Hver er fyrirmynd barnanna?

[Börn eru] skömmuð fyrir að lesa ekki en skorti lesandi fyrirmyndir og lítil virðing sé borin fyrir barnabókmenntum.

Og hvað er til ráða? Jú, stofnum setur!

Sem foreldri sem þekkir vel til lítils lesáhuga barna (hjá einum 7 ára strák) og kannast við margt sem kemur fram í þessari frétt. Áhuginn á lestri er lítill. Áhuginn á tölvuleikjum er mikill. Að lesa og skrifa er ekki eftirlætisiðja barnanna. Það er miklu auðveldara að nota stýripinnann.

Og auðvitað vill maður að barnið sitt lesi meira.

En er lausnin að stofna eitthvað setur? Nei.

Sjálfur les ég mikið. Reyni raunar að lesa við hvert tækifæri. Barnið furðar sig stundum á þessu. "Hvað ertu að gera?" og "hvað ertu að lesa?" eru algengar spurningar á mínu heimili. 

(Þess má geta að ég les á lestölvu, sem er æðislegt! ...en bara ef maður nennir að lesa á annað borð.)

En það er ekki nóg. Minn lestur á myndskreytingarlausum stjórnmálaheimspekiritum vekur mjög takmarkaðan áhuga barna. 

Ég les fyrir stóra ungann minn, helst á hverju kvöldi. Það finnst honum stórkostlega skemmtilegt. Skiptir í raun litlu máli hvað það er sem ég les, alltaf er eftirvæntingin eftir "lesitímanum" mikil. Aðalatriðið er að slíta ungann frá tölvunni eða sjónvarpinu og koma sér vel fyrir upp í rúmi eða sófa og eiga huggulega stund saman. Ég er oft spurður að því hvar þetta orð eða hitt er sem ég er að lesa. Ég rekst oft á orð sem eru erfið fyrir 7 ára heila og get þá útskýrt þau. Þetta kemur smátt og smátt og er þolinmæðisvinna, en ég geri mér fulla grein fyrir því að ef ég vil að minn ungi læri að meta lestur, þá er það mitt hlutverk sem foreldri að kenna honum það. Setur á Akureyri nýtist mér ekki, og að ég held engum.

Hitt er svo annað mál að flestar barnabækur eru rusl. Söguþráðurinn er oftar en ekki alltof flókinn með alltof mörgum persónum, eða algjörlega út í bláinn, og stundum bæði. Stundum er eins og barnabækur séu skrifaðar fyrir hálfvita, svo ég segi það hreint út. Stundum er eins og eini tilgangur þeirra sé að koma einhverju á prent. Oft eru það litskreyttustu myndabækurnar sem hafa rýrasta innihaldið, á meðan þær "einföldu" og svarthvítu bjóða upp á eitthvað bitastætt. 

Lestur er góður, hollur og getur varla haft neinar neikvæðar afleiðingar í för með sér. En hið sama gildir um neyslu grænmetis og notkun hlýrra yfirhafna þegar kalt er í veðri. Allt þetta eiga börn að læra, og það er hlutverk foreldra að kenna þeim það, en ekki ríkisstarfsmanna á einhverjum setrum.


mbl.is Barnabækur settar í öndvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband