Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvaða gata?

Ég ætti kannski að breyta nafninu á þessari síðu. Hún kallast í dag Sjálfkrýndi samfélagssérfræðingurinn, sem er svolítið skot á sjálfan mig fyrir að telja mig vita allt mögulegt um samfélagið. Ég veit sumt, en ekki allt. Ég get ekki kallast sérfræðingur, en kalla sjálfan mig það, og það er líka til gamans gert.

En hvað ef ég kallaði þessa síðu: Það sem fólk segir? Eða: Orðrómar við kaffivél valdsins? Væri það ekki mjög sannfærandi? Lesendur fengju það á tilfinninguna að ég væri ekki að rembast við að sinna launavinnu, börnum og öllu sem tengist því heldur væri viðstaddur kaffivélar yfirboðara okkar, eða á stanslausu flakki á milli kaffihúsa að hlusta á fólk af ýmsu tagi segja mér trúnaðarmál.

Kynnum þá til leiks pistlaflokk DV: Orðið á götunni!

Væntanlega pistlaflokkur þar sem orð fólks á götunni er skolað upp á yfirborðið! Orðin sem fólkið vill raunverulega segja en þorir ekki! Orðanna sem skilja á milli þess sem okkur er sagt frá og þeirra sem eru raunverulega sögð!

Eða bara fín fyrirsögn fyrir skoðanapistla manns með ákveðinn pólitískan boðskap sem hann mótaði heima hjá sér, eftir lestur á samfélagsmiðlum, án þess að fara nokkurn tímann á götuna.

Kannski. Hver veit. Það eru engin augljós merki um að mín túlkun sé röng, en kannski er hún það.

Að þessu sögðu hef ég ákveðið að breyta ekki heiti þessarar síðu í „Sannar sögur úr Stjórnarráðinu“ eða „Væflast á Kaffi Vest“ eða „Úr bóli Brussel“ eða neitt slíkt. Ég krýndi mig sjálfur, þú þarft ekki að beygja þig fyrir því.

Eftir stendur að því er ekki svarað frá hvaða götu „Orðið á götunni“ kemur frá. En sennilega frá heimaskrifstofu manns sem fer lítið út á götu, a.m.k. ekki til að labba. 


Skattar og fleiri skattar

Á Íslandi er rekið mikið opinbert bákn sem heimtar mikla skatta.

Eða í nútímalegra orðalagi: Á Íslandi er veitt mikil opinber þjónusta sem er fjármögnuð með ýmsum gjöldum og framkvæmd af stofum og embættum.

Skattar eru nefnilega ekki alltaf skattar. Þeir geta líka kallast gjöld og fá þá á sig blæ frjálsra viðskipta þar sem gjald er greitt og í staðinn veittur aðgangur, svona eins og í leikhúsi.

Opinberar stofnanir geta líka kallast stofur og fá þá á sig blæ biðstofunnar þar sem fólk sest þægilega niður og fær afgreiðslu á erindi sínu. Stofa þar sem fólk ekki bara númer í kerfinu eða skjal í skúffunni heldur verðmætir skjólstæðingar.

Þessi leikur að orðum er auðvitað til þess gerður að slá vopnin úr höndum hins frjálsa framtaks. Hver neitar að borga gjöldin sín? Það er eitt að reyna forðast skattheimtuna með ýmsum aðferðum - íþrótt sem menn hafa stundað í árþúsundir - en að vilja ekki borga gjaldið? Það er bara dónaskapur!

Íslensk yfirvöld vilja núna leggja á „auðlindagjöld“ en á meðan þau eru útfærð að leggja á „komugjöld“. Allt eru þetta bara skattar. Skattar ofan á alla hina skattana - gistináttaskattinn, virðisaukaskatt af öllum vörukaupum og þjónustu, tekju- og launaskattar þeirra sem selja þá vörur og þjónustu, allskyns skattar á landeigendur, fjármagnstekjuskattur á þá sem tekst að nurla út smávegis hagnaði og svona mætti lengi telja. Auðlindagjöldin munu renna ofan í hítina eða fara í að fjármagna starfsemi þjóðgarða sem telja það vera hlutverk sitt að halda fólki frá þeim.

Það verður bráðum upplifun þeirra sem heimsækja Ísland að landið sé orðið að jarðsprengjusvæði þar sem hvert skref getur leyst úr læðingi einhverja gjaldtöku eða skattheimtu. Er þá hætt við að þeir sem vilja sjá fjöll og eyðifirði velji einhvern annan áfangastað. Eða er það markmiðið?


mbl.is Fáránlegt að setja fyrst á komugjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danska innflytjendastefnan er öfga-hægri utan Danmerkur

Hvað er öfga-hægri?

Svörin við þeirri spurningu eru mörg, en eitt svar er: Stefna danskra jafnaðarmanna í málefnum innflytjenda hjá flokkum utan Danmerkur.

Í mörgum ríkjum Evrópu eru þeir flokkar kallaðir öfga-hægriflokkar sem benda á Danmörku sem viðmið í innflytjendamálum.

Danir brosa aðeins að þessu. Þeir spyrja sig: Erum við öfga-hægrimenn? Auðvitað ekki. Af hverju er þá franskur stjórnmálamaður, sem bendir á Danmörku sem fyrirmynd, kallaður öfga-hægrimaður? Daninn hefur hérna engin svör, og er í raun alveg sama. 

Blaðamenn ættu að vita betur, auðvitað, en vita ekki betur. Þeir elska litlu stimplana sína. Við hin gætum kannski vitað betur í staðinn, ef við nennum, en við nennum ekki.

Eftir stendur að til nasistaríkisins Danmerkur streyma Íslendingar í mörgum flugvélum á dag í leit að hakakrossum, eiturgasi og myndastyttum af Hitler. Góða skemmtun!


mbl.is Mótmæltu rofi CDU á „eldveggnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump-áhrifin

Ég ætla að gera nokkuð sem ég geri mjög sjaldan og það er að taka undir orð íslensks prófessors. Hressandi undantekning, ef eitthvað.

Svolítið viðtal við Gylfa Zoëga hagfræðiprófessor er um margt skynsamlegt. Það má draga úr því þann lærdóm að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, er enginn hagfræðingur en telur sig geta notað verkfæri hagfræðinnar sem einhvers konar samningatól til að ná fram öðrum markmiðum. Gylfi talar um einvald sem er ekki skrýtið en embætti Bandaríkjaforseta er mjög valdamikið, óháð því hver mannar það, og má teljast furðulegt í ríkinu sem var búið til svo völd hins opinbera yrðu sem takmörkuðust, ekki mest. 

Trump ætlaði að enda eitt af mörgum stríðum heimsins á sólarhring en núna á það að taka 100 daga og ég er ekki að sjá hvað er í raun að gerast til að ná því markmiði.

Það er gott að hann setti bremsu á stjórnlaust flæðið úr bandaríska alríkiskassanum og strokaði út allskyns áherslu á kynhneigð og húðlit þegar á að manna stöður. En það er slæmt að vera hjakkast í nánustu bandamönnum og raunverulegum vinum Bandaríkjanna með látum.

Hvað sem því líður þá var kjör Trump ekki eitthvað einsdæmi á vestrænan mælikvarða þótt það hafi nánast verið fordæmalaust í bandarískum stjórnmálum. Í mörgum ríkjum eru kjósendur að hafna þeirri hugmyndafræði sem hefur verið keyrð af miklu offorsi á okkur seinustu ár. Þjóðverjar munu gera það sama á næstu dögum, rétt eins og Danir, Hollendingar, Svíar, Norðmenn og Ítalir á undan, svo eitthvað sé nefnt.

Trump-áhrifin eru þannig bland í poka - bland af frekjuköstum og skynsemi, árásargirni og friðarviðræðum, klappi á rass og atlögu að nauðgurum, aðhaldi og eyðslu. Yfir það heila samt skárri blanda en það sem áður var við lýði og ég held að við munum sjá það fyrr en síðar ef þá ekki hreinlega nú þegar, óháð magni heilaþvottar.


mbl.is Trump-áhrifin: Minni alþjóðaviðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar blaðamenn hætta að vera fjölmiðlafulltrúar

Það þarf ekki mikið til að minna mig á veirutímana þar sem fulltrúar yfirvalda mættu dag eftir dag á blaðamannafundi og fengu ekkert nema sárasaklausar spurningar á meðan samfélaginu var haldið í spennitreyju og lögreglan kíkti í gegnum glugga hjá fólki til að athuga hvort einhver ólögleg samkoma væri að fara fram.

Blaðamenn mega allir sem einn skammast sín frá toppi til táar fyrir algjört getuleysi sitt á þessum tímum, með örfáum undantekningum. Þeir brugðust. Þeir veittu ekkert aðhald, fóru aldrei út fyrir handritið og þeim datt jafnvel í hug að leggja til harðari atlögu að frjálsu samfélagi en var á dagskrá yfirvalda á hverjum tíma.

Þetta ástand virðist að því er virðist, og sem betur fer, vera að baki, og áskrifendur farnir að verðlauna raunverulega blaðamennsku þar sem stjórnmálamönnum er veitt fyrirsát.

Ef fjölmiðlar ættu bara að endurvarpa skoðunum yfirvalda þá væru þeir óþarfi. Oflaunaðir blaðamannafulltrúar ættu þá sviðið og þyrftu ekki milliliði til að bergmála tilkynningar sínar.

Þegar fólk tengt stjórnmálum kvartar yfir blaðamönnum þá ættum við að klappa. Blaðamenn hafa ekki alltaf rétt fyrir sér frekar en aðrir en einmitt þess vegna eiga þeir að fá að starfa og jafnvel rífast og við hin að fylgjast með og jafnvel að mynda okkur skoðun í leiðinni.

Takk, blaðamenn sem eru ásakaniðir um að veita einhverjum fyrirsát, jafnvel þótt hún sé byggð á misskilningi á skattalöggjöf, orðrómum athyglissjúkra eða gallhörðum staðreyndum.

Við hin reynum svo að gera okkar besta til að melta ykkar vinnu, sé hún næringarrík. 


mbl.is Óbirtur þáttur veldur taugatitringi í stjórnarliði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eyða í ekkert

Við sjáum það aftur og aftur að það er hægt að eyða miklum peningum í nákvæmlega ekki neitt. Eyða og eyða og ekkert gerist. Eyða í biðlista og þeir styttast ekki. Eyða í heilbrigðisþjónustu og þjónustan minnkar. Eyða í fleiri starfsmenn og færri sinna vinnunni.

Í eitthvað fara peningarnir, vissulega. Þeir geta farið í millistjórnendur eða stjórnsýslu af öðru tagi. Þeir geta farið í að setja upp rosalega fallega snaga fyrir jakka á meðan húsnæðið er að mygla. Þeir geta farið í launuð frí, námskeiðadaga, starfsdaga, aukafrídaga, laun sem svara til fullrar vinnuviku sem er svo stytt vinnuvika, og listinn er eflaust lengri og jafnvel endalaus. 

Nú er okkur sagt að Íslendingar eyði hlutfallslega mest allra Evrópuþjóða í leikskóla, eða heil 1,8% af landsframleiðslu, og höfum í huga að landsframleiðsla á Íslandi er einhver sú mesta í Evrópu og þar með heimi miðað við höfðatölu. Til samanburðar eyða Danir 1,0% landsframleiðslu í leikskóla. Ég hef búið í Danmörku öll mín ár sem faðir leikskólabarna og get sagt að samanburðurinn við Ísland er sláandi. Ég hef aldrei lent á biðlista fyrir nálægasta leikskólann, starfsdagar eru einn á ári og það er aldrei lokað heilu vikurnar í einu, ekki einu sinni á sumrin. 

Allt þetta fyrir um helminginn af framlagi Íslendinga í nákvæmlega sama kerfi: Sömu starfsmenn, sama húsnæði, sömu leiktæki, sami matur, sömu uppeldisfræðin (geri ég ráð fyrir, fyrir utan ýmsan heilaþvott sem er ekki til staðar í Danmörku að mér vitandi).

Mér finnst blasa við nokkur atriði sem gætu skýrt þennan mun, fyrir utan styttu vinnuvikuna á Íslandi og ógnarfjölda starfsdaga, og það er notkun á ungu afleysingafólki sem kann í raun og veru vel við að umgangast börn. Stundum jafnvel of mikil notkun afleysingafólks á köflum - ég hef komið á leikskóla til að sækja barn þar sem var nánast enginn leikskólakennari í sjónmáli. En börnin voru í umsjón fullorðinna og voru að leika sér og allt þetta - nokkuð sem mér þætti kannski þurfa að vera í meiri forgangi en menntun starfsfólksins. 

Ég er ekki að gera lítið úr sérþjálfuðum leikskólakennurum. Auðvitað þarf slíka til að leggja línurnar, skipuleggja starfið, leggja mat á þroska og hæfni barnanna og allt þetta. En að þurfa loka leikskóla af því slíkir einstaklingur eru lasnir eða annað slíkt, og senda í raun allt heimili barnanna í algjöra ringulreið, er það úrræðið? Þetta skilst mér að sé algengt á Íslandi, en ég hef aldrei upplifað slíkt í Danmörku (í alls þremur mismunandi sveitarfélögum).

Svo í eitthvað er eytt þegar fé er ráðstafað til leikskólanna á Íslandi, en ekki er það rekstur á leik-skóla, sem þarf fyrst og fremst fullorðið fólk til að opna dótakassana, greiða úr einstaka árekstrum og skipta á einstaka bleiu, a.m.k. megnið af deginum flesta dagana.


Ekki hægt að hunsa Argentínu-undrið lengur

Ástandið mun versna áður en það batnar.

Þetta sagði Javier Milei þegar hann í lok ársins 2023 var að hefja embættisferil sinn sem forseti Argentínu. 

Hann lofaði að skera djúpt niður í útgjöldum ríkisins og hætta að prenta peninga til að stöðva verðbólgu. Ástandið versnaði. Flestir af okkur spekingum og snillingum spáðu því að áætlun forsetans myndi mistakast. Hann væri jú bara reynslulaus hægri-öfgamaður.

En það leið ekki ár þar til Milei hafði þaggað niður í öllum gagnrýnisröddum. Sumar hafa jafnvel breyst í viðurkenningu á árangri hans. 

Um allt þetta og meira er fjallað í stuttu myndskeiði John Stossel:

Í Bandaríkjunum hafa menn tekið eftir og ný yfirvöld þar boða eitthvað svipað, þótt þar sé flækjustigið aðeins meira.

En hvað með Evrópu? Ekkert. Í Evrópu neita menn einfaldlega að læra nokkurn skapaðan hlut, því miður. Betra er gjaldþrot en timburmenn býst ég við.

Það verður samt erfiðara og erfiðara fyrir sósíaldemókrata þessa heims að halda uppi tálsýninni um endalausa eyðslu á lánsfé. Báknið er einfaldlega orðið svo stórt að ef minnsta stoð undir því brotnar þá leiðir það til þess að það hrynur ofan á samfélagið. 

Tóku Argentínumenn áhættu af því þeir voru örvæntingarfullir?

Já, því þeir voru örvæntingafullur. Nei, því auðvitað virka aðferðir Milei, alltaf og hvar sem er.

Var árangur tryggður?

Nei, því innan stjórnsýslu eru alltaf leiðir til að koma í veg fyrir nauðsynlegar breytingar, svo sem spilltir dómstólar og löggjöf sem ver spillt stjórnmál á kostnað almennings.

Er nýtt fordæmi fyrir stjórnmálamenn fætt?

Svo sannarlega.

Og mikilvirkasti þátturinn er að tala við kjósendur eins og fullorðið fólk sem kann á heimilisbókhald, en ekki eins og svanga krakka í nammibúð.

Er það eitthvað sem við viljum? Þá ættu næstu kosningar að afhjúpa það.


Nú verður skákað í skjóli Trumps

Einn óheppnasti álitsgjafi og pistlahöfundur Íslands þessi árin er Sigmundur Ernir Rúnarsson, ræðumaður. Hann vildi á veirutímum mismuna fólki eftir vali á lyfjagjöf, og boðar auðvitað allt þetta venjulega: Hærri skatta, lægri skatta, meira frelsi og minna frelsi. Staðfastur eða ekki, og drifinn áfram af hugsjónum eða andrúmslofti dagsins.

Nýlega sleppti hann lausum pistli þar sem hann varar við nýkjörnum forseta Bandaríkjanna. Heimsendir er í nánd, ef marka má Sigmund Erni:

Mannréttindasigrum síðustu áratuga, sem hafa unnist með blóði, tárum, dauða og útlegð, verður snúið í tap. Líklega afhroð.

Úff! Blóð!

Það er búið að gefa út leyfi til að láta hvað eina út úr sér.

Ónei! Það er búið að gefa út leyfi! Leyfi! 

Fyrir vikið munu hatursglæpir aukast. Og þeir verða hræðilegri en áður hefur þekkst.

Af því það er búið að gefa út leyfi fyrir glæpi? Það fylgir ekki sögunni.

Það skal þegar snúið af þeirri beinu braut mannréttinda þar sem hlustað er á allar raddir samfélagsins.

Ekki satt?

Og vel að merkja, hér eftir eru kynin aðeins tvö, karl og kona.

Jæja þá, líffræðikennslan mín í grunnskóla var þá ekki algjör vitleysa. Eftir stendur hugtakið kynvitund, sem öllum er þannig séð sama um: Fólk á hafa hvaða þá vitund sem það kærir sig um. Kynin verða áfram tvö.

Það læðist að manni sá grunur að ræðumaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson hafi verið hér að verki sem pistlahöfundurinn Sigumundur Ernir Rúnarsson, en látum það liggja á milli hluta.

Margir eru enn að fara á taugum yfir niðurstöðum forsetakosninga í Bandaríkjunum. Gott og vel, forseti Bandaríkjanna er valdamikill og áhrifamikill. En kannski reynslan af fyrri forsetatíða sama manns gefi ástæðu til að taka því rólega. Á þeirri forsetatíð hófust engin ný stríð og sum vopnlaus átök tóku jafnvel enda. Allt tal um að taka þetta og hitt er samningatækni manns sem hefur rifist við byggingaverktaka í áratugi og beitir núna sömu aðferðafræði sem stjórnmálamaður. Hvort það virki eða ekki kemur í ljós, og í lýðræðisríki afhjúpa kjósendur skoðun sína á því í næstu kosningum. Köllum það lýðræði, hvort sem okkur líkar betur eða verra. 

Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður eða andstæður núverandi Bandaríkjaforseta en frekar rólegri en hitt að það tókst að moka út fráfarandi strengjabrúðunni sem var að steypa heiminum svolitla ringulreið, mögulega í svefni.

Sjáum bara hvað setur, segi ég. 


Beittir blaðamenn

Um árabil virtist eins og einu virkilega beittu blaðamennirnir væru þeir á vinstri vængnum að pota í stjórnmálamenn á hægri vængnum. Að baki voru auðvitað pólitískar ástæður en stundum má segja að það er sama hvaðan aðhaldið kemur, óháð sannleiksgildi ásakana. Ráðherrar bognuðu, aðstoðarmenn stjórnmálamanna látnir segja af sér og hlutabréfakaup ættingja stjórnmálamanna gerð að umfjöllunarefni í leit að spillingu.

Það skipti ekki alltaf máli að stundum var ekkert að finna. Það sem skipti máli var að blaðamenn voru að þefa og lyfta sérhverjum steini og veita aðhald.

Nú er eins og öllu hafi verið snúið við. Nú eru það vinstrisinnuðu stjórnmálamennirnir sem fá erfiðu spurningarnar. Fyrir vikið hafa menn gefið frá sér þingsæti og mögulega er heill stjórnmálaflokkur að fara þurrkast út á næstu vikum. Yfirlýsingar um aðhald og sparnað og skattahækkanir fá góða umfjöllun og eftirfylgni. Blaðamennska, í stuttu máli.

En betur má ef duga skal. Reykjavík er rekin á yfirdrætti og atvinnulífið má ekki við meiri skattahækkunum. Innviðir eru komnir að þolmörkum og peningar flæða í vasa útlendinga í leit að bótum. Á meðan sitja öryrkjar og aldraðir eftir og öfunda vistmenn fangelsa sem er gætt af íslenskumælandi fólki og fá laun fyrir dvölina. 

Blaðamenn geta samt ekki unnið alla vinnuna. Kjósendur þurfa líka að leggja sitt af mörkum. Þeir þurfa að hætta að falla fyrir gylliboðum og átta sig á því að stundum þarf að taka út höfuðverk eftir mikið sukk áður en heilsan batnar. Hérna er bjartsýni mín vægast sagt takmörkuð en lyftist aðeins við að sjá þróun mála í ýmsum öðrum ríkjum - jafnvel Danmörku - þar sem er eins og allt í einu hafi kviknað á perunni.

Út með vók, girðum okkur í brók - það er verk að vinna!


mbl.is Kristrún vill ekkert segja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innilokaðir hæfileikar

Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár unnið hratt og vel að því að hlaða á sig starfsmönnum sem þurfa lítið að gera og borið við ýmsu eins og þróun stafrænna lausna sem segja nei við leikskólaplássum og tilkynna um myglu í húsnæði. Borgin hefur yfirboðið einkafyrirtæki og sogað til sín hæfileika. Það má líta á þá hæfileika sem vannýtta auðlind, eða sóun á auðlindum, og borgin orðin gjaldþrota.

Borgin þarf að taka til hjá sér. Hún er að fjármagna sig á vaxtakjörum sem yfirlýstur fjárhættuspilari með áfengisfíkn gæti verið stoltur af, en ekki aðrir. Opnunartímar þjónustu eru á niðurleið og ekki eru leikskólaplássin að láta sjá sig. Um leið er skattheimta í algjöru hámarki og hefur verið í áraraðir.

Niðurstaðan hlýtur að lokum að verða sú að stórir hópar borgarstarfsmanna - væntanlega yfirgnæfandi skrifstofufólk sem snertir hvorki sóp né hamar, og kemur ekki nálægt skólastofum eða leikskólum - fái reisupassann. 

Þetta myndi losa um töluvert vinnuafl sem má í kjölfarið nýta í verðmætaskapandi vinnu. Einkafyrirtæki gætu haft minni áhyggjur af yfirboðum, útsvarsgreiðendur gætu andað léttar, og þeim sem var sagt upp hjá borginni og fundu sér verðmætaskapandi vinnu sleppa við vanlíðan, tilgangsleysi og leiða á vinnutíma, enda hefur vinnudagurinn allt í einu öðlast merkingu.

Mun þetta gerast í fyrirsjáanlegri framtíð? Undir stjórn núverandi borgarstjóra?

Auðvitað ekki.

Munu ýmsir flokkar bjóða upp á skarpari valkost við núverandi aðstæður í næstu kosningum? Valkost sem segir það sem þarf að segja þótt ofborgaðir ráðgjafar vari við því?

Sennilega ekki.

Er hægt að vona?

Alltaf.


mbl.is Borgin yfirbauð einkafyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband