Offramboð af 'menntuðum' kennurum á Íslandi?

Í mjög athyglisverðri grein skrifar fyrrverandi ráðherra, Sighvatur Björgvinsson, eftirfarandi orð:

Stendur þá námsárangur barna í grunnskóla í öfugu hlutfalli við námskröfur til kennaranna? Slíkt mætti halda á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Samt er það ekki svo. Örugglega ekki.

(Ekki vantar svo að yfir hann sé hraunað fyrir vangaveltur sínar, en svona er það nú oft á Íslandi í dag.)

Íslenskir kennarar eru vægast sagt sprenglærðir. Þeir eru gjarnan með margra ára háskólanám í kennarafræðum á bakinu. Þeir vita mjög mikið um fjölmargt sem kennarar höfðu ekki hugmynd um í gamla daga.

Og alltaf hrakar íslenskum nemendum í lesskilningi.

Ég leyfi mér að fullyrða að margt af því sem íslenskum skólabörnum er kennt í dag er gagnslaust fyrir þá. 

Ég leyfi mér líka að fullyrða að ekki sé öll menntun góð fyrir alla. Sumir ættu að fara á vinnumarkaðinn vel fyrir tvítugsaldurinn og byrja að afla sér starfsreynslu og þjálfunar. Skólaganga er ekki fyrir alla.

Hið takmarkalausa menntasnobb sem gegnsýrir svo marga er ekki hollt fyrir samfélagið. Það dregur sjálfstraust úr þeim sem geta ekki sópað að sér fínum gráðum í fínum fögum og ættu e.t.v. frekar að einbeita sér að því að skapa verðmæti en skapa gagnslausar háskólagráður.  Og þetta takmarkalausa menntasnobb gefur litlum hópi á toppi háskólasamfélagsins leyfi til að tala niður til þeirra sem hafa aðrar áherslur en að krækja sér í 5 háskólagráður sem á endanum nýtast engum en í besta falli ríkisvaldinu (og þar með engum sem skapa verðmæti). 


mbl.is Skortur á menntuðum kennurum í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er vægast sagt ákaflega dapurt Geir þegar hugleiðingar stúdentsins Sighvatar Björgvinssonar (Stúdentspróf MA 1961. Fyrrihlutapróf í viðskiptafræði HÍ 1966, en lauk ekki námi) eru teknar upp hráar og ómeltar og gerðar að "sannleikskorni".

Sighvati er vorkunn. Hann er kyndilberi fjórFLokksins og skilgetið afkvæmi. Einstaklingur sem einungis þrífst á ríkisjötunni. Ruglið í manninum í gegnum tíðina er velþekkt. Reyndar er hann eins samspilltur og hægt er að hafa það.

Bullið:

1. Íslenskir kennarar eru vægast sagt sprenglærðir = rangt.

2. Og alltaf hrakar íslenskum nemendum í lesskilningi = rangt.

3. Margt af því sem íslenskum skólabörnum er kennt í dag er gagnslaust fyrir þá = rangt.

4. Skólaganga er ekki fyrir alla = rangt.

Það veldur mér dálitlum heilabrotum að brottfloginn verkfræðingur og stjórnarmaður í Frjálshyggjufélaginu skuli birta svona delerium á bloggsíðu sinni. Trúir þú bullinu í Sighvati Björgvinssyni eðalkrata og "Guðföður Samspillingarinnar" (að mati Egils Helgasonar)?

Ef svo er, hvar lagðir þú stund á verkfræðinám? Í HÍ?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 09:41

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Hilmar,

Það sem þú hefur að segja um mínu persónu eða Sighvats ætla ég að láta eiga sig. 

Of mikil áhersla (ríkisins) á menntun hefur ýmsa fylgikvilla í för með sér (gagnslaus menntun veitir að jafnaði ekki aðgang að vinnu nema hjá ríkinu og þá við eitthvað ónothæft, skuldir nemenda með fínar háskólagráður verður þeim jafnvel fjötur um fót að loknu námi, vinnumarkaðurinn missir margar góðar hendur inn í skólastofnanir og fær þær ekki aftur að loknu námi, menntakerfið verður óheyrilega dýr baggi á skattgreiðendum, og svona má lengi telja).

Menntun, menntuninnar vegna, er ekki heilög kýr sem er yfir gagnrýni hafin. 

Annars þætti mér vænt um ítarefni þegar þú fullyrðir, þvert ofan í fullyrðingar margra annarra, að lesskilningur sé ekki að minnka hjá útskrifuðum íslenskum grunnskólabörnum miðað við fyrri tíð.

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 09:50

3 identicon

Ég man eftir því þegar svokallaðir námsráðgjafar heimsóttu grunnskólann minn stuttu eftir aldamót og vildu ræða um framtíðina, hvað okkur stæði til boða eftir grunnskólann. Bekkjarsystir mín sagðist hafa áhuga á gullsmíði; hvað ætti hún að gera? Námsráðgjafarnir bentu henni þá á náttúrufræðibraut í menntaskóla. Það var og.

Nú á dögum fara allt of margir í háskóla og af þeim velja allt of margir gagnslaust nám. Ekki er ástandið skárra í hinum greinunum: Mörg bekkjarsystkina minna áttu bara alls ekki heima í verkfræði og jafnvel ekki í háskóla yfirleitt. (Þú kannast kannski við það.) Mér skilst að svona hafi málum ekki alltaf verið háttað á Íslandi.

Máni (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 10:16

4 identicon

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 09:50: Sjálfsagt að benda þér á ágætis leið til að fræðast um efni sem þau veist augljóslega ákaflega lítið um - og lætur þess vegna til leiðast að treysta á fimbulfambið í Sighvati Björgvinssyni (af öllum mönnum).

Lestu nú og lærðu Geir minn:

http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/5792

http://www.namsmat.is/vefur/rannsoknir/pisa_kynning2009.html

http://www.samband.is/verkefnin/skolamal/frettir---skolamal/nr/972

Framvegis færi betur að þú kynntir þér málin fyrirfram áður en þú lætur glepjast af gasprinu í samspillta eilífðarstúdentinum Sighvati Björgvinssyni.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 10:30

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Hilmar,

Þakka þér fyrir tenglasafnið. Ég sé samt ekki að það nái lengra aftur en til ársins 2000 og því algjörlega ónothæft þegar talað er um þróun til lengri tíma, nema eitthvað hafi farið framhjá mér. Og hvar kemur fram að meira en fjórði hver nemandi geti lesið sér til skilnings?

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 11:34

6 identicon

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 11:34: Hvaða dæmalausa bull er þetta í þér Geir? Ertu heltekinn af ruglinu í Sighvati? Byrjaðu nú á því að kynna þér það efni sem tenglasafnið hefur að bjóða - lestu það vel yfir og lærðu.

Ef þessar upplýsingar eru ekki nóg fyrir þig er sjálfsagt fyrir þig að googla stöðu mála á síðustu öld. Þú kannt að leita að upplýsingum á netinu er það ekki?

Staðreyndin er sú að niðurstöður PISA-könnunar 2009 sýna að íslenskir nemendur standa í fremstu röð í lesskilningi á alþjóðavísu - og þeir eru framúrskarandi í tæknilestri.

Þetta gerist þrátt fyrir Hrun 2008 og blóðugan niðurskurð í menntamálum á Íslandi. Reyndu svo að vera maður til að biðjast afsökunar á að gleypa bullið í samspillta ríkisjötuáskrifandanum hrátt.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 12:44

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Hilmar,

Þú verður að sýna biðlund. Ég hef núna fengið heilu skýrslurnar frá þér til yfirlestrar og það tekur tíma. Mér þætti vænt um að þú sparir uppnefnin, þau draga athyglina frá boðskap þínum: Skýrslurnar sem þú vísar í segja eitthvað annað en þeir sem hafa greinilega ekki lesið þær spjaldanna á milli.

Var raunar að lesa frétt í dönsku blaði þar sem þemað er þetta: Danskir nemendur lélegir að lesa (því þeir nenna því ekki). Einnig: Danskir nemendur lesa að jafnaði jafnvel og meðaltalið í OECD-löndunum (íslenskir nemendur hænuskrefi fyrir ofan, og þeir 3. bestu af Norðurlöndunum).

Eitthvað finnst mér innihald þessarar fréttar og yfirlýsingar þínar stangast á. En þú ert auðvitað ekki búinn að vísa mér nákvæmlega á þann stað í skýrsluverkinu sem þú vísar til.

Og auðvitað lesa íslenskir nemendur vel á "alþjóðavísu", efast ekki um það, enda kostar ekki 1,3 milljónir á ári að rúlla skólabarni í gegnum skólakerfið í, segjum, Úganda. Þegar "alþjóðavísu" er þrengt niður í OECD-löndin, þá virðist meðaltalið samt þurfa að duga íslenskum nemendum og Norðurlöndum öllum ef Finnar eru undanskildir.

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 13:20

8 identicon

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 13:20: Eitthvað virðist lesskilningurinn vera í slakari kanntinum hjá þér Geir. Þú heldur áfram að spóla í sama hjólfarinu og býsnast yfir kostnaði við að rúlla skólabarni í gegnum íslenska skólakerfið!

Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum heimi Geir. Góður árangur kostar sitt og ég vil vinsamlegast minna þig á þá döpru staðreynd að laun grunnskólakennara eru einungis 60 - 70% af launum kollega þeirra á Norðurlöndum - og kaupmátturinn allt annar, eins og brottflognir verkfræðingar ættu að skilja.

En úr því að þér virðist fyrirmunað að stauta þig í gegnum helstu niðurstöður PISA 2009 þá eru þær hér:

Niðurstöður PISA rannsóknarinnar 2009

Íslenskir nemendur bæta stöðu sína í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum nýrrar PISA rannsóknar á lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði á meðal 15 ára nemenda.

Ísland hefur tekið þátt í rannsókninni fjórum sinnum, fyrst árið 2000, og hefur lesskilningi íslenskra nemenda hrakað í hvert sinn sem mælingin hefur verið gerð síðan, þ.e. árin 2003 og 2006. Niðurstöðurnar fyrir árið 2009 gefa von um að Ísland sé á réttri leið og eru keimlíkar niðurstöðum árið 2000. Nemendur í 10 löndum af 68 koma betur út í lesskilningi en íslensku nemendurnir og 8 ef aðeins eru talin OECD löndin 33.

[Til að einfalda þetta fyrir verkfræðinginn þá sýna niðurstöðurnar fram á að íslenskir nemendur eru í 11 sæti í lesskilningi af 68 löndum sem könnunin nær til og 9. sæti af 33 löndum innan OECD - tæpast miðjumoð eins og verkfræðikunnátta þín hefur fengið þig til að halda fram. Innsk. mitt]

Niðurstöðurnar benda til að lesskilningi og læsi í stærðfræði sé vel sinnt í grunnskólum landsins. Þrátt fyrir að frammistaða íslenskra nemenda í læsi á náttúrufræði hafi batnað lítillega frá síðustu mælingu, árið 2006, eru þeir enn undir meðaltali OECD landanna líkt og nemendur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Mikill munur er á frammistöðu innflytjenda og innfæddra sem er sérstakt áhyggjuefni. Líkt og árið 2006 er ekki marktækur munur á frammistöðu drengja og stúlkna í stærðfræði og náttúrufræði.

Helstu niðurstöður

  • 10 lönd af 68 eru með marktækt betri frammistöðu en Ísland í lesskilningi í PISA 2009 og 8 OECD lönd af 33 hafa marktækt betri lesskilning.
  • Ísland stendur í stað í stærðfræði og náttúrufræði frá fyrri rannsóknum, er í 11.-13. sæti í stærðfræði af OECD löndunum en í 20.-25. sæti í náttúrufræði.
  • Finnland sýnir enn frammistöðu sem er með því besta sem sést í allri rannsókninni. Dregið hefur saman með hinum fjórum Norðurlöndunum, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku í öllum greinum. Ísland og Noregur hafa sýnt framfarir frá 2006, sérstaklega í lesskilningi, en Danmörk hefur staðið í stað og Svíþjóð hrakað.
  • Breytileiki á milli árangurs skóla á Íslandi hefur aukist verulega á síðustu árum og Ísland er ekki lengur á meðal þeirra landa sem hafa allra minnstan mun á milli skóla, eins og áður var. Þannig hefur Ísland færst frá öðrum samanburðarlöndum eins og Noregi og Finnlandi þar sem lítill munur er á milli skóla. Fyrri PISA rannsóknir hafa sýnt jákvæða fylgni á milli jöfnuðar og góðs árangurs líkt og hjá Finnlandi sem verið hefur með einna minnstan breytileika í árangri milli skóla ásamt því að skora hæst að meðaltali.
  • Líkt og árið 2006 reyndist ekki vera til staðar kynjamunur í stærðfræði og náttúrufræði á meðal 15 ára nemenda á Íslandi. Í lesskilningi standa stúlkur ennþá drengjum framar, á svipaðan hátt og í nágrannalöndunum. Árið 2003 var Ísland eina landið þar sem stúlkur mældust marktækt hærri í stærðfræðitengdu efni og var kynjamunur í lesskilningi stúlkum í vil með því hæsta meðal þátttökuþjóða. Árið 2009 er kynjamunur í lesskilningi með allra minnsta móti eða svipaður og árið 2000. Árið 2003 stóðu íslenskar stúlkur sig talsvert betur í stærðfræðilæsi en drengir. Stúlkurnar koma nú verr út en drengirnir sem standa í stað.
  • Talsverður munur er á frammistöðu á Íslandi eftir landshlutum í öllum greinum og er hún best á höfuðborgarsvæðinu. Mestur hópamunur er á frammistöðu innflytjenda samanborið við innfædda í lesskilningi.

Enn og aftur óska ég eftir afsökunarbeiðni frá þér fyrir að fara með fleipur og staðlausa stafi í stað þess að kynna þér málefnið áður en að þú tjáir þig um það - eins og sönnum menntamanni ber jú að gera, jafnvel þó hann sé útskrifaður úr HÍ.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 14:46

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Hilmar,

Þakka þér fyrir þennan útdrátt, hann hjálpar mikið í þessu PISA-umhverfi öllu saman. Og vitaskuld biðst ég afsökunar ef ég flaggaði einhverjum staðreyndarvillum.

Það sem vantar hins vegar er að hrekja það sem margir vilja meina um lesskilning barna í gegnum áratugina (en það var fyrst og fremst það sem fyrrverandi ráðherra var að vísa í, en ekki þróun lesskilnings í alþjóðlegu samhengi seinustu 10 ár).

Nú er ég ekki nógu gamall (ennþá) til að geta tjáð mig um lesskilning barna marga áratugi aftur í tímann, en óneitanlega hafa margir það á tilfinninginni að börn lesi minna og séu síður læs en í "gamla daga". Þetta hef ég heyrt fleiri en fyrrverandi ráðherra halda fram.

En þetta er væntanlega önnur umræða en sú sem þessi hefur snúist upp í: Að bera saman 2-3 skólaárganga seinustu 10 árin.

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 14:58

10 identicon

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 14:58: Ágæti Geir. Þú ert maður að meiri að biðjast afsökunar á að vitna í Sighvat Björgvinsson. Þessum fyrrverandi fjármálaráðherra (sem betur fer einungis í nokkra mánuði) munaði ekki um að falsa stöðu ríkiskassans fram yfir áramót til að fegra embættisverk sín.

Það vill svo til að ég þekki af eigin raun íslenskukennslu í grunnskólum landsins allar götur aftur til 1975. Ég get fullvissað þig um að lestri íslenskra skólabarna hefur ekki hrakað - þvert á móti. Íslensk skólabörn lesa mun meira í dag en þau gerðu fyrir 30 - 40 árum. Málið er að þau lesa á annan hátt.

Lestur bóka hefur að sönnu dregist eitthvað saman en lestur myndmáls hefur hins vegar stóraukist. Vinsamlegast athugaðu að lesskilningur byggist ekki bara á hæfileikum á að lesa merkingu út úr bókstöfum heldur einnig myndmáli hvers konar, tölum, gröfum, súluritum o.þ.h.

Í þessu sambandi í mjög mikilvægt að fagna þeirri staðreynd að íslenskir nemendur eru í fremstu röð í PISA 2009 í upplýsingatækni - úrvinnslu rafrænna gagna. Það er framtíðin en ekki bóklestur.

Þú ert væntanlega að lesa þetta svar mitt á vefnum er það ekki?

Málið er bara það að það fer óendanlega í taugarnar á mér þegar trénaðir fjórFLokkshestar á ríkisjötuenginu eru að þusa um málefni sem þeir hafa engan skilning á. Ég vona svo sannarleg að þú berir gæfi til að villast ekki út í samspillta ruglfenið aftur - þú gætir endað í Kabúl, rafmagnslaus og allslaus.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 17:09

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Hilmar,

Ég vil byrja á að þakka þér fyrir að leggja á þig að fræða mig um þessi mál. Ég er fróðari fyrir vikið.

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 18:58

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Og já sem sagt í öðru lagi tel ég næstum því augljóst að mikil sóun á sér stað í menntakerfinu allt frá grunnskóla upp í háskóla og gæti skrifað um það langa pistla en það þarf að bíða seinni tíma (er að reyna koma stóra stráknum á heimilinu í rúmið og það þarf víst að vera í forgangi).

Geir Ágústsson, 13.2.2012 kl. 19:01

13 identicon

Ég skil grein Sighvats sem spurningu fyrst og fremst. Mér sýnist hann vilja vita hvernig stendur á því að 10 ára vinna og 13 milljón króna útgjöld ríkissjóðs duga ekki til að kenna barni að lesa. Það myndi ég líka vilja vita.

Það er nú ekki eins og að kennarar séu að reyna eitthvað glænýtt undir sólinni. Ritmál er ekki beinlínis nýjasta tækni. Árþúsundum saman hafa menn kennt börnum að lesa án þess að verða þess varir að verkefnið væri sérstaklega flókið eða torleyst. 

Kannski áttuðu þeir sig bara ekki á því af því að þeir voru ekki með meistaragráðu í menntavísindum.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband