Skattlagning hefur áhrif, ótrúlegt en satt

Svo virðist sem margir skilji ekki að skattlagning hefur áhrif. Hún breytir aðstæðum, leiðir til breytinga á hegðun einstaklinga og veldur því að aðrar ákvarðanir eru teknar en ef skattlagningin hefði verið vægari eða ekki til staðar.

Svo virðist sem margir geti ekki gert greinarmun á tímabundnum hagnaði og langvarandi hagnaði. Fyrirtæki sem skila miklum hagnaði ár eftir ár laða að sér samkeppnisaðila. Þessir samkeppnisaðilar berjast um sömu viðskipti, laða þau til sín og lækka hagnað hvers fyrirtækis sem áður skilaði gríðarlegum hagnaði. Til lengri tíma litið minnkar hagnaðurinn. Ásókn samkeppnisaðila minnkar.

Mikill en tímabundinn hagnaður hefur önnur áhrif. Hann er gjarnan til staðar í sveiflukenndum iðnaði, t.d. í sjávarútvegi og olíuvinnslu. Þar nota fyrirtæki mikinn en tímabundinn hagnað til að endurnýja, útvíkka, bæta og breyta og búa sig undir aðra tíma þar sem hagnaður er minni og fjármagn til endurnýjunar og útvíkkunar er minna. Mikill en tímabundinn hagnaður er fyrirtækjunum nauðsynlegur til að langtímaáætlanir gangi upp.

Með því að skattleggja hagnað skyndilega og undir þeim formerkjum að ætla taka "toppinn" af miklum en tímabundnum hagnaði er verið að breyta langtímaáætlunum fyrirtækja sem treysta á hinn mikla en tímabundna hagnað. Þau þurfa að leggja niður þá hluta reksturs síns sem skila minnstum arði, og loka þeim starfsstöðvum sem borga sig bara ef hinn mikli en tímabundni hagnaður fær að leita í hirslur fyrirtækisins.

Hið nýja veiðigjald er nýr skattur og breytir áætlunum fyrirtækja og drepur niður þá anga útgerðanna á Íslandi sem skiluðu vissulega arði, en ekki nægjanlega miklum til að standa undir nýjum sköttum. Þeir þurfa því að fjúka, og starfsfólk í þeim að fara á bætur eða finna vinnu hjá ríkisvaldinu. 


mbl.is Vinnslustöðin segir upp 41
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

http://www.dv.is/frettir/2012/6/29/gudmundur-um-uppsagnir-hja-vinnslustodinni-thetta-er-syndarmennska/

Pólítík

Enda augljóst frá byrjun. Þú féllst í gryfjuna

Vertu með skynsama og gagnrýnni hugsun

kv

Sleggjan og Hvellurinn, 29.6.2012 kl. 17:32

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Nú getur verið að einhver pólitík hafi ráðið för, en menn í viðskiptum eru í þeim til að græða, en ekki til að tapa og senda pólitísk skilaboð.

Skattlagning hefur áhrif. Ef þessi nýi útgerðarskattur er í raun áhrifalaus hlýtur Nóbelsverðlaunanefndin að vera á leið til Íslands með fyrsta flugi til að verðlauna fyrir afrekið.

En svo er ekki.

Geir Ágústsson, 29.6.2012 kl. 20:55

3 identicon

Sæll.

Flottur pistill.

Það sem sleggjan og hvellurinn virðast ekki átta sig á er að fé sem fyrirtæki þurfa að senda í ríkishítina er ekki notað til fjárfestinga, launahækkana, markaðsstarfs eða til að ráða fleiri starfsmenn.

Þessar uppsagnir voru auðvitað mjög fyrirsjáanlegar og fleiri svona fréttir munu birtast á komandi misserum.

Ummæli Guðmundar dæma sig auðvitað sjálf. Hvaða skýringar ætlar hann að bera fram þegar hann sjálfur neyðist til að segja upp fólki? Verða þær þá sýndarmennska? Af hverju barðist hann sjálfur gegn þessum nýju lögum?

Helgi (IP-tala skráð) 30.6.2012 kl. 12:24

4 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Þú sem mikill frjálshyggjumaður. Hvað segiru um að bjóða kvótann hæstbjóðanda hverju sinni?

Ég hreinlega sé ekki rökin fyrir þvi að ríkið gefi kvótann ár eftir ár. Frítt, núll krónur í kassann.

kv

sll

Sleggjan og Hvellurinn, 1.7.2012 kl. 06:04

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Sleggja,

Það fyrirkomulagi sem var komið á á sínum tíma var að úthluta veiðiheimildum á óveiddan fisk. Þessar heimildir fengu stöðu eins konar eignaréttar, framseljanlegar og veðsetjanlegar og allt sem menn þekkja með t.d. húseignir.

Ég sæi helst að sjónum væri einfaldlega komið í hendur einkaaðila, sem ráða þá hvað þeir veiða mikið af hverju.

Það fyrirkomulag sem er fjærst séreignarfyrirkomulaginu væri ítrekið og árleg afskipti stjórnmálamanna af því hver veiðir hvað og hvernig. Það er engin leið að gera áætlanir lengur en 1 ár fram í tímann ef veiðiheimildir eru bara til árs í senn.

Geir Ágústsson, 1.7.2012 kl. 12:01

6 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Væri fínt að koma sjónum í hendur einkaaðila.

Fyrir rétt verð að sjálfsögðu.

Ekki varstu að tala um að gefa sjóinn?

kv

Sleggjan og Hvellurinn, 2.7.2012 kl. 14:24

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Sleggjan,

Sjóinn má einkavæða með mörgum aðferðum. Hið mikilvægasta er að það sé gert í eitt skipti fyrir öll, án þess að menn geti 30 árum seinna talað um að "afturkalla" þau réttindi sem á sínum tíma voru veitt (eins og menn eru að tala um að gera í dag með fiskveiðiheimildirnar).

Geir Ágústsson, 3.7.2012 kl. 12:42

8 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Rétt.

Og ég sé á þessum orðum þínum að þú ert að tala um sölu en ekki gjöf. Sem er eina sem meikar sense.

kv

Sleggjan og Hvellurinn, 5.7.2012 kl. 14:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband