Fimmtudagur, 10. mars 2011
ESB-Icesave pillan: Þorir þú að taka hana?
Ég verð að játa að ég dáist að hugrekki þeirra sem vilja að Ísland gangi í ESB. Þar á bæ er sífellt verið að breyta reglum og stjórnskipan, og vægi Íslands á ESB-þinginu því í sífelldu uppnámi: Fer úr því að vera 4 menn af 736 þingmönnum (0,5% vægi) í 6 menn af 751 (0,8% vægi) eins og hendi sé veifað (báðar tölur að vísu agnarsmáar, en samt á sífelldu flakki). Fer úr því að ESB-þingið fær aukin völd í að framkvæmdastjórn ESB fær aukin völd, eða öfugt. Stundum á að efla stofnanir ESB, stundum á að efla miðstýringuna. Eða hvað? Er það öfugt? Hver veit. Tíminn mun leiða það í ljós.
ESB er fljótandi þörungasúpa ofan á ólgusjó - sífellt að breytast, ýmist að frumkvæði ESB-ríkjanna eða ESB-embættismannanna, en þó alltaf meira og meira í áttina að sambandsríki (hafa menn tekið eftir því að á Ryder Cup golfmótinu er bandaríska fánanum flaggað við hliðina á ESB-fánanum?). Menn geta kallað sig hugrakka að vilja þarna inn. Ekki þori ég því. Mér líður best að stjórna eigin örlögum. Að setja þau í hendur erlendra embættismanna er utan við þægindaramma minn.
Ég dáist líka að hugrekki þeirra sem vilja að íslenska löggjafarvaldið samþykki stærstu stöðutöku í íslensku krónunni í seinni tíð, byggt á gengi sem er haldið uppi með gjaldeyrishöftum. Nú er ég auðvitað að tala um að gera Icesave-kröfur Breta og Hollendinga að útgjaldalið íslenskra heimila. Ég hélt að margir hefðu brennt sig illa á stöðutöku í krónunni, og væru nú hættir slíku nema hafa tekjur í erlendri mynt. Ég hefði haldið að einhverjir þeirra Íslendinga sem lentu í vondum málum eftir stöðutöku í íslensku krónunni hefðu varað Alþingismenn við slíkum ævintýrum.
En nei. Þeir eru til sem vilja að ríkissjóður Íslands (sá sami og fjármagnar heilbrigðis- og menntakerfi landsins) sé settur á erlenda skuldabréfamarkaði, og látinn synda þar í ólgusjó, og ef allt fer illa þá er það íslenska krónan, í gjaldeyrishöftum, sem þarf að koma í staðinn fyrir hinar erlendu kröfur í hinum erlendu myntum.
Það vantar ekki hreðjarnar á þessa ESB-Icesave pilluætur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.