Loforð, svikin og efnd

Þeir Íslendingar sem aðhyllast málstað hollenska og breska ríkisins í Icesave-"deilunni" segja gjarnan að Íslendingar séu skuldbundnir því það var jú Geir H. Haarde sem lofaði fé úr vösum íslenskra skattgreiðenda á sínum tíma, og við það verði að standa.

Síðan hafa stjórnvöld ítrekað reynt að ná "samkomulagi" við Breta og Hollendinga, sem minna Íslendinga gjarnan á þeirra eigin "rök" fyrir því að "semja" yfir höfuð, sem sagt að Geir H. Haarde hafi sagt eitthvað á sínum tíma.

En er ein ríkisstjórn bundin af loforði fráfarandi ráðherra annarrar ríkisstjórnar? Mér sýnist ekki. Núverandi ríkisstjórn hefur til dæmis haft formleg og óformleg loforð fráfarandi ríkisstjórnar að engu í svo mörgum málum. Virkjanaframkvæmdir stöðvaðar, samningar við erlenda fjárfesta settir í pólitískt uppnám, sótt um inngöngu í ESB þvert á kosningaloforð, og svona má lengi telja. Loforð er bara loforð þar til það er efnt eða svikið, og miðað við öll "svik" ríkisstjórnarinnar í svo mörgum málum, hvers vegna þá ekki að svíkja vilyrði Geirs H. Haarde? Hvað gerir það tiltekna loforð svona heilagt, annað en pólitískur undirlægjuháttur við Breta og Hollendinga?

Núna ferðast forseti Íslands um heiminn og talar um ósanngjarnar kröfur Breta og Hollendinga. Steingrímur J. ferðast til Hollands og talar um "skuldbindingar Íslendinga". Þetta tvennt heyra útlendingar og hljóta að undra sig á því hvað sé eiginlega í gangi í íslenskri pólitík.


mbl.is Steingrímur: Íslendingar munu borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Glöggt er gests augað er sagt og það þarf ekki að vera svo glöggt til að sjá að hér er ekki stjórnun hún er í molum og ekkert gert að viti alþingi orðin að stórum sandkassa sem börnin leika sér í og kasta sandi í allar áttir!

Sigurður Haraldsson, 18.9.2010 kl. 11:33

2 identicon

Einhver "meint" loforð hafa ekkert að segja í alþjóðasamningsgerð stjórnvalda eins og í þessu tilfelli.  Engin nema meirihluti þingheims getur gert ríkissjóð ábyrgan og þá ekki fyrr en eftir að lagafrumvarp þess eðlis hefur verið undirritað af forsetanum.  Það er einfaldlega ástæða þess að engin samningur er fyrir hendi og engin ríkisábyrgð.  Þegar Brusselviðmiðin með Breta sem þriðju aðila í þríhliða samningagerð voru ákveðin, undirrituðu hollensk og íslensk stjórnvöld plagg sem segir að allar fyrri samningaviðræður væru ógildar.  Það hefði alveg eins getað verið okkur óhagstætt að gera eins og þeim, ef einhver lagaleg skuldbinding hefði fylgt.  Á þeim tímapunkti voru samningaviðræður núllstilltar.  Allt rugl um að minnismiði (MoU) væri samnings ígildi er einfaldlega rangt.  Hann var einungis staðfesting á hvað þjóðirnar hefðu sammælst á þeim tímapunkti viðræðnanna, og frá þeim stað yrði haldið áfram.  Þeim var ekki lokið, enda var engin samningur kominn á, frekar en nú.  Hverju veldur ef lög segja að svo ætti að vera eins og borgunarsjúkir fullyrða?  Svavar Gestsson af öllum sagði við yfirheyrslur fyrir fjárlaganefndinni að minnismiðinn (MoU) hafi aðeins verið minnismiði og hafði ekki nein áhrif á áframhaldandi samningagerð.

Sigurður Líndal prófessor í lögum, skýrir afar vel lagalega hlið samningagerðar eins og umræðir, og hrekur rökleysur borgunnarsinna í grein skrifaða vegna rangfærslna Jóns Baldvins Hannibalssonar.  Engum hefur tekist að hrekja hans skrif frekar en félaga hans Stefáns Más Stefánssonar prófessors í lögum og Evrópulagasérfræðingi og Lárusar Blöndal hrl. og samningamaður í nýju samninganefndinni, eða yfirleitt reynt slíkt.

Sigurður Líndal skrifar.:

"Nú liggja fyrir fjölmargar yfirlýsingar forvígismanna Íslendinga um stuðning við tryggingarsjóð, nánar tiltekið að aðstoða sjóðinn við að afla nauðsynlegs fjár – meðal annars með lántökum – svo að hann geti staðið við skuldbindingar um lágmarkstryggingu innistæðna. Ef orð kynnu að hafa fallið á annan veg, geta þau ekki fellt ábyrgð á ríkissjóð, þar sem slík ábyrgð verður að hljóta samþykki Alþingis. Í mikilvægum milliríkjaviðskiptum er gengið úr skugga um umboð og réttarstöðu viðsemjenda, þannig að þetta hefur bæði Hollendingum og Bretum verið ljóst. Reyndar skiptir grandleysi ekki máli – slíkt loforð er ekki bindandi."

"En ef Jóni Baldvini er annt um sjálfsvirðingu sína, ætti hann að gefa orðum sínum gaum. Með ummælum um bindandi yfirlýsingar íslenzkra ráðamanna um ríkisábyrgð – þótt hann hafi ekki fundið þeim stað – er hann að saka þá um að virða ekki stjórnarskrána. Ríkisábyrgð hlýtur að fylgja lántaka og fyrir henni verður væntanlega setja tryggingu og til þess þarf samþykki Alþingis, sbr. 40.-41. gr. stjórnarskrárinnar, sbr einnig 21. gr. Ráðherra sem hefði gefið yfirlýsingu um stórfelldar fjárhagsskuldbindingar með ábyrgð íslenzka ríkisins án fyrirvara um samþykki þingsins kynni að baka sér ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og verða stefnt fyrir Landsdóm. Jón Baldvin er með orðum sínum að saka forystumenn Íslendinga, þar á meðal ráðherra um stórfelld lögbrot. Þrátt fyrir það að vera ekki bindandi er augljóst að slíkar yfirlýsingar hefðu skaðað íslenzka ríkið."

"Ef Ísland hefði tekið á sig ábyrgð með hinum umsömdu viðmiðum hefði þá þurft að gera sérstakan samning um  ríkisábyrgð 5. júní 2009 sem undanfarið hefur legið fyrir Alþingi?"

http://www.pressan.is/pressupennar/lesa_Sigurd_Lindal/ur-thrasheimi-stjornmalamanns

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.9.2010 kl. 17:24

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Þakka innlegg þitt. Ég held samt að Steingrími J. sé alveg sama um lögfræðilega stöðu Íslendinga. Hann fékk fyrirmæli frá Jóhönnu um að "ganga frá Icesave-málinu án þess að styggja Breta og Hollendinga" svo ESB-aðlögunarferlið yrði ekki sett í uppnám.

Næsta ríkisstjórn fær nóg að gera við að taka til eftir þessa. Því fyrr sem það ferli hefst, því betra. 

Geir Ágústsson, 19.9.2010 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband