Í fréttum: Ekkert gos

Nú er það helst í fréttum á Íslandi að ekkert eldgos er lengur í gangi. Það getur að vísu breyst, en gæti haldist óbreytt.

Þetta finnst yfirvöldum vera ástæða til að banna fólki að snúa heim til sín, og banna því að leggja við bílastæði Bláa lónsins og labba frekar stuttan spöl að kólnandi hrauni. 

Yfirvöld loka líka vegum í nágrenni hins kólnandi hrauns.

Ákveðin tilhneiging hefur farið vaxandi í tengslum við ferðamannagosin undanfarin ár á Reykjanesi, samhliða því að enginn hefur meiðst vegna hrauns en þeim mun fleiri vegna langra og lélegra gönguleiða sem fólki er gert að nota. Sú tilhneiging er að treysta fólki sífellt minna. Um leið er áhætta þeirra sem vilja sjá gos eða kólnandi hraun aukin. Undanfarið hefur svo bæst við að gera fólk heimilislaust með stuttum fyrirvara en til lengri tíma.

Hér er ekki hægt að segja að menn séu að styðjast við vísindin því vísindamenn eru hreint ekki sammála. 

Hér er miklu fremur verið að innleiða yfirgengileg varfærnisjónarmið sem virka auðvitað öfugt. Þegar öllu er lokað og fólk skilur ekki af hverju þá reyna sumir að svindla og koma sér kannski í hættu þannig. Í stað vaktaðra göngustíga og útsýnissvæða er einfaldlega reist girðing. 

Þetta fer hreinlega að minna á veirutímana með límmiðunum á gólfinu til að sýna í hvaða átt á að labba, auk samkomubannsins auðvitað. Tímar þar sem var bannað að fara í kirkju, í klippingu eða í ræktina en í fínu lagi að troðast í áfengisverslun. Tímar þar sem var grímuskylda í flugvélum nema þegar matar og drykkjar var neytt.

Handahófskennt, tilgangslaust og íþyngjandi.

Það er sem sagt helst í fréttum að það er ekkert gos, fullt af lokunum og fólk á vergangi. Manngerðar hamfarir en ekki náttúrulegar.


mbl.is Of snemmt að lýsa yfir goslokum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir þessir upplýsingafulltrúar

Það blasir við að háskólar framleiða mikið af fólki sem ætlast til þess að geta fengið þægilega innivinnu að lokinni útskrift. Það blasir líka við að þetta er ekki raunin fyrir marga. Hvað er til ráða? Að hætta að hvetja fólk til að fara í háskóla? Að bæta aðeins við námið svo í því felist einhver verðmætaskapandi kunnátta?

Nei, auðvitað ekki.

Til ráða er að búa til fullt af störfum á vegum hins opinbera sem geta tekið við öllu þessu atvinnulausa, háskólamenntaða fólki.

Þetta er a.m.k. ein möguleg leið til að útskýra af hverju nánast hver einasta skrifstofa innan hins opinbera virðist þurfa á upplýsingafulltrúa að halda. Um leið er slíkt starf nokkuð sem þarfnast lítils rökstuðnings: Við erum með upplýsingar sem þarf að miðla, ýmist til umheimsins, eða innandyra, og vantar að sjálfsögðu upplýsingafulltrúa! Eða viltu að slíkt sé bara eitthvað aukastarf fyrir fólk sem ætti að vera sinna öðru?

Algjört getuleysi hins opinbera til að byggja og reka innviði og grunnþjónustu gerir röksemdafærsluna enn auðveldari: Við erum að fá margar fyrirspurning sem þarf að svara með upplýsingum, og vantar að sjálfsögðu upplýsingafulltrúa! Eða telur þú kannski að við eigum frekar að sinna hlutverki okkar svo allar þessar fyrirspurnir hverfi? Þá skilur þú ekki opinberan rekstur!

Í hvert skipti sem ég sé minnst á ráðningu á upplýsingafulltrúa innan hins opinbera þá sé ég tvennt krystallast á sama tíma:

  • Báknið er að klúðra málum og þarf einhvern til að fleygja undir rútuna
  • Báknið er að leita leiða til að stækka sig svo það fari nú ekki að missa af frekari fjárframlögum

Mér finnst nú líklegt að flestir hafi séð í gegnum þetta leikrit hins opinbera. En úr því svona er komið fyrir bákninu er kannski við hæfi að biðja það um fleiri upplýsingar. Nóg er af teppum til að kíkja undir og finna þar skít upplýsingaóreiðu. Geta upplýsingafulltrúarnir hjálpað okkur?


mbl.is Orkustofnun fær ráðgjöf við samskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti COP28 fjárfestir áfram í jarðefnaeldsneyti

Fyrirsögnin er er fengin frá frétt RÚV og vakti athygli mína. Ekki af því það kemur mér á nokkurn hátt á óvart að Arabarnir ætli sér að halda sínu striki og draga olíu og gas úr jörðu sem rennur svo út eins og heitar lummur til allra heimshorna, þar á meðal Evrópu. Ekki af því mér finnist skrýtið að forseti COP28, sem um leið er forstjóri olíufélags, tilheyri kjaftaklúbbi sem tali um eitt á meðan raunveruleikinn þýði eitthvað annað. Ekki af því ég sjái eitthvað óvænt í mótsögn í orðum og gjörðum.

Nei, fyrirsögnin vakti athygli mína af því hún er sett fram í hneykslunartón sem um leið bendir til veruleikafirringar blaðamanns og fjölmiðils.

Sjálf fréttin styður slíka túlkun:

Sultan al Jaber, stjórnandi ríkisolíufélags Sameinuðu arabísku furstadæmanna, ætlar að halda áfram að fjárfesta í olíu- og gasframleiðslu. Örfáir dagar eru síðan hann var forseti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, þar sem hann fagnaði samningi um samdrátt í framleiðslu jarðefnaeldsneytis. ... 

Hann segir fyrirtæki sitt ætla að halda áfram að vera „ábyrgur og áreiðanlegur birgðasali lág-kolefnis orku,“ og heimurinn þurfi á slíkri orku að halda fyrir lægsta mögulega verð. Hann fullyrðir að kolvatnsefni ríkisolíufélagsins gefi frá sér minna kolefni þar sem það sé sótt á skilvirkari hátt og lekinn út frá því minni en annars staðar.

Það sem blaðamaður telur vera mótsögn forstjórans er í raun viðskiptavit. Hann sér að Evrópumenn og Bandaríkjamenn eru búnir að lofa því að opna ekki fleiri olíu- og gaslindir. Hvað þýðir það? Jú, að hans framleiðsla verður í aukinni eftirspurn. Hann veit alveg að olía og gas verður uppistaðan í orkuöflun mannskyns í einhverja áratugi í viðbót. Ef þessi hráefni fá að vera áfram í jörðinni í Evrópu þá þurfa þau að koma upp úr henni hjá honum.

Kannski RÚV hefði átt að orða fyrirsögnina öðruvísi en halda að öðru leyti texta fréttarinnar óbreyttum. Ein heppileg fyrirsögn gæti verið:

Við létum plata okkur! Núna þurfum við að fara með betlistafinn til Arabanna

Eða:

Vesturlönd skrifa enn og aftur undir lífskjaraskerðingu til styrktar arabískum prinsum

Nú fer reyndar að styttast í að Vesturlönd þurfi að snúa af þessari braut. Þetta tekur tíma. Nýir stjórnmálamenn þurfa að taka við af þeim sem hafa selt sálina til kolefniskirkjunnar. Forstjóraskipti þurfa að eiga sér stað hjá fyrirtæjum sem hafa eytt svimandi fjárhæðum í gagnlausar kolefnisaðgerðir. Almenningur má samt alveg fara að vakna og koma einhverju af stað: Hætta að borga fyrir svokallaða kolefnisjöfnun, byrja að kaupa plaströr á svarta markaðinum og mótmæla stighækkandi kostnaði við sorphirðu, til að byrja með.

Nema þér þyki svona vænt um arabísku prinsana. Þú um það.


Kennitöluflakk yfirvalda

Menntamál á Íslandi eru í molum, bæði þau á könnu ríkis og sveitarfélaga. Grunnskólanemendur hrapa í námskönnunum (á meðan einkunnir standa í stað eða hækka). Framhaldsskólar kvarta yfir ólæsum nemendum úr grunnskóla. Háskólar kvarta yfir illa undirbúnum nemendum úr framhaldsskóla. Háskólanám er hætt að skila sér í hærri launum enda eru margar námsleiðir frekar ómerkilegur pappír og ávísun á atvinnuleysi. 

Er eitthvað eftir sem er í lagi?

Ríkið ætlar að bregðast við þessu ástandi með kennitöluflakki. Í stað einnar stofnunnar kemur önnur. Trúir því einhver að þetta breyti einhverju? Menntaskólastofnun er hvað frægust fyrir að gefa út klámfengið efni fyrir ung börn. Á það að breytast? Auðvitað ekki. 

Vellíðan í skólum er talin mikilvægari en námið, og ætti þó bæði að geta hangið ágætlega saman. Börnum er kennt að líffræðin sé bara hugarburður feðraveldisins og að þau séu að tortíma veröldinni með tilvist sinni. Þeim er plantað fyrir framan skjá til að gleypa þar einhver forrit á meðan kennarinn getur slappað af með kaffibollann sinn. 

Kennitöluflakk yfirvalda mun engu breyta en mögulega veita svolítinn gálgafrest. Nú er hægt að bera því við í nokkur ár að ný stofnun sé ennþá að innleiða ýmsar góðar breytingar en það taki auðvitað tíma og hafi reynst flóknara en til stóð. Á meðan bíðum við þolinmóð eftir næstu Pisa-könnun, gefið auðvitað að niðurstöður hennar fáist birtar.

Ef ég væri foreldri á Íslandi myndi ég íhuga uppreisn gegn kerfinu og því að heimta að fá framlög til skóla beint í vasann og leita annarra leiða.


mbl.is Önnur nálgun hjá nýrri Menntamálastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föðurleysið

Um daginn datt ég inn á alveg magnaða tölfræði um mögulegar afleiðingar þess fyrir börn að vera án föður eða föðurímyndar í lífi sínu. Svimandi hátt hlutfall allskyns glæpamanna eiga það sameiginlegt að hafa ekki haft föður í lífi sínu. 

Ég leyfi mér því að hafa miklar áhyggjur af nokkrum börnum sem eru falin frá föður sínum eftir að hafa verið heilaþvegin svo mánuðum skiptir til að vilja ekkert með hann hafa:

Drengirnir séu í umsjá vina og vandamanna ... og að ekki sé hægt að segja að þeir séu í felum – þeim líði vel.

Og þetta bara má, afleiðingalaust. Móðirin í grjótinu fyrir ítrekuð lögbrot og börnin á vergangi, haldið með andlegum og líkamlegum ráðum frá föður sem vill fá þau, og á rétt á því lögum samkvæmt, enda eini forráðamaður þeirra eftir að hafa prófað sameiginlega umgengni og uppskorið ekkert nema tálmun.

Hvað er langtímaplanið hérna? Jú, auðvitað að gera þessi börn föðurlaus. Í staðinn tekur við kærasti mömmunnar sem þekkir þau lítið sem ekkert. 

Nú er að vísu ekkert óalgengt að börn á Íslandi séu gerð föðurlaus. Oft er þetta gert með því að gera þá gjaldþrota og hrekja þá í sjálfsvíg þegar þeir sjá ekki fram á neinar leiðir til að taka við börnunum og sjá um þau, enda búið að hreinsa launin af þeim áður en þau svo mikið sem enda á bankabókinni. Önnur aðferð er að beita tálmun og ræða einstæðar mæður sín á milli um að slíkt sé afleiðingalaust. Foreldrafirringin - það að gera börn afhuga föður sínum með stanslausum heilaþvotti - er líka gott ráð. 

Kannski er hérna komin rótin af allskyns öðrum vandamálum barna á Íslandi og sérstaklega drengja: Versnandi námsárangur, brottfall ungmenna úr námi og ýmislegt fleira.

Kannski er hratt lækkandi fæðingartíðni á Íslandi ekki sprautunum að kenna heldur því að karlmenn þora hreinlega ekki að eignast börn með íslenskum konum lengur. Slíkt gæti verið ávísun á líf á hrakhólum með tómt veskið.

En sem sagt, einhvers staðar á Íslandi eru börn geymd í einhverju herbergi eða kjallara eða sveitabæ eða sumarbústað af því allt er betra en að þau séu með föður sínum.

Og lögreglan gerir ekkert.

Viðbjóður.


Veirutímar

Myndin hér að neðan er tekin af mér í mars 2022 þar sem ég sat í flugvél á leið til Íslands og var beðinn um að setja á mig grímu, sem ég gerði (því vildi ekki láta fleygja mér út).

veirureglur

Eins og sést var ég töluvert skeggjaður á þessum tíma. Veirur ferðuðust óhindrað á milli skeggháranna og gerðu gagnslausa grímu jafnvel enn gagnslausari, og jafnvel að veiruhraðal. 

Flugþjónarnir virtust ánægðir með að sjá grímuna og gerðu ekki neinar athugasemdir við að ég hafi ekki einu sinni breitt úr henni til að ná a.m.k. yfir aðeins stærra svæði á andliti mínu, né að ég hafi ekki einu sinni haft fyrir því að klemma henni á nefið á mér. Þeir vissu sennilega að fyrirmæli þeirra voru kjaftæði og bara ánægðir með að þurfa ekki að eiga við einhvern álhattinn.

Ég passaði mig svo það sem eftir var flugsins að vera alltaf að borða eða sötra eitthvað, enda heimilt að vera án grímu á meðan matar eða drykkja var neytt, veirum til mikillar skemmtunar.

Ég rifja þetta upp því ég var að horfa á viðtal John Stossel við Rand Paul, bandarískan öldungadeildarþingmann, sem er tiltölulega nýbúinn að gefa út bók, Deception: The Great Covid Cover-Up, sem rauk eftir þetta viðtal í 2. sæti á lista mínum yfir bækur sem ég ætla að lesa/hlusta á (í 1. sæti er The Great Awakening eftir Alex Jones þegar ég er búinn með An Immigrant´s Love Letter to the West eftir Konstantin Kisin).

Við vorum auðvitað blekkt af yfirvöldum sem voru ekki að boða vísindi, eins og þau héldu fram, heldur bara að gera eitthvað, byggt á minnisblöðum að utan. Gott og vel, við féllumst á það einu sinni og sumir lengur en aðrir, en næst verða eingöngu hin raunverulegu vísindi í boði og yfirvöld geta tekið aftursætið.


28. fundur Lygara, öskrara, grínara, glæpamanna og alþingismanna

Loksins kláraðist 28. fundur Lygara, öskrara, grínara, glæpamanna og alþingismanna, eða LÖGGA28 eins og það er oftast kalla (á ensku COP28). Vestræn ríki halda áfram að lofa því að taka af okkur ódýra orku, banna bílana okkar, láta okkur flokka sorp sem síðar er einfaldlega brennt eða breytt í eitraðan varning, hækka á okkur skattana og hræða börnin svo þeim langi jafnvel ekki að lifa, hvað þá að dreyma um að eignast eigin börn í framtíðinni.

Afgangur heimsins hlær með og fær jafnvel einhverja peninga út á það en heldur annars áfram af kappi að útvega ódýra orku eða fara úr engri orku í einhverja orku með notkun hagkvæmasta eldsneytisins.

Um daginn horfði ég á langt viðtal John Stossel við Bjorn Lomborg, og mæli með því að fólk sem sækist eftir jarðtengingu geri það líka. Lomborg trúir að vísu öllum þessum skýrslum um hlýnun Jarðar af mannavöldum en sér þó ekki ástæðu til að steypa okkur í gjaldþrot með því að henda miklu fé á eftir lausnum sem skila engu, á kostnað annarra lausna sem hafa margfalda ávöxtun í formi mannslífa og verðmætasköpunar.

Auðvitað munum við að lokum þurfa að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Eftir einhverja áratugi verður orðið erfitt að finna ódýra olíu og jafnvel ódýrt gas. Eftir nokkrar aldir verður líka orðið lítið um aðgengilegar kolanámur. Í millitíðinni rannsökum við aðrar gerðir orkuöflunar sem verða mögulega hagkvæmar seinna, og höldum áfram að þróa tækni sem er mögulega ekki hagkvæm fyrir alla en góð fyrir suma. Ekki spurning. 

En allt þetta tal um ævintýraleg markmið fyrir árið 2030 eða 2040 eða jafnvel 2050 er ekkert nema aðför að venjulegu vinnandi fólki.

Kjósendur geta gert eitthvað til að spyrna við fótum. Þeir gætu til dæmis vopnað sig með grein dr. Helga Tómassonarpró­fess­ors í hagrann­sókn­um og töl­fræði, í Morgunblaðinu í gær. Ég hengi hana hér við fyrir þá sem eru ekki áskrifendur eða í hugsandi hópum á samfélagsmiðlum þar sem svona efni er vitaskuld dreift og deilt. 

Kjósendur geta líka kosið. Það er ekki endilega frábært framboðið af flokkum en innan margra má finna einstaklinga sem hafa séð í gegnum þokuna, og skemmdarverkin.

LÖGGA28 laðaði að venju að sér einkaþotur og milljarðamæringa sem eiga hlutabréf í loftslagsiðnaðinum. Opinberir starfsmenn láta sig heldur ekki vanta enda hægt að uppskera vel í dagpeningum, flugpunktum og gistingu á lúxushótelum. En þetta er leiksýning. Því miður munu vestrænir stjórnmálamenn halda henni áfram þegar heim er komið, og þú færð að borga, en aðrir snúa sér aftur að dagvinnu sinni.


mbl.is „Upphaf endaloka jarðefnaeldsneytis“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er ekki mikilvægast að bara líða vel?

Mér líður stundum illa. Ekki vegna sjúkdóma eða þunglyndis heldur vegna álags. Mér líður ekki illa í þeim skilningi að ég þjáist af vanlíðan heldur miklu frekar af því ég sé stundum ekki hvernig ég á að ná að klára öll þau verk sem liggja fyrir. Kannski þetta sé miklu frekar hægt að kalla samviskubit - ég tek á mig miklar byrðar, sem raðast svo óheppilega í tíma á mig, og leiða til drukknunartilfinningar á köflum.

Þetta líður svo allt saman hjá. Við eigum jú að reyna leggja okkar af mörkum og vera nothæf, og þá sérstaklega fyrir ungviðið okkar.

Svona leið mér oft í námi. Ég valdi í efstu bekkjum grunnskóla að fara í það sem þá var kallað hraðferð, í öllum fögum sem hægt að velja um slíkt. Þetta þýddi meira heimanám, þyngri skyndipróf og meira lesefni. Þetta olli álagi. Vanlíðan á köflum, því samviskubitið herjaði á mig. 

Ég valdi þann framhaldsskóla sem ég taldi vera erfiðastan, sem á þeim tíma var Menntaskólinn í Reykjavík, og fór þar á þær námsleiðir sem voru taldar erfiðastar. Þetta olli miklu álagi.

Ég fór svo aðeins rólegar í háskólann, og valdi þar verkfræði. Það var af ýmsum ástæðum, en útilokunaraðferðin kom sterk inn. Námsálagið þar var á köflum alveg kæfandi, og margar nætur fóru í að klára skilaverkefni og læra fyrir próf.

Ég les því með bros á vör eftirfarandi orð borgarstjóra, læknisfræðimenntaður vel á minnst og því með svipaðan námsferil að baki og ég þar til kom að háskóla:

Sagði hann [Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri] að nauðsyn­legt væri að skoða hvernig hægt best væri að nýta þess­ar niður­stöður til úr­bóta. Við yrðum að setja okk­ur mark­mið að ná ár­angri í PISA þó ýms­ir aðrir mæli­kv­arðar væru mik­il­væg­ir líka eins og líðan barna í skól­um sem væri al­mennt góð hér á landi.

Þarna er maður sem lærði í skóla að lesa sér til gagns og notagildis, lærði undirstöður reiknings, lærði að tileinka sér erfitt nám og klára það. Þarna er maður sem naut góðs af álagi í náminu og eftirfylgni með því. Hann fór í skyndipróf og lokapróf og tókst að standa sig vel í þeim af því hann tók nám sitt alvarlega og naut stuðnings til að sinna því, og auðvitað aðhalds líka. 

Núna er verið að þynna allt þetta út í að líðan barna í skólum sé góð og að það eigi að vega upp á móti því að börnin séu ekki að læra neitt. Er líðanin svona góð því börnin hafa ekkert að gera og geta spilað tölvuleiki í símanum? Eða af því kennarinn er að hanga í sínum síma og vonar að krakkarnir séu að tileinka sér námsefni úr skjá spjaldtölvu eða ferðatölvu, sem þau eru svo bara alls ekki að gera? 

Áherslan á vellíðan er kannski ágæt í sjálfu sér en hún er greinilega farin að bitna á ábyrgðartilfinningu, samviskusemi og hreinlega námi í skólum eins og það leggur sig.

Þá finnst mér mögulega við hæfi að stinga upp á því að reyna minnka aðeins þessa vellíðan í skóla og láta börnunum líða illa stöku sinnum. Svo þau geti einn daginn kannski orðið að læknisfræðimenntuðum borgarstjórum.


mbl.is Tillögu vegna PISA vísað til skóla- og frístundaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki hægt að innleiða sjálfvirknilausnir?

Þeir sem hafa ferðast aðeins og heimsótt veitingastaði McDonalds sjá að þar hefur átt sér stað mikil breyting á undanförnum árum. Núna er yfirleitt tekið við pöntunum í gegnum sérstakar tölvur og það eina sem starfsmenn gera er að framreiða og afhenta pantanir. 

Þetta var ekki endilega fjárfesting sem McDonalds fór út í að gamni sínu. Nei, þessari fjárfestingu var hraðað mjög vegna hækkandi launakostnaðar. Núna fá fáir starfsmenn mögulega hærri laun, en fyrir nýliðann í leit að sínu fyrsta starfi lokuðust dyr.

Sá sem græddi mest var mögulega sá sem lærði að byggja og forrita svona tölvur. Gott hjá honum!

Verkalýðsfélög segjast vera að berjast fyrir hagsmunum hins óbreytta launamanns en eru í raun að gera hann atvinnulausan. Það tekur tíma fyrir atvinnulífið að aðlagast breyttum aðstæðum - að fara úr því að smíða hestvagna yfir í að smíða bíla, og í að laga bremsuklossa í stað þess að rétta af hestaskeifur. En þegar verkalýðsfélög þröngva fyrirtækin út í horn þá hraða þau breytingunum og afleiðingin er sú að aðilar á vinnumarkaði ná ekki að aðlagast nógu hratt, og týna starfinu án þess að finna nýtt.

Ég er alveg ljómandi hlynntur tækni og tækniframförum sem gera hluti ódýrari og hraðari og minna háða mannlegum mistökum. 

Kannski ekki alveg jafnhlynntur slíkri þróun og verkalýðsfélögin ómeðvitað eru.

En spyr mig nú samt: Hvenær tekur sjálfsali McDonalds við flugumferðarstjórn á Íslandi? Mögulega fyrr en menn þorðu að vona.


mbl.is Mikill kostnaður mun falla á flugfélögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin nýja löggjöf: Sekur uns sakleysi er sannað

Á veirutímum vöknuðu margir upp við vondan draum. Svokallað stjórnarskrárbundið lýðræði, þar sem réttindi fólks eru skráð í stjórnarskrá sem um leið takmarkar völd hins opinbera, reyndist vera sviðsetning. Það kom í ljós að í raun geta yfirvöld gert það sem þeim sýnist að því gefnu að þeim takist að sannfæra meirihluta almennings um ágæti yfirgangsins. Stjórnarskráin reyndist ekki duga sem vörn af neinu tagi ef almenningur stóð ekki fastur á ákvæðum hennar.

Þetta er hin nýja tegund löggjafar. 

Allt má réttlæta í nafni neyðarástands og undir þér komið að sanna sakleysi þitt frekar en að það sé ákæruvaldsins að sanna sekt.

Í mjög áhugaverðri hugleiðingu Russel Brand á jútjúb tekur hann fyrir frumvarp til laga í írska löggjafarþinginu þar sem á að færa lögreglunni töluvert mikil völd til að taka á því sem er kallað hatursumræða og hvatning til ofbeldis á samfélagsmiðlum. Lögreglan fær aðgang að skilaboðaþjónustum af ýmsu tagi og má hnýsast í það hvaða efni þú ert með á tölvunni þinni og ákæra þig eins og þú sért að fara dreifa því til að boða hatur og ofbeldi. Já, lögreglan má ganga út frá því að ef þú ert með ákveðið efni í fórum þínum þá munir þú ætla að dreifa því til að ala á hatri og hvetja til ofbeldis.

Hvaða efni er það svo sem er talið svona hættulegt? Lögreglan sker úr um það!rb_hate

Til að bæta gráu ofan á svart þá verður hvergi í þessari löggjöf skilgreint hvað hatursumræða er. Það er til að koma í veg fyrir að ákærur falli á túlkunaratriðinu.

Írland er ekki eitt á þessari vegferð í átt að sovéskum aðferðum til að hafa hemil á tjáningu og málfrelsi fólks. Þetta er að verða tískan. Heimildir yfirvalda til að hnýsast í líf borgaranna eru auknar og ákærur byggðar á túlkun yfirvalda frekar en bókstaf laganna. Fólk er meðhöndlað eins og sekt þar til sakleysi er sannað. Neyðarúrræði af ýmsu tagi eru útvíkkuð og gripið til þeirra af sífellt minna tilefni. Og almenningur segir ekkert. Mótmælir í engu. Treystir kannski á stjórnarskránna þótt hún sé ein og sér og án varðstöðu alveg gjörsamlega ónýtur pappír.

Margir vöknuðu upp við vondan draum á veirutímum við að sjá í gegnum lygar yfirvalda. Við að sjá í gegnum lygar veiruvarna fóru margir líka að sjá í gegnum hinar lygarnar, enda spretta þær allar úr sama jarðvegi. Lygar í málefnum innflytjenda. Lygar í málefnum loftslagsbreytinga. Lygar í málefnum veiruvarna. Lygar um líffræði kvenna og karla. Lygar ofan á lygar.

Kannski var hlutfall almennings sem vaknaði úr þægilegum svefninum ekki mjög hátt, en raddirnar þeim mun háværari. Þegar næsta holskefla lyga skellur á okkur verður erfiðara en áður en selja þær. Þökk sé, vonandi, fólki eins og þér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband