Framsóknarmaður gengur til liðs við Framsóknarflokkinn

Sumir eru einfaldlega fæddir stjórnmálamenn. Kunna að svara engu með notkun margra orða. Kunna að lýsa yfir ásetningi en ekki aðgerðum (fyrir utan þá sem kunna að lýsa yfir skattahækkunum). Kunna að segjast vera bæði með og á móti á sama tíma svo enginn verði ósáttur.

Slíkur stjórnmálamaður verður Halla Hrund Logadóttir, konan sem reynir núna í annað skipti á fjórum mánuðum að komast úr einni ríkisjötu í aðra sem gefur betur af sér. 

Þannig stjórnmálamenn eru flestir stjórnmálamenn.

Og hvernig stendur á því? Jú, því kjósendur verðlauna slíka frambjóðendur og stjórnmálamenn með því að kjósa þá. Sé einhver of afdráttarlaus, hafi of miklar hugsjónir og segi hreinlega hvað þurfi að gerast - annað en að hækka skatta - og prófkjörin og uppstillingarnefndirnar sjá um að hreinsa þá út og þeir sem lifa af slíkar hreinsanir fá svo vöndinn frá kjósendum.

Vonandi er eitthvað að breytast núna. Flokkarnir tveir sem mælast stærstir í dag eru undir stjórn einstaklinga sem tala nokkuð skýrt, eða svo sýnist mér. Kjósendur virðast kannski ætla að verðlauna slíkt og væri það þá hressandi nýbreytni. Það er kannski hægt að kjósa breytingar og fá breytingar frekar en að kjósa breytingar og fá óbreytt ástand eins og eftir seinustu kosningar til Alþingis og ítrekað í Reykjavík seinustu 10 árin eða svo.

Sjáum hvað setur.


mbl.is „Langflestir flokkar höfðu samband við mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrt selst hratt, dýrt selst hægar

Einu sinni var sveitarfélag sem reiknaði með óendanlegu góðæri, lágum vöxtum til eilífðar og stanslausum vinsældum fyrir að þrengja vegi og stífla umferð. 

Síðan breyttist góðærið í hallæri, vextir hækkuðu og umferðin fór að angra fólk verulega. Fólk kaus mann sem boðaði breytingar en ekkert breyttist. 

Niðurstaðan varð sveitarfélag með svimandi skuldir og vaxtagreiðslur sem komu meira að segja borgarstjóra - fyrrverandi blaðamanni - á óvart. Ekki var lengur til vatn til að keyra áfram vatnsrennibrautirnar fyrir krakkana, hvað þá meira. 

Það er í þessu umhverfi að vel menntaðir hagfræðingar geta núna lesið tölur um að ódýrt húsnæði selst hraðar en dýrt sem er óheppilegt því sveitarfélagið hafði veðjað á byggingu dýrra íbúða en ekki ódýrra. 

Niðurstaðan er fyrirsögnin:

Ódýrar íbúðir seljast hratt en dýrar hægt

Þetta er fyndið að því leyti að það er ekki sorglegt. Venjulegt fólk þarf einfaldlega húsnæði og aðgengi að því. Ekki dýrt húsnæði nálægt skemmtistöðum, ekki ódýrt húsnæði án samgangna. 

Þetta var svo sem lengi vel vitað, en er nú gleymt.

Á meðan má gleðjast yfir því að þótt háskólagráður margra séu margar, og titlarnir stórir, þá veit venjulegt fólk meira en allir spekingarnir. Venjulegt fólk veit það af því það lifir í raunveruleikanum. Aðrir - mögulega ekki.


mbl.is Ódýrar íbúðir seljast hratt en dýrar hægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru opinber gögn ónýt gögn?

Lengi vel hefur okkur verið sagt að opinber gögn séu hinn heilagi sannleikur. Yfirvöld safni saman tölfræðilegum upplýsingum og geri aðgengilegar án þess að hafa myndað sér skoðun á þeim. Gögnin eru gögnin. Túlkunin? Hún er svo eitthvað annað.

Þannig mátti til dæmis treysta því að fjöldi Íslendinga væri nokkuð áreiðanleg tala úr potti opinberra gagna. Fjöldi smitaðra. Fjöldi látinna. Lífslíkur. Glæpatíðni. Bara gögn, ekki satt? Opinber gögn sem hafa verið sannreynt, eru birt og svo má túlka þau að vild.

En er það svo? Eru opinber gögn einfaldlega gögn - staðreyndir sem má vinna með?

Nei, segja margir, og færa fyrir því góð rök. Ég fjalla um það betur seinna en vil sem upphitun bara benda á að opinber gögn eru bara gögn sem hið opinbera framleiðir. Þau eru afurð skapara þeirra. Þau má aðlaga, leiðrétta fyrir ýmsu, birta að öllu leyti eða að hluta, setja saman á nýjan hátt og auðvitað falsa.

Stundar íslenska ríkið einhverjar leikfimisæfingar með gögnin eins og þau raunverulega eru? Kannski. 

Það fræ sem ég sái hérna er: Opinber gögn eru ein tegund gagna. Aðrar tegundir eru til. Mögulega betri. Mögulega ekki. 

Sem sagt: Opinber gögn eru ekki endilega hin raunverulegu gögn. 

Og hverjum á að treysta þá?


Alþjóðastofnanir, gamlar og nýjar

Íslendingar eru meðlimir í Sameinuðu þjóðunum, NATO, OECD, eiga hlut í Alþjóðabankanum og óteljandi öðrum alþjóðastofnunum, aðilar að EES samningnum við Evrópusambandið, aðilar að Schengen-samningnum, hafa gert ógrynni samninga við önnur ríki og eflaust er ég að gleyma einhverju. Gleymum svo ekki dellumálum, eins og Parísarsamkomulaginu. 

Sjálfsagt er að endurskoða allt þetta með reglulegu millibili. Er viðkomandi aðild að gagnast hagsmunum Íslendinga eða ekki? Er ávinningurinn meiri en kostnaðurinn, fyrirhöfnin og valdaframsalið? 

Það má færa rök fyrir því að slík endurskoðun sé svo sannarlega við hæfi núna, og þá sérstaklega á tvennu:

  • Schengen-samningnum
  • NATO

Um leið er kominn tími til að skoða alvarlega hvernig Íslendingar eigi að nálgast hið hratt stækkandi BRICS samstarf sífellt fleiri ríkja. Á að hunsa það? Opna á viðræður? Vona að það fjari út? Krossleggja fingur og vona að heimurinn endurskipuleggi sig ekki algjörlega án aðkomu Vesturlanda og skilji þau jafnvel eftir í hagvexti og viðskiptum?

Að gera ekkert - hvorki endurskoða né skoða - er varla í boði. Eina utanríkisstefna Íslands virðist vera að renna lengra í fangið á Evrópusambandinu og fylgja að öðru leyti í einu og öllu utanríkisstefnu Bandaríkjanna sem velja hvaða skærur á milli ríkja skipta máli og hver ekki.

Heimurinn er að breytast hratt. Þeir sem fylgjast ekki með sitja fastir í ónýtum stofnunum sem framleiða meira af pappír en lausnum og hverfa að lokum undir þykkt lag af ryki.


Kennarar að biðja um það að fá að vera minna með börn­um

Borgarstjóri segir að kenn­ar­arn­ir séu að biðja um það að fá að vera minna með börn­um og einhverjir bregðast illa við, en er það rangt? Þeim fækkar sem kenna börnum og fjölgar sem sitja í stólum millistjórnenda í grunnskólakerfinu. Er það ekki vegna þrýstings frá sumum kennurum um að losna við að kenna en njóta samt starfsöryggis og öruggra launa? Það er allt í lagi að velta því fyrir sér og skoða það.

Varla eru yfirvöld sveitarfélaga að kalla á eftir fækkun kennara og fjölgun millistjórnenda og aukinni fjárþörf grunnskóla gegn því að fá minni kennslu. 

Það er í eðli allra stórra stofnana og fyrirtækja (líka einkafyrirtækja) að þegar peningarnir streyma inn að þá hleðst fita utan á starfsemina. Þessi fitusöfnun hættir aldrei í tilviki opinbers reksturs því það er alltaf hægt að hækka skatta eða auka opinberar skuldir. Í tilviki einkareksturs er regluleg fitulosun og megrun algjörlega nauðsynleg ef menn vilja ekki missa vinnuna. 

Er minni kennsla í grunnskólum í skiptum fyrir aukin útgjöld mögulega bara kransæðastífla sem þarf að losa? Kannski yfirvofandi verkfall kennara sé tækifæri - tækifæri til að stokka upp á nýtt. Að loknu verkfalli mæti millistjórnendur í skóla þar sem þeir eru orðnir kennarar á ný.

Það væri eitthvað.


mbl.is Á ekki orð yfir ummælum borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæri frambjóðandi

Þá er búið að boða til kosninga til Alþingis og fagna ég því enda lítið varið í ríkisstjórn þar sem hver höndin vinnur á móti annarri.

En með kosningum koma kosningaloforðin og auglýsingarnar. Þar lofa vitaskuld allir öllu fyrir alla. Gæti ég beðið frambjóðendur um að gera mér greiða?

Að segja ekki bara frá því sem á að gerast (minni fátækt, lægri verðbólga, meira fé í heilbrigðiskerfið) heldur líka hvernig það eigi að gerast.

Til dæmis:

Þér finnst vanta fé í heilbrigðiskerfið. Hvernig viltu laga það? Viltu rýmka fyrir einkaframtaki þannig að fé komi inn í gegnum útselda vinnu eða viltu hækka skatta? Viltu fækka millistjórnendum og færa peningana frá efstu hæð niður á gólfið? Segðu mér það!

Þér finnst verðbólgan of há. Hvernig viltu laga það? Viltu stöðva hallarekstur ríkisins og óseðjandi þörf þess fyrir lánsfé í samkeppni við aðra? Eða koma á mynt á gullfæti? Eða láta seðlabankann bara um málið með vaxtahækkunum? Eða koma á gjaldmiðlafrelsi? Eða færa peningaprentunarvaldið til útlanda? Skýr svör, takk.

Þér finnst velferðarkerfið vera í vandræðum. Hvað viltu gera í því? Fækka útlendingum sem leggjast á það? Auka velferðina með skattalækkunum og minnka um leið bótaþörfina? Skera niður í heilbrigðiskerfinu til að fjármagna bætur? Hækka skatta á launafólk? Þú hlýtur að hafa einhverja hugmynd um aðgerðir.

Viltu hækka skattana? Fækka reglunum? Einkavæða? Ríkisvæða? Banna? Skella á tollum? Niðurgreiða einhverja á kostnað annarra? 

Þú hlýtur að geta sagt frá áætlunum þínum núna frekar en að bíða með það þar til þingstóllinn er tryggður.

Færri slagorð, meira  af því sem þú ert raunverulega að hugsa, gefið að heil hugsun sé til staðar.

Er bjartsýni við hæfi eða er sama innihaldslausa og ógegnsæja loforðabunan í vændum?


Eyðibyggðastofnun og önnur opinber þjónusta

Rétt eins og í tilviki stjórnmálaflokkanna er hægt að færa rök fyrir því að nöfn opinberra stofnana tákni andstæðu yfirlýstra markmiða þeirra. 

Nýlegt og áberandi dæmi er hernaður Byggðastofnunar gegn íbúum Grímseyjar sem gerir það líklega að verki að byggð leggst þar af. Sannkölluðu Eyðibyggjastofnun. Hvað ætli liggi margar eyðibyggðir eftir stofnunina? Eða byggðir sem eru algjörlega upp á styrki komnar? 

Annað dæmi eru barnaverndarstofur landsins sem sjá um að styðja við hernað herskárra mæðra gegn feðrum þar sem börnin eru fallbyssufóðrið. Sannkallaðar barnaskemmdastofur.

Byggingafulltrúar sveitarfélaganna eru frægir fyrir duttlunga sína og afskiptasemi. Þeir virðast geta ákveðið upp á sitt einsdæmi hvað fær ýmis leyfi og hvað ekki og byggt slíkar ákvarðanir á eigin smekk og áhuga. Sannkallaðir byggingastöðvarar. 

Sýslumenn eiga að afgreiða ýmsa mikilvægara pappíra og skera úr í ýmsum málum. Þetta gera þeir með stuttum opnunartíma og langri bið, samhliða því að þeir gera börn föðurlaus og feðurna að öreigum, um leið og þeir leyfa auðmönnum að eignast fasteignir ódýrt og henda íbúunum á götuna. Kannski sýslumenn eigi frekar að kalla sig sviptimenn - þeir sem svipta fólki ýmsu. 

Svo má ekki gleyma dómurum sem telja það vera hlutverk sitt að búa til ný lög með úrskurðum sínum frekar en að dæma eftir lögum sem löggjafarvaldið setti. Þannig er tekið hart á ýmsu smávægilegu en vægt á ýmsu mikilsverðu. Þetta eru vissulega dómarar - menn sem dæma - en líka dyggðariddara - menn sem elta tískuna. 

Kannski er þessi upptalning ósanngjörn og byggð á örfáum fréttum innan kerfis þar sem flest gengur hreinlega ágætlega, en ég held ekki. Fyrir nokkrum árum sagði maður sem oftast er kallaður Helgi í Góu eftirfarandi orð í viðtali:

„Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin.“

Þetta eru róttækari skipti en marga grunar og í raun algjör viðsnúningur á frumkvæðinu í samfélaginu. Valdið er tekið af löghlýðnum borgurum sem vita vel að eftirlitið gæti komið og taka allt út og fært í hendur ókjörinna embættismanna sem þurfa núna að gefa út öll sín leyfi áður en menn geta svo mikið sem tekið fyrstu skóflustunguna. 

Gott fyrir báknið, slæmt fyrir fólkið.

Ekki opinber þjónusta við almenning heldur þjónusta við opinbera starfsmenn, á kostnað almennings. Opinbert sjálfsdekur. 


mbl.is Kvaðir Byggðastofnunar þröngsýnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgaraleg óhlýðni þarfnast endurnýjun lífdaga

Íshellafyrirtæki er neitað um starfsleyfi en finnur leiðir til að halda áfram að starfa. Mikið var hressandi að lesa um það!

„Við fáum póst 4-5 dög­um fyr­ir ferðir að þeir ætli að gera okk­ur leyf­is­lausa... Við ætl­um ekki að láta þjóðgarðinn stoppa okk­ur. Þeir verða þá bara að láta lögg­una stoppa okk­ur...“

Þeir enduðu að fá aðgang að einhverju leyfi eins og ég skil það og eru að sinna viðskiptavinum sínum, en viðhorfið er rétt. Hérna eru sjálfstæðir Íslendingar á ferð sem vita væntanlega af atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár og taka ekki við þvælunni sem vellur úr íslenskri stjórnsýslu - stjórnsýsla sem hefur fært sig töluvert upp á skaftið síðan á veirutímum og bannar heilu atvinnugreinarnar með einu pennastriki, bótalaust.

Það voru sjálfstæðir Íslendingar sem stofnuðu ólöglega útvarpsstöð og ruddu brautina fyrir frjálst útvarp á sínum tíma. Það voru sjálfstæðir Íslendingar sem fundu leiðir til að bjóða Íslendingum upp á áfengi utan við ríkisverslanirnar. Sjálfstæðir Íslendingar bjóða kerfinu birginn með frjálsum viðskiptum og sýna almenningi með beinum hætti hvernig stjórnsýslan er farin að snúast meira um sjálfa sig og minna um þarfir fólks og fyrirtækja. 

Ríkið fyrir ríkið, ekki fyrir fólkið.

Nú er auðvitað varhugavert að mæla með því að framkvæma ýmislegt sem hið opinbera kallar lögbrot en eru bara frjáls viðskipti. Því fylgir oft áhætta - yfirvöld gætu ákveðið að sýna vöðvana og stinga friðsömu og í raun heiðarlegu fólki í steininn fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarin réttindi til að stunda atvinnu. 

En er eitthvað annað í stöðunni fyrir fórnarlömb yfirvalda?


mbl.is „Við ætlum ekki að láta þjóðgarðinn stoppa okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna Íslendingar ekki að reka innviði lengur?

Ég veit, ég veit. Ég er erlendis. Ég er ekki á svæðinu. Ég þekki ekki öll smáatriðin.

Engu að síður leyfi ég mér að spyrja: Kunna Íslendingar ekki að reka innviði lengur?

Orkan, vatnið (heitt og kalt), rafmagnið, vegirnir - þetta virkaði einhvern tímann. Núna eru heilu svæði heitavatnslaus, rafmagnslaus og allt að því orkulaus í lengri tíma, oftar og oftar. Orkuskiptin á Íslandi eru á leið í öfuga átt: Úr endurnýjanlegri vatnsorku í innflutta olíu. 

Bensínstöðvarnar virka reyndar alltaf, svo því sé haldið til haga. Ætli það sé vegna þess að þær eru einkareknar?

Það er ekkert grín að halda uppi sæmilegum lífsgæðum á eldfjallaeyju í Norður-Atlantshafi. Það krefst þess að orka sé sótt og henni komið áleiðis. En hvað hefur gerst eftir mörg ár af hrópum eftir nýjum háspennulínum? Ekkert. Orkuverum? Ekkert? Brúarsmíðum? Ekkert. Það gerist ekkert. Það er eins og einhver hafi ákveðið að íslenskir innviðir árið 2010 séu einfaldlega nógu góðir um alla framtíð.

Ég vona að upplifun mín af fréttunum sé röng. Ég kemst að því fljótlega í stuttri heimsókn til Íslands. Fyrstu leggirnir í því ferðalagi eru áhyggjulausir: Flug með einkafyrirtæki og eftir það rútuferð með einkafyrirtæki. Hvað tekur svo við er stærri óvissa. Sjáum hvað setur. 


mbl.is Öllum sundlaugum Reykjavíkur lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, ekki klára málin (og ekki boða til kosninga)

Eitthvað er nú rætt um tímasetningu á næstu kosningum til Alþingis og sitt sýnist hverjum. Flokkar sem mælast háir í skoðanakönnunum núna vilja auðvitað fá kosningar á meðan uppsveiflan endist. Flokkar sem eru að hverfa vilja auðvitað ekki kosningar og vonast til að fylgið lagist eitthvað með tímanum. Svona er þetta alltaf.

Nú vill svo til að flokkar sem mælast lágir eða eru við það að hverfa eru í ríkisstjórn en flokkar sem mælast háir eru utan hennar. Það gefur því augaleið að ríkisstjórnarflokkarnir hafa af því mikla hagsmuni að sitja sem lengst í ríkisstjórn og vona að fylgið lagist. Nú er jú verðbólgan eitthvað að gefa eftir og vextir að mjakast örlítið niður. En í stað þess að segja hið augljósa - að ríkisstjórnarflokkarnir vilji sitja í ríkisstjórn til að forða sér frá útrýmingarhættu - þá ættu þeir að segja nokkuð annað og lofa því að klára ekki málin.

Sem sagt, klára ekki málin og boða ekki til kosninga.

Væri það ekki eitthvað?

Því maður fær það á tilfinninguna að í hvert skipti sem yfirvöld ætla sér stóra hluti - klára málin - þá breytist flest til hins verra. Skattar hækka. Ríkisútgjöld hækka. Hallarekstur er framlengdur. Starfshópar um flugvelli á gossprungum eru stofnaðir. Hallarbyggingum lofað. 

Verðbólgan fór að lækka um leið og stjórnmálamenn tóku sér langt og verðskuldað sumarfrí. Skattar hækkuðu ekki á meðan. Er það ekki ákveðin vísbending um ágæti þess að ríkisstjórnin sitji á höndunum á sér út kjörtímabilið?


mbl.is „Hvers vegna“ að kjósa í vor?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband