Laugardagur, 19. mars 2011
Áhætta af því að hafna Icesave-lögunum: Lítil
Eftir að hafa horft á viðtal við ritara EFTA-dómstólsins og erindi eftir Reimar Pétursson hrl. (sjá hvort tveggja hér) þá sýnist mér eftirfarandi vera hugsanleg röð atburða ef og þegar Íslendingar hafna Icesave-lögum Samfylkingarinnar 9. apríl næstkomandi:
- EF EFTA-dómstóll dæmir Ísland brotlegt á EES-sammningum (á sama hátt og ESA hefur gefið út í áliti)
- ... og EF ráðstafanir íslenska ríkisins til að koma í veg fyrir samskonar brot í framtíðinni í kjölfarið eru Bretum og Hollendingum ekki að skapi
- ... og EF þeir ákveða í kjölfarið að höfða skaðabótamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
- ... og EF sá dómstóll telur brot íslenska ríkisins uppfylla allar hinar ströngu kröfur um bótaskyldu
- ... og EF þrotabú Landsbankans á þessum tíma hrekkur ekki upp í hugsanlegar bætu
...þá þarf kannski að leggja eitthvað á herðar íslenskra skattgreiðenda vegna Icesave, en í íslenskum krónum og á hagstæðustu vöxtum sem völ er á auk þriðjungs afsláttar af þeim.
En annars ekki, nema Icesave-lögin verði samþykkt.
Þetta eru mörg og stór "EF" og þau þurfa öll að fara á versta veg til að svo mikið sem ein íslensk króna lendi á herðum íslenskra skattgreiðenda.
Svo vilja sumir "drífa málið af" með 670 milljarða stöðutöku á gjaldeyrismörkuðum með hina "handónýtu" og sveiflukenndu íslensku krónu! Jahérna, á bak við slíka skoðun getur ekki legið annað en sterkt pólitískt hagsmunamat (sem fellur fullkomlega saman við ESB-stefnu Samfylkingarinnar).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.