Auðvitað! Þótt fyrr hefði verið

Að sjálfsögðu á að einkavæða OR, og það í hvelli. Fyrir því eru mörg rök. Dæmi:

  • Þannig má losa útsvarsgreiðendur og viðskiptavini OR við 250 milljarða skuld. Já takk
  • Þannig má losa OR undan pólitískum afskiptum, sem hafa kostað OR tugi og hundruði milljarða. Já takk
  • Þannig má losa OR undan opinberri umræðu, og fólk getur þá sagt álit sitt á rekstri OR með því að stunda eða stunda ekki viðskipti við fyrirtækið. Svona eins og fólk "tjáir" sig um Bónus og Krónuna
  • Þannig má hleypa lífi í íslenskan orkumarkað
  • Þannig má minnka líkurnar á að stjórnmálamenn ákveði kaup og kjör erlendra iðnfyrirtækja, og þau fari þess í stað að ákveðast af markaðslögmálum

Auðvitað eru til mótrök gegn einkavæðingu OR. Dæmi:

  • Ríkið á að eiga og reka orkufyrirtækin. Það er einfaldlega grundvallar mál
  • Rekstur OR varð fyrir tilviljun til þess að fyrirtækið óx í allar áttir, hafði stórkostlegt lánstraust í skjóli opinbers eignarhalds og safnaði skuldum sem aldrei fyrr. Slíkt er ekki dæmigert fyrir opinbert fyrirtæki eins og OR (eða Landsvirkjun eða Íbúðarlánasjóð eða Byggðastofnun eða...) og ber ekki að nota til að sverta mannorð opinbers eignarhalds
  • OR er "gullegg" sem má ekki selja

Fyrir mitt leyti segi ég: OR á sölu, núna strax. 


mbl.is SUS vill einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ættir kannski að kynna þér hvernig einkavæðing orkufyrirtækja annars staðara í heiminum hefur komið niður á þjónustu, verði og viðhaldi. Ég get nefnt England og ýmis svæði í Kanada, þar sem ég bý, sem dæmi. Þessi mistök hafa átt sér stað hér og orðið síst til hagsbóta fyrir almenning. Þegar einkavædd orkufyrirtæki eru búinn að vanrækja viðhald rafdreifkerfisins í áratugi, til að spara, væla þau í stjórnvöldum um styrki til að endurbyggja kerfið og hækka verðskrá upp úr öllu valdi. Þeir einu sem hagnast á þessu eru þeir sem kaupa orkufyrirtækin og er langt því frá að vera  samfélaginu, né iðnaði,  til hagsbóta.

Nei takk nóg komið af slíkri vitleysu.

Erlendur Konradsson (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 13:19

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Núna stefnir í að viðhald þurfi að skera niður, að verð þurfi að hækka og þjónustu þurfi að minnka við þá sem skipta við OR. Að auki fellur 250 milljarða skuld á viðskiptavini OR og/eða skattgreiðendur í sveitarfélögum sem eiga í OR.

Víða um hinn vestræna heim hafa orkufyrirtæki verið "einkavædd" en þau síðan látin fylgja ströngum reglum t.d. verðlagshöftum sem afskræma stórkostlega samspil framboðs og eftirspurnar. Slíkt veldur því að orkufyrirtæki, ólíkt öllum fyrirtækjum sem eru ekki bundin slíkum kvöðum, fjárfesta ekki "í framtíðinni" með viðhaldi, endurnýjun og öðru slíku.

Eða halda menn að markaðslögmálin gildi bara um sjoppur og húsgagnaverslanir og farsímarekstur og að það sé hrein tilviljun að fyrirtæki með sjálfstæða kennitölu en ósjálfstæða verðskrá slaki á í viðhaldi og öðru slíku?

Geir Ágústsson, 20.9.2010 kl. 13:37

3 identicon

Ég get vel skilið að SUS vilji koma OR undan áhrifum þeirra sem eru ofar í goggunarröðinni innan þeirra eigin flokks og þeirra samstarfsflokka.  Vandamál OR tengist skorti á ráðdeild og hófsamri fyrirhyggju!  Raforkudreifing til almennings og smærri fyrirtækja á að öllu leiti að vera aðskilin framleiðslu, dreifingu og sölu til stór notenda. Almenn framleiðsla og dreifing er ekki áhætturekstur nema að litlu leiti.

Ég er alfarið mótfallinn því að orkuvinnsla, vatnsveita og raforkudreifing til almennings sé einkavædd. 

Frelsið sem EES samningurinn bauð upp á og aukið fjármagnsfrelsi er ekki að mínu mati stærsta ástæðan fyrir hruninu, það regluverk sem tryggir að frelsið sé ekki á kostnað og áhættu annarra var aldrei til staðar og er enn í dag ekki til staðar.  Þegar að það kemur að peningum þá má ganga út frá því sem vísu að nægjanlega stór hópur mannskyns er þannig innréttaður að hann mun án umhugsunar skara eld að eigin köku án umhugsunar um hag annarra, þetta er ekki sér íslenskt, þetta er alþjóðlegt.  

Í Bandaríkjunum þar sem ég bjó eitt sinn var búið að einkavæða raforkuna.  Ef ég man rétt þá var því haldið fram af íbúunum að afraksturinn var jafnaðar 25% hækkun á rafmagni og engin raunveruleg samkeppni á neytendamarkaði (raforkufyrirtækin tróðu ekki hvert öðru um tær).  Virgíníubúar eru ekki Kommar, bara til að fyrirbyggja allan misskylning, þeir eru að jafnaði langt til hægri við allt sem kallast öfga-hægri hér á landi.   Dreifikerfið var munaðarlaust svo í óefni stefndi m.t.t. raforkuöryggis.  

Það er lítil von á raunverulegri samkeppni þegar dreifikerfið er svo dýrt að litlar líkur eru á að samkeppnisaðilar byggi upp fleiri en eitt kerfi hlið við hlið, eða að þeir byggi hvert sitt orkuver.  

Samkeppni er góð ef um er að ræða raunverulegt val, ég fæ ekki séð að um raunverulegt val verði að ræða á veitumarkaði ef Orkuveitan verður einkavædd m.t.t. almennra neytenda.  Frjálst aðgengi að veskinu mínu fyrir einkavætt OR  yrði hinsvegar sennilega það eina frelsi sem tryggt yrði.

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 13:43

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjorn,

Ef raforkuverði er haldið niðri með ríkisstyrkjum og fjarveru fjárfestinga í uppbyggingu og viðhaldi, þá vitaskuld þarf nýtt einkavætt fyrirtæki sem rís á slíkum rústum að gera eitthvað til að gera reksturinn sjálfbæran. Það er ein ástæða verðhækkana eftir einkavæðingu.

Ef einkavætt fyrirtæki er undir verðlagsstýringu sett, þá þarf fyrirtækið að bregðast við með því að t.d. sleppa fjárfestingum í auknum afköstum og þannig sjá fram á "blackouts" og fleira slíkt (dæmið í Kaliforníu). 

Mönnum hættir við að líta á kerfið í dag sem draumakerfið sem þurfi að byggja framtíðina á. Það er samt ólíklega staðan. Það þarf að vinda ofan af ýmsu, leggja niður hér og byggja upp þar, og þetta þarf að gerast með fjárfestingum og réttri verðskrá. Og vitaskuld í lagaumhverfi þar sem

  • litlar sem engar hömlur eru settar á innkomu á markaðinn
  • fyrirtæki geta rukkað á sama hátt og önnur fyrirtæki í samkeppnisiðnaði (eins hátt og hægt er, en án þess að tapa kúnnum til samkeppnisaðila)
  • engar ríkisábyrgðir finnast (svo gjaldþrota fyrirtæki geti farið á hausinn)

 Ekkert af ofangreindu á við íslenskan raforkumarkað.

Ef pólitískur raunveruleiki setur svo þau takmörk á einkavæðingu OR að t.d. dreifikerfi verði áfram í eigu opinberra aðila, þá það. Þá verður það bara nýtt fórnarlamb áhættufjárfestinga. En þeim mun minna sem eignarhluti hins opinbera er í einhverjum (eða þeim mun minni sem ríkisábyrgð er á lántökum einkaaðila), því minna af eignum er til að hlaða skuldum ofan á.

Geir Ágústsson, 20.9.2010 kl. 13:57

5 identicon

Merkilegt hvað margir íslendingar halda að þeir séu klárir og geti framkvæmt hluti sem margsinnis hafa ekki virkað sem skyldi annars staðar i heiminum.

"Litlar sem engar hömlur eru settar á innkomu á markaðinn". Ertu búin að gleyma að þetta var ein helsta ástæðan fyrir fjármálahruninu í Bandaríkjunum?

Hreint markaðskerfi er útópía sem er ekki til, og verður ekki til, í raunveruleikanum. Mannskepnan er almment of siðblind og gráðug til að það geti gerst. Samfélög geta ekki byggt á infrastruktúr sem skiptir um eigendur eða fer á hausinn á 5 ára fresti þegar "markaðurinn"er látinn sjá um hlutina.

Einkavæðing OR er fásinna.

Erlendur Konradsson (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 16:11

6 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Óttast þú ekki að vextirnir á skuldum OR muni hækka svo mikið við einkavæðingu að það geri fyrirtækið órekstrarhæft?

Þarf borgin þá ekki að setja milljarða í OR áður en það er selt?  Hver væri þá skammtíma ávinningurinn fyrir fólk svona í miðri kreppu?

Ég er á móti einkavæðingu orkufyrirtækja áður en við vitum hvert við viljum stefna.  En um að gera að halda umræðunni lifandi.

Lúðvík Júlíusson, 20.9.2010 kl. 18:52

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Erlendur,

Gleymir þú ekki ríkisábyrgðunum? 

Lúðvík,

OR á bara að selja fyrir skuldunum. Þær eru hvort eð er á ábyrgð eigenda OR og greiðast þá upp með sölunni. Nú eða setja OR í gjaldþrotaskipti.

Geir Ágústsson, 20.9.2010 kl. 21:19

8 identicon

Sæll.

Mér líst firnavel á þessa hugmynd. Ég held að betra sé að setja OR í gjaldþrotaskipti, þeir sem lána svona rosalega mikið verða líka að bera ábyrgð á sínum lánveitingum.

Ætli menn séu tilbúnir að kaupa fyrirtæki sem er skuldum vafið eins og skrattinn skömmunum? Erum við þá ekki í raun bara að tala um að lánveitendur OR taki við fyrirtækinu?

Það er nánast sama hvert litið er, alls staðar sjá menn hve illa hið opinbera stendur sig og hve ábyrgðarlaust stjórnmálamenn eyða af sjóðum almennings.

Jon (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 22:58

9 Smámynd: Steinarr Kr.

Má ekki byrja á að einkavæða fituna utan af, eins og Gagnaveituna, risarækjurnar og þetta allt sem Don Alfredo ætluðu að slá í gegn í bíssness með skattféð komu á.

Síðan einkavæða þjónustu orkuna, þ.e. það sem á að selja til stóriðju og annars orkufreks iðnaðar.

Næst losna við veiturnar hér og þar um landið.

Skilja eftir mikið minna fyrirtæki sem hefur það eitt hlutverk að sjá borgarbúum fyrir vatni og rafmagni, en ekki að greiða "arð" til að fegra reikninga borgarsjóðs?

Steinarr Kr. , 24.9.2010 kl. 18:03

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Steinarr,

Þetta var upprunalega hugmyndin. Hún var sú að sameina veitur Reykjavíkur í eitt fyrirtæki, minnka yfirbyggingu og halda áfram að sinna kjarnarekstri sínum á hagkvæmari hátt. En niðurstaðan varð bara eitt stórt og mikið fyrirtæki með miklu meira lánstraust, og það lánstraust var nýtt til fullnustu.

Svipaða sögu má segja af sameiningu sveitarfélaga - þar hefur hugsunin verið sú að minnka yfirbyggingu og styrkja innviðina, en niðurstaðan orðið stærra bákn með meira lánstraust, og það lánstraust síðan kreist í botn.

Geir Ágústsson, 27.9.2010 kl. 09:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband