sem eru aðgengilegar öllum. Svo væri hægt að koma upp vottunarstofum þar sem við getum fengið vottun að við búum yfir ákveðni þekkingu og færni.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 25.8.2012 kl. 20:30

13 Smámynd: Júlíus Björnsson

Í stöndugum ríkjum og ráðandi á heimsmarkaði, gildir síun í formótun allra nýfæddra einskalinga eða flokkun til að hver fá notið sinna gena sem best. Þar er talað um síun til að tyggja að lykil aðilar í æstu valda stofnum hafi samkeppni hæfni við jafningja sína í öðrum stöndugum ríkjum. Stór fyrirtæki þessara ríkja á aljóðamælikvarða, spyrja um hveðlegi var verið að og hvaðan var útskrifast.  Alli jafnir genalega er nána SAMNORRÆN sósial hugmyndafræði sem byrjaði hér um 1970 , við þurfum ekki að rífast um árangur : rökleysur geta þeir sem eru rökréttir per se alltaf greint hjá öðrum. Kappræður stunda þeir sem kunna ekki að vinna rökrétta saman að réttum niðurstöðum t.d. Allir Íslendingar stunda þær ef marka má ýmsa forustu menn hér: verðuga topp fulltrúa þessa spuna hóps. 

Júlíus Björnsson, 26.8.2012 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband