Jólin eru uppskeruhátíð kapítalismans

Má til með að birta hér jólahugvekju Smáfuglanna á AMX í heilu lagi, um leið og ég óska lesendum gleðrilegra jóla, sem er ekki bara trúarhátíð ýmissa trúarbragða heldur líka vegleg uppskeruhátíð kapítalismans. Mæli í leiðinni með þessari hugleiðingu ("Jólin eru hátíð kaupmennskunnar").

Gleðileg jól!

Um jólin tefla allir fram sínu allra besta hvort sem er í mat og drykk eða fatnaði og gjöfum. Skipulag vinnunnar er þannig að flestir geta tekið sér frí yfir hátíðarnar og notið samvista með fjölskyldu og vinum. Verðmætasköpunin er orðin slík að fólk hefur efni á gjöfum sem eldri kynslóðir létu sig aðeins dreyma um.

Kerti og spil voru vinsæl jólagjöf þegar smáfuglarnir tóku að fylgjast með jólunum. Það var á þeim tíma það besta sem fáanlegt var og kostaði mikla peninga. En hvað hefur breyst? Fyrst og síðast er það skipulag vinnunnar, tæknin og viðskiptin. Framleiðslan er orðin slík að rúm er til að taka sér frí um jólin og verðmæti eru afgangs til þess að gefa. Menn gera það sem þeir eru bestir í og skipta svo við aðra. Þannig hafa allir meira nú en áður.

Á jólunum eru kostir markaðshagkerfisins hvað sýnilegastir. Nóg er að horfa yfir hlaðið borð kræsinga þegar jólin hringja inn. Villibráð er frá Bretlandi, vín frá Ítalíu, maís frá Bandaríkjunum, ávextir frá Suður Afríku, tómatar frá Portúgal, ferskt krydd frá Ísrael og gosdrykkir úr Reykjavík. Þegar svo kemur að jólagjöfum eru leikföng barnanna frá Malasíu, Suður Kóreu, Indónesíu og Kína. Þeir sem hafa arin kveikja svo upp arinkubbi frá Bandaríkjunum og bæta við birki frá Egilstöðum. Svona mætti áfram telja.

Þúsundir manna koma að því að venjuleg íslensk fjölskylda haldi jólin eins og hún er vön. Sumir ala dýrin, aðrir slátra þeim, aðrir selja þau. Sumir rækta grænmeti en aðrir selja það á mörkuðum. Einhver fellir tré, aðrir vinna timbur í verksmiðjum og aðrir framleiða svo leikföngin. Aðrir sjá svo um að sigla vörum yfir heimshöfin, fljúga fersku grænmeti á milli landa og enn aðrir keyra gjafir heim að dyrum svo að fjölskyldan geti lagt undir jólatréð. Það er því um jólin sem frjálst markaðshagkerfi stendur undir nafni.

Jólin er líka stund friðar. Telja má að viðskipti séu öflugasta friðartækið sem völ er á. Viðskiptin fá milljónir manna, sem jafnvel hatast af trúarástæðum, til að vinna saman að framleiðslu og verðmætasköpun. Lönd ráðast heldur ekki á sínar stærstu viðskiptaþjóðir - enda lítið vit í því að ráðast á viðskiptavini sína.

Á þessum nótum óska smáfuglarnir lesendum gleðilegra jóla og megi þeir njóta hvers bita af jólamatnum - hvaðan sem er úr heiminum hann er kominn.

Gleðileg jól.


mbl.is Jólin eru einstök reynsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mæli með lestri og byrja á Das Capítal eftir Karl Max áður en þú heldur áfram að misskilja hugtök.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 25.12.2010 kl. 02:02

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Karl Marx var nú duglegur að misskilja hugtök sjálfur.

En svona til að valda ekki aðdáendum Karl Marx ruglingi þá skil ég orðið "kapítalisti" sennilega ekki eins og Karl Marx skilgreindi það upphaflega, heldur eins og flestir skilja hugtakið í dag í almennu tali. 

Geir Ágústsson, 25.12.2010 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband