Fimmtudagur, 29. mars 2012
Verðtrygging: Trygging gegn skattahækkunum?
Gefum okkur að verðlag hækki að jafnaði um 10% að meðaltali (skv. einhverri vísitölu einhverrar opinberrar stofnunar á Íslandi) á öllum varningi á Íslandi vegna veikningar á kaupmætti krónunnar (fjölgun á krónum í umferð). Þetta getur útlánandi vitaskuld tekið inn í sinn reikning með hærri vaxtakröfu eða notkun hinnar svokölluðu verðtryggingar. Kaupmáttur á útláninu er þannig varðveittur.
En útlánandi á Íslandi getur ekki bara beitt verðtryggingu til að verja kaupmátt þeirra peninga sem hann lánar út gegn rýrnun vegna peningaprentunar/útgáfu. Hann getur líka varið útlánið sitt fyrir skattahækkunum. Skattahækkanir reiknast nefninlega með í "verðtryggingunni".
Þannig að ef ríkisstjórnin hækkar skatta á hitt á þetta, þannig að 10% verðhækkanir verði að meðaltali að 15% verðhækkunum, þá getur útlánandi þénað vel. Ekki kaupir hann allt þetta sem var skattlagt upp í rjáfur, engu að síður fær hann "verðbætur" vegna skattahækkananna.
Ætli það sé ekki það sem Landsbankinn er að hagnast á?
Landsbanki hagnast mikið á verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvar get ég keypt tryggingu gegn verðlagshækkun á láninu mínu?
Í eðlilegum lánakerfum fylgir hún nefninlega frítt með.
Ég þarf að vita hvar hún fæst svo ég geti keypt hana.
Og auðvitað látið senda bankanum reikninginn.
Fyrir að hafa selt mér gallaða vöru.
Guðmundur Ásgeirsson, 29.3.2012 kl. 11:41
Banka má líkja við fatahreinsun sem klippir ermar og búta úr fötunum þínum á meðan fötin eru í þvotti. Þú færð þau götótt og töluvert rýrari til baka. Og kannski poka með bótum líka. Ríkisvaldið bannar fatahreinsunum sem klippa ekki í fötin að starfa, beint með lögum um lögeyri, og óbeint með því að gera alla samkeppni við banka í ríkisvernd nánast ómögulega.
Ég hvet alla sem hafa áhuga á því hvað verður um peningana okkar og hvers vegna til að kaupa sér Ábyrgðarkverið, sem er væntanlegt í bókabúðir.
https://www.facebook.com/events/136899229772388/
Geir Ágústsson, 29.3.2012 kl. 11:48
Sæll.
Það er synd að jafn erfitt og raun ber vitni er að koma upp banka hérlendis þökk sé reglugerðarfargani frá opinberum aðilum.
Ég held að fólk almennt séð átti sig ekki á því að þar sem samkeppni ríkir á markaði græða fyrirtæki ekki hrikalega mikið. Þegar við sjáum fréttir um svakalegan gróða fyrirtækja er það merki í mínum huga um að samkeppni skorti. Ég vil þó taka skýrt fram að ég vil að fyrirtæki græði og að sem flest fyrirtæki græði en ef gróðinn er orðinn mikill er hann auðvitað á kostnað einhvers.
Annars langar mig að nefna hér eitt atriði sem ég hef ekki séð neins staðar og þarf að ræða: Hvernær verður skattlagning að löglegum þjófnaði? Hvar liggja mörkin á milli eðlilegrar skattheimtu svo hið opinbera geti rekið einfalt stjórnkerfi, lögreglu og dómstóla og svoleiðis og þeirra himinháu skatta sem við búum við í dag? Hvenær verður skattheimta að löglegri eigna upptöku? Lengi tíðkaðist hérlendis að borga 10% (tíundin) en í dag held ég að erfitt sé að finna land sem hefur svona lága skatta.
Hvernær verður skattheimta að löglegum þjófnaði eða eignaupptöku ef menn kjósa það orð ferkar?
Helgi (IP-tala skráð) 29.3.2012 kl. 22:19
Helgi,
Rétt er það að hagnaður fyrirtækja leitar svo sannarlega til lengri tíma litið í sama hlutfallið. Fjárfestar selja í fyrirtækjum sem ganga illa og kaupa í þeim sem gengur vel. Kapítalistar leggja niður rekstur sem gengur illa og stofna rekstur í því sem gengur vel. Hárfínt gangverk markaðarins lætur fjármagnið nýtast sem best, þ.e. ef ríkisvaldið skiptir sér ekki af og eyðileggur gangverkið.
Jesús sagði: Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er (Mt. 22:21).
Var hann að segja að ekki ætti að afhenta keisaranum sínar eigin eigur? Þá á ekki að borga neitt í skatt.
Eða var hann að segja að keisarinn ætti í raun ákveðinn skerf af eigum manna og þann skerf ætti því að "gjalda" keisaranum? Ég held ekki.
Mörkin milli "skattlagningar" og "þjófnaðar" finnast ekki. En menn eru almennt sáttari við að láta ræna sig minna en meira.
Geir Ágústsson, 30.3.2012 kl. 07:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.