Föstudagur, 29. október 2010
Áfram skulu skattgreiðendur píndir
Nánast alltaf þegar þingmenn eða opinberar nefndir ræða "þolmörk" skattgreiðenda og hvort það sé gerlegt að auka byrðina á skattgreiðendur enn frekar, þá er niðurstaðan sú að það sé fýsilegt að hækka skatta "aðeins meira".
"Tekjustofnanefnd" er engin undantekning frá þeirri reglu. Hún leggur til að skattar verði hækkaðir aðeins meira. Þegar skattahækkanir hennar eru komnar í gegn (það er engin fyrirstaða hjá stjórnvöldum að hækka skatta) þá verður aftur sest niður, möguleikar skattahækkana ræddir, og komist að sömu niðurstöðu.
En hvernig væri að rúlla þessu blessaða opinbera bákni á Íslandi nokkur ár til baka og sjá hvort það dugi ekki til að stöðva opinbera skuldasöfnun og aukna skattpíningu? Var Ísland árið 2005 til dæmis svo hrikalega "svelt" af opinberum umsvifum? Voru ekki spítalar og skólar á Íslandi þá? Hvernig væri að fara frekar þá leið og vinda ofan af skattkerfinu?
Vilja hækka útsvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll.
Það sorglega við þetta allt saman er að vinstri menn virðast engan veginn fatta að þessi hugmyndafræði þeirra um stórt ríkisbákn og mikla skattheimtu gengur ekki upp. Við sjáum skipbrot þessarar stefnu víða í kringum okkur og mjög vel hérlendis. Hvað veldur því að þetta fólk skilur ekki enn að þessi stefna þeirra er gjaldþrota og virkar ekki? Hún er margreynd en virkar ekki.
Hvers vegna sækja vinstri menn sífellt í að hefta frelsi einstaklinganna? Þetta helsi sem þeir virðast stefna að reyndist afar illa á miðöldum. Hvenær skilja þeir að stjórnmálamenn kunna illa að fara með fé almennings? Þetta er algilt lögmál sem er ekki bundið við eina þjóð eða heimsálfu. Lausnin er að láta stjórnmálamenn hafa lítið fé að sýsla með, þ.e. frjálshyggjan.
Hér hækka menn skatta og vexti og fullyrða svo drýgindalega í greinaflokkum að hagvöxtur sé hérlendis. Örfáum dögum síðar kemur svo annað á daginn. Finnst þessum ráðherrum engin þörf á að skoða sinn málflutning frá grunni þegar verueikinn er svona harkalega á skjön við þeirra hugmyndafræði og málflutning? Engin furða að fólk sé tekið að uppnefna þessa ráðherra.
Annað dæmi er blaðamannafundur ráðherra frá því mars í ár þar sem sagt var sem svo að skuldavandinn væri leystur og að nú þyrfti fólk bara að bera sig eftir björginni. Síðan þá hafa þúsundir fjölskyldna heldur betur fundið að hann er fjarri því að vera leystur. Svo ætla forystumenn ríkisstjórnarinnar að láta forstöðumenn lífeyrissjóða brjóta lög til að breiða yfir úrræðaleysi sitt. Hvenær fattar þetta fólk að það ræður ekki við vandann? Svo hefur líka verið á það bent að t.d. 20% lækkun mun engu redda nema í örfá ár og þá mun sami draugur vakna upp á nýtt vegna hárra vaxta, verðbólgu og verðtryggingar. Frysting lána fram í mars á næsta ári mun engu skila því nema fyrirséð sé að tekjur fólks muni hækka og það munu þær ekki vera vegna aðgerða ríkis og sveitarfélaga.
Hvað þarf til að kjósendur skilji að stjórnarliðar ráða ekki við vandann? Forystumenn ríkisstjórnarinnar tala út og suður í skuldamálunum, sumir hafa ekkert fram að færa nema boða fólk á fundi á meðan aðrir vilja skerða lífeyri fólks og að forystumenn lífeyrissjóðanna brjóti lög. Af hverju styður einhver þessa ríkisstjórn enn?
Helgi (IP-tala skráð) 29.10.2010 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.