Miðvikudagur, 17. janúar 2024
Hættu að reykja og keyptu þér rafmagnsbíl
Ég er háður nikótíni. Ég nota rafrettu og nikótínpúða (fer eftir aðstæðum). Áður fyrr reykti ég sígarettur. Þegar ég ákvað að hætta því og taka upp rafretturnar þá var það einfalt mál og frekar ódýrt. Sparnaðurinn var gríðarlegur. Snemma komst ég að því að sælgætisbragðtegundirnar höfðuðu ekkert til mín. Fljótlega átti ég nokkurn lager af hylkjum, rafhlöðum og öðru sem fylgdi.
Þökk sé rafrettunum og púðunum er búið að koma mörgum út úr sígarettureykingum. Það ættu að kallast góðar fréttir. Tjaran er horfin úr lungunum og líkur á hinu og þessu slæmu lækkaðar margfalt. Auðvitað hefur öll neysla á einhverju ákveðna áhættu í för með sér - meira að segja of mikil vatnsdrykkja getur verið hættuleg. En það mætti halda að minnkandi tóbaksnotkun sé fagnaðarefni.
En auðvitað er það ekki svo. Yfirvöld sjá að skattheimta sín af tóbakinu er að hrynja. Hvað er til ráða? Jú auðvitað að finna upp á ástæðum til að innleiða nýja skatta. Bæði á Íslandi og í Danmörku er allt í einu búið að takmarka úrval og hækka verðlag. Danir fundu upp á nikótínskatti sem hefur margfaldað verð á ýmsum valkostum við sígarettur. Það liggur við að hinn rándýri sígarettupakki sé að verða samkeppnishæfur á ný.
Yfirvöld vildu fá fólk til að hætta að reykja. Lausnir komu fram. Núna eru þær vandamál, því ríkissjóði vantar aurana.
Eitthvað svipað má segja um rafmagnsbíla. Þeir fá afslátt af sköttum og jafnvel niðurgreiðslur. Síðan uppgötvar ríkið að það vantar peninga í kassann. Gæluverkefnin fjármagna sig ekki sjálf! Þá er hafist handa við að innleiða nýja skatta.
Kannski er ég alveg sami kjáninn og kaupendur rafmagnsbíla (vonandi ekki samt). Ég lét lokka mig með lágu verði inn í valkost við fyrri lausn. Auðvitað get ég smyglað og allt það og meira að segja með sjálfboðaliða fyrir slíkt. En best væri bara að geta gengið að öruggum vörum á hagstæðu verði, hvar og hvenær sem er.
Kannski var vandamálið við rafretturnar alltaf það að þær voru frá upphafi á yfirborðinu og sjáanlegar. Kannski áttu þær alla tíð heima á svarta markaðinum. Ríkisvaldið hefði séð minnkandi tekjur af tóbakssköttum án þess að geta brugðist við með skattheimtu á valkostina. Fólk hefði haldið áfram að hrista af sér tjöruna án þess að ríkið gæti stöðvað það. Þá væri kannski ennþá hægt að kaupa ódýra og örugga valkosti við tóbakið.
En að hið opinbera sé núna að fara skattleggja rafmagnsbílana í burtu - það er hið besta mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 14. janúar 2024
Íslendingar geta alveg. Er það í lagi?
Innviðir á Íslandi eru vanræktir. Raforkuframleiðsla er í lás. Flutningsnetið nær ekki að dreifa þeirri orku sem þó er til. Það vantar lóðir fyrir hús. Regluverkið er að drepa margar atvinnugreinar.
Kunna Íslendingar ekki lengur að leysa vandamál? Að koma sér í verkið? Að gera það sem gera þarf?
Jú, auðvitað kunna þeir það. Alveg hreint magnað dæmi um það er myndin hér að neðan sem sýnir gröfur að verki að reisa varnargarða fyrir hraun sem er hreinlega á leiðinni, og sennilega komið það nálægt að hitinn finnst vel á vinnusvæðinu.
Ef þetta lýsir ekki hinu gamla góða íslenska hugarfari þá veit ég ekki hvað.
En nú þarf auðvitað að spyrja hinna erfiðu spurninga:
- Er Vinnueftirlitið búið að meta starfsumhverfi þarna og gefa því grænt ljós?
- Eru leyfi til efnistöku til staðar?
- Er búið að framkvæma umhverfismat?
- Er búið að framkvæma hávaðamælingar?
- Verður kolefnisspor framkvæmdanna jafnað eða mega Íslendingar búast við reikningi frá Evrópusambandinu?
- Er flokkunaraðstaða á vinnusvæðinu í samræmi við fyrirmæli hringrásarhagkerfisins?
- Er kynjahlutfall á vinnusvæðinu jafnt eða þarf að ráðast í úrbætur þar?
- Er búið að skoða endurmenntunarskilríki gröfumanna?
- Hefur átt sér stað opið samráð um þessar framkvæmdir með tilheyrandi kæruferlum?
- Er öruggt að Evrópusambandið lumi ekki á einhverjum reglugerðum sem banna þessar framkvæmdir?
Þetta eru bara hinar augljósu spurningar sem þarf að setja í forgang að svara. Það er fáheyrt að svona skilvirkar framkvæmdir sem miða að því að leysa brýnt vandamál fái einfaldlega að eiga sér stað.
Nema menn vilji mögulega snúa við blaðinu og hugleiða aðeins hvernig er haldið aftur af Íslendingum með allskyns þvælu og rugli. Það væri mín ósk.
Um leið vil ég senda baráttukveðjur til þeirra í framlínunni í Grindavík. Vonandi bjargast bærinn - þessi mikilvæga framleiðslustöð verðmæta á Íslandi, þar sem samfélagið er að því er ég hef heyrt gott.
Sunnudagur, 14. janúar 2024
Ekki treysta sérfræðingunum
Á veirutímum lærðum við mjög mikilvæga lexíu: Sérfræðingar eru bara menn eins og við og þeirra túlkun á gögnum og rannsóknum í mörgum tilvikum engu betri, og jafnvel mun síðri, en túlkun venjulegs fólk úti í bæ.
Stundum ljúga þessir sérfræðingar, blákalt, eins og þeir fái borgað fyrir það (sem þeir fá).
Þessa lexíu er ég að læra aftur í nýjustu jarðskjálfta- og eldvirknitímabilum á Reykjanesi. Sérfræðingarnir ákváðu að byggja vegg til að stöðva hraunflæði til Grindavíkur. Núna kemur í ljós að sá veggur liggur á nýjustu sprungunni sem opnaðist á stað sem sérfræðingarnir höfðu ekki spáð fyrir um. Það gerði hins vegar maður úti í bæ, þá þegar 22. desember, með ítarlegum rökstuðningi. Sömuleiðis sá hann fyrir upphaf eldgoss, bæði þess sem núna er hafið og þess sem kom á undan, með nokkura klukkustunda fyrirvara og vel á undan Almannavörnum ríkisins sem ættu að hafa varað verktaka við en gerðu ekki.
Kannski er leikmaðurinn úti í bæ bara búinn að vera heppinn. Búinn að fá Yatzy þrisvar í röð og mun ekki takast það aftur. Kannski eru hans spár engu merkilegri en annarra. Ég meina, þótt færeyska handboltalandsliðinu takist að landa jafntefli á móti því norska þá blasir við að hið norska er yfir það heila betra, ekki satt?
En núna er ekkert jafntefli. Núna er staðan svona:
Leikmaður 3 - Sérfræðingar 0
Ég veit á hvern ég veðja í næstu umferð.
Laugardagur, 13. janúar 2024
Veirufréttir snúa aftur - gera veirutímar það líka?
Kannski er ég orðinn vænisjúkur en mér finnst veirufréttir vera að skjóta oftar upp kollinum upp á síðkastið. Þær koma úr ýmsum áttum: Sprautur þetta og dauðsföll hitt. Ein slík frétt er alveg samhengislaus frétt á mbl um fjölda dauðsfalla á heimsvísu vegna drápsveirunnar ógurlegu. Tíu þúsund dauðsföll á dag! Sjö milljónir í lok seinasta árs, á heimsvísu! Hljóma eins og stórar tölur en eru það ekki.
Þegar þetta er skrifað hafa, á heimsvísu, dáið, í dag, rúmlega 110 þúsund manns skv. Worldometer. Meðaltalið í ár er um 167 þúsund einstaklingar á dag eða tæplega 7 þúsund á klukkutíma skv. WorldPopulationReview, og því eiga ennþá eftir að deyja tæplega 60 þúsund manns í heiminum í dag.
Hjarta- og æðasjúkdómar draga flesta til dauða, næst koma heilablóðföll og þar næst lungnasjúkdómar skv. WorldAtlas. Banaslys í umferðinni eru í tíunda sæti, sem er athyglisvert.
Svona tölur veita samhengi. Einhver handahófskennd tilvitnun í manneskju sem fær borgað fyrir að hræða okkur ekki. Manneskja sem er vel á minnst starfsmaður WHO sem enn þann dag í dag lætur frá sér svona vitleysu:
Frá og með nóvember 2023 höfðu 72% fólks um allan heim fengið að minnsta kosti einn skammt af COVID-19 bóluefni, en 13,6 milljarðar skammtar voru gefnir um allan heim, sem komu í veg fyrir alvarleg veikindi og sjúkrahúsinnlagnir fyrir milljónir manna.
**********
As of November 2023, 72% of people worldwide had received at least one dose of a COVID-19 vaccine, with 13.6 billion doses administered around the world, preventing severe illness and hospitalizations for millions of people.
Kannski er verið að brugga eitthvað - nýjan heimsfaraldur eða samfélagsógn, einhvern sjúkdóm X. Eina lausnin er að innleiða fasisma, aukið eftirlit, takmarkanir á tjáningarfrelsi, yfirtöku á eignum, árásir á hagkerfið og lífsviðurværi fólks, kjánalegar grímur og auðvitað þvingaðar lyfjagjafir, ekki satt?
Kannski er ekki verið að brugga neitt. Þeir sem fengu völd og athygli á veirutímum eru fullkomlega sáttir við að vera komnir aftur á bak við litlaust skrifborð, fjarri hljóðnemunum. Öll fínu tölvukerfin fá að fjara út í aldanna rás. Yfirvöld hafa tapað blóðbragðinu úr munninum. Þeir sem sáu mikil tækifæri í veirutímum til að knýja á sín hugðarefni hafa sætt sig við að þurfa einfaldlega að keppa á markaði hugmynda.
En það er ólíklegt.
![]() |
Segir 10 þúsund deyja úr Covid í hverjum mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. janúar 2024
Bóluefnin skipta höfuðmáli
Í nýlegri frétt DV segir:
Það eru enn einhverjir sem hafa náð að sleppa alveg. Ef þeir eru óbólusettir eða ekki bólusettir nægjanlega vel geta þeir fengið alvarleg einkenni, segir Denis Nash, sérfræðingur í faraldursfræði við City University í New York.
Svona tal er sem sagt að snúa aftur. Hérna þarf að leita til bandarískra einstaklinga til að fá svona tilvitnanir. Ég held að afgangur heimsins sé kominn lengra. Sagan sýnir samt að því sé auðvelt að breyta.
Þessi svokölluðu bóluefni veittu enga vernd (í besta falli takmarkaða vernd til skamms tíma) og jafnvel öfuga vernd, og þaðan af verra. Frétt DV er annaðhvort eitthvað frávik eða fyrsti sprotinn af nýrri holskeflu þvælu um sprauturnar og virkni þeirra. Sjáum hvað setur.
Ég hef ákveðna samúð með hluthöfum sprautuframleiðenda. Þeirra viðskiptaáætlanir hafa farið í vaskinn. En þeir eiga ennþá háttsetta vini. Þeir hafa ekki gefist upp. Þeim hefur jafnvel tekist að selja fyrir marga milljarða varning sem endar svo í ruslinu. Það er skárra en að kirkjugarðar fyllist. En ég sé ástæðu til að vera aðeins á tánum.
Það er rétt í millifyrirsögn DV að nýstárleg, banvæn, óprófuð og gagnslaus mRNA bóluefnin skipti höfuðmáli: Það skiptir höfuðmáli að forðast þau.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 12. janúar 2024
Óskhyggjan um alræðisvaldið
Í seinasta pistli fjallaði ég um blaðagrein sem ég skrifaði um mitt árið 2020 þar sem ég spáði því að árið 2021 yrði veiruár.
Árið 2021 verður líka veiruár eins og það sem nú gengur yfir.
Á þessum tíma var ennþá verið að tala um að fletja út kúrvu, að takmarkanir virkuðu og yrðu því bara tímabundnar og að kostnaðurinn væri viðráðanlegur. Ísland hafði verið opið fyrstu tvo mánuði sumarsins en svo fundust nokkur smit og þjóðhátíð blásin af og raunar félagslíf að mestu leyti.
Greinina frá árinu 2020 endaði ég með orðunum:
En vonandi skjátlast mér, að öllu leyti.
Því miður tel ég flesta spádóma mína í ágúst 2020 hafa ræst. Ekki bara um veiru heldur flest annað líka. Því miður.
Sem athugasemd við pistil minn í gær fæ ég engu að síður þessi orð:
Mitt mat er að niðurstaða þín sé byggð á mati út frá pólitískri skoðun, óskhyggju, frekar en einhverjum haldföstum staðreyndum.
Þessi athugasemd er lýsandi, en ekki fyrir mitt hugarfar. Ég hataði þessar takmarkanir frá upphafi. Þær voru að vísu skárri árið 2020 en árið 2021, þegar mismunun eftir lyfjagjöf hófst og grímurnar gagnslausu dreifðust eins og plága út um allt, en voru samt skelfilegar.
Nei, þessi athugasemd er lýsandi fyrir þá sem trúa lygum yfirvalda og fjölmiðla og þola ekki að slíkar lygar séu afhjúpaðar.
Margir voru strax um vorið 2020 búnir að sjá í gegnum tal yfirvalda. Ég fylgdist með skrifum og ræðum margra slíkra en lét þó fyrstu lokahrinuna yfir mig ganga án þess að kvarta of mikið. Gögnin voru að hrúgast inn: Börn smita lítið frá sér og smitast lítið, áhættuhópar eru eldra fólk og fólk í yfirþyngd og aðrir með alvarlega króníska sjúkdóma sem bæla ónæmiskerfið, lífslíkur flestra eru á pari við flensuna, og svona mætti lengi telja.
Þegar takmarkanir hurfu að mestu vorið 2020 leyfði ég mér að vona. En tveimur mánuðum seinna var sú von horfin. Ég sá að þeir sem höfðu séð í gegnum þokuna frá upphafi höfðu rétt fyrir sér. Ég var kjáni að segja ekkert. Þetta breyttist um mitt sumarið 2020.
Að það hafi verið óskhyggja af minni hálfu að spá því að árið 2021 yrði líka að veiruári eru því öfugmæli. En margir sáu tækiværi í veirunni. Loftslagskirkjan var fljót að sjá mikinn ávinning í því að læsa fólk heima hjá sér. Þeir sem vilja hólfa okkur niður í 15 mínútna hverfi lifa enn í voninni. Allskyns stafræn kerfi sem rekja lyfjagjöf okkar voru þróuð og á að þenja út til að ná til allra afkima lífs okkar, frá ferðalögum til neyslu.
Veirutímar eru mögulega að baki, í bili, en öll kerfin sem voru byggð upp á þeim tíma lifa ennþá. Þau eru í þróun. Það er verið að bæta við þau eiginleikum.
Það er engin óskhyggja fólgin í þeirri spá minni í dag að verið sé að undirbúa stafrænt alræði. Reiðufé á að banna (í nafni peningaþvættis, auðvitað, þótt þar séu til mun hentugri aðferðir í dag en að rogast um með ferðatösku fulla af seðlum), kolefnisfótspor okkar verður að vestrænni útgáfu af kínverskri einkunnagjöf sem ákvarðar hvað við megum og megum ekki gera og kaupa, og frjáls tjáning verður gerð að óvini ríkisins (byrjum þar á Elon Musk og hans nokkuð takmarkalausa en áhrifamikla samfélagsmiðli).
Ég er mögulega svartsýnn, óheppilega kaldhæðinn og óþarflega vel að mér í skrifum þeirra sem blaðamenn hata, en ég óska ekki eftir stafrænu alræði.
En það gera margir aðrir, og fela þann ásetning í engu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. janúar 2024
Spádómar
Þann 15. ágúst 2020 birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu með fyrirsögnina 2021. Greinina skrifaði ég eftir að yfirvöld hófu á ný að banna allt og alla, útihátíðir og hvaðeina, þegar nokkur smit fóru að detta inn eftir annars ljómandi sumar.
Nú er auðvitað alltaf varhugavert að setjast í stól spámannsins en mig langar aðeins að vega og meta hvernig mér tókst til.
Árið 2021 er kosningaár. Það þýðir að stjórnmálaflokkar munu keppast við að lofa kjósendum gulli og grænum skógum
Auðvitað. Ekkert áhugavert í þeim spádómi.
Árið 2021 verður líka veiruár eins og það sem nú gengur yfir. Ofan á kóróna-veiru á eftir að bætast við inflúensu-veira, að ónefndum öllum kvefpestunum. Veiruárið 2021 verður samt ekki ár samstöðu og sáttar um að takmarkanir þurfi að gera til að minnka útbreiðslu og verja ákveðna þjóðfélagshópa.
Þetta rættist en ekki fyrr en í blálok ársins 2021 í fyrsta lagi. Fólk kyngdi vitleysunni mun lengur en ég þorði að vona. Flensan lét heldur ekki sjá sig, merkilegt nokk, fyrr en árið 2022, og sú veira og ýmsar aðrar plægðu sig í gegnum veiklað og margsprautað ónæmiskerfi landsmanna og gera enn þann dag í dag.
Hið opinbera hefur sjaldan látið gott neyðarástand fara til spillis og upp munu spretta tillögur að alls kyns ríkisstofnunum og bólgnum útgjaldahugmyndum sem á yfirborðinu eiga að renna til veiruvarna en eru í raun bara hendur að grípa það sem þær geta á meðan almenningur situr skelkaður við sjónvarpsfréttirnar.
Ekki spurning, en tókst ekki alveg jafnvel og margir vonuðu þótt ekki sjái fyrir endann á þeim tilraunum. Það voru til dæmis aldrei reistar fangabúðir á Grímsey fyrir ósprautaða eins og forstjórar og ritstjórar óskuðu eftir. Ferðalög voru vissulega gerð að stærri hausverk fyrir ósprautaða (og mikið til ónæma eftir fyrra smit) en auðvelt að svindla á því, þannig séð, eins og ég fékk að reyna sumarið 2021 þegar ég valsaði um allt í 14 daga sóttkví minni.
Í útgjöldum var haldið áfram á fullu til að niðurgreiða atvinnulíf sem yfirvöld höfðu bannað, og leiðir það að næsta spádómi mínum.
Árið 2021 verður svo að öllum líkindum kreppuár. Góðæri undanfarinna ára hefur verið vel nýtt til að halda uppi gríðarlegri skattheimtu til að byggja undir gríðarlega stórt opinbert bákn. Það mátti ekki skella á veira og hallarekstur ríkisins hljóp upp í þriggja stafa milljarðatölu, rétt eins og hendi væri veifað, og nákvæmlega ekkert svigrúm til að hækka skatta og borga þann reikning, né pólitískur vilji til að selja eigur upp í skuldir eins og venjulegt fólk gerir í hallæri.
Þetta hefur ræst en á annan hátt en lýst því öll skuldsetning hins opinbera hélt einfaldlega áfram út í hið óendanlega, og gerir raunar enn. Það fær enginn timburmenn sem heldur einfaldlega áfram að drekka. Við eigum því ennþá inni leiðréttinguna.
Sveitarfélögin hafa mörg hver heldur ekkert gert til að búa sig undir niðursveiflu. Menn geta auðvitað kennt veirunni um en almennt má segja að allar áætlanir hafi gert ráð fyrir endalausu góðæri, og engin áætlun B til staðar.
Sveitarfélögin eru enn verr stödd en ég hélt. Mörg eru hreinlega í molum. Þar á meðal er Reykjavík, þar sem ríkir andrúmsloft algjörrar veiruleikafirringar í ráðhúsinu, jafnvel enn þann dag í dag. Núna er sorpið varla sótt, börn komast ennþá ekki á leikskóla sem að auki fjölga alltaf lokunardögum sínum, grunnskólabörnin eru ólæs, innviðir vanræktir og opnunartími sundlauga skertur svo nemur tugum prósenta, og tiltektin ekki einu sinni byrjuð. Hjálpi mér!
Ég lauk grein minni á eftirfarandi orðum:
En vonandi skjátlast mér, að öllu leyti.
Því miður rættist sú von ekki.
Maður ætti kannski að henda í nýjan spádóm?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 11. janúar 2024
Ruglingslegur Útúrsnúningur og Vitleysa (RÚV)
Í dag var íslensk kona dæmt í fangelsi af norskum dómstól. Nútíminn segir frá í ítarlegu máli. Hún var kærð fyrir nokkra glæpi og hefur núna verið sakfelld af alvöru dómstól í þróuðu vestrænu réttarríki. Grunur hefur verið staðfestur, ásakanir orðnar að kærum og kærur leitt til sakfellingar.
Einfalt mál fyrir blaðamann að fjalla um?
Nei, heldur betur ekki. Ekki þegar þú vinnur hjá Ríkisútvarpi Útvalinna Viðhorfa (RÚV) sem heldur úti Ruglingslegum Útúrsnúningi og Vitleysu (RÚV).
Hjá slíku apparati verða jafnvel einföldustu atriði að einhverju loðnu og jafnvel vafasömu, svo sem að
Edda Björk var sökuð um að hafa flutt þrjá syni sína í óleyfi frá Noregi til Íslands með einkaflugvél árið 2022.
Hún var sakfelld, ekki sökuð um.
Hún er einnig grunuð um að hafa numið börn af landi brott og haldið í öðru landi og komið þannig í veg fyrir umgengni þess við þann sem hefur forræði yfir barninu.
Hún er sakfelld, ekki grunuð um.
Ég er kannski að lesa of mikið í orðaval blaðamanns en það er eins og skrif hans séu að hluta úr fortíð, þar sem grunur lék á ýmsu og ásakanir voru um annað, og hluta í nútíð, þar sem er búið að sakfella hana fyrir allt sem hún var grunuð og sökuð um.
Kannski ætti ég svo að hrósa RÚV fyrir að hafa yfirleitt fjallað um þetta og vísað í skrif Nútímans, sem var hérna fyrstur með fréttirnar og var fyrsti fjölmiðillinn sem bauð upp á upplýsta umræðu um mál sem var áður bara hávaði úr einni átt.
Og kannski langaði mig bara til að finna fleiri leiðir til að nota RÚV-skammstöfunina. Það út af fyrir sig hefur ákveðið virði fyrir mig, sama hvað.
Fimmtudagur, 11. janúar 2024
Hlýjasta ár sögunnar!
Árið 2023 var hlýjasta ár sögunnar, eða frá því mælingar hófust. Svona byrjar frétt og ekki er það góð byrjun enda hrópandi mótsögn inni í einni og sömu setningunni.
Þegar víkingar flökkuðu á milli svæða við Norður-Atlantshafið var sennilega hlýrra en í dag. Þeir ræktuðu jörðina og ráku sauðfé um láglendi Grænlands. Þeir ræktuðu korn á Íslandi. Þeir sóttu sér vínþrúgur til Englands.
Síðan kólnaði og varð að tímabili sem stundum er kallað Litla ísöld í Evrópu. Ekki var það góður tími. Síðar hlýnaði eitthvað og þá varð allt betra.
Núna er mögulega svolítil hitauppsveifla að ná hámarki sínu og vel það því kuldamet eru að falla og ísbreiður að þykkjast, og allt á sama tíma og Kínverjar og Indverjar slá met í kola- og olíunotkun sinni og sífellt fleiri vanþróuð ríki byggja upp orkuinniviði sína með jarðefnaeldsneyti. Það að Vesturlönd séu að skattleggja sig í gjaldþrot til að ná ómögulegu markmiði breytir í hinu stóra samhengi engu.
Háleit markmið um græna orku eru að bráðna samhliða vaxandi kulda. Kjarnorkan er fyrir alvöru komin aftur á borðið. Skaðsemi vindmylla er að verða greinilegri. Orka sem er framleidd með vindi og sól nýtist illa nema hún sé nýtt á sama tíma og hún er framleitt. Þannig þarf að nota rafmagn frá sólarorku þegar það er sem bjartast. Ljósin eru þá kveikt á daginn og slökkt á kvöldin.
Íslendingar luku sínum orkuskiptum fyrir mörgum áratugum með því að virkja vatnsföll og jarðhita. Engu að síður á núna að taka af þeim bílinn í nafni loftslagsbreytinga, og með tíð og tíma líka kjötið, flugmiðana og ódýran innflutning. Þeir láta þetta yfir sig ganga - breytingarnar taka langan tíma og rétt eins og froskur sem er rólega soðinn lifandi þá taka menn ekki eftir neinu. Fyrr en auðvitað að það verður of seint, eins og í tilviki bænda í Hollandi og Þýskalandi og á Írlandi. Blaðamenn nenna ekki einu sinni að segja frá þjáningum þeirra, hvað þá hlusta á þá.
Árið 2023 var kannski hlýjasta ár sögunnar, og sagan í því samhengi þá skilgreind sem nokkrir áratugir af hitastigsmælingum. Áfram byggja ríki upp sína innviði og sjúga inn í þá óheyrilegu magni af jarðefnaeldsneyti. En núna eru teikn á lofti um kólnun og því ekki góð hugmynd að losa sig við traustan bensínbíl og sitja fastur í dauðum rafmagnsbíl. Nei, það þarf stærri bensíntanka, ekki minni, og meiri olíu, ekki minni.
![]() |
2023 hlýjasta ár sögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 10. janúar 2024
Þegar allt lítur vel út á tölvuskjá
Ég hef ákveðinn skilning fyrir því að það sé auðvelt að telja sig hafa hannað hina fullkomnu lausn þegar einu gögnin eru þau í tölvu og eina niðurstaðan er á tölvuskjá. Þannig verður grár himinn að bláum, vindurinn er vitaskuld ósýnilegur og hækkuð skattprósentan leiðir til aukinnar skattheimtu.
En þetta er auðvitað nokkurn veginn gagnslaus aðferðafræði ef ætlunin er í raun sú að spá fyrir raunverulegum afleiðingum hönnunar.
Þetta veit ég af biturri reynslu. Þá reynslu reyni ég að nýta mér. Stundum þarf að byrja í tölvunni en á einhverjum tímapunkti að kíkja út um gluggann.
Þeir sem telja sig ekki bundna af raunveruleikanum hafa samt ákveðið forskot. Þeir geta selt draumsýn og tálsýn með því að sitja við tölvuskjáinn eingöngu. Þeir geta sagt: Ef þú hækkar skatta á áfengi þá hækkar skattheimtan - enginn mun leita annarra leiða til að fjármagna sopann. Ef þú hannar göngugötu sem virkar bara í sumarlogni undir heiðskýrum himni þá sýgur hún fólk að sér og enginn bregst við láréttri rigningu í hávaðaroki, enda var ekkert slíkt í gangi á tölvuskjánum.
Það er ekki við sölumennina að sakast. Kaupendurnir eru miklu sekari.
Um leið ráða þeir yfir peningakassanum, sem er oftar en ekki fjármagnaður af skattgreiðendum.
Þannig hef ég til að mynda heimsótt opnar og breiðar göngugötur Hafnartorgs í Reykjavík og fundið þar fáar manneskjur sem voru ekki ferðamenn í leiftrandi lituðum útivistarfötum. Þetta leit vel út í tölvunni samt!
Það þarf kannski að vara aðeins við tálsýn tölvuteikninga á veðurbarinni eldfjallaeyju. Reiknilíkön skattheimtufólksins þarf kannski að endurskoða líka.
Kíkjum út um gluggann stöku sinnum. Það er það sem ég er að reyna segja.
![]() |
Svona gæti Austurstræti litið út sem göngugata |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)