Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Prófessorinn sem andar með nefinu

Ég hef áður nefnt það á þessari síðu hvað ég er ánægður með yfirvegaðar og rökfastar stjórnmálaskýringar Hilmars Þórs Hilmarssonar, prófessors við Háskólann á Akureyri, sem birtast reglulega á vef DV. Þar er einfaldlega bent á samhengi hlutanna, sögulegan aðdraganda og raunhæfar væntingar til ýmissa viðburða líðandi stundar. Sumt af því sem hann nefnir hefur fengið lítið pláss í íslenskum og jafnvel vestrænum fjölmiðlum en rímar ágætlega við heimildir sem finnast utan við það þrönga skoðanarými. 

Þar með er ekki sagt að vestrænir fjölmiðlar séu verstir allra og aðrir betri. En fjölmiðlar víða, innan og utan Vesturlanda, telja sig alltof oft vera einhvers konar uppalendur sem hafa það hlutverk fyrst og fremst að rökstyðja eina samþykkta skoðun, og láta sem minnst bera á mótbárum við hana. Að þessu leyti má alveg flokka hina íslensku fréttastofu RÚV og hina rússnesku fréttastofu TASS sem opinber málgögn sem duga ekki til að fá einhvers konar heildarmynd eða samhengi hluta en þeim mun meira af afstöðu yfirvalda.

En auðvitað er eitt nokkuð afgerandi atriði sem aðskilur Vesturlönd og flesta aðra menningarheima og það er málfrelsið. Það er hægt að kynna sér fleiri en eina hlið mála með því að stíga aðeins utan við girðingu sjónvarpsfréttatímans. Meira að segja aðfarir vestrænna yfirvalda á veirutímum gegn óháðum og gagnrýnum röddum dugðu ekki til að þagga niður í öllum. Sumir af þessum hefðbundnu fjölmiðlum á Íslandi birtu meira að segja pistla þar sem ágæti árása ríkisvaldsins á samfélagið og hagkerfið var dregið í efa. Og nema menn séu staddir í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Ástralíu og Kanada - svo dæmi séu tekin - eru líkurnar á að lenda í steininum fyrir friðsama orðræðu litlar á Vesturlöndum. Fjölmiðlar eru að því leyti ágætir en ekki fullnægjandi farartæki tjáningar þótt samkeppni þeirra um neytendur stuðli einstaka sinnum að því að þeir birti efni sem setur hluti í samhengi frekar en að klappa bara fyrir hinni opinberu línu hverju sinni.


Plaströrið

Ég veit! Ég veit!

Ég veit að ef Donald Trump segir eitthvað þá er það dæmt úr leik sem vitleysa. Hann gæti sagt að himininn sé blár og þúsund vísindamenn sameinast í bréfi til að segja að himininn sé í raun grænn, með blöndu af gulu. 

En þegar hann tjáði sig gegn plaströrum og bannaði þvingaða notkun þeirra þá var Trump í raun að segja það sem ég hafði áður sagt, svo ég ætla að leyfa mér að vera sammála honum á þeim forsendum, meðal annarra. 

Vandamálið er samt ekki Trump eða hið augljósa að plaströr eru ekkert vandamál þótt slík rör hafi fundist í nefi skjalböku í sjó þar sem innfæddir sturta rusli beint í sjóinn. Vandamálið er að við höfum keypt þá lygasögu að plaströr eru stórt og alvarlegt umhverfisvandamál á svæðum þar sem rusli er ekki einfaldlega sturtað beint í næstu á (frekar en að brenna, urða eða endurvinna). Eða hvað er mikið af rusli að skola á strendur ríkja sem safna rusli og brenna, urða eða endurnýta? Svarið er: Ekkert.

Ofan á það vandamál er svo heilaþvotturinn. Fólk hamast við að finna upp á lausnum við því vandamáli sem fjarvera plaströrsins er. Pappírsrörið er dæmi um þetta: Ónothæft rusl sem dugar í mesta lagi til að sjúga í sig eitt vatnsglas á methraða. En hvað endist vel? Jú, stálrör, sem þarf bæði að framleiða (stálframleiðsla er orkufrek) og þrífa reglulega (sápa er líka auðlindanotkun), og kostar helling og er skelfilega orkufrek og óheilnæm lausn. Fólk að reyna græða á því að selja okkur stálrör er sent heim til sín, eðlilega, því enginn trúir því að stálrör muni fá pláss í jakkavösum og töskum (þótt enginn þori að mótmæla ofsóknunum á plaströrunum).

Hver er svo niðurstaðan hérna? Hún er sú að trúa ekki öllu, og sérstaklega ekki ef frásögnin er svo afbrigðilega aftengt heilbrigðri skynsemi að það er engin ástæða til að trúa. Svo sem:

  • Að það sé hægt að þróa bóluefni á undir 10 árum sem drepur ekki ungt fólk og slátrar eldra fólki á methraða
  • Að ruslið þitt, sem endar í ruslafötu og er svo afgreitt af fagmönnum, sé að drepa skjaldbökur í Kyrrahafi
  • Að nautakjötið þitt sé að breyta loftslagi Jarðar
  • Að grænu skattarnir hafi einhver áhrif á loftslagið
  • Að lélegir jurta- og pappírspokar séu góður valkostur við trausta plastpoka
  • Að orkuskortur sé umhverfisvænn
  • Að rafhlöður séu umhverfisvænar, þar á meðal þessar risastóru í rafmagnsbílunum
  • Að konur eigi að keppa við karlmenn í íþróttum
  • Að vopnakapphlaup stuðli að friði
  • Að keppni við hið opinbera um lánsfé lækki vexti og verðbólgu
  • Að ritskoðun stuðli að málfrelsi

Listinn er því miður lengri og jafnvel að lengjast, en það er von, og dæmi sýna það. Það sem vantar er að þú kaupir minna af snákaolíu og meira af þorskalýsi.


Nýr dagur, ný þvæla

Á nánast hverjum degi, en a.m.k. í hverri viku, ratar í fréttirnar eitthvað nýtt mál þar sem kjörinn fulltrúi gerir sig að fífli, segir einhverja vitleysu eða afhjúpast í einhverju baktjaldamakki. Innreið Flokks fólksins í ríkisstjórn hefur verið mikil uppspretta slíkra frétta en borgarfulltrúar Reykjavíkur láta ekki sitt eftir liggja. Ekki ætla ég að fara út í hvert og eitt mál hérna en fæ það almennt á tilfinninguna að fagmennskuna skorti alveg. Stjórnmálin hafa laðað að sér fólk sem veldur ekki álaginu eða ábyrgðinni og því fer sem fer. Ósköp venjulegt fólk sem hefur rekið heimili og komið börnum á legg og tekist vel upp, en bugast nú í sviðsljósinu.

Spurningin er þá: Hvernig má laga ástandið?

Er það með því að hvetja kjörna fulltrúa til að taka hlutverk sitt alvarlegra? Að sinna vinnunni og spara samfélagsmiðlana? Að eyða tímanum í að lesa skjölin frekar en senda fyrirspurnir? 

Er það með því að ábyrgir fulltrúar sem geta staðið á sínu undir stækkunarglerinu sýni gott fordæmi? Tali af yfirvegun, klæði sig snyrtilega og forðist að varpa skít á annað fólk eða heilu afkima samfélagsins?

Er það með því að kjósendur geri einfaldlega meiri kröfur en nú er? Sendi póst á kjörna fulltrúa og hvetji þá til að innleiða meiri fagmennsku í vinnuna, bera sig vel og hegða sér eins og fullorðið fólk?

Kannski er svarið bara að fá fleiri hægrimenn á þing og í ráðhúsin. Fólk sem togast aðeins í íhaldssamari átt og hefur minni áhuga en aðrir á að brenna upp launafé skattgreiðenda og aflafé stöndugra fyrirtækja. Fólk sem vaknar snemma á morgnana, fer í snyrtileg föt og lærði góða mannasiði í æsku.

Er það málið?


mbl.is Misbauð hegðun borgarfulltrúa: „Ég biðst afsökunar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu hratt er hægt að stöðva hallarekstur?

Enn og aftur kemur einhver þvæla út úr fjármálaráðuneytinu um að hallarekstur ríkissjóðs verði stöðvaður á einhverju ári í framtíðinni. Þar með hætti ríkisvaldið að keppa um lánsfé og þrýsta vöxtum upp. Þar með hætti kynslóðir framtíðarinnar að sjá skuldabaggann á herðum sínum vaxa. Þar með verði hægt að fjármagna ríkisvaldið með skattfé en ekki lánsfé.

Þessu trúir væntanlega enginn lengur. Til að stöðva hallarekstur þarf að lækka útgjöld niður fyrir tekjur og til að borga niður lánin þarf að lækka útgjöldin enn meira. Þetta á sérstaklega vel við þegar skattar verða ekki hækkaðir frekar nema á kostnað þúsundir starfa, sem ríkisstjórnin virðist nú samt ekki hika við að gera. 

Til að stöðva hallarekstur þarf að koma verkefnum úr höndum hins opinbera og í hendur annarra, eða hreinlega hætta að sinna þeim. Það er hægt að fækka reglum og þar með leyfum og allir spara. Það er hægt að leggja niður tilgangslausar nefndir og heilu ríkisstofnanirnar og færa þau verkefni sem er talið nauðsynlegt að sinna annað. Heilu ráðuneytin geta orðið að skrifstofum innan annarra ráðuneyta. Það er hægt að draga til baka loforð um að fjármagna vopnuð átök, klúður erlendra ríkja í sinni hagstjórn og aðför að notkun hagkvæmra orkugjafa. Það er hægt að verja landamærin og þar með velferðarkerfið (og raunar samfélagið).

Það er hægt að gera svo margt á stuttum tíma og stöðva hallarekstur á vikum frekar en árum.

Sem segir okkur að það er engin alvara á bak við að segja að árið 2028 hætti íslenskir skattgreiðendur að safna skuldum í skiptum fyrir ekkert. Nú fyrir utan að stjórnmálamenn á Íslandi uppskera aldrei atkvæði þegar þeir kjósa neitandi gegn fjármögnun gæluverkefna og sóunar. Íslenskir kjósendur sjá til þess. Því fer sem fer.

Því miður, en óumflýjanlega, því af hverju að hætta að drekka ef það þýðir bara leiðigjarnir timburmenn í kjölfarið?


mbl.is Markmið um að stöðva hallarekstur hins opinbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttin sem segir ekkert

Íslensk fangelsi eru yfirfull. Sá hóp­ur sem er í gæslu­v­arðhaldi sam­an­stend­ur af föng­um í lausa­gæslu sem alla jafna bíða áfrýj­un­ar dóm­stól­anna, fólki sem hef­ur verið synjað um land­vist­ar­leyfi og bíður brott­vís­un­ar og fólki í ein­angr­un vegna rann­sókn­ar­hags­muna.

En þetta segir okkur ekki neitt. Væntanlega er ákveðinn stöðugleiki í ákveðnum ástæðum fangelsisvistar og meiri breytileiki í öðrum. Áhugaverð frétt hefði kafað aðeins dýpra í það og jafnvel sagt frá langtímaþróun og annað gott. 

Eftir situr hugsunin: Eru það landvistarleyfin sem fylla fangelsin? Og af hverju? Þessu hefur kannski verið svarað, kannski ekki.

Það má alveg hrósa ýmsum fjölmiðlum á Íslandi fyrir að byrja taka hlutverk sitt alvarlega svo fjölmiðlaumhverfið sé ekki lengur bara vinstrisinnaðir miðlar að berja á hægrimönnum heldur mögulega líka miðlar að berja á öllum eða miðlar að berja á pólitískum rétttrúnaði. Mikið hefði verið gott fyrir almenning ef það hefði verið ástandið á veirutímum! 

En að segja bara frá alvarlegu vandamáli og þynna svo út raunverulega ástæðu þess er verra en engin frétt. Frétt sem segir ekkert.

Kveðja, frá einum sem langar að vita hvað er raunverulega í gangi.


mbl.is Fangelsi smekkfull: 70 í gæsluvarðhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilaþvegnir nothæfir vitleysingar

Vel skipulögð og vel fjármögnuð mótmæli við Teslu-stöðvar og -sölustaði eiga sér nú stað víðsvegar í Bandaríkjunum og skemmdarverkin eru gjörsamlega hömlulaus og virðing fyrir eignum og öryggi fólks engin. Að baki þessum mótmælum standa spillt hagsmunaöfl sem hafa gengið að fé skattgreiðenda sem vísum hlut og óttast að verið sé að skola beinagrindum þeirra úr skápnum. Þau ráða til verka nothæfa vitleysinga sem mála skilti þar sem segir að Elon Musk sé fasisti.

Þetta eru bandarísk innanlandsmál sem koma Íslendingum ekkert við og það olli mér því gapandi undrun að sjá nokkra af nothæfu vitleysingunum stofna til mótmæla við Teslu-umboðið á Íslandi, væntanlega alveg launalaust. 

Það trúir því ekki nokkur maður að Elon Musk sé fasisti, hvorki í upprunalegu skilgreiningu hugtaksins (ríki og stórfyrirtæki reki í sameiningu samfélagið og eignarétturinn ekki til í raun) eða þeirri nútímalegu (allir sem vilja ekki gelda börn og galopna landamærin eru fasistar). Að baki bandarísku mótmælunum standa ekki aðilar sem eru í raun að berjast gegn fasisma, heldur aðilar að verja eigin ítök í rotnu kerfi sem er verið að taka til í. 

Það eina sem má hrósa nothæfu vitleysingunum á Íslandi fyrir er að mótmæli þeirra virðast vera friðsöm. Engir mólatoff-kokkteilar við fjölfarnar götur eða íkveikjur í íbúðarhverfum. Bara skilti, og bara 10 hræður.

Þótt ég sjái sjálfur ýmsa galla við rafmagnsbíla eins og Teslurnar þá vona ég nú samt að almenningur á Íslandi láti ekki breyta ákvörðunarmyndun sinni á neinn hátt til að þóknast spilltum, bandarískum auðkýfingum með báðar lúkur djúpt í vösum skattgreiðenda. 


mbl.is Mótmæli fyrir utan Tesla-umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sykurhúðað vandamál

Foreldrar í Neðra-Breiðholti sjá sig nú tilneydda til að eyða kvöldstundum sínum á rölti í hverfinu til að leysa upp slagsmál og hringja á lögregluna ef illa gengur. Tilgangurinn er  „ekki vera að vakta ein­hvern ákveðinn hóp, held­ur snú­ist þetta um að full­orðnir séu sýni­leg­ir í hverf­inu og að börn­in geti gengið að þeim vís­um“ enda er „fullt af fleiri vit­leys­ing­um að gera ein­hverja vit­leysu niðri í Bökk­um“, þ.e. aðrir en nokkrir nemendur á miðstigi í Breiðholtsskóla.

Sniðugt, ekki satt? Svo sniðugt að foreldrar í fleiri hverfum hljóta að vera hugleiða eitthvað svipað, jafnvel þótt enginn hópur nemenda á miðstigi í grunnskóla hverfisins sé búinn að fá að áreita, meiða og ógna svo misserum skiptir, og borgaryfirvöld búin að reyna sópa yfir ástandið í álíka langan tíma.

En engir slíkir foreldrahópar eru á ferð. Á meðan hverfið er laust við hóp nemenda á miðstigi hverfisskólans sem áreitir, meiðir og ógnar, og skólayfirvöld taka ekki á, þá sjá foreldrar enga ástæðu til að eyða kvöldstundum sínum á rölti um hverfið, tilbúnir að hringja á lögregluna.

Það er því auðvitað svo að foreldrar í Neðra-Breiðholti eru eingöngu að eyða kvöldstundum sínum á röltinu, tilbúnir að hringja á lögregluna, til að vakta ákveðinn hóp nemenda á miðstigi Breiðholtsskóla.

Eftir stendur þá spurningin: Af hverju í ósköpunum fær þessi hópur nemenda á miðstigi í Breiðholtsskóla að taka heilt hverfi í gíslingu?

Er það af því innan hópsins (jafnvel meirihlutinn) eru innflytjendur, jafnvel brúnir á hörund, múslímatrúar og illa mælskir á íslensku? Ég veit það ekki en miðað við upplýsingaflæðið þá er auðvelt að álykta sem svo. Að hérna gildi sérstakar reglur fyrir ákveðinn hóp, eða regluleysi nánar tiltekið, sem enginn þorir að taka á af ótta við að vera kallaður kynþáttahatari.

Eða má skrifa veik hné sveitarfélags og skólastjórnar á alveg gapandi getuleysi í starfi og vanmætti til að bera ábyrgð? 

Hvort er það? Óttinn við að vera kallaður kynþáttahatari, eða getuleysi í starfi? Skyldir hlutir, en aðskildir.

En kannski er vandamálið einfaldlega foreldrasamfélagið í Neðra-Breiðholti (eða þeir sem eru ekki flúnir). Þeir eru „ekki vera að vakta ein­hvern ákveðinn hóp“ sem er kannski nákvæmlega það sem þeir ættu að vera að gera, og ekki annað. Fólk með slíka dómgreind er kannski ekki alsaklaust af vandamálum samfélags síns.


mbl.is Foreldrar í Breiðholti taka málin í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar eitthvað flókið verður einfalt

Sumt er flókið og erfitt að skilja. Sumt er einfalt og flókið að skilja. Sumt er einfalt og einfalt að skilja. Sumt er flókið og einfalt að skilja.

Þetta síðastnefnda, að eitthvað sé flókið en einfalt að skilja, er það sem ég vil ræða núna. Hvernig stendur á því að hið opinbera spænir sig í gegnum sífellt stærri upphæðir án þess að skila af sér betri þjónustu, innviðum og lífskjörum? Jú, því á botni þess baðkars er niðurfall sem stækkar bara og stækkar.

Það skiptir ekki máli hvað þú dælir miklu fé í þetta baðkar ef niðurfallið stækkar í sífellu.

Sem dæmi: Stjórnir opinberra fyrirtækja. Auðvitað kostar stjórnarseta því með henni er aðgengi fengið að vitru og reynslumiklu fólki sem hefur brennt alla puttana oftar en einu sinni og hefur lært af þeim mistökum.

En stjórnarseta í opinberum fyrirtækjum? Hverja færðu í slíka? Kjörna fulltrúa! Fulltrúa sem kunna í mesta lagi á reiknivél af því það vildi svo til að einhver verðmætaskapandi einstaklingur úr atvinnulífinu ákvað að skera laun sín niður um 70% til að gerast stjórnmálamaður. Það gerist, en er sjaldgæft. 

Í þessum stjórnum er fólk sem kann lítið, veit lítið og nennir minna. Kjörnir fulltrúar hafa fyllt dagatalið sitt af fundum við aðra kjörna fulltrúa og nenna í mesta lagi að eyða klukkutíma eða tveimur á mánuði í að kynna sér málin áður en þeir mæta á fund og þiggja nálægt því 200 þúsund krónur á klukkutímann að ræða innkaup á slökkviliðsbúnaði eða viðbætur við höfn.

Gagnslaus og glórulaus sóun á fé og tíma allra, nema þeirra sem fengu borgað.

Um daginn var sagt frá því að stjórn Tryggingastofnunar væri hér með gufuð upp, og enginn fann fyrir neinum mun, nema mögulega þeir sem voru á spenanum. Þetta ætti að verða að skínandi fordæmi fyrir allar stjórnir allra opinberra eða hálf-opinberra stofnana og fyrirtækja. Stjórnir mannaðar málglöðum en innihaldsrýrum kjörnum fulltrúum mættu mögulega allar hverfa á einu bretti án annarra áhrifa en þeirra jákvæðu áhrifa að skattgreiðendur finna fyrir minni þrýstingi á veski sín.

Af hverju er hið opinbera botnlaus hít? Það er flókið mál, en hérna er dæmi um einfalda skýringu á því. Flókið mál en einfalt að skilja.


mbl.is Með 187 þúsund til 281 þúsund á tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel gert, ráðherra!

Það er þá kannski einhver alvara í því að vilja spara fé í íslenskri stjórnsýslu? Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að leggja niður stjórn Tryggingastofnunar. Við það sparast fé og ekkert tapast. 

Hvað ætli leynist margar svona gagnslausar og kostnaðarsamar stjórnir innan hins opinbera? Stjórnir sem hafa aðallega það hlutverk að veita atvinnulausum flokkssystkinum einhverjar aukakrónur og þá tálsýn að þau hafi eitthvað merkilegt til málanna að leggja. 

Og hvaða þóknanir er verið að veita? Hundruð þúsunda á mánuði fyrir einn fund og einn fjarfund á mánuði eins og eitt dæmið er um. 

Nú hlaða einkafyrirtæki vissulega á sig fitu líka en þar gilda aðrir hvatar. Þegar spikið er orðið of mikið þá myndast taprekstur. Við því er brugðist. Ég hef upplifað uppsagnarlotur þar sem um fjórðungi starfsmanna var sagt upp á einu bretti sem þýðir að allir sem eftir voru þekktu fjölda manns sem missti starfið sitt. Sárt, en nauðsynlegt. Og það segir mér enginn að hið opinbera þurfti 100% mannafla síns. Ef svo er þá er ástæðan langar boðleiðir, ákvörðunarfælni, skortur á umboði eða innbyrðis flækjur sem gera einföldustu mál langdregin og kostnaðarsöm.

Eins og afleiðingalaus uppgufun stjórnar Tryggingastofnunar er nú dæmi um.


mbl.is Inga leggur niður stjórn Tryggingastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fara í boltann, ekki manninn

Í fótbolta er regla þegar kemur að tæklingum: Ef tæklingin miðar á boltann en ekki manninn þá er hún lögleg, jafnvel þótt maðurinn sem var með boltann detti á rassgatið í kjölfarið. Fari tæklingin beint í manninn, og miðar á hann en ekki boltann, þá er gefin aukaspyrna eða spjald.

Reglan er sú að það sé í lagi að fara í boltann en ekki manninn.

Þetta má auðvitað heimfæra á mjög margt, en ég tek hérna stjórnmálin sem dæmi.

Segjum sem svo að einhver bendi á að milljónir af skattfé fossi úr sjóðum skattgreiðenda og inn á reikning lögfræðistofu af því að einhver yfirmaður innan sýslumannsembættisins, og meðeigandi sömu lögfræðistofu, hefur beint öllum ágreiningsmálum í ákveðna átt. Er sá sem afhjúpar þá svikamyllu glæpamaðurinn og ber að húðskamma fyrir að stuðla að lægri tekjum lögfræðinga, eða sá sem mjakaði milljónunum í eigin sjóði?

Væntanlega augljóst svar, en maður veit aldrei.

Þegar einhver hrópar að keisarinn sé nakinn er aldrei að vita hvort viðkomandi fái hrós eða skammir. Það virðist skipta meira máli hver hrópar en hvað hann hrópar. Þetta er ekki uppbyggilegt. Miklu frekar ætti að taka slíkar upphrópanir með fyrirvara, rannsaka sannleiksgildið og taka síðan næsta skref. Var rétt frá sagt? Var um lygi að ræða? Ef sá sem hrópaði var að ljúga má vitaskuld benda á að trúverðugleiki viðkomandi hafi skaðast. Hafi viðkomandi sagt rétt frá, þvert á andmæli ríkjandi viðhorfa, þá má hrósa fyrir að benda á nakinn keisara. 

Að fara í boltann en ekki manninn er samt ekki í tísku.

Þetta blasir við þegar evrópsk fjölmiðlaumfjöllun um bandarísk stjórn- og samfélagsmál ber á góma. Þar skiptir eingöngu máli hver sagði hvað, en ekki hvað viðkomandi sagði.

Þetta blasir við þegar fjölmiðlar utan Þýskalands fjalla um stjórnmál í Þýskalandi, og vilja meina að fjórðungur Þjóðverja sé orðinn að öfgahægrimönnum.

Þetta blasir við þegar við fjöllum um orkuframleiðslu og væga gagnrýni á að treysta algjörlega á vindinn, vatnið og sólina til að hita hús og knýja skip, bíla, ljósaperur og eldavélar.

Það er gaman að horfa á fótboltaleik þar sem leikmenn fara í boltann en ekki manninn. Kannski eru flestir sammála því en finnst svo hið gagnstæða eiga betur við þegar kemur að því að ræða stjórnmál og samfélagsmál. Þá það, en ég reyni að fylgja fótboltareglunum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband