Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sorpflokkun gerð bærileg

Undanfarin ár hafa kröfur til flokkunar á heimilissorpi sífellt farið vaxandi. Ekki flokkun í skilvirkum móttökustöðvum. Ekki flokkun með notkun vélmenna og skynjara. Ekki flokkun af sérþjálfuðu starfsfólki. Nei, krafan er sú að við sem nú þegar borgum sífellt meira fyrir sífellt lélegri sorphirðu flokkum okkar eigið sorp og ferðumst með það ýmist í hina og þessa gáma í hverfinu, gefið að þar sé eitthvað pláss, eða hreinlega fyllum bílinn af sorpi og keyrum með það bæinn á enda og jafnvel á marga mismunandi staði - dósir á einn stað og pappír á annan.

En ekki nóg með það. Matarafgangana þarf að setja í sérstaka óvatnsþétta bréfpoka sem þarf að sækja á sérstöðum stöðvum á örfáum stöðum - hrikaleg breyting frá því í upphafi þegar þessa poka var hægt að sækja hvar sem er.

Þetta er a.m.k. lýsingin sem ég fæ frá íbúum höfuðborgarsvæðisins.

IMG_20250119_130039345_HDREr þá kannski óhætt að segja að umstangið í kringum það að losna við rusl verði varla gert meira en hér þarf þó að fara varlega og vanmeta ekki ímyndaraflið hjá sorphirðunni.

Ég bý í Kaupmannahöfn og þarf að flokka í a.m.k. jafnmarga flokka og Reykvíkingar en ég vil í því samhengi hrósa mínum yfirvöldum. Þau virðast vilja lágmarka þjáningar mínar af flokkunaráráttunni, ekki hámarka. Myndin við þessa færslu er dæmi um það. Hún sýnir tvo skammtara fyrir vatnsþétta en niðurbrjótanlega poka sem eiga að nýtast undir lífræna ruslið, og einnig er þarna hægt að sækja sér sérstakar fötur fyrir þá poka. Á heimasíðu sveitarfélagsins er hægt að panta allskyns flokkunardót sem er sent að kostnaðarlausu heim, þar á meðal pokana. Í skúrnum sem þarna sést, og er í bakgarði byggingarinnar sem ég bý í, er hægt að losna við allar tegundir af rusli, frá pappír og pappa og plastsins til rafhlaðna, glers, málma, eiturefna og raftækja. Stærra rusl má líka draga þangað inn, svo sem ónýt húsgögn (kannski samt ekki gamla sófasettið - ég hef ekki látið reyna á svo stóra hluti).

Allt í örstuttu göngufæri, alltaf nóg pláss (líka eftir aðfangadag), ekki neitt mál.

Almennur úrgangur er svo keyrður, af fagmönnum, í næstu sorpbrennslu ekki langt frá héðan og er þar breytt í hita og rafmagn og hvítan og lyktarlausan reyk (með tilheyrandi losun á koltvísýringi í andrúmsloftið svo gróðurinn fái líka sín hráefni í grænkun). Á þaki þeirrar sorpbrennslu er skíðabrekka og kaffihús þar sem er hægt að fá sér kaffi eða bjór og eitthvað að borða og njóta útsýnisins yfir borgina og hafið. Í lyftunni á leið upp er hægt að sjá innvolsið í sorpbrennslunni sem mörgum þykir vafalaust áhrifamikið.

Boðskapur minn hérna er að það er alveg hægt að þröngva fólki til að flokka, þrífa ruslið sitt, geyma í tunnum og pokum og að lokum losa sig við það án þess að ráðast mjög harkalega á lífsgæðin. Það er alveg hægt að búa til skilvirk og notendavæn kerfi sem hjálpa fólki að fylgja nýjustu reglugerðinni, hvort sem hún er skynsamleg eða ekki.

Annar boðskapur er sá að það er hægt að nýta sorpið sem verðmætt hráefni, hvort heldur til framleiðslu á rafmagni og hita eða umhverfisvæns eldsneytis, svo eitthvað sé nefnt, sem valkost við skipaflutninga á sorpi, en eitthvað virðist vera erfitt að koma slíku í gagnið á Íslandi, öfugt við Grænland.

Ég endurtek að ég vil ekki vanmeta ímyndunarafl íslenskra sorphirðusérfræðinga til að gera hluti enn flóknari, óþægilegri og dýrari en nú er raunin þótt ég sjái sjálfur ekki hvernig það væri hægt. En kannski á almenningur betra skilið í skiptum fyrir sístækkandi sorphirðureikninga. Þá meina ég: Eigi skilið að sorpið sé hirt en sé ekki þessi byrði á fólki. Sorp-hirða frekar en sorp-byrða.


Eru fjölmiðlar að ná að forðast eigin dauðdaga?

Hefur fjölmiðlalandslagið á Íslandi breyst til batnaðar? Hafa blaðamenn rifjað upp hvað er ætlast til af þeim af okkur sem neytum frétta? Eru fjölmiðlar að reyna endurheimta orðspor sitt sem einhvers konar fjórða vald sem veitir yfirvöldum aðhald og borar í spillingu og sóun?

Sennilega er svarið við öllum þessum spurningum eitt stórt nei. Ekkert er að gerast í uppgjöri við veirutíma, fjármögnun á vopnuðum átökum á kostnað skattgreiðenda og gengdarlausa sjálftöku opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa, en stundum eru undantekningar.

Sem dæmi má nefna þessa frétt DV um gegndarlausa sóun í ferðalög borgarfulltrúa í Reykjavík. Upphæðirnar sem þessir borgarfulltrúar hafa sogað til sín í skemmtiferðir og tilgangslausar vettvangsferðir eru sláandi, og þá sérstaklega þegar fjárhagsstaða hinnar gjaldþrota höfuðborgar er höfð í huga. 

Á seinasta ári byrjuðu viðtalsþættirnir Spursamál á Morgunblaðinu. Þar er engum hlíft að því marki að þingmenn hafa verið hraktir úr stólum sínum. Svo sannarlega ómissandi þættir fyrir þá sem vilja fylgjast með. Svipaða sögu má segja um Harmageddum-þættina á Brotkast - stækkunarglerið á kýlin sem almenningur þarf svo sannarlega á að halda, og svarti húmorinn sem frábært krydd. Fréttin og Nútíminn bjóða líka oft upp á hressandi valkost við það sem er talið verðugt til að fjalla um, svo sem umfjöllun um gengi ofbeldisfullra raðnauðgara af pakistönskum uppruna og múslímatrú í Englandi sem hafa fengið að misþyrma þúsundum ungra stúlkna nánast afleiðingalaust í fjölda ára. 

Svo það er kannski von, en bara ef við neytendur frétta viljum von og sýnum það í verki. Svartsýni mín fyrir hönd hefðbundinna fjölmiðla hefur dalað aðeins. Kannski skjátlast mér. Kannski endist þessi upprifjun blaðamanna á hlutverki sínu í samfélaginu bara á meðan Trump er Bandaríkjaforseti. Hver veit. En njótum þess sem hægt er að njóta, á meðan það endist.  


Fyrsti áfangi borgarlínu felur ekki í sér að kaupa farartæki

Er það bara ég eða er ekki eitthvað skondið við að fyrsta verklega framkvæmd borgarlínu er án farartækis? Sú framkvæmd er hjólabrú þar sem vindar blása og tengir saman Sky Lagoon og Háskóla Íslands, en ekki hvað. Kannski ferðamenn geti nýtt hana til að komast hratt frá BSÍ í bað, gefið að einhver vilji lána þeim hjól.

Ég er hlynntur almenningssamgöngum og nýt þess mjög að búa í borg þar sem er nóg af slíku og gerir mér kleift að vera bíllaus nánast alla daga. Ég skil alveg rökin fyrir því að almenningsvagnar njóti forgangs, og að þeir séu jafnvel á sérakreinum, a.m.k. á völdum köflum, til að halda áætlun.

Í öll þessi box krossar Borgarlínan þannig séð. 

En það gera strætisvagnar líka. Það væri sennilega frekar auðvelt að tryggja honum pláss á vegum með því að leggja á völdum köflum sérstakar akreinar. Útbúa að- og fráreinar og hafa forgang fyrir strætó á ljósunum. Minnka vagnana og fjölga þeim þar sem farþegar eru fáir, safna farþegum saman á stærri stöðvar (þar sem er hægt að míga án þess að æla í leiðinni úr velgju) og keyra þaðan í stærri vögnum.

Ég á frænku sem býr í miðbæ Hafnarfjarðar og vinnur í miðbæ Reykjavíkur. Hún notar stundum strætó og líkar vel. 

Þetta er hægt, og hægt að gera þannig að fólk velji að láta bílinn standa heima og fara í staðinn í strætó. 

Í nokkur ár bjó ég í Álaborg í Danmörku sem minnir um margt á Reykjavík: Rúmlega 100 þúsund manna borg og nærliggjandi bæir. Dreifð byggð. Oft leiðinlegt veður. Aldrei var erfitt að komast með strætó. Hvernig? Ég veit það ekki. Þetta virkaði og bíllinn bara notaður í stærri verslunarferðir og varla það.

Þegar milljarðar eru farnir í göngubrú sem ekkert farartæki fer yfir þá hlýtur einhver að fara biðja um farartæki - línuna sem tengir saman Sky Lagoon og Háskólann í Reykjavík. Verða einhverjir peningar til? Verður eitthvað eftir til að reka þessa venjulegu strætisvagna?

Borgarlínan: Áætlunin sem afnám almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu?


mbl.is Framkvæmdir við borgarlínu hefjast á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkurinn sem síar út hugsjónafólk

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið duglegur seinustu árin við að hreinsa hugsjónafólk út af framboðslistum sínum. Er mér hérna efst í huga Sigríður Andersen sem situr núna á þingi fyrir Miðflokkinn. Hún lét dómaraklíkuna bola sér úr ráðherraembætti og almennir flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum sáu svo um afganginn með því að skjóta henni langt niður á framboðslista og núna er hún komin annað. Tapið fyrir flokkinn er mikið. Engu að síður gæti næsti formaður Sjálfstæðisflokksins kannski þegið innblástur frá Sigríði. Hún stóð nefnilega oftast í lappirnar, og skal hér tekið dæmi.

Árið er 2015 og til stendur að stofna sérstakan jafnréttissjóð fyrir fleiri hundruð milljónir af fé skattgreiðenda. Óumdeilt mál, ekki satt? Ég meina, jafnréttissjóður! Hver vill ekki jafnrétti? Hver vill ekki sjóð til að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna“ (eins og segir á heimasíðu sjóðsins)? Og kenna unglingum að fróa sér og karlmönnum að hata sig, svo það sé nefnt.  janei

Hérna stóð Sigríður Andersen í lappirnar fyrir hönd skattgreiðenda og kaus ein þingmanna gegn stofnun þessa sjóðs. 

Ein þingmanna!

Þetta segir okkur ýmislegt um þingmenn almennt. Þeir feykjast um eins og lauf í vindi og moka fé almennings ofan í nýjustu delluna, aftur og aftur. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að vera af annarri tegund og það þarf að gilda innan þings og utan því stundum þarf líka að takast á við raddir innan flokksins sem vilja skreyta sig með nýjustu tískunni á kostnað almennings. 

Fyrir þá sem vilja sjá í hvað milljónirnar mörgu sem Sigríður vildi halda eftir í vösum skattgreiðenda hafa farið í er hægt að rýna í skýrslu sjóðsins fyrir árin 2016-2020. Ég tel óhætt að fullyrða að hverri einustu krónu hafi verið sóað og að ekkert nothæft hafi komið út úr styrkveitingum sjóðsins, ekki frekar en jafnlaunavottunninni sem Sigríður kaus að vísu með (óvænt að mínu mati, m.v. hennar opinberu skoðanir á slíku brölti) en getur nú barist í samstarfi við Diljá Mist Einarsdóttur í Sjálfstæðisflokknum fyrir því að afnema og spara þannig hagkerfinu svimandi fjárhæðir.


mbl.is Ný forysta í uppsiglingu: Hver tekur við taumunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar ríkisstjórnin að koma á óvart?

Fráfarandi og núverandi orkumálaráðherra skiptast nú á skeytum og saka hvorn annan um að fara sér of hægt í aukinni orkuöflun, og telja báðir sig vera mikilvirkari í að stuðla að slíkri öflun.

En yndislegur rígur!

Í bili eru samt bara orð á flugi.

Fráfarandi orkumálaráðherra náði vissulega að brjóta sársaukafulla kyrrstöðu í orkuöflun en betur má ef duga skal. Ef sá sem er núna orkumálaráðherra gerir enn betur er Íslendingum borgið, og fá borgað. Rafmagns- og hitaveitureikningar geta hjaðnað og iðnaður dregið andann. 

Það er ekki oft að íslensk stjórnmál koma mér á óvart en ef Jóhann Páll Jóhannsson stuðlar að frekari orkuöflun á Íslandi þá þigg ég þann kinnhest með glöðu geði.

Kannski er of snemmt að fagna en fráfarandi orkumálaráðherra hefur örugglega ekki sungið sitt síðasta og heldur vonandi nýja ráðherranum við efnið. Það heitir virk stjórnarandstaða og er eitthvað sem hefur sjaldan verið mikilvægara á Alþingi.

Um leið mætti segja að það er sama hvaðan gott kemur.

Og ég bíð spenntur eftir mínum kinnhesti. 


mbl.is Munu stíga stærri skref en Guðlaugur hafði kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glerhjúpar að springa

Ég ætlaði varla að trúa eigin augum þegar ég las leiðara Morgunblaðsins í morgun. Hann fjallar um viðkvæmt mál sem mörgum finnst erfitt að ræða. Hættan er sú að vera kallaður fordómafullur kynþáttahatari við það eitt að lýsa málinu og án þess að fella neina dóma. 

Málið snýr að gengjum raðnauðgara af pakistönskum uppruna í Norður-Englandi sem tæla til sín hvítar stelpur niður í barnsaldur, og nauðga þeim. Fyrir þá sem vilja smáatriðin og sögu þessa máls get ég bent á þessa góðu umfjöllun The Epoch Times

Mál pakistönsku barnanauðgaranna er ekki nýtt og hefur raunar verið að væflast um í bresku réttarkerfi í fjöldamörg ár. Eitthvað illa hefur gengið að stöðva þá því menn óttast að vera kallaðir kynþáttahatarar með því að segja hlutina eins og þeir eru og gera svo eitthvað í því. Fjölmiðlar eins og BBC hafa talað um asísku nauðgarana til að afvegaleiða lesendur sína og búa til hugrenningatengsl við Kína og Víetnam frekar en Pakistan. Leiðari Morgunblaðsins stendur ekki í slíkum feluleikjum, sem er fagnaðarefni.

Núna er þessi glerhjúpur að mölbrotna. Hlýtur þá að styttast í að menn stöðvi þessa ógeðfelldu hefð sumra karlmanna af pakistönskum uppruna í Norður-Englandi. Vonandi!

Ég velti því svo fyrir mér hvort fleiri glerhjúpar byrji ekki bráðum að springa. Af nægu er að taka. Sem dæmi má nefna Pfizer-skjölin sem sýna svart á hvítu að Pfizer vissi strax í fyrstu prófunum sínum á veirusprautunum að þær lama, skemma hjartað, valda ófrjósemi og fósturlátum, búa til blóðtappa og skemma taugakerfið, svo eitthvað sé nefnt, fyrir utan að geta verið beinlínis banvænar. Smávegis talnaleikfimi var nóg til að blekkja yfirvöld (og fjölmiðla, auðvitað) og almenningur situr eftir stórskaddaður. Má ekki skrifa fréttir upp úr því?

Hvað með kostnaðarsamar aðgerðir gegn loftslagsaðgerðum? Hérna geta menn verið sammála því eða ósammála að mannkynið sé að breyta hitastigi loftshjúpsins - spurningin er óháð því hversu miklar auðlindir eigi að brenna upp í mótvægisaðgerðum. Þarf að taka bílinn af venjulegu fólki, og kjötið? Er betra kaupa flugnanet og malaríulyf fyrir fátæka Afríkubúa en að niðurgreiða vestræna verksmiðju sem vill fanga og farga koltvísýringi sínum? Forgangsraða, með öðrum orðum. Blaðamenn mættu alveg bjóða sig í þetta mál og skapa frekari umræðugrundvöll - á stóra sviðinu. 

Hvernig væri að ræða sjálfseyðingu hins kristna, vestræna heims? Eftir einn mannsaldur verða Íslendingar orðnir að minnihluta í eigin landi. Á það að gerast? Er það að gerast viljandi eða óvart? Munu barnabörn okkar kunna íslensku eða tókst á einum mannsaldri að útrýma heilu tungumáli? Það væri alveg sjálfsagt að fá opinskáa umræðu um þetta, hvort sem menn vilja varðveita íslenska menningu og íslenska tungu eða ekki. 

Ef leiðarahöfundar þora núna loksins að taka á óþægilegum málum þá er von á góðu. Ég hlakka til! Eða er það of snemmt?


Næmari ónæmiskerfi í boði stjórnvalda

Á það hefur verið bent að á meðan COVID-19 stóð sem hæst hafi nánast enginn greinst með inflúensu. Menn hafa boðið upp á allskyns skýringar á því, svo sem að sóttvarnaraðgerðir hafi virkað í tilviki flensunnar (ferðatakmarkanir, grímur og slíkt) þótt þær hafi ekki gert mikið fyrir COVID-19 og að veirur hafi átt erfiðar með að ferðast á milli landa. Bull, auðvitað, því á endanum verða allir útsettir fyrir veirunni, og sprauturnar gerðu ekkert gagn, en eitthvað þurfa menn að segja.

Þegar sóttvarnartakmörkunum sleppti hafi flensan hins vegar fært sig upp á skaftið. Hvernig stendur á því? Jú, segja sérfræðingar, sóttvarnartakmarkanir hafi veikt ónæmiskerfi fólks og það því orðið næmara fyrir flensunni.

Sem er sennilega rétt. Ef sóttvarnartakmarkanir gerðu eitthvað þá gerðu þær það: Veiktu ónæmiskerfi fólks. Ónæmiskerfið datt úr þeirri stanslausu þjálfun sem það er alltaf í til að takast á við hinar óendanlega mörgu veirur sem sveima í sífellu í kringum okkur og stökkbreytast í leiðinni sem þýðir að við þurfum að takast á við þær til að uppfæra ónæmisviðbrögðin. 

Og það er einn af stóru lærdómum veirutíma: Með því að einangra fólk og taka samfélagið úr sambandi er í raun verið að drepa okkur hægt með því að draga úr þjálfun og getu ónæmiskerfisins.

Um leið lærdómur sem hið opinbera neitar að læra. Engin rannsókn skal gerð á veirutímum, ákvörðunum þeirra tíma og afleiðingunum sem munu hrella fjölda fólks það sem eftir er ævi þess. 

Megi embætti landlæknis og sóttvarnalæknis rata á sparnaðarlista ríkisstjórnarinnar. Megi um leið afnema þann flöskuháls sem embættið er í útgáfu á leyfum sem eru oft bara einhver óþarfi. 


mbl.is Íslendingar ekki duglegir að fara í inflúensubólusetningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má núna ræða nauðgaragengi og ritskoðun?

Það er einhver ferskur andblær í loftinu. Það er erfitt að lýsa honum öðruvísi en sem andstæðu veirutíma - tíma ritskoðunar, þöggunar, lyga og kúgunar yfirvalda á þegnum sínum.

Andstæða útilokunarmenningarinnar þar sem fólki var hreinlega sagt upp vegna nafnlausra ásakana. 

Allt í einu er verið að ræða opinskátt um ýmislegt sem taldist áður til samsæriskenninga og ímyndunar, svo sem kerfisbundna ritskoðun fjésbókarinnar sem að hluta var knúin áfram af þrýstingi yfirvalda (nokkuð sem hefur verið vitað í nokkurn tíma). Það virðist líka mega ræða kerfisbundna nauðgun manna með rætur til Pakistan á ungum, hvítum stelpum í Norður-Englandi, nokkuð sem bresk yfirvöld hafa lengi reynt að bæla niður umræðu og rannsókn á af ótta við að vera kölluð fordómafull. Það virðist sem allt þetta tal um manngerða loftslagshlýnun sem kallar á óáreiðanlega og dýra orku og jafnvel orkuskort sé hætt að hitta í mark í hvert skipti. Boðskapurinn um ágæti þess að leyfa ungum og ókynþroska börnum að taka hormónabælandi lyf til að breyta líkama sínum og jafnvel gera ófrjóan er nú í auknum mæli vegið á móti með rannsóknum á hræðilegum afleiðingum slíkrar meðhöndlunar (hvað fullorðið fólk gerir við líkama sinn er öllum alveg sama um). Stríðsbrölt Vesturlanda í Miðausturlöndum og undanfarin misseri Austur-Evrópu mætir nú aukinni andspyrnu almennings sem lýsir sér til dæmis í kosningaúrslitum. Lyfjafyrirtækin, sem voru nánast dýrkuð eins og bjargvættir á veirutímum, þola núna sífellt meira umtal um sviksamlega hegðun sína sem þau hafa komist upp með í skjóli yfirvalda sem í raun hafa hagsmuni þeirra frekar en okkar að leiðarljósi. Og svona mætti lengi telja.

Ég fagna auðvitað þessum ferska andblæ skoðanafrelsis og gagnrýni á boðskap hinnar pólitísku rétttrúnaðarkirkju. Á tímabili var ég farinn að óttast að almenningur hefði verið endanlega heilaþveginn til að gefa frá sér seinustu eigurnar, afganginn af orkunni, heilsuna og skoðanirnar - jafnvel atkvæðisréttinn í raun (allar ákvarðanir teknar af ókjörnum embættismönnum og yfirþjóðlegum stofnunum). En allt í einu fóru að myndast stórar sprungur í glerhjúpnum.

Hvað olli því að umræðan er ekki lengur þrúgandi og kæfandi einsleitni og kúgun er mér ekki alveg ljóst. Yfirgangur kanadískra yfirvalda á friðsömum mótmælum vörubílastjóra höfðu engin áhrif. Umframdauðsföllin og hræðilegar aukaverkanir veirusprautnanna ekki heldur. Kannski fólk hafi loks fengið nóg af rafmagnsreikningnum? Eða glæpum innflytjenda? Ég er ekki viss. En það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að núna má ræða mál frá ýmsum hliðum og líkurnar á að vera útilokaður, sviptur aðgangi eða settur í felur orðnar aðeins minni en áður.

Svo sem skipulagðar nauðganir pakistanskra karlmanna á breskum stúlkum, svo árum og áratugum skiptir, afleiðingalaust.

Gott mál.


Halla snúið við á mánuði

Vestræn stjórnmál og allt þeirra tal um hagræðingu, endurbætur og baráttu gegn verðbólgu og sóun á skattfé og öðru slíku hljóma sífellt hjákátlegri. Af hverju? Af því að í Argentínu hefur forseta tekið að snúa frá áratugalöngu misferli á opinberum fjármálum og öllu sem því tengist: Óðaverðbólga, verðlagshöft, fölsk skráning gjaldmiðils, innflutningshöft, opinber spilling og þjóðnýting. Á Íslandi og flestum vestrænum ríkjum er talað um að hallalaus fjármál þurfi að bíða í einhver ár, og eftir það í einhver fleiri ár. Ekkert nema orð.

Forseti Argentínu var búinn að koma ríki sínu á rétta braut á einum mánuði þegar hallareksturinn var stöðvaður og á einu ári eru öll þarlend stjórnmál að snúast á hans band því hann sýndi fram á árangur og var heiðarlegur allan tímann - sagði að tímar myndu versna áður en þeir batna - og almenningur stóð með honum, og stjórnmálaflokkarnir af þessum hefðbundna skóla sjá fram á að þurrkast út í komandi kosningum nema þeir vakni úr rotinu.

Við heyrum stundum talað um Trump-áhrifin en Milei, forseti Argentínu, hefur haft áhrif á Trump, svo kannski mætti tala um Milei-áhrifin sem eru að breiðast út á heimsvísu.

Vestrænir blaðamenn eiga auðvitað í miklum vandræðum með að útskýra ástandið í Argentínu. Þeir geta ekki afneitað hagtölunum og skoðanakönnunum en geta bent á að Milei lagði niður ráðuneyti jafnréttismála (og raunar helming allra ráðuneyta þegar hann tók við) og réttindi minnihlutahóp því í stórhættu! Einmitt það já.

Nú er að vísu embætti forseta Argentínu töluvert valdameira en embætti forsætisráðherra Íslands (nokkuð sem vinstrimönnunum í Argentínu fannst sniðugt fyrirkomulag á meðan þeir réðu ríkjum svo áratugum skipti). En þingheimur eða meirihluti þingheims sem hefur einhverja sýn og raunhæfa áætlun og auðvitað hugrekki ætti ekki að vera í vandræðum með að gera nauðsynlegar breytingar á opinberum fjármálum og regluverkinu með rösklegri lagasetningu. Mögulega þýða slík áform að hagur almennings versnar áður en hann batnar, en ekki er alltaf hægt að forðast timburmenn.

Að forsætisráðherra Íslands tali núna um að augljósar aðgerðir sem er hægt að hrinda í framkvæmd á morgun og skila árangri í næstu viku þurfi að bíða fram á vor segir kannski sína sögu. Þá verða landsmenn væntanlega búnir að gleyma hinu ævintýralega samráði sem afhjúpaði bæði sóun og spillingu og eyðilagði þögult samkomulag innan hins opinbera um að sumir keyri hundrað kílómetra á dag á milli hverfa og eigi að fá fyrir það aksturspeninga, og að frændi yfirmannsins sé besti mögulegi sumarstarfsmaðurinn á skrifstofunni og eigi jafnvel að fastráða.

Úbbs, hugsa þeir innan stjórnsýslunnar sem leyfðu þessu að gerast. Nú er voðinn vís! En óttist ekki. Við munum hafa gleymt öllu í vor.


mbl.is Vonast til að kynna hagræðingaraðgerðir í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolefnisgjald

Hvað á illa rekið ríkisvald að gera þegar því vantar peninga?

Getur það hækkað skatta sem nú þegar eru í hæstu hæðum? Nei.

Getur það lagt skatta á fleiri vörur og tegundir þjónustu þegar allt er nú þegar skattlagt í rjáfur? Nei.

Það sem ríkisvaldið getur gert er að búa til ímyndað vandamál og síðan skattlagt það í von um að það hverfi. Eða nei, í von um að það haldi áfram að vera til staðar og vera skattstofn.

Dæmi:

Losun íslensks almennings á koltvísýringi í andrúmsloftið er að hafa skaðleg áhrif á loftslag Jarðar. 

Lausn: Skattleggja þessa losun frá almenningi.

Það er ekki eins og menn geti allt í einu hætt að keyra bíl eða hafi efni á skammlífum og rándýrum rafmagnsbíl sem að auki drífur ekki nógu langt. Losunin heldur því áfram að skattarnir streyma inn.

Og hvað er svo hið furðulegasta í þessu? Það er ekki að ríkisvaldið hafi fundið upp á nýrri tegund skattheimtu til að moka ofan í hítina eða að sá skattur fari nú sífellt hækkandi. Nei, það er andvaraleysi almennings sem lætur bjóða sér þessa þvælu. Enn einn skatturinn sem breytir engu fyrir loftslagið en klípur enn stærri bita af launafé almennings. 

Ekkert að sjá hér, kæri skattgreiðandi! Kolefnisgjaldið er jú ekki gjald heldur gjöf!


mbl.is Dýr er dropinn og 53% fara til ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband