Fimmtudagur, 17. nóvember 2011
Bjarni eða Hanna: Póteitó, pótató?
Ég ætla núna að slást í hóp þeirra sem eru ekki í Sjálfstæðisflokknum en finnst engu að síður nauðsynlegt að tjá sig um formannskjör sjálfstæðismanna um helgina, og þá möguleika sem standa þeim til boða í því.
Í mínum huga er lítill munur á Hönnu Birnu og Bjarna. Þau eru bæði svokallaðir "hagsmunamats"stjórnmálamenn sem skipta um skoðun (eða þegja um skoðanir sínar ef þeim finnst þær vera umdeildar) nánast eftir því hvernig vindar blása.
Hanna Birna tók að sér að vera fundaritari vinstrimannanna í Reykjavík þegar Versti flokkurinn og Samspillingin náðu þar völdum. Hanna var lengi að koma út úr skápnum sem andstæðingur ESB-innlimunar Íslands og raunar Icesave líka, og hver veit hvaða skoðun hún fær á ESB seinna, ef vindar byrja að blása öðruvísi. Og var Hanna ekki að kjósa með "láni" Reykjavíkur-borgar til Hörpu-fjársugunnar núna í vikunni? Hvar er virðingin fyrir fé skattgreiðenda?
Bjarni ískaldi ákvað að styðja Icesave III eftir að hafa vegið og metið pólitískt landslagið á sínum tíma. Bjarni var líka lengi að lýsa því yfir að hann væri andstæðingur ESB-innlimunar. Pískurinn á þingmenn flokks síns á Alþingi hefur líka verið mjúkur og sparlega notaður. Stjórnarandstaða hans hefur verið sveiflukennd í besta falli.
Hanna og Bjarni eru ágæt að koma fyrir sig orði og líta vel út í viðtölum. Sjálfstæðismenn þurfa samt ekki að óttast að annað hvort þeirra muni leiða flokkinn til glötunar og hitt til nýrrar gullaldar. Bæði munu þau tryggja að flokkurinn haldi sínu og kannski aðeins betur en það (ekki annað hægt með svona lélega ríkisstjórn en að bæta við sig fylgi). Hanna höfðar e.t.v. til fleiri því hún er kona og með ljóst hár á meðan Bjarni gæti höfðað til annarra af því hann er karlmaður með snyrtilegt hár.
En munurinn á þeim? Póteitó, pótató?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Facebook
Athugasemdir
Munurinn á frambjóðendum er einna helst sá að annar er með talsvert meiri fortíðarfarangur og hagsmunatengsl en hinn. Það vegur enda mjög þungt í mati fólks. Hvað sem flokksþingið gerir, þá fer það eftir áliti almennra kjósenda hvaða traust hann hlýtur. Menn verða því að vanda valið.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2011 kl. 14:42
Sæll.
Ég er alveg sammála því sem þú segir um þau bæði, það er ekki mikill fengur að þeim. Þriðja frambjóðandann vantar, einhvern sem er mun meiri frjálshyggjumaður en þau tvö.
Mér finnst þau bæði hafa afskaplega lítinn skilning á efnahagsmálum og ekki mikið prinsipp fólk. Hanna Birna sagði víst sem svo fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar að hún væri stolt af framlagi borgarinnar til Hörpunnar og þar með missti hún mitt atkvæði. Einnig sagði hún afar vanhugsaða hluti um evruna og Grikki um daginn. Það var líka afar furðulegt af henni að reyna að vera báðu megin borðsins sem forseti borgarstjórnar. Vel má vera að fylgi flokksins aukist ef hún verður formaður en flokkurinn breytir sennilega nánast ekkert um stefnu. Ég er því í mestu vandræðum varðandi það hvernig ég ráðstafa mínu atkvæði næst þegar kosið verður :-(
Bjarni er á hinn bóginn alveg vonlaus, vegna afstöðu hans í Icesave III verður hann að fara. Hann hefur einnig verið hallur undir ESB. Kallaði Dabbi hann ekki hlaupadreng Jóhönnu og Steingríms? Hann vill bara kosningar í stað þess að einbeita sér að málefnunum. Bjarni á að heita lögfræðingur en samt virtist hann ekki geta skilið eðli Icesave deilunnar frekar en snillingarnir í ESB sem gátu ekki farið að eigin reglum í því máli.
Bjarni verður að hætta sem formaður, hann nýtur ekki meira trausts en verstu stjórnmálamenn landsins en fattar samt ekki neitt. Kannski hefur hann ekki að neinu öðru að hverfa frekar en margir á þingi og því halda þeir í þingsæti sitt með klókindum í stað þess að fylgja eftir málum?
Helgi (IP-tala skráð) 17.11.2011 kl. 18:17
Jón / Helgi,
Ég er sammála ykkur báðum. Flokkurinn hefði sennilega gott af formannsskiptum, og úr því að menn geta ekki valið á milli góðs og lélegs einstaklings hugmyndafræðilega, þá er eins gott að velja bara þann með meiri kjörþokkann.
Geir Ágústsson, 18.11.2011 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.