Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 24. janúar 2025
Innilokaðir hæfileikar
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár unnið hratt og vel að því að hlaða á sig starfsmönnum sem þurfa lítið að gera og borið við ýmsu eins og þróun stafrænna lausna sem segja nei við leikskólaplássum og tilkynna um myglu í húsnæði. Borgin hefur yfirboðið einkafyrirtæki og sogað til sín hæfileika. Það má líta á þá hæfileika sem vannýtta auðlind, eða sóun á auðlindum, og borgin orðin gjaldþrota.
Borgin þarf að taka til hjá sér. Hún er að fjármagna sig á vaxtakjörum sem yfirlýstur fjárhættuspilari með áfengisfíkn gæti verið stoltur af, en ekki aðrir. Opnunartímar þjónustu eru á niðurleið og ekki eru leikskólaplássin að láta sjá sig. Um leið er skattheimta í algjöru hámarki og hefur verið í áraraðir.
Niðurstaðan hlýtur að lokum að verða sú að stórir hópar borgarstarfsmanna - væntanlega yfirgnæfandi skrifstofufólk sem snertir hvorki sóp né hamar, og kemur ekki nálægt skólastofum eða leikskólum - fái reisupassann.
Þetta myndi losa um töluvert vinnuafl sem má í kjölfarið nýta í verðmætaskapandi vinnu. Einkafyrirtæki gætu haft minni áhyggjur af yfirboðum, útsvarsgreiðendur gætu andað léttar, og þeim sem var sagt upp hjá borginni og fundu sér verðmætaskapandi vinnu sleppa við vanlíðan, tilgangsleysi og leiða á vinnutíma, enda hefur vinnudagurinn allt í einu öðlast merkingu.
Mun þetta gerast í fyrirsjáanlegri framtíð? Undir stjórn núverandi borgarstjóra?
Auðvitað ekki.
Munu ýmsir flokkar bjóða upp á skarpari valkost við núverandi aðstæður í næstu kosningum? Valkost sem segir það sem þarf að segja þótt ofborgaðir ráðgjafar vari við því?
Sennilega ekki.
Er hægt að vona?
Alltaf.
![]() |
Borgin yfirbauð einkafyrirtæki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. janúar 2025
Ætla Sjallar að taka til?
Stundum breytist allt svo hratt eftir að eitthvað eitt gerist. Eitthvað veigamikið, en bara eitthvað eitt. Nýlega tilkynnti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í þá formannsstöðu aftur og þar með forystu flokksins. Fjölmiðlar fóru á flug að spá í því hver gæti tekið við af honum. Augljóslega var varaformaðurinn, Þordís Kolbrún Gylfadóttir, nefnd. En hvað gerir hún? Lýsir því yfir að hún ætli ekki að gefa kost á sér í stjórnarsetu í flokknum. Sama dag les ég svo að Diljá Mist Einarsdóttir vilji bjóða fram krafta sína, sé eftirspurn eftir því. Ritari flokksins er ekki nefndur í neinu samhengi, skiljanlega, og má taka út fyrir sviga. Sú staða er laus til umsóknar.
Þetta lofar góðu og sýnir að flokkurinn er kannski mögulega opinn fyrir því að líta í eigin barm og leyfa ferskum röddum að heyrast og grunnstefi flokksins mögulega í leiðinni. Ég tek það fram að ég er hjartanlega ósammála eiginlega öllum Sjálfstæðismönnum í einhverju - jafnvel veigamiklum málum - en játa að ég hef taugar til flokksins sem ég tilheyrði á tímabili og kaus þegar ég gat kosið og valdi að kjósa, sem er fyrir áratugum síðan.
En það er ekki nóg að ein Þórdís stígi til baka og ein Diljá stígi fram. Það er vissulega góð byrjun, en það þarf meira. Það er gott að flokkurinn ákvað ekki að draga landsfund sinn og hnignun sína á langinn með vísun í veðurspá og undirbúningstíma. Enn betra væri að fá sæmilega úthreinsun og fólk í forystu sem hefur sumt orðið vinsælt á því að segja óvinsæla hluti, en um leið rétta. Diljá er dæmi um slíka manneskju í ákveðnum málum, en hverjir aðrir? Sjáum hvað setur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 22. janúar 2025
Engar sannanir og líklegasta skýringin
Maður spyr sig stundum að því hvort skrifstofa Landlæknis sé pappírslaus með öllu og að fólk nenni ekki að lesa bækur og langar vísindagreinar á skjá. Niðurstaðan er sú að engin ný vitneskja ratar þarna inn nema stuttar fyrirsagnir frá BBC og CNN.
Þetta fékk ég oft á tilfinninguna á veirutímum. Þar var örsjaldan vísað í nokkurn skapaðan hlut. Þegar Íslendingum var sagt að það væri óhætt að fá í sig sprautur frá mismunandi framleiðendum þá lágu engar rannsóknir þar að baki. Tveggja metra reglan í Evrópu var sex feta reglan í Bandaríkjunum, sem er styttri vegalengd, en líka bara þægileg tala.
Höfum eitt á hreinu: Sóttvarnartakmarkanir voru lækning verri en sjúkdómurinn. Það blasir við, og gerði nánast frá upphafi.
Svo er það uppruni veirunnar. Sóttvarnarlæknir rígheldur hérna í gömlu útgáfuna um að veiran hafi fyrst orðið til í dýrum og smitast yfir í menn. Segir að engar óyggjandi sannanir séu fyrir öðru og að þar með sé það líklegasta skýringin.
Hérna afhjúpar embættismaðurinn auðvitað þetta andrúmsloft á vinnustað sínum þar sem ekkert er lesið nema fyrirsagnir.
Hinar óyggjandi sannanir munu aldrei fást því þær liggja læstar í kínverskum skúffum undir stjórn kínverskra yfirvalda. Þar eru rannsóknargögnin sem sýna hvernig menn tóku náttúrulega veiru - mögulega SARS-CoV (númer eitt) - og erfðabreyttu henni. Upprunalega SARS-CoV veiran var ekkert sérstaklega góð í að smita menn enda tekur veirur tíma að stökkbreyta sér til að gera það auðveldlega, og uppruna hennar voru menn enga stund að afhjúpa í dýraríkinu.
Hin nýja veira, SARS-CoV-2, var tilbúin frá upphafi til að binda sig við frumur manna og eftir mörg þúsund prófanir á dýrum hefur enginn náttúrulegur uppruni verið afhjúpaður. Fyrstu smitin voru í bakgarði rannsóknarstofu sem rannsakar veiru og fyrstu hópsmitin í almenningssamgöngum til og frá þeim vinnustað.
Ekki óyggjandi sannanir en gera samt rannsóknarstofuna að miklu líklegri upprunakenningu en leðurblökuna eða þvottabjörninn. Náttúrulegi uppruninn er raunar nánast afsannaður með öllu - þó ekki óyggjandi því ekki er hægt að prófa hverja einustu lífveru í Kína.
Eftir stendur spurningin:
Af hverju leggur sóttvarnarlæknir á sig þessa flóknu og vafasömu krókaleið? Af hverju ekki bara að lýsa yfir algjöru afstöðuleysi? Af hverju að kalla ólíklegu kenninguna þá líklegustu?
Ekki veit ég það en þetta segir mér að embættið hefur ekkert lært, ekkert lesið og ekkert kynnt sér, jafnvel eftir mestu lýðheilsumistök í manna minnum og þótt lengra sé leitað.
Sparnaðarráð fyrir ríkisstjórnina að fæðast?
![]() |
Upphaf Covid19 líklega tengt leðurblöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 21. janúar 2025
Þeir eru víða, nasistarnir
Árið er núna 2025. Það eru 80 ár síðan Þýskaland nasismans gafst upp og helstu böðlar ríkisins handteknir og jafnvel teknir af lífi. Ekkert nasistaríki hefur orðið til síðan þá. Að vísu lifir systurhugmyndafræði nasismans, kommúnisminn, enn víða góðu lífi en það er önnur saga.
Það er enginn í dag nasismi. Kannski eru tíu slíkir á Íslandi og í álíka hlutföllum í öðrum ríkjum og þeir eru áhrifalausir og enginn tekur mark á þeim. Að vísu eru hugmyndafræðileg systkini nasistanna, kommúnistar, mun víðar og jafnvel áhrifamiklir, en það er önnur saga.
Engu að síður er okkur sagt og kennt að nasistar séu á hverju götuhorni og láta mikið á sér bera. Þeir eru þar að senda allskyns nasistakveðjur, húðflúra sig með nasistamerkjum og nota jafnvel nasistakveðjur til að lýsa yfir ánægju sinni með eitthvað í daglegum samskiptum.
Nasistar notuðu mikið af táknum og merkjum og mörgum stálu þeir og breyttu merkingu þeirra. Hakakrossinn er til að mynda eldgamalt tákn sem upprunalega þýddi það sem stuðlaði að vellíðan og þýddi um ár og aldir eitthvað svipað í fjölmörgum menningarheimum. Nasistakveðjan er líklega mörg þúsund ára gömul og ósköp venjuleg kveðja, mögulega með rætur í gamla Rómarveldi.
En nei, detti einhverjum bjánanum sem er raunverulega kynþáttahatari og Gyðingahatari í hug að teikna eitthvað tákn, gefa eitthvað merki eða fá sér eitthvað húðflúr þá skulum við hin þefa uppi aðra sem hafa teiknað eitthvað svipað, gefið svipað merki eða fengið sér nánast sama húðflúr og stimpla þá sem nasista, af öllu, og láta þá rata í langar greinar hjá alvarlegum miðlum.
Sá sem skreytir sig með hamar og sigð Sovétríkjanna sleppur svo af einhverjum ástæðum við gagnrýni þótt kommúnistar hafi drepið margfalt fleiri en nasistarnir gerðu, enda hafa þeir fengið að murka lífið úr saklausu fólki í áratugi og fá enn.
Var hann að gefa nasistakveðjuna?
Var hann að senda skilaboð til nasista?
Var hann að merkja sig sem nasista?
Svona spurningum má í 99,9% tilfella svara með einu stóru nei-i, og við getum eytt okkar takmörkuðu andlegu orku í að hugsa um aðra hluti. Það eru engir nasistar og þeir eru ekki að flagga skoðunum sínum á almannafæri. Punktur.
Mánudagur, 20. janúar 2025
20. janúar 2025
Ég vil byrja á að deila myndbandi með fyrirsögninni Ó kæra/kæri, þetta myndband eltist ekki vel, þar sem farið er yfir djarfar yfirlýsingar fyrrverandi Bandaríkjaforseta, þáttastjórnenda, Hollywood-stjarna, álitsgjafa og annarra í aðdraganda forsetakjörs Donald Trumps fyrir kosningarnar 2016:
En það er eitthvað miklu meira að gerast en að gamlir spádómar þeirra vitrustu og hæfileikaríkustu séu að hrynja eins og spilaborgir (enn og aftur).
Það er eins og að heil spilaborg hafi hrunið og að margir geti dregið andann á ný (nema flugfreyjur). Trump er auðvitað eins og hann er, eða var, eða er. Ég spái ekki svo mikið í hans persónu eða skapgerð. En tilvist hans ein og sér virðist vera nothæf sem tækifæri til að sparka niður allskyns þvælu og rugli sem hefur plagað okkur eins og heilavírus í fjölda ára. Ekki lengur eru kynin óendanlega mörg, loftslagið að tortímast af því þú átt bensínbíl og ólöglegir innflytjendur með glæpahneigð einhvers konar blessun. Ég er ósammála Trump í mjög mörgu, og er ekki viss um að ég vilji heyra hann tala um konur og rassa og slíkt í minni nærveru. En kjör hans eitt og sér virðist hafa opnað glugga í kæfandi herbergi og leyft fólki að draga andann á ný.
Svo sem að fyrirtæki telja aftur óhætt að ráða starfsfólk á grundvelli hæfileika, getu, þekkingar og reynslu frekar en á grundvelli húðlitar og tegund kynfæra.
Svo sem að átök eru að færast í vopnahlé.
Svo sem að Evrópa telji sig þurfa að taka ábyrgð á sjálfri sér frekar en að treysta á bandaríska skattgreiðendur.
Trump var kannski rafstuðið sem heimurinn þurfti á að halda. Ég segi rafstuð því það er bæði óþægilegt og getur annað hvort drepið þig eða læknað.
Við sjáum nú hvað setur. Mér finnst Trump vera búinn að raða í kringum sig hæfileikafólki - sumt hvert pólitískir andstæðingar hans fyrir ekki svo löngu síðan - og hann getur látið duga að hrópa á heimsleiðtoga eins og hann hrópaði á verktaka undanfarna áratugi og eitthvað fer að gerast.
Höldum okkur fast. Næstu fjögur ár verða rússíbani.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 19. janúar 2025
Sorpflokkun gerð bærileg
Undanfarin ár hafa kröfur til flokkunar á heimilissorpi sífellt farið vaxandi. Ekki flokkun í skilvirkum móttökustöðvum. Ekki flokkun með notkun vélmenna og skynjara. Ekki flokkun af sérþjálfuðu starfsfólki. Nei, krafan er sú að við sem nú þegar borgum sífellt meira fyrir sífellt lélegri sorphirðu flokkum okkar eigið sorp og ferðumst með það ýmist í hina og þessa gáma í hverfinu, gefið að þar sé eitthvað pláss, eða hreinlega fyllum bílinn af sorpi og keyrum með það bæinn á enda og jafnvel á marga mismunandi staði - dósir á einn stað og pappír á annan.
En ekki nóg með það. Matarafgangana þarf að setja í sérstaka óvatnsþétta bréfpoka sem þarf að sækja á sérstöðum stöðvum á örfáum stöðum - hrikaleg breyting frá því í upphafi þegar þessa poka var hægt að sækja hvar sem er.
Þetta er a.m.k. lýsingin sem ég fæ frá íbúum höfuðborgarsvæðisins.
Er þá kannski óhætt að segja að umstangið í kringum það að losna við rusl verði varla gert meira en hér þarf þó að fara varlega og vanmeta ekki ímyndaraflið hjá sorphirðunni.
Ég bý í Kaupmannahöfn og þarf að flokka í a.m.k. jafnmarga flokka og Reykvíkingar en ég vil í því samhengi hrósa mínum yfirvöldum. Þau virðast vilja lágmarka þjáningar mínar af flokkunaráráttunni, ekki hámarka. Myndin við þessa færslu er dæmi um það. Hún sýnir tvo skammtara fyrir vatnsþétta en niðurbrjótanlega poka sem eiga að nýtast undir lífræna ruslið, og einnig er þarna hægt að sækja sér sérstakar fötur fyrir þá poka. Á heimasíðu sveitarfélagsins er hægt að panta allskyns flokkunardót sem er sent að kostnaðarlausu heim, þar á meðal pokana. Í skúrnum sem þarna sést, og er í bakgarði byggingarinnar sem ég bý í, er hægt að losna við allar tegundir af rusli, frá pappír og pappa og plastsins til rafhlaðna, glers, málma, eiturefna og raftækja. Stærra rusl má líka draga þangað inn, svo sem ónýt húsgögn (kannski samt ekki gamla sófasettið - ég hef ekki látið reyna á svo stóra hluti).
Allt í örstuttu göngufæri, alltaf nóg pláss (líka eftir aðfangadag), ekki neitt mál.
Almennur úrgangur er svo keyrður, af fagmönnum, í næstu sorpbrennslu ekki langt frá héðan og er þar breytt í hita og rafmagn og hvítan og lyktarlausan reyk (með tilheyrandi losun á koltvísýringi í andrúmsloftið svo gróðurinn fái líka sín hráefni í grænkun). Á þaki þeirrar sorpbrennslu er skíðabrekka og kaffihús þar sem er hægt að fá sér kaffi eða bjór og eitthvað að borða og njóta útsýnisins yfir borgina og hafið. Í lyftunni á leið upp er hægt að sjá innvolsið í sorpbrennslunni sem mörgum þykir vafalaust áhrifamikið.
Boðskapur minn hérna er að það er alveg hægt að þröngva fólki til að flokka, þrífa ruslið sitt, geyma í tunnum og pokum og að lokum losa sig við það án þess að ráðast mjög harkalega á lífsgæðin. Það er alveg hægt að búa til skilvirk og notendavæn kerfi sem hjálpa fólki að fylgja nýjustu reglugerðinni, hvort sem hún er skynsamleg eða ekki.
Annar boðskapur er sá að það er hægt að nýta sorpið sem verðmætt hráefni, hvort heldur til framleiðslu á rafmagni og hita eða umhverfisvæns eldsneytis, svo eitthvað sé nefnt, sem valkost við skipaflutninga á sorpi, en eitthvað virðist vera erfitt að koma slíku í gagnið á Íslandi, öfugt við Grænland.
Ég endurtek að ég vil ekki vanmeta ímyndunarafl íslenskra sorphirðusérfræðinga til að gera hluti enn flóknari, óþægilegri og dýrari en nú er raunin þótt ég sjái sjálfur ekki hvernig það væri hægt. En kannski á almenningur betra skilið í skiptum fyrir sístækkandi sorphirðureikninga. Þá meina ég: Eigi skilið að sorpið sé hirt en sé ekki þessi byrði á fólki. Sorp-hirða frekar en sorp-byrða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Laugardagur, 18. janúar 2025
Eru fjölmiðlar að ná að forðast eigin dauðdaga?
Hefur fjölmiðlalandslagið á Íslandi breyst til batnaðar? Hafa blaðamenn rifjað upp hvað er ætlast til af þeim af okkur sem neytum frétta? Eru fjölmiðlar að reyna endurheimta orðspor sitt sem einhvers konar fjórða vald sem veitir yfirvöldum aðhald og borar í spillingu og sóun?
Sennilega er svarið við öllum þessum spurningum eitt stórt nei. Ekkert er að gerast í uppgjöri við veirutíma, fjármögnun á vopnuðum átökum á kostnað skattgreiðenda og gengdarlausa sjálftöku opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa, en stundum eru undantekningar.
Sem dæmi má nefna þessa frétt DV um gegndarlausa sóun í ferðalög borgarfulltrúa í Reykjavík. Upphæðirnar sem þessir borgarfulltrúar hafa sogað til sín í skemmtiferðir og tilgangslausar vettvangsferðir eru sláandi, og þá sérstaklega þegar fjárhagsstaða hinnar gjaldþrota höfuðborgar er höfð í huga.
Á seinasta ári byrjuðu viðtalsþættirnir Spursamál á Morgunblaðinu. Þar er engum hlíft að því marki að þingmenn hafa verið hraktir úr stólum sínum. Svo sannarlega ómissandi þættir fyrir þá sem vilja fylgjast með. Svipaða sögu má segja um Harmageddum-þættina á Brotkast - stækkunarglerið á kýlin sem almenningur þarf svo sannarlega á að halda, og svarti húmorinn sem frábært krydd. Fréttin og Nútíminn bjóða líka oft upp á hressandi valkost við það sem er talið verðugt til að fjalla um, svo sem umfjöllun um gengi ofbeldisfullra raðnauðgara af pakistönskum uppruna og múslímatrú í Englandi sem hafa fengið að misþyrma þúsundum ungra stúlkna nánast afleiðingalaust í fjölda ára.
Svo það er kannski von, en bara ef við neytendur frétta viljum von og sýnum það í verki. Svartsýni mín fyrir hönd hefðbundinna fjölmiðla hefur dalað aðeins. Kannski skjátlast mér. Kannski endist þessi upprifjun blaðamanna á hlutverki sínu í samfélaginu bara á meðan Trump er Bandaríkjaforseti. Hver veit. En njótum þess sem hægt er að njóta, á meðan það endist.
Fimmtudagur, 16. janúar 2025
Fyrsti áfangi borgarlínu felur ekki í sér að kaupa farartæki
Er það bara ég eða er ekki eitthvað skondið við að fyrsta verklega framkvæmd borgarlínu er án farartækis? Sú framkvæmd er hjólabrú þar sem vindar blása og tengir saman Sky Lagoon og Háskóla Íslands, en ekki hvað. Kannski ferðamenn geti nýtt hana til að komast hratt frá BSÍ í bað, gefið að einhver vilji lána þeim hjól.
Ég er hlynntur almenningssamgöngum og nýt þess mjög að búa í borg þar sem er nóg af slíku og gerir mér kleift að vera bíllaus nánast alla daga. Ég skil alveg rökin fyrir því að almenningsvagnar njóti forgangs, og að þeir séu jafnvel á sérakreinum, a.m.k. á völdum köflum, til að halda áætlun.
Í öll þessi box krossar Borgarlínan þannig séð.
En það gera strætisvagnar líka. Það væri sennilega frekar auðvelt að tryggja honum pláss á vegum með því að leggja á völdum köflum sérstakar akreinar. Útbúa að- og fráreinar og hafa forgang fyrir strætó á ljósunum. Minnka vagnana og fjölga þeim þar sem farþegar eru fáir, safna farþegum saman á stærri stöðvar (þar sem er hægt að míga án þess að æla í leiðinni úr velgju) og keyra þaðan í stærri vögnum.
Ég á frænku sem býr í miðbæ Hafnarfjarðar og vinnur í miðbæ Reykjavíkur. Hún notar stundum strætó og líkar vel.
Þetta er hægt, og hægt að gera þannig að fólk velji að láta bílinn standa heima og fara í staðinn í strætó.
Í nokkur ár bjó ég í Álaborg í Danmörku sem minnir um margt á Reykjavík: Rúmlega 100 þúsund manna borg og nærliggjandi bæir. Dreifð byggð. Oft leiðinlegt veður. Aldrei var erfitt að komast með strætó. Hvernig? Ég veit það ekki. Þetta virkaði og bíllinn bara notaður í stærri verslunarferðir og varla það.
Þegar milljarðar eru farnir í göngubrú sem ekkert farartæki fer yfir þá hlýtur einhver að fara biðja um farartæki - línuna sem tengir saman Sky Lagoon og Háskólann í Reykjavík. Verða einhverjir peningar til? Verður eitthvað eftir til að reka þessa venjulegu strætisvagna?
Borgarlínan: Áætlunin sem afnám almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu?
![]() |
Framkvæmdir við borgarlínu hefjast á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 15. janúar 2025
Flokkurinn sem síar út hugsjónafólk
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið duglegur seinustu árin við að hreinsa hugsjónafólk út af framboðslistum sínum. Er mér hérna efst í huga Sigríður Andersen sem situr núna á þingi fyrir Miðflokkinn. Hún lét dómaraklíkuna bola sér úr ráðherraembætti og almennir flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum sáu svo um afganginn með því að skjóta henni langt niður á framboðslista og núna er hún komin annað. Tapið fyrir flokkinn er mikið. Engu að síður gæti næsti formaður Sjálfstæðisflokksins kannski þegið innblástur frá Sigríði. Hún stóð nefnilega oftast í lappirnar, og skal hér tekið dæmi.
Árið er 2015 og til stendur að stofna sérstakan jafnréttissjóð fyrir fleiri hundruð milljónir af fé skattgreiðenda. Óumdeilt mál, ekki satt? Ég meina, jafnréttissjóður! Hver vill ekki jafnrétti? Hver vill ekki sjóð til að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna (eins og segir á heimasíðu sjóðsins)? Og kenna unglingum að fróa sér og karlmönnum að hata sig, svo það sé nefnt.
Hérna stóð Sigríður Andersen í lappirnar fyrir hönd skattgreiðenda og kaus ein þingmanna gegn stofnun þessa sjóðs.
Ein þingmanna!
Þetta segir okkur ýmislegt um þingmenn almennt. Þeir feykjast um eins og lauf í vindi og moka fé almennings ofan í nýjustu delluna, aftur og aftur.
Formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að vera af annarri tegund og það þarf að gilda innan þings og utan því stundum þarf líka að takast á við raddir innan flokksins sem vilja skreyta sig með nýjustu tískunni á kostnað almennings.
Fyrir þá sem vilja sjá í hvað milljónirnar mörgu sem Sigríður vildi halda eftir í vösum skattgreiðenda hafa farið í er hægt að rýna í skýrslu sjóðsins fyrir árin 2016-2020. Ég tel óhætt að fullyrða að hverri einustu krónu hafi verið sóað og að ekkert nothæft hafi komið út úr styrkveitingum sjóðsins, ekki frekar en jafnlaunavottunninni sem Sigríður kaus að vísu með (óvænt að mínu mati, m.v. hennar opinberu skoðanir á slíku brölti) en getur nú barist í samstarfi við Diljá Mist Einarsdóttur í Sjálfstæðisflokknum fyrir því að afnema og spara þannig hagkerfinu svimandi fjárhæðir.
![]() |
Ný forysta í uppsiglingu: Hver tekur við taumunum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. janúar 2025
Ætlar ríkisstjórnin að koma á óvart?
Fráfarandi og núverandi orkumálaráðherra skiptast nú á skeytum og saka hvorn annan um að fara sér of hægt í aukinni orkuöflun, og telja báðir sig vera mikilvirkari í að stuðla að slíkri öflun.
En yndislegur rígur!
Í bili eru samt bara orð á flugi.
Fráfarandi orkumálaráðherra náði vissulega að brjóta sársaukafulla kyrrstöðu í orkuöflun en betur má ef duga skal. Ef sá sem er núna orkumálaráðherra gerir enn betur er Íslendingum borgið, og fá borgað. Rafmagns- og hitaveitureikningar geta hjaðnað og iðnaður dregið andann.
Það er ekki oft að íslensk stjórnmál koma mér á óvart en ef Jóhann Páll Jóhannsson stuðlar að frekari orkuöflun á Íslandi þá þigg ég þann kinnhest með glöðu geði.
Kannski er of snemmt að fagna en fráfarandi orkumálaráðherra hefur örugglega ekki sungið sitt síðasta og heldur vonandi nýja ráðherranum við efnið. Það heitir virk stjórnarandstaða og er eitthvað sem hefur sjaldan verið mikilvægara á Alþingi.
Um leið mætti segja að það er sama hvaðan gott kemur.
Og ég bíð spenntur eftir mínum kinnhesti.
![]() |
Munu stíga stærri skref en Guðlaugur hafði kynnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |