Sprungan í glerhjúpnum

Ég verð að viðurkenna að mér finnst gaman að sjá vitnað í skrif mín. Gildir þetta líka þegar slíkar tilvitnanir eru í mjög neikvæðum tón enda þýðir það að umræðan virkar og menn geta skipst á skoðunum í ræðu og riti án þess að grípa til gífuryrða. 

staksteinar des 27 2023 hausÉg var því ánægður að sjá Staksteina Morgunblaðsins í dag þar sem vitnað var í skrif mín á jóladag um glerhjúpinn um manngerða hlýnun Jarðar sem núna er byrjaður að springa.  

Hið opinbera finnur upp á ýmsu til að eyða peningum okkar í. Er sumt frekar saklaust og um leið hóflega dýrt á meðan annað er mjög dýrt en talið frekar nauðsynlegt. Aðgerðir gegn manngerðri hlýnun Jarðar falla í flokkana ónauðsynlegt og rándýrt sem er versta mögulega samsetning. Það á að taka bílinn af venjulegu fólki, setja takmörk á ferðalög og kjötneyslu, hækka orkureikninginn og gera orkuna óstöðugri í leiðinni og ofan á allt þetta leggja græna skatta á allt og alla. Svo liggur við að það eigi að hætta að hirða sorpið líka. Skattarnir renna svo beint í hítina sem nýtist venjulegu fólki í engu.

Þetta þarf auðvitað að stöðva sem fyrst. Það er til nóg af úrræðum til að tryggja hreint loft og ósnerta náttúru og stöðuga og hagkvæma orku án þess að taka bílinn, kjötið, rafmagnið og flugmiðana af venjulegu fólki á meðan sorpið er ósótt í fimmtán mismunandi ruslatunnum. Fyrsta skrefið er alls ekki að bíða eftir því að stjórnmálastéttin vakni. Það gerir hún seinast allra. Almenningur þarf að kvarta og mótmæla. Hann þarf að biðja um réttlætingu á því að lífskjör hans þurfi að þola eyðileggingu. Það þarf að segja rétt frá klæðaburði keisarans, sem er auðvitað nakinn.

Allt er þetta ferli sem betur fer að hefjast, hægt og rólega. Öfgafyllstu yfirlýsingar um græn orkuskipti eru byrjaðar að útvatnast aðeins. Áhuginn á baðstrandar- og kampavínsferðum einkaþotuliðsins (oft kallaðar loftslagsráðstefnur) fer þverrandi. Þolinmæðin fyrir síhækkandi orkureikningum fer minnkandi. Sprungurnar eru orðnar sjáanlegar, en þurfa að stækka áður en illa fer.

Styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur undanfarna áratugi hækkað úr um núll komma núll tvö prósent í um núll komma núll fjögur prósent. Jörðin er að grænka sem afleiðing þess, en hlýnunin er ósýnileg eins og íslenskur tölfræðiprófessor benti á um daginn. Það er enginn heimsendir í nánd, engin dómsdagsklukka að hringja og hamfarirnar að mestu fólgnar í aðför yfirvalda að verðmætasköpun og aðlögunarhæfni samfélagsins í síbreytilegum heimi.

Stoppum þetta rugl strax, takk.


Fjölmiðlar í aftursætinu

Frá því veirutímar skullu á hefur það orðið sífellt fleirum ljóst að fjölmiðlar eru bara ein möguleg aðferð til að finna upplýsingar, og mögulega léleg leið í þokkabót. Þeir þögguðu niður í rannsóknum, vísindamönnum, álitsgjöfum, greinendum og jafnvel prófessorum. Þeir tóku að sér hlutverk gjallarhornsins fyrir yfirvöld. Þeir köstuðu sér gagnrýnislaust út í hræðsluáróður og skautun á samfélaginu.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, og mætti jafnvel segja að fjölmiðlar hafi komið sér rækilega í aftursæti minni, sjálfstæðari fjölmiðla sem sumir eru varla mikið meira en einn blaðamaður, eða bara einhver gaur á samfélagsmiðlum. 

Nýlegt dæmi eru umfjallanir Nútímans um mál íslenskrar móður sem hefur brennt brýr svo árum skiptir og súpir nú seyðið af því. Í kjölfarið fóru aðrir miðlar að sýna inntaki þess máls áhuga frekar en bara slagorðunum á skiltum oftækishópa.

(Biðin eftir rækilegri rannsóknarblaðamennsku á umframdauðsföllum í kjölfar sprautu heldur áfram.)

Á Brotkast eru reglulega tekin fyrir mál og hliðar á þeim sem fá lítið pláss í öðrum miðlum. Þar slær líka hjarta málfrelsisins, án afsakana!

Fréttin.is kom eins og bjargvættur inn í íslenska umræðu þegar kæfandi þögn hinna miðlanna var orðin óbærileg og hefur haldið sínu striki alla tíð síðan.

Nýjasti gullmolinn í hópi óháðra, sjálfstæðra og hugrakkra miðla á íslenskri tungu er Snorri Másson, ritstjóri. Það var ánægjulegt að sjá að löng vist hans í Ríkisútvarpi Útvaldra Viðhorfa (RÚV) náði ekki að eyðileggja hann.

Ekki má svo gleyma Útvarpi Sögu og Mitt val og vefritinu Krossgötum.

Kannski mætti kalla alla þessa miðla afsprengi veirutíma þótt sumir séu eldri en veiran. En í flestum málum sem skipta máli  gildir í dag að það getur enginn kallað sig upplýstan um umræðuna eða mál málanna nema hafa skoðað a.m.k. einhverja þeirra reglulega. Sérstaklega mæli ég með því að fólk kynni sér það sem stundum er kallað samsæriskenningar en má oft kalla undanfara frétta á öðrum miðlum.

Fjölmiðlar höfðu lengi verið í ákveðinni tilvistarkreppu - tóku sig mjög hátíðlega, forðuðust að taka á erfiðu málunum og farnir að reiða sig á æsandi fyrirsagnir til að laða að músarsmelli. Á veirutímum ákváðu þeir svo meira og minna allir sem einn að gerast málpípur og svíkja þar með endanlega neytendur frétta. Þeir voru kannski hægt og rólega á leið í gröfina en tóku svo upp á því að grafa hana sjálfir. Gott á þá! Áfram sjálfstæð hugsun og raunveruleg blaðamennska!


Mun landsbyggðin bjarga Íslandi?

Ég á marga vini sem ólust upp á mölinni en hafa síðan á fullorðinsárum valið að flytja út á land til að stofna þar fjölskyldu. Allir bera því söguna vel, hvort sem það er vinkona á Hveragerði eða kunningi á Egilsstöðum. Það kvartar enginn yfir lífinu á landsbyggðinni þótt það sé lengra í Kringluna. Á landsbyggðinni er minni umferð, meira samfélag og jafnvel betri skólar að sögn. 

Það þarf heldur ekki að dvelja lengi á landsbyggðinni til að finna þar hið sanna íslenska hugarfar. Komi upp vandamál þá er það leyst. Minna traust er á að hið opinbera komi til bjargar. Þar eru meira að segja flugeldasýningar á sumrin. Börn stikla á steinum við ár og læki og koma í drullugum skóm úr leik í einhverjum skurði. 

Ef leið mín liggur aftur til Íslands þá hugsa ég að ég myndi vilja búa út á landi. Til vara í Mosfellsbæ. Reykjavík er auðvitað sokkið skip með ónýta innviði og skóla og svo skuldsett að það er engin von að svo mikið sem rispa höfuðstólinn. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sýna lítil ummerki um að ætla sér að ranka úr rotinu í þeim vandræðamálum sem bæði sorphirða og Borgarlína eru orðin. 

Landsbyggðin þarf auðvitað líka að hugsa sinn gang. Hún er of háð ríkisstyrkjum og hún hefur látið ríkisvaldið dæla of mörgum verkefnum í sig sem sliga alla sjóði. Sjálfstæði sveitarfélaga til að ráða sínum málum sjálf í takt við aðstæður þarf að aukast. Þannig geta sum sveitarfélög reynt að lokka til sín aldraða á meðan önnur reyna að krækja í unga fólkið sem borgar skatta í langan tíma. Lítil sveitarfélög halda áfram að vinna þvert á landamæri sín, svo sem að skólaakstri og ýmis konar félagslegri þjónustu. 

Fyrir um 15 árum fékk ég tækifæri til að vinna fjarvinnu frá Íslandi í um það bil ár. Þá hétu forritin Skype og MSN Messenger. Núna er slíkt fyrirkomulag orðið mjög útbreitt. Lífið á landsbyggðinni er ekki bara fiskur og búfé - frá Kópaskeri er hægt að vinna að stórum alþjóðlegum verkefnum eða fylgjast með heitavatnsleiðslu á Selfossi. Landsbyggðin getur boðið upp á meiri lífsgæði, hagkvæmara húsnæði og seinast en ekki síst: Íslenska hugarfarið.

Landsbyggðin - bjargvættur Íslands? Mögulega!


mbl.is Flutti á Djúpavog fyrir börnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamfarakólnun

Það gengur sífellt verr og verr að negla einhvers konar veðurfars- og loftslagsbreytingar á athafnir manna og bruna þeirra á jarðefnaeldsneyti.

Víða eru kuldamet núna að falla og snjómagnið að valda vandræðum. Á meðan fundar veruleikafirrt klíka á baðströndum og boðar hærri skatta á almenning. 

Ef ég væri fjárfestir þá myndi ég veðja á algjört hrun í öllum hlutabréfum og sjóðum sem reikna með áframhaldandi fjáraustri úr vösum skattgreiðenda í allskyns vindmylluævintýri og aðrar grænar aðgerðir. Við erum hænufeti frá því að sjá almenning spyrna við fótum og heimta að skatttekjur renni í raunverulega þjónustu, innviði og fjárfestingar. Almenningur víða er nú þegar byrjaður að mótmæla í gegnum kosningar með því að senda atkvæði til ýmissa óvinsælla stjórnmálaflokka sem á einn eða annan hátt boða jarðtengingu stjórnmálanna. Þetta er fyrsta sprungan í glerhjúpnum. Í náinni framtíð fara svo ríkisstjórnir að stíga fram og tala um breyttar áherslur: Frá hræðsluáróðri og að betri nýtingu takmarkaðra gæða, auk orkuöryggis auðvitað.

Kannski er ég óþarflega bjartsýnn hérna. Kannski tekst að halda úti þessu leikriti í mörg ár í viðbót. Kannski klofnar heimurinn í afstöðu sinni - annar heldur áfram vegferðinni til glötunar, fátæktar og orkuóöryggis á meðan hinn sækir í hagkvæma orku, auk annarra úrræða til að verja lífskjör almennings. Kannski sjálfumglöð Vesturlönd haldi áfram að grýta eigin höfn á meðan miðstéttin heldur áfram að stækka og eflast í öðrum heimshlutum. Erfitt að spá fyrir um slíkt auðvitað, en eitthvað mun gefa eftir, fyrr en síðar.

Vonum bara að það verði áður en Evrópubúar skattleggja sig til að frjósa úr kulda nú þegar loftslagið kólnar af ástæðum sem passa ekki við reiknilíkön vísindamanna sem fá borgað fyrir að komast að niðurstöðu stjórnmálanna.


mbl.is Kaldasti desember frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólahátíð

Þá eru jólin um það bil að bresta á. Pakkar þekja gólfið undir jólatrénu, önd og rjúpa eru matreidd og jakkafötin dregin fram. Jólin eru góð og um leið svo margt: Fögnuður kristinna manna, hátíð hækkandi sólar, hátíð barnanna og hátíð ljósa í skammdeginu. Jólin eru um leið uppskeruhátíð kapítalismans þar sem við leyfum okkur að taka svolítið frí og gleðja hvort annað með gjöfum. 

Jólin eru líka góður tími til að staldra við og hugleiða. Hefur árið verið gott ár? Hefur það boðið upp á góðar áskoranir og tækifæri? Er nauðsynlegt að endurskoða eitthvað fyrir næsta ár? Höfum við náð að eyða tíma með okkar nánustu eða fór öll orkan í að eltast við vinnu og heimilisrekstur? Náðum við að rækta okkur sjálf eða gengum við kannski frekar á forða heilsu og vellíðunar? 

Ég hef svo sannarlega tilefni til að hugleiða spurningar eins og þessar, en um leið kvarta ég ekki. Við erum að jafnaði okkar eigin gæfu smiðir og getum yfir lengri tíma gert þær breytingar sem færa okkur sjálf á betri stað. Ég þarf að minnka við mig vinnu og bæta við mig heimsóknum til vina og vandamanna. Ég þarf að vera duglegri að segja nei við suma og já við aðra. Litlar breytingar en nauðsynlegar.

Um leið brenn ég töluvert fyrir því að forða samfélagi okkar frá glötun í boði stjórnmálastéttarinnar og sérvitra milljarðamæringa og mun með ánægju halda áfram þeirri baráttu. 

Að lokum vil ég óska lesendum þessarar síðu gleðilegrar jólahátíðar og þakka fyrir áhugann á árinu sem leið.


Hvaða lög gilda? Hvaða lög gilda ekki?

Við erum að drukkna í lögum og reglum. Lögreglan getur ekki fylgt öllu eftir. Sum lög eru í reynd ekki í gildi því það ríkir ákveðinn sameiginlegur og óskrifaður skilningur meðal almennings og lögreglu á því að þau geri í engu samfélagið betra. 

Það mætti því segja að sum lög gildi en önnur ekki.

Að auki mætti segja að önnur lög gildi á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. 

Þetta er auðvitað ekki hollt ástand. Ef bara sum lög gilda en önnur ekki er hætta á því að virðingin fyrir lögunum í heild sinni sé í hættu. En það er enginn valkostur við þetta ástand. Þingmenn halda að með því að setja eitthvað í lög og reglur þá sé verið að leysa vandamál. Lagasetningin á þannig að lækna öll mein. Þeir gleyma því að ef framfylgja ætti öllum lögum þyrfti að margfalda stærð lögreglunnar og allskyns embættismanna og enginn hefur sérstakan áhuga á því, enda er það dýrt og kostar mannafla sem gæti þá ekki sinnt öðru.

Hvað um það. Ég rak upp stór augu þegar ég las frétt þess efnis að lögreglan sé mjög virk í því að velja hvaða lög gildi og hver ekki - jafnvel í tilviki mannræningja sem halda börnum í felum og á vergangi:

Samkvæmt heimildum Nútímans innan úr lögreglunni var mál drengjanna þriggja búið að skipta upp embættinu í tvö lið – þar voru starfsmenn sem láku upplýsingum til vina og vandamanna Eddu Bjarkar og höfðu mikla samúð með málstað hennar en svo hópur starfsmanna sem hélt leitinni linnulaust áfram en með mikilli leynd frá miðjum desember þar sem grunur um leka hafði ítrekað komið upp. Síðarnefndi hópurinn fann svo drengina í gær.

Hér er um að ræða mál þar sem forræðismaður barna leitar að þeim á meðan móðirin er búin að koma sér í fangelsi fyrir að ræna börnum og senda í felur, og lögreglan er að leka upplýsingum til lögbrjótanna!

Er þetta ekki gengið aðeins of langt hjá lögreglunni? Það er eitt að sjá í gegnum fingur sér þegar ungmenni eru að drekka landa eftir að útivistartíma ríkisins lýkur, eða að einhver ákveði að byggja skúr í garðinum hjá sér án þess að hafa eytt hálfri mannsævi í að fá teikningar samþykktar hjá sveitarfélaginu. Slík lögbrot eru smávægileg og raska ekki gangi samfélagsins. 

En þegar lögreglan er farin að aðstoða barnaræningja og gera börn föðurlaus - er það ekki alveg grafalvarlegt mál? Þarf ekki að rannsaka slíkt? Þarf ekki að reka lögreglumenn sem hegða sér svona? Og ekki bara reka þá heldur ákæra fyrir samráð við glæpamenn?

Eða viljum við virkilega að lögreglan taki að sér að ákveða með mjög djúpstæðum grundvallarhætti hvaða lög gilda og hvaða lög gilda hreinlega ekki? 


Prófsteinn á læsi

Miklu sorgarmáli er nú að ljúka með handtöku nokkurra einstaklinga og fullnustu dómsúrskurðar og sameiningar fjölskyldu. Ekkert í því máli hefur komið á óvart eftir að upprunalegir glæpir höfðu verið framkvæmdir og réttarríkið fór í gang. Hið óumflýjanlega hefur nú orðið. Við getum nú byrjað að tyggja á einhverri annarri fjölskyldu og börnum hennar.

Þetta mál hefur verið allt hið furðulegasta í meðförum fjölmiðla. Þeir hafa látið sér einhliða drottningarviðtöl duga til að afla efnis til að fjalla um. Ýmsar fullyrðingar hafa fengið stöðu sönnunargagna og staðreynda. Þetta breyttist um daginn þegar lítill miðill, Nútíminn, tók sig til og lét þýða dómsskjöl og fjallaði um undanfara þeirra. Miðillinn hefur fylgt málinu vel eftir, meðal annars með viðtali við einn aðila sem hefur í dag verið handtekinn og hreinlega laug blákalt að blaðamanni. Miðillinn segir í dag frá miklum fagnaðarfundum feðga og yngri og eldri bræðra. 

Morgunblaðið hefur aðeins reynt að bæta sig en of lítið, of seint. Sömu sögu má segja um DV

Hvað um það. Öll gögn liggja fyrir. Undanfarinn er vel skjalfestur. Dómsskjöl eru aðgengileg. Vilji barna og fullorðinna er á hreinu. Ekkert er dulið, hulið eða óljóst.

Það er því alveg ótrúlega furðulegt að lesa athugasemdir Íslendinga á samfélagsmiðlum þegar fréttir um þetta tiltekna mál eru settar þar inn. Það er greinilegt að fæstir hafa lagt á sig að kynna sér málin, lesa upplýsingar og afla sér gagna. Flestir vaða einfaldlega áfram með fullyrðingar hinna einhliða drottningarviðtala. Fullyrða fyrir hönd barna. Fullyrða um föður. Fullyrða um kerfið. Bölsóttast út í Noreg, af öllum ríkjum.

Það blasir við að Íslendingar nenna ekki að lesa. Nenna ekki að setja sig inn í mál. Neita að láta staðreyndir flækjast fyrir tilfinningarökum. Neita að mynda sér skoðun byggða á raunveruleikanum.

Í bæði þessu máli og mörgum öðrum, því miður.

Þetta afhjúpa Íslendingar einfaldlega á samfélagsmiðlum, trekk í trekk. 

Mér finnst orðið minna og minna skrýtið hvað þeir létu plata sig hressilega á veirutímum. Þeir láta plata sig á tímum þegar yfirvöldum vantar stuðning við eitthvað stríð og á tímum þegar þarf að féfletta þá aðeins meira. 

Íslendingar (og fleiri, auðvitað) falla einfaldlega í gildruna í hvert skipti og læra aldrei af reynslunni. 

Það er því með miklu stolti að ég þigg titla eins og samsæriskenningasmiður, mótþróaseggur og brjálæðingur þegar ég tjái mig opinberlega. Ekki af því ég læt aldrei plata mig - það kemur vissulega fyrir - heldur af því ég reyni að koma í veg fyrir það á meðan aðrir læmingjar hlaupa fram af björg eftir fyrsta útkall.


mbl.is Fjögur voru handtekin í gær vegna máls Eddu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er maður ársins?

Núna keppast allir fjölmiðlar við að safna atkvæðum í allskyns kjör sem maður, kona og manneskja ársins. Mögulega líka kvár ársins. Þetta er hið besta mál. Fólki finnst gaman að kjósa og finna einhverja til að halda með í keppni. Þetta er sárasaklaust allt saman. Oft kýs fólk einhvern sem ratar fyrir slysni í fréttatímana í lok ársins. Stundum einhvern sem er duglegur að auglýsa góðverk sín. Stundum raunverulega hversdagshetju. Það er allur gangur á þessu.

Það má samt láta sumar tilnefningarnar koma sér á óvart. 

Tökum tilnefningar Vísir.is sem dæmi.

Á þessum lista er einn einstaklingur í fangelsi núna og fær að dúsa þar áfram enda ekki talið óhætt að hleypa honum út vegna ítrekaðra lögbrota og brota á dómsúrskurðum. Svo er þarna annar sem er nýbúinn að tapa máli í dómssal þar sem öll vitni viðkomandi stönguðust hvert á annað og auðvelt að færa rök fyrir því að viðkomandi hafi logið blákalt í dómssal.

Á listanum eru tveir einstaklingar sem hafa unnið til samræmis við starfslýsingu sína og þá helst við að róa niður fólk sem er búið að reka á vergang.

Þarna er tónlistarmaður sem ég hef aldrei heyrt um, manneskja sem finnur týnd gæludýr og önnur sem finnur týnd hjól.

Ég veit ekki. Þetta er ansi þunnt, satt að segja. Mætti ég þá frekar biðja um að Haraldur og ramparnir komist aftur á blað. Nú eða að þeir tveir á listanum sem hafa staðið í kokinu á yfirvöldum fái einfaldlega sérstök verðlaun. 

En eins og ég segi, þetta er allt gott og blessað og frekar saklaust í eðli sínu og vonandi hefur fólk gaman að.


Í fréttum: Ekkert gos

Nú er það helst í fréttum á Íslandi að ekkert eldgos er lengur í gangi. Það getur að vísu breyst, en gæti haldist óbreytt.

Þetta finnst yfirvöldum vera ástæða til að banna fólki að snúa heim til sín, og banna því að leggja við bílastæði Bláa lónsins og labba frekar stuttan spöl að kólnandi hrauni. 

Yfirvöld loka líka vegum í nágrenni hins kólnandi hrauns.

Ákveðin tilhneiging hefur farið vaxandi í tengslum við ferðamannagosin undanfarin ár á Reykjanesi, samhliða því að enginn hefur meiðst vegna hrauns en þeim mun fleiri vegna langra og lélegra gönguleiða sem fólki er gert að nota. Sú tilhneiging er að treysta fólki sífellt minna. Um leið er áhætta þeirra sem vilja sjá gos eða kólnandi hraun aukin. Undanfarið hefur svo bæst við að gera fólk heimilislaust með stuttum fyrirvara en til lengri tíma.

Hér er ekki hægt að segja að menn séu að styðjast við vísindin því vísindamenn eru hreint ekki sammála. 

Hér er miklu fremur verið að innleiða yfirgengileg varfærnisjónarmið sem virka auðvitað öfugt. Þegar öllu er lokað og fólk skilur ekki af hverju þá reyna sumir að svindla og koma sér kannski í hættu þannig. Í stað vaktaðra göngustíga og útsýnissvæða er einfaldlega reist girðing. 

Þetta fer hreinlega að minna á veirutímana með límmiðunum á gólfinu til að sýna í hvaða átt á að labba, auk samkomubannsins auðvitað. Tímar þar sem var bannað að fara í kirkju, í klippingu eða í ræktina en í fínu lagi að troðast í áfengisverslun. Tímar þar sem var grímuskylda í flugvélum nema þegar matar og drykkjar var neytt.

Handahófskennt, tilgangslaust og íþyngjandi.

Það er sem sagt helst í fréttum að það er ekkert gos, fullt af lokunum og fólk á vergangi. Manngerðar hamfarir en ekki náttúrulegar.


mbl.is Of snemmt að lýsa yfir goslokum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir þessir upplýsingafulltrúar

Það blasir við að háskólar framleiða mikið af fólki sem ætlast til þess að geta fengið þægilega innivinnu að lokinni útskrift. Það blasir líka við að þetta er ekki raunin fyrir marga. Hvað er til ráða? Að hætta að hvetja fólk til að fara í háskóla? Að bæta aðeins við námið svo í því felist einhver verðmætaskapandi kunnátta?

Nei, auðvitað ekki.

Til ráða er að búa til fullt af störfum á vegum hins opinbera sem geta tekið við öllu þessu atvinnulausa, háskólamenntaða fólki.

Þetta er a.m.k. ein möguleg leið til að útskýra af hverju nánast hver einasta skrifstofa innan hins opinbera virðist þurfa á upplýsingafulltrúa að halda. Um leið er slíkt starf nokkuð sem þarfnast lítils rökstuðnings: Við erum með upplýsingar sem þarf að miðla, ýmist til umheimsins, eða innandyra, og vantar að sjálfsögðu upplýsingafulltrúa! Eða viltu að slíkt sé bara eitthvað aukastarf fyrir fólk sem ætti að vera sinna öðru?

Algjört getuleysi hins opinbera til að byggja og reka innviði og grunnþjónustu gerir röksemdafærsluna enn auðveldari: Við erum að fá margar fyrirspurning sem þarf að svara með upplýsingum, og vantar að sjálfsögðu upplýsingafulltrúa! Eða telur þú kannski að við eigum frekar að sinna hlutverki okkar svo allar þessar fyrirspurnir hverfi? Þá skilur þú ekki opinberan rekstur!

Í hvert skipti sem ég sé minnst á ráðningu á upplýsingafulltrúa innan hins opinbera þá sé ég tvennt krystallast á sama tíma:

  • Báknið er að klúðra málum og þarf einhvern til að fleygja undir rútuna
  • Báknið er að leita leiða til að stækka sig svo það fari nú ekki að missa af frekari fjárframlögum

Mér finnst nú líklegt að flestir hafi séð í gegnum þetta leikrit hins opinbera. En úr því svona er komið fyrir bákninu er kannski við hæfi að biðja það um fleiri upplýsingar. Nóg er af teppum til að kíkja undir og finna þar skít upplýsingaóreiðu. Geta upplýsingafulltrúarnir hjálpað okkur?


mbl.is Orkustofnun fær ráðgjöf við samskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband