Þriðjudagur, 30. júlí 2024
Þegja eins og allir gera
Og í rauninni skrýtið að þurfa að standa í því að vera að svara fyrir eitthvað sem er í raun ekkert nema sannleikurinn sem allir þekkja. En fyrir þæginda sakir væri kannski betra að þegja eins og allir gera.
Þetta segir vararíkissaksóknari í viðtali í kjölfar þess að hann tjáði sig á skýran og auðskiljanlegan hátt og móðgaði lítil en hávær og vel tengd samtök.
Það er rétt sem hann segir að sennilega væri betra, eða a.m.k. auðveldara, að bara þegja. Þegja eins og allir gera.
Þegja á veirutímum þegar yfirvöld eru að stúta skóla- og félagsstarfi barna og setja fyrirtæki í þrot.
Þegja þegar yfirvöld moka vopnum í fjarlæg stríðsátök og mála skotskífu á landið.
Þegja þegar skattarnir hækka.
Þegja þegar innfluttir glæpamenn stinga, ræna og ógna.
Þegja þegar velferðarkerfið hættir að þjóna skattgreiðendum sem borga fyrir það og fer í staðinn að þjóna innfluttu fólki sem borgar ekki í það.
Þegja þegar plaströrin breytast í ónýt papparör og plastpokarnir breytast í ónýta maíspoka.
Þegja þegar ruslatunnunum fjölgar og sorphirðureikningurinn hækkar.
Þegja og þegja.
Þegja eins og allir gera, og yfirvöld og hávær samtök vita það.
Þess vegna er auðvelt að fjarlægja það sem er gott, setja í staðinn eitthvað slæmt, og senda almenningi reikninginn.
Almenningi, sem þegir.
Helgi: Áminningin núll og nix | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 29. júlí 2024
Má ekki vara við hengifluginu?
Það sjá allir að í óefni er komið í innflytjendamálum á Íslandi. Ég gæti farið í langa upptalningu á því. Ísland þarf að taka upp norrænu stefnuna í innflytjendamálum (þá nýju, ekki gömlu) áður en það verður of seint: Takmörkun á fjölda, hörð viðurlög við lögbrotum og kröfu um að innflytjendur, sem vilja dvelja til lengri tíma í landinu, taki skref í átt til aðlögunar að samfélaginu.
Eða viljum við keyra svo nálægt hengifluginu að þörfin fæðist til að banna ýmsa siði, sem eru algengir í sumum menningarheimum en gjörsamlega ósamræmanlegir vestrænum gildum, alveg sérstaklega ofan á venjuleg hegningarlög? Er ekki bara í lagi að varðveita ávexti aldalangrar baráttu fyrir sjálfsögðum mannréttindum kvenna og barna?? Varðveita með hnefanum, eins og einhver gæti orðað það.
Núna er ákall á dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um að moka úr starfi einstaklingi sem reynir af veikum mætti að vara við versnandi ástandi, vel vitandi að það gæti haft áhrif á taugar forsvarsmanna lítilla en háværra samtaka.
Ef dómsmálaráðherra bognar hérna í hnjánum er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er endanlega heillum horfinn og orðinn gjörsamlega ókjósanlegur. Hann hefur þá tekið sér stöðu með innfluttu ofbeldi, óvestrænum gildum, þöggun, efnahagslegum þvingunum gegn þeim sem þora að tjá sig um ógnvænglegt ástand og auðvitað gegn almenningi á Íslandi - íslenskum fjölskyldum, skattgreiðendum og kjósendum.
Nú er bara að bíða og sjá hvað verður.
Helgi verði leystur frá störfum tímabundið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 28. júlí 2024
Landið sem sökkti sér
Leiðirnar til að eyðileggja líf sitt, heimili, fjölskyldu og sambönd eru margar. Það má til dæmis taka upp neyslu á ávanabindandi eiturlyfjum sem þurrka upp alla bankareikninga og eigur. Það er hægt að ljúga og vera óheiðarlegur í mannlegum samskiptum. Það er hægt að beita miklu ofbeldi. Svo má einfaldlega velja að fara ekki úr rúminu - hætta að mæta í vinnuna, borga reikninga, þrífa heima hjá sér, þrífa eigin líkama.
Í raun er miklu erfiðara að varðveita það sem er gott en eyðileggja það. Jafnvel bara nóg að gera ekkert: Hafa aldrei samband við neinn, afla sér engra tekna. Gera ekkert.
Á sama hátt er tiltölulega einfalt fyrir yfirvöld ríkis eða sveitarfélags að kafsigla hagkerfi og samfélagi. Þau geta safnað skuldum, vanrækt verkefni, tekið upp á arma sína mörg gæluverkefni, tæmt alla sjóði í vopnakapphlaup og opnað velferðarkerfið fyrir umheiminum.
Í raun er miklu erfiðara fyrir yfirvöld að halda uppi heilbrigðu hagkerfi og sæmilega friðsömu samfélagi þar sem fólk fær eitthvað fyrir skattpeninginn en hitt að kafsigla hagkerfinu og eyðileggja samfélagið. Jafnvel bara nóg að stjórnmálamenn fái að ráfa um án aðhalds, með ávísanahefti í boði skattgreiðenda í hendinni.
Í fréttum þessi misserin má sjá mörg dæmi þess að íslensk yfirvöld séu að brjóta niður margt af því sem hefur verið byggt upp. Innviðir eru vanræktir að því marki að það má fara að óttast frekari rafmagnsskort og jafnvel hitaleysi. Skuldirnar hrannast upp. Velferðarkerfið er hætt að virka fyrir marga. Ráðherrar kaupa sér atkvæði með milljarðasamningum og fá að hlaupa í allar áttir í þeirri kosningabaráttu. Í stað þess að taka vel á móti örfáum tugum hælisleitendum á ári er þeim núna sleppt í hundruða- og þúsundatali yfir samfélagið, víða með þeim afleiðingum að innfæddir Íslendingar þora ekki lengur í strætó.
Kannski er þetta viljaverk. Misskilin góðmennska. Oft er viðkvæðið að verið sé að innleiða evrópskar reglur en það er lygi. Miklu frekar eru hérna íslenskir stjórnmálamenn að reyna ganga í augun á einhverjum allt öðrum en íslenskum kjósendum og borgurum.
Það þykir ekki fínt að kallast þjóðernissinni en ég er því ósammála. Ef við erum ekki þjóðernissinnuð, hvað erum við þá? Þjóðernisfjandsamleg, auðvitað. Það virkar kannski fyrir útlendinga í leit að ódýrum auðlindum, en afskaplega óheppilegt fyrir þjóðina sem lætur traðka á sér og ræna af sér lífskjörunum.
Ég legg til að Íslendingar hætti að bora göt á fleyið sem þeir kalla heimili sitt og seinki því að sökkva sér í skuldafen, glæpi og upplausn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 27. júlí 2024
Er hægt að stöðva skattahækkanir?
Um daginn ritaði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, grein með heitið Skattastöðvun er skynsamleg. Greinin var dæmigerð fyrir íslenska stjórnmálaumræðu: Hógvær, orðuð varlega og forðaðist að nota sterk orð. Þó endaði hún á umfjöllun á athyglisverðu atriði: Skattastöðvun danskra yfirvalda á tímabilinu 2001-2009.
Skattastopp borgaraflokkanna fól í sér að horfið var frá öllum fyrirætlunum um hækkun skatta. Tilfærsla á skattbyrði var ekki útilokuð en ríkisstjórnin lofaði því að ef hún neyddist til að hækka einhvern skatt eða gjald, myndu tekjurnar renna óskiptar til að lækka annan skatt eða gjald á móti. Hugsunin var sú að skatt- og gjaldabyrðin yrði ekki aukin
Vitaskuld stóðu yfirvöld ekki alveg við skattastoppið en fasteignaeigendur muna þó eftir þessu tímabili sem tímabili fyrirsjáanlegrar skattheimtu á húsnæði - nokkuð sem er búið að raska töluvert í dag.
Það segir sína sögu um íslensk stjórnmál að það sé ekki einu sinni hægt að ræða stöðvun á sjálfsvirkum skattahækkunum, eins og fasteignagjöldin eru dæmi um, án þess að vera eins langt til hægri og reykvískir kjósendur komast. Ekki er sópað meira eða lagt meira í viðhald innviða þótt fasteignaverð hækki og þar með skattheimtan. Ekki er peningunum eytt í betri sorphirðu, nema síður sé. Að það þurfi að benda sérstaklega á að skattar eigi að vera fyrirsjáanlegir en ekki á fleygiferð er magnað.
Á meðan Reykjavík drukknar í skuldum og sækir í þróunaraðstoð í samkeppni við fátæka austur-evrópska bændur og saumakonur til að halda sér á floti er nokkuð annað á seyði í Argentínu. Þar kusu landsmenn yfir sig forseta sem beinlínis lofaði að minnka ríkisútgjöld og taka efnahaginn í áfallahjálp. Hann lofaði því að ástandið myndi versna áður en það myndi batna. Hann lofaði atvinnuleysi, hruni gjaldmiðilsins, rýrnun á sparnaði og fækkun opinberra starfa því tiltekt væri nauðsynleg til að horfurnar til lengri tíma gætu batnað.
Við þetta stóð hann og núna eftir 6 mánuði af sinubruna eru fyrstu sprotarnir byrjaðir að stingast upp úr sviðinni jörð.
Með því að stunda heiðarleg stjórnmál í erfiðu ástandi hefur forsetanum líka tekist að halda sæmilega í stuðning kjósenda, en frá upphafi hefur um helmingur kjósenda staðið með honum og trúað því að til að lækna sjúkt hagkerfi þurfi sterk lyf sem bragðast illa.
Á Íslandi lofa stjórnmálamenn öllu fyrir alla og uppskera engan sérstakan stuðning fyrir vikið. Íslendingar, eða íslenskir stjórnmálamenn og hagfræðingar að minnsta kosti, halda að lækningin við timburmönnum sé að byrja að drekka aftur. Vissulega góð hugmynd á útihátíð en ekki endilega á virkum dögum.
Þau eru mörg dæmin sem sanna að heiðarleg stjórnmál leggjast oft betur í kjósendur en loforðaflaumurinn. Að kjósendur kunni jafnvel vel að meta að við þá sé talað eins og fullorðið fólk frekar en krakka í nammibúð. Að þeir skilji jafnvel að það dugi ekki að safna endalausum skuldum á meðan viðhald er vanrækt og grænu og sjálfbæru jafnréttisskuldabréfin hrannast upp.
Mætti biðja um heiðarlegan stjórnmálamann?
Fimmtudagur, 25. júlí 2024
Ólíkar kröfur
Á Höfðabakkabrú í Reykjavík standa nú yfir framkvæmdir. Verið að bæta svolitlum hjólastíg við brúnna. Vinnusvæði er þarna greinilegt og búið að lækka hraðann yfir brúna niður i 30 km/klst og mjög þröngt um bílaumferð.
Vandamálið er bara að það er enginn á þessu vinnusvæði. Aldrei nokkurn tímann.
En bílstjórar láta sér fátt um finnast, hægja á sér á þessum litla kafla, og gleyma svo hættunni sem var búin til fyrir þá þar sem bílar úr gagnstæðum áttum nánast mætast þarna á brúni.
Ég meina, hvað er hægt að gera? Er eitthvað númer sem er hægt að hringja í? Þýðir eitthvað að reka á eftir því að þessi manngerða umferðarslysagildra verði leyst upp?
Nei, sennilega ekki.
Það er ekki eins og um sé að ræða einu matvöruverslunina í stóru hverfi sem þarf að loka í nokkra daga til að endurskipuleggja hillusvæði til að troða meiri vörum í búðina sem sveitarfélag bannar stækkun á (sbr. kafla 19.5 í aðalskipulagi Reykjavíkur) - fullkomlega handahófskennd takmörkun á stærð verslunarrýmis sem rýrir möguleika á þjónustu við íbúa úthverfa). Þessi lokun í nokkra daga var mörgum stór hausverkur og mikið umræðuefni og mikil eftirvænting eftir því að búðin opnaði á ný samkvæmt áætlun, sem hún gerði.
Við gerum allt aðrar kröfur til hins opinbera en til einkafyrirtækja.
Nú er til dæmis að koma betur í ljós að grunnskólar eru að breytast dvalarstofnanir, og eru í sífellt minna mæli menntastofnanir. Ekkert við því að gera!
Skattar á bíla og eldsneyti renna ekki til vegagerðar og innviða svo vegagerð og innviðir kalla á nýja skatta og tolla. Ekkert við því að gera!
Brú er gerð að slysagildru svo vikum skiptir og enginn að vinna að því að breyta því. Ekkert við því að gera!
En fannstu ost sem er kominn einn dag fram yfir seinasta söludag í Bónus? Þú lætur þá í þér heyra!
Kannski vanhæfi hins opinbera sé ekki hinu opinbera að kenna heldur almennum borgurum sem leggja einfaldlega ekki í að veita aðhald - nokkuð sem ég hef fulla samúð fyrir.
Kannski við séum aðeins of ógagnrýnin á hraðatakmarkanir sem eiga að sögn að verja vinnandi fólk þótt vinnustaðurinn standi tómur svo vikum skiptir. Auðvitað hjálpar við takmörkun á hraða að þjappa umferð í tvær áttir svo þétt saman að ökumenn óttist að lenda framan á öðrum bíl. En það er enginn starfsmaður á svæðinu.
En hvað sem því líður þá sé ég hérna rökstuðning í að fækka verkefnum hins opinbera og koma í hendur einkaaðila. Þá þorir almenningur að veita aðhald, og það kemur fram í bættri þjónustu. Þá mætir lati verktakinn á brúnni sömu kröfum og unglingurinn við kassann í Bónus sem þarf að biðjast afsökunar á útrunnum osti.
Kerfið féll á prófinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 21. júlí 2024
Loftslagsstefna Íslands
Vissir þú að það finnst nokkuð sem kallast Loftslagsstefna Stjórnarráðsins? Og lög um loftslagsmál? Í hvoru tveggja felast allskyns ígrip, skattheimta, boð og bönn sem miða að því að breyta veðrinu. Að Íslendingar á einhvern hátt geti haft jákvæð áhrif á samsetningu lofthjúpsins til að spyrna fótum gegn hamfarahlýnun (eða einhvers konar breytingum á veðrinu - takmarkið er færanlegt).
Þessari stefnu og þessum lögum þarf auðvitað að fleygja í ruslið í heilu lagi og taka á ný upp stefnu hagkvæmrar orkuöflunar, nýtingu íslenskra auðlinda og aukningu á framboði orku til almennings og atvinnulífs. En í bili er til Loftslagsstefna Stjórnarráðsins og lög um loftslagsmál. Hvað er til ráða?
Næsta ríkisstjórn gæti mögulega tekið upp þá vinnureglu að starfa ekki samkvæmt Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og láta eins og lög um loftslagsmál séu ekki til. Þannig verði allskyns skattar sem eiga að breyta veðrinu lækkaðir niður í núll (skattarnir væru ennþá til, ef lög kveða á um slíkt, en núll prósent). Íslenskir ráðamenn geta auðvitað ennþá sagt að þeir séu með metnaðarfull markmið skrifuð á einhverju blaði. Í framkvæmd eru skattar hins vegar ekki hækkaðir, sem og ýmis hagkvæm tækni ekki bönnuð, og orkuframkvæmdum er hleypt í gegnum stjórnsýsluna.
Hvort sem menni trúi á áhrif Íslendinga á samsetningu lofthjúps Jarðar eða ekki þá blasir við að öll markmið í loftslagsmálum eru nú þegar að fullu í framkvæmd á Íslandi og hafa verið lengi, eða eins og nývaknaður þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir í grein:
Ísland hefur á síðustu áratugum náð verulegum árangri í orku- og loftslagsmálum með rafvæðingu og uppbyggingu hitaveitukerfa. Hlutfall grænnar orku á Íslandi er mjög hátt eða um 85%. Þessi 15% sem út af standa er innflutt olía sem er aðallega sett á ýmis farartæki. Til samanburðar er hlutfall grænnar orku í löndum ESB að meðaltali undir 20%.
Hvernig fóru Íslendingar að því að ná öllum markmiðum á undan öðrum? Var það vegna loftslagsstefnu eða grænna skatta? Nei, það var vegna heilbrigðrar skynsemi - að nýta auðlindir, virkja fossa, bora holur, búa til pláss fyrir uppistöðulón og leggja háspennulínur.
Það mætti gera meira af þessu, en það verður ekki gert með því að fylgja Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins, heldur með því að fleygja henni í ruslið eða láta eins og hún sé ekki til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 19. júlí 2024
Óupplýsingaröld og samsæriskenningar
Í lipurlega skrifaðri grein í Morgunblaðinu skrifar höfundur meðal annars:
Sjálfstæð hugsun krefst orðaforða og hugtakaskilnings sem gerir manni kleift að gagnrýna hlutina; að innbyrða upplýsingar án þess að gleypa þær sem heilagan sannleik. Án slíkrar greindar er samansafn einstaklinga ekki samfélag heldur heilalaus hjörð. Með því að brúa ekki bilið milli ungmenna og tungumálsins erum við að framleiða óvirka borgara sem í ólæsi sínu standa máttlausir gagnvart upplýsingaflæði nútímans.
Þetta tek ég undir. Þess vegna er áhyggjuefni að íslenskir grunnskólar eru hættir að kenna krökkum að lesa sér til gagns.
Í kjölfarið skrifar höfundur:
Á tímum sítengingar streyma upplýsingar að okkur úr öllum áttum og setjast að án okkar vitundar. Leiðandi tildrög þess að fólk greini ekki á milli frétta og falsfrétta og aðhyllist samsæriskenningar er lágt menntastig og því ólæsari sem samfélög verða á sannleiksgildi upplýsinga því hraðar afkynjast lýðræðisríki í varhugaverðara stjórnarfar.
Þessu á ég aðeins erfiðara með að kyngja, og sérstaklega orðalaginu lágt menntastig. Eru það ekki háskólamenntuðu blaðamennirnir, stjórnmálamennirnir, prófessorarnir og fólkið með stóru titlana hjá hinu opinbera og jafnvel víðar sem hraðast kyngja samsæriskenningum og boða eins og hinn heilaga sannleika?
Er það ekki fólkið með gráðurnar og peningana sem spýr úr sér óþoli á niðurstöðum kosninga ef þær eru ekki eftir uppskriftinni?
Er það ekki millistéttin, með sína menntun og stöðu í samfélaginu, sem hleypur fremst í raðirnar þegar lyfjafyrirtækin segjast hafa lausn allra vandamála?
Að kenna fólki með lágt menntastig um rotnun lýðræðisins er stór stimpill. Á meðan ég er sammála því að ónýtt menntakerfi sé slæmt fyrir samfélagið og lýðræðið þá sé ég ekkert nema jákvætt við að efast um upplýsingaóreiðu yfirvalda, háskóla og lyfjafyrirtækja, svo eitthvað sé nefnt. Fólk með lágt menntastig er kannski fyrsta varnarlínan sem ætti að taka meira mark á ef eitthvað er. Læsir, vonandi, en án gráðunnar. Hugsandi, frekar en að forðast óánægju yfirvalda. Forvitnir, en ekki að gleypa allt sem þeim er sagt.
Það mætti jafnvel snúa dæminu alveg við. Margir með háskólagráður í dag eru með gagnslausar gráður sem benda beint á atvinnuleysisskrá. Hið opinbera bregst við með því að setja í lög allskyns kvaðir og kröfur sem kalla á notkun gagnslauss vinnuafls með gagnslausar gráður. Þetta fólk er háð hinu opinbera að öllu leyti, trúir öllu sem því er sagt og kýs eftir uppskrift.
Og er um leið fólkið sem við eigum að taka mark á.
Ég hika, og hika lengi. Megi þeir sem kyngja hægast fá sem mesta áheyrn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miðvikudagur, 17. júlí 2024
Um pólitísk áhrif þess að gefa stefnuljós
Stefnuljós eru á öllum bílum og lög og reglur kveða svo á um að þau eigi að virka. Fyrir því eru margar góðar ástæður. Stefnuljós og önnur stefnumerki eins og handabendingar hjólreiðamanna stuðla að bættu flæði og auknu öryggi. Þau senda skilaboð til annarra sem vita þá hvort þeir eigi að hægja á sér, geti beygt eða megi reikna með því að geta haldið áfram á sama hraða. Stefnuljós og -merki segja: Ég ætla mér að breyta frá núverandi stefnu minni, eða ekki, og þú getur aðlagað þína vegferð að þeim upplýsingum.
Á sama hátt og stefnuljós og -merki veita upplýsingar þá er það að beygja án þess að gefa stefnuljós líka ákveðin upplýsingagjöf. Rangupplýsingar á tungutaki nútímans, og ígildi þess að segja: Þú þarft að bíða eftir því að sjá hvað ég geri áður en þú veist hvað þú getur gert. Þannig upplýsingar halda öðrum í gíslingu. Þeir þurfa að bíða aðeins lengur til að sjá hvað þú gerir frekar en að sjá áætlanir þínar og geta brugðist við þeim.
Í íslenskri umferð er mjög ríkt að gefa ekki stefnuljós, jafnvel ekki í þéttri umferð. Bílar hægja fyrirvaralaust á sér til að beygja. Þeir skipta um akreinar af miklum ákafa, án upplýsingagjafar til umhverfisins. Þeir sem ætla sér yfir gatnamót við hringtorg þurfa að bíða eftir því að hringtorgið tæmist til að vera vissir um að geta komist yfir enda engin merki gefin um hvort bílar ætli út eða að halda áfram. Hjólreiðamaður á Íslandi gefur aldrei stefnumerki. Umferðin er stefnumerkjalaus, nánast með öllu.
Það er í þessu samhengi að val íslenskra kjósenda, sem um leið eru ökumennirnir sem sleppa stefnuljósunum, verður skiljanlegt.
Það er enginn að leita að áætlunum til lengri tíma, eða einhverri stefnu annarri en hentistefnu. Stjórnmálamenn stinga upp á sköttum og stofnunum í gríð og erg án þess að neinn sjái heildarmyndina eða leiti að henni engin stefnuljós, bara fyrirvaralausar breytingar á akreinum. Stjórnmálamenn lesa skoðanakannanir til að móta stefnu sína. Fyrirtæki vita ekki hvort hið opinbera muni valta yfir hugmyndir þeirra eða hleypa þeim yfir gatnamótin við hringtorgið. Þau þurfa að taka áhættuna því streymi stjórnmálamanna og stofnana stöðvast aldrei. Og þetta er einfaldlega talið eðlilegt.
Þjóð sem gefur ekki stefnuljós þarf ekki stefnumörkun og spáir ekki í flæðinu í umferðinni eða öryggi vegfarenda. Þeir sem voga sér í umferðina og treysta á stefnuljósin eru í stórhættu telja að það gildi skrifuð og óskrifuð lög sem má treysta á til að komast áleiðis en engin slík lög eru að lokum í framkvæmd.
Ég legg til að íslenskir öku- og hjólreiðamenn þrói með sér þann góða, auðvelda og sjálfsagða vana að gefa stefnumerki af öllu tagi í sem víðustu samhengi. Mögulega hefur það þau áhrif að þeir fari að krefjast þess sama af yfirvöldum. Þá geta menn á ný farið yfir gatnamót hagkerfisins og samfélagsins án þess að þurfa bíða eftir sumarleyfi hins opinbera og tómum hringtorgum í kerfinu.
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu.
Miðvikudagur, 17. júlí 2024
Hrós til starfsmanna Hallgrímskirkju
Palestínskir fánar voru bundnir í turnklukku Hallgrímskirkju og gerðir sýnilegir þeim sem áttu leið hjá. Starfsmaður Hallgrímskirkju segir fánana ekki hafa verið hengda upp í samráði við kirkjuna. Þeir voru fjarlægðir.
Voru viðbrögð starfsmanna Hallgrímskirkju rétt? Já, auðvitað. Þeir eru jú að starfa við kristna, íslenska kirkju. Hún verður ekki skreytt með öðru en kristilegum táknum og íslenska fánanum. Skiljanlega. Eðlilega. Að sjálfsögðu.
En þeir hefðu líka getað guggnað af ótta við pólitískan rétttrúnað. Sagt að þeir vilji ekki raska friðsömum mótmælum gegn mannréttindabrotum. Óttast að minnsta rask á fánum og merkjum háværra mótmælenda muni valda hefndarárásum og eyðileggingu, eins og dæmin sýna.
Þeir guggnuðu ekki. Þeir stóðu fastir á sínu, ólíkt lögreglu sem hefur séð í gegnum fingur sér á fjölda skemmdarverka af hendi sama hóps mótmælenda.
Kannski starfsmenn Hallgrímskirkju eigi að fá umboð til að verja fleiri verðmæti og minnismerki? Þeir virðast taka umboð sitt alvarlega. Þeir þora þegar aðrir bogna.
Hrós til þeirra.
Palestínskir fánar hengdir upp í óþökk kirkjunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 16. júlí 2024
Best að enginn fari neitt
Þýska járnbrautakerfið er úr fornöld. Þessu kynntist ég þegar ég þurfti að nýta það undir íslenska öskuskýinu til að komast frá Frakklandi til Danmerkur á sínum tíma. Ég komst, en þetta var óþægilegt ferðalag þótt fyrirtækjakortið hefði borgað fyrir eins þægilegt ferðalag og kostur var á, í fjarveru flugferða.
Þeir sem þurfa og vilja eiga og nota bíl vita að það er að verða sífellt dýrara, bæði tækin og eldsneytið, fyrir utan að bílastæðin í rými hins opinbera eru að gufa upp. Einn daginn er það bensín, þann næsta dísill, þann næsta rafmagn. Ef þú veðjar á rangar lottótölur þá bíða þín svimandi skattar.
Flugferða bíða sömu örlög. Takmarkið er að koma venjulegu fólki úr þeim og á jörðina. Einkaþoturnar halda sínum undanþágum.
Því hefur lengi verið haldið að Evrópubúum að flugferðir séu vondar og lestarferðir góðar. Samt hefur lestarkerfið haldið áfram að lifa í fornöld. Ætlunin var aldrei að fjölga lestarferðum. Ætlunin var að fækka ferðalögum.
Ferðalög almennings eru almennt til ama og óþæginda fyrir yfirvöld. Slíkum ferðalögum hefur jafnvel verið kennt um afleiðingar misheppnaðrar peningastefnu íslenskra yfirvalda (peningaprentun til að borga undir árásir ríkisvaldsins á hagkerfið í nafni veiruvarna).
Fyrir utan að vilja halda fólki innan lands og landshluta bætist svo auðvitað við viljinn til að halda fólki innan hverfa, hinna svokölluðu 15 mínútna hverfa. Ljómandi samantekt um þau, og bæði yfirlýst og óyfirlýst markmið að baki þeim, er að finna hér.
Það er einfaldlega best að enginn, nema útvaldir, fari neitt. Þar á meðal þú, að sjálfsögðu. Og þú ert alveg til í þá vegferð þótt þú vitir ekki endilega af endamörkum hennar, ekki satt?
Járnbrautarkerfið í Þýskalandi alþjóðlegur brandari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |