Þriðjudagur, 5. júní 2012
En...
Í plaggi ríkisstjórnarinnar um fyrirhugaða aukaofurskattlagningu á þá sem hagnast á því að draga fisk á þurrt land er mörgu haldið fram. Steingrímur J. Sigfússon, jarðfræðingur, skilur greinilega ekki margt í því plaggi, því annars mundi hann aldrei þora að endurtaka vitleysuna í eigin persónu fyrir framan fólk sem veit betur.
Stutt yfirferð á helstu atriðum hinnar ríkisprentuðu þvælu kemur núna.
- "... finna sanngjarnar leiðir takast á við það að skila í góðum árum viðbótarrentunni til eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar.": Skattlagning er aldrei tímabundin, og mikið og sjaldgæft pólitískt þrek virðist þurfa til að afnema "tímabundna" skatta. Hin "góðu ár" eru líka hluti af rekstraráætlunum fyrirtækja í sjávarútvegi til að endurnýja tæki og tól og búa sig undir "slæma tíma", en þeir koma alltaf í sveiflukenndum iðnaði eins og sjávarútvegi. Með því að blóðmjólka "góðu árin" (sem eru bara góð af því íslenska krónan er verðlaus og útvegurinn greiðir laun í henni) er verið að tryggja andlát fyrirtækja við minnstu röskun á rekstraraðstæðum og aflatökum.
- "Auðlindin, fiskstofnarnir, villtir fiskstofnar, eru hvorki ríkiseign né einkaeign. En þeir tilheyra okkur sameiginlega og þeir eiga að gera það um aldur og ævi.": Gott og vel, ríkið hefur í raun slegið eign sinni á hafsvæðið í kringum Ísland og þannig er það. En þessar svokölluðu "auðlindir" eru verðlausar nema einhver leggi á sig fjárfestingar, tíma, orku, áhættu, útreikninga og áætlanagerð til að draga fiskinn í sjónum á land og koma á markað með hagkvæmum og arðbærum hætti. Ríkisvaldið hefur margsannað að í höndum þess er útgerð taprekstur og fiskurinn uppurinn á fáum árum. Núna ætlar ríkisvaldið því að stinga vígtönnunum inn í háls þeirra sem hefur, á ótrúlegan hátt, tekist að draga fiska á land með arðbærum hætti. Auðlindin getur alveg "tilheyrt" íslenska ríkinu eða hverjum sem er, rétt eins og Esjusýn og grasið á jörðinni, en þeir sem sitja á hrokafullu rassgatinu og ætla að heimta fé frá þeim sem hafa atvinnu af því að stunda útgerð - þeir skilja ekki gangverk heimsins.
- "Við eigum að passa upp á þá og þá getur enginn nema ríkið fyrir hönd þjóðarinnar á hverjum tíma farið með málið, veitt leyfi, ráðstafað heimildunum og ákveðið rammann utan um það.": Loksins eitthvað satt og rétt. Hérna tekur ríkisvaldið pólitíska ákvörðun um að þjarma að þeim sem núna "í góðum árum" eru að borga niður skuldir, endurnýja tæki og tól og skapa störf við eitthvað sem í raun og veru er verðmætaskapandi. Steingrímur J. segir hérna hreinskilningslega að um pólitísk markmið sé að ræða, og á heiður skilið fyrir það. En þegar hann talar í nafni "arðsemi" og "hagsmuna fólksins" er hann um leið byrjaður að safna svörtum blettum á tunguna.
- " Og það sem menn fá er ekki eignarréttur, hvorki beinn né óbeinn heldur afnotaréttur af þessari sameiginlegu auðlind og sá afnotaréttur myndar aldrei eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir auðlindinni því þá væru hin markmiðin farin fyrir borð.": Hérna nefnir Steingrímur stærsta gallann við "kerfið" eins og það er: Það er í raun bara leyfiskerfi sem ríkisvaldið hefur undir sinni stjórn. En gott og vel, hvað gerðu menn við þennan "afnotarétt" þegar þeir fengu hann, ýmist í gegnum kaup eða úthlutunina svokölluðu á sínum tíma? Þeir gerðu rekstraráætlanir. Þeir tóku það sem gefið að hinn svokallaði afnotaréttur væri keyptur réttur sem ekki mætti þjóðnýta eða svipta bótalaust. Núna á að henda öllum þessum rekstraráætlunum út um gluggann. Þannig er það bara - það er grímulaus ásetningur ríkisvaldsins, í tilraun sinni til að brúa risastórt gat milli skattheimtu og skattfjáreyðslu.
- "Hinsvegar er um að ræða sérstakt veiðigjald sem verði þannig útbúið að það fangi umfram fjármunamyndun í greininni í árum þegar hún er umtalsverð, en skilji að sjálfsögðu eftir hjá greininni nægjanlaga fjármunamyndun til þess að eiga fyrir góðri ávöxtun af öllu því fé sem bundið er í rekstrinum.": Enn og aftur setja opinberir starfsmenn og stjórnmálamenn sig hérna í stól þeirra sem gera rekstraráætlanir hjá útgerðarfyrirtækjunum, og reyna að hafa vit fyrir þeim. Hvað er "umfram fjármunamyndun"? Hún er tímabundinn hagnaður vegna tímabundinna breytinga á hlutföllum rekstrarkostnaðar og sölutekna. Slík tímabil má nota til að greiða niður skuldir, endurnýja tæki og tól, stækka við sig, herja á nýja markaði eða.... greiða meira í skatta. Og það er hið síðastnefnda sem stjórnmálamenn eru að ákveða að útgerðin geri núna, í stað alls hins.
- " Því það er þannig að hver einasta króna sem er greidd í laun til sjómanna og fiskverkafólks er frádráttarbær rekstrarkostnaður áður en stofninn verður til sem er andlag auðlindagjaldsins.": Og bíddu nú við, hvað heldur Steingrímur að gerist þá? Rekstrarkostnaður útvegsfyrirtækja á eftir að hækka upp í... nákvæmlega það sem fyrirtækið hefur í tekjur. Núll hagnaður. Óteljandi dæmi eru til fyrir þessu. Hlutabréf fyrirtækjanna verða einsksins virði, og lífeyrissjóðirnir missa því enn eina leið til að ávaxta fé skjólstæðinga sinna. Stjórnendur fyrirtækjanna fjölga riturum og auka á yfirbygginguna og halda þannig hverri krónu í fyrirtækinu. Steingrímur J. ætti að vita betur. Hann veit hins vegar ekki betur.
- "Heildarskuldirnar hafa lækkað að því er áætla má miðað við lokastöðu á þessu ári úr 564 í 390 milljarða króna. Það er stórkostlegt hvað sjávarútvegurinn hefur getað greitt niður af skuldum. Og bankarnir segjast lítið hafa afskrifað hjá sjávarútveginum.": Bíddu nú við, var ekki talað um "umfram" tekjur áðan? Hvað hefði orðið um bankana ef þeir hefðu líka þurft að éta skuldir útgerðarinnar, sem að miklu leyti eiga rætur sínar að tekja til tækjakaupa? Steingrímur J. er fljótur að gleyma eigin orðum, meira að segja þeim sem hann lét frá sér 60 sekúndum fyrr í sama viðtali við sjálfan sig.
- "Við tökum 15 milljarða af því í veiðigjöld. Þá eru eftir 63 milljarðar í fjármunamyndun í greininni. Ef sjávarútvegurinn ræður ekki við það, hvernig lifði hann þá af árið 2002, 2003, 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008?": Aftur gleymir Steingrímur eigin orðum. Nokkrum setningum ofar talað hann um að nú væru "góðir tímar" sem mætti mjólka ofan í ríkissjóð. Núna talar hann um að færa tekjur útgerðarfyrirtækjanna niður í það sem mætti þá kalla "mögru árin", og sennilega þau ár þegar mikið var tekið að láni. Eiga öll fyrirtæki að upplifa mögur ár, alltaf, og sitja uppi með skuldir sínar, alltaf, og fá aldrei tækifæri til að rétta úr kútnum eða stækka og safna? Greinilega.
Rauður þráðurinn í gegnum allt þetta tal er sá ásetningur að ætla sjúga milljarða úr verðmætaskapandi atvinnuvegi og dæla í annan mjög svo verðmætaétandi (þann sem mætti kalla hinn opinbera rekstur).
Kemur ekki niður á launum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:00 | Facebook
Athugasemdir
Þessi verðmætaétandi rekstur sem þú talar um er að megninu til menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Já, endilega svelta kerfið svo að 70 fjölskyldur fái gefins tugi þúsunda milljóna á silfurfati.
Ótrúlegt að fólk átti sig ekki á því óréttlæti sem núverandi kerfi er.
Tómas Waagfjörð, 6.6.2012 kl. 11:12
Tómas,
Þarna léstu ríkisvaldið blekkja þig!
Hið opinbera hefur fitnað gríðarlega seinustu árin. Var ekki menntakerfi á Íslandi árið 1995? Eða heilbrigðiskerfi?
Þetta "gefins" sem þú talar um er ekki meira "gefins" en sú jörð sem bændur á Íslandi tapa fé á, á hverjum degi. Yfir 90% af því sem var "úthlutað" fyrir 30 árum hefur verið selt og keypt.
Hvað sem líður siðferðistilfinningu, "réttlæti" og öðru er ljóst að menn þurfa að gera upp á milli:
- Núverandi kerfis eða enn "einka"væddara, og sjá þannig milljarðana verða til úr fiski sem áður synti í sjó.
- Eða kerfis þar sem arði, hagnaði og verðmætasköpun er mokað á bjart, opinbert bálið.
Geir Ágústsson, 6.6.2012 kl. 12:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.