Fimmtudagur, 20. febrúar 2025
Átök eru eitt, átök eru annað
Um daginn vogaði íslenskur fjölmiðill sér að birta viðtal við íslenskan mann (með háskólagráðu og prófessoratign, ótrúlegt en satt) sem sagði að átök Rússlands og Úkraínu hafi ekki hafist með innreið rússneskra hermanna inn fyrir landamæri Úkraínu, heldur fyrr!
Hann bendir á að Trump sé væntanlega að vísa til átaka sem voru í Úkraínu áður en innrás Rússa hófst í febrúar 2022. Þessi átök snérust meðal annars um jafnan rétt rússneskumælandi borgara í Austur-Úkraínu á tungumáli sínu og réttinn til að rækta sína menningu rétt eins og aðrir borgarar Úkraínu, sem hafa úkraínsku að móðurmáli. Mín skoðun hefur alltaf verið sú að vinir Úkraínu í Evrópu og Bandaríkjunum hefðu átt að hjálpa stjórnvöldum í Kiev að skilja þetta til að lægja öldurnar. Eftir að innrás Rússlands hófst í febrúar 2022 var Úkraínumönnum sagt af vestrænum leiðtogum að sigra Rússland á vígvellinum og við sjáum nú afleiðingarnar, sem Trump er að vísa til og hann gagnrýnir nú harðlega.
Hér er ekki verið að réttlæta innreið rússneskra hermanna inn fyrir landamæri Úkraínu. Hérna er ekki verið að réttlæta sprengjuregn Rússa á innviði og óbreytta borgara í Úkraínu. Hérna er ekki verið að segja að sökin sé öll á Úkraínu og að Rússar séu saklausir baráttumenn fyrir réttindum og frelsi og annað gott.
Nei, hérna er einfaldlega verið að benda á að innreið rússneskra hermanna inn fyrir landamæri Úkraínu hafi haft talsverðan og veigamikinn undanfara.
Ég er ekki að ætlast til mikils af stjórnmálaskýrendum. Alls ekki. Það er bara uppspretta vonbrigða. En þegar rússneskir hermenn árið 2022 gengu yfir landamæri Úkraínu þá var það ekki af því bara, og til að rússnesk yfirvöld gætu borað göt á fjárhag ríkisins til að sjá alla peningana fossa út. Nei, það voru ástæður og undanfarar sem rekja rætur sínar næstum því 10 ár aftur í tímann.
Ég lýsi ekki yfir stuðningi mínu við neinn aðila í átökum Úkraínu og Rússlands. Ég veit að innrás Rússa var viðbragð við einhverju sem var viðbragð við einhverju öðru sem var viðbragð við einhverju öðru, og viðbrögð í báðar áttir. Á einhverjum tímapunkti komu evrópsk ríki að til að stilla til friðar, og á öðrum til að vopna annan aðilann.
En ég veit að hörmungarnar í Úkraínu, sem eiga sér stað í dag, eru ekki án undanfara.
Þetta sagði loksins einhver á íslensku við íslenskan fjölmiðil sem ákvað að birta slík orð. Það er kannski góð byrjun. Byrjun á ferlinu að friði, eða hvað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 19. febrúar 2025
Lög og framkvæmd
No Eastern European and Middle Eastern Immigrants, stóð skýrum stöfum í starfsauglýsingu sem menn nenna að mynda sér skoðun á. Á það er bent í frétt á að ekki megi mismuna eftir þjóðerni eða öðru slíku og óhætt að segja að starfsauglýsingin geri einmitt það. Um leið má benda á að þannig minnkar atvinnurekandinn úrvalið sem úr er að velja og þarf sennilega að borga meira fyrir vikið vegna minni samkeppni, en önnur saga.
Annars er það oft svo að lög eru eitt og framkvæmd annað. Þannig enda yfir 90% skilnaðarbarna inni á heimili móður sinnar og missa jafnvel samband við föður sinn gegn vilja barns og föður - ólöglegt en framkvæmt á þennan hátt af yfirvöldum.
Menn geta líka mismunað án þess að segja frá því - auglýsa eftir umsóknum og finna svo einhvern galla á öllum umsóknum þeirra sem ekki er sóst eftir að ráða. Góð leið til að sóa tíma allra.
Nú vinn ég sjálfur með fólki af öllum stærðum og gerðum og get sagt fyrir mitt leyti að mér finnst allir Austur-Evrópubúar sem ég hef unnið með vera meðal duglegasta, afkastamesta og klárasta fólki sem um getur. Ef eitthvað þá sækist ég í vinnu þessa fólks, bæði hérna á skrifstofunni en líka í hagnýt verkefni, svo sem flutningshjálp og iðnaðarmannavinnu. Í mínum heimi er glapræði að útiloka fyrirfram fólk frá Austur-Evrópu - fjárhagslega heimskulegt.
En ég er ekki forstjóri fiskvinnslu og veit ekki hvaða óheppilegu atvik liggja að baki útilokun (ef einhver), og í raun alveg sama. Aðrir atvinnurekendur njóta bara góðs af því.
Ég hef líka unnið með mikið af fólki frá Miðausturlöndum og hef ekkert nema gott um það að segja. Þar er líka að finna hæfileika sem ég tel að séu verðmætaskapandi og væri kjánalegt að útiloka frá úrvalinu fyrirfram.
En aftur: Ég er ekki forstjóri fiskvinnslu.
Kannski er gott að vita að flest fólk sem hrópar hátt telur sig vera laust við alla fordóma, taki við öllu og öllum opnum örmum, sjái ekkert nema það góða í öllu fólki, alhæfi aldrei um hópa byggt á nokkrum skemmdum eplum og hafi lært það á lífsleiðinni að ekkert annað sé í boði en að vega og meta allt og alla á sama mælikvarða sanngirni og réttlætis. Ranghugmyndirnar finnast þá þar líka, eins og hjá öllum öðrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 17. febrúar 2025
Gott að hafa góða tollverði þegar yfirvöld framleiða glæpafaraldur
Það er einfaldlega mikilvægt fyrir samfélagið að tollverðir og lögregla standi vaktina á landamærum, ekki síst þegar litið er til þróunar mála á vettvangi skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka, mansals og ólöglegra innflytjenda, segir Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Aðeins fyrr í viðtalinu segir sami maður: Þar nefni ég til dæmis leit í pósti sem berst til landsins. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli er með besta árangur á Norðurlöndunum og nú er ég ekki að tala um miðað við höfðatölu eins og alltaf er gert, heldur hreinlega í magni haldlagðra fíkniefna.
Já, svo sannarlega er mikilvægt að gott fólk vakti landamærin og smygl og mansal og annað slíkt. Ísland er með íbúafjölda á við Árósa í Danmörku og tekst samt að sjúga sig sín meira af smygli en öll önnur Norðurlönd, án þess að leiðrétta fyrir höfðatölu.
En datt einhverjum í hug að velta fyrir sér ástæðunum fyrir þessu flæði af allskonar efnum og þrælum til Íslands?
Í boði hvers er það?
Ekki kemur fram að Íslendingar stöðvi stærra hlutfall smyglsins en önnur Norðurlönd, og er sennilega svipað og í öðrum ríkjum nema verðlag á efnum og þrælum sé hærra en í öðrum Norðurlöndum (ákveðið tap í smygli er reiknað inn í verðið af smyglurum og það skilar sér svo í verðlagið).
Er kannski er klapp á axlir íslenskra tollvarða - vafalaust verðskuldað þótt mín persónulega reynsla af þeim sé frekar vafasöm - í raun áfellisdómur fyrir íslensk yfirvöld, þeirra innflytjendastefnu og þeirra löggjafar í efnainnflutningi.
Ég þekki ekki svarið, en ekki hef ég séð tilraun til að útvega það.
Blaðamennska óskast.
![]() |
Grannþjóðir undrast árangurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. febrúar 2025
Vel á minnst, drengirnir voru af erlendu bergi brotnir
Í frétt sem maður vonaði að væri frá útlöndum en ekki Smáralind í Kópavogi segir að sex drengir hafi rænt þann sjöunda og hirt úlpu og rándýr heyrnatól. Vinur þolandans hafi náð að hlaupa í burtu og hringja á lögregluna. Ekki kemur fram hvort öryggisverðir í verslunarmiðstöðinni hafi komið að gagni en svo virðist ekki vera.
Í blálokin segir í frétt mbl að gerendur séu af erlendu bergi brotnir. Í endurbirtingu á Vísi er sú setning þurrkuð út á meðan orðalagið er að öðru leyti keimlíkt. Aðrir miðlar virðast ekki sýna þessu máli áhuga, a.m.k. ekki enn sem komið er.
Hér er auðvitað öllu snúið á haus. Uppruni ræningjanna er afskaplega mikilvægur, jafnvel mikilvægari en aldur þolanda og ránsfengurinn. Íslendingar eru að flytja inn siði og háttarlag sem íbúar á meginlandi Evrópu og Skandinavíu hafa flutt inn áratugum saman og kjósendur eru loksins byrjaðir að refsa fyrir.
Auðvitað ræna Íslendingar líka, en rán af þessu tagi hefur ekki bara þann tilgang að komast yfir eigur annarra heldur að auki að niðurlægja. Rán um hábjartan dag, á svæði þar sem eru öryggisverðir og sægur vitna, er hin stóra niðurlæging á fórnarlambinu. Niðurlægingarrán, sem á sænsku kallast förnedringsrån en Danir kalla ydmygelseskriminalitet og tengja við innflytjendur frá eða með rætur til Arabaríkja.
Úlpan hefur sennilega endað í ruslinu, jafnvel með heyrnatólunum sem ræningjar vissu ekki af á meðan á ráninu stóð.
Þetta er kjarni málsins og hið fréttnæma en ekki eitthvað aukaatriði sem blaðamaður getur valið að nefna eða sleppa því. Niðurlægingarglæpir eru hluti af glæpaumhverfi ákveðinna borga og borgarhluta þar sem er búið að skipta út innfæddum í stórum stíl fyrir fólk af arabískum uppruna, og hafa nú skotið rótum í íslensku samfélagi, í verslunarmiðstöðvum og skólum, í strætisvögnum Reykjanesbæjar og sennilega mun víðar.
Viðbragðið hingað til hefur verið að láta eins og ekkert sé en ætti í raun að kalla á fleiri öryggisverði, aðgerðaáætlanir yfirvalda og stjórnenda og auðvitað lögreglu sem þarf að vinna markvisst og með réttar upplýsingar til að gera eitthvað gagn. Kannski eitt símtal til danskra yfirvalda gæti verið góð byrjun?
![]() |
Hópur drengja rændi 15 ára pilt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 15. febrúar 2025
Hvernig verða fréttir fjögurra ára gamlar?
Ég skil að sumu leyti hik blaðamanna þegar kemur að því að fjalla um alvarleg mál. Þeir vilja ekki láta kalla sig samsæriskenningasmiði, falsfréttamenn og boðbera rangupplýsinga eða hvað það nú heitir. Þeir vilja ekki velta við steinum yfirvalda sem eru jú lýðræðislega kjörin og stunda gagnsæ og heiðarleg vinnubrögð. Hið sama gildir um aðra blaðamenn og opinberar stofnanir - ekkert að sjá þar og hægt að treysta yfirlýsingum þeirra.
Nema hvað. Svona virkar raunveruleikinn ekki.
Yfirvöld stunda leynileg samsæri og gera allskonar samninga fyrir hönd almennings sem almenningur fær enga vitneskju um. Opinberir starfsmenn ljúga og reyna að koma höggi á saklausa borgara. Sumir blaðamenn fyrirlíta ákveðna einstaklinga og fyrirtæki þeirra og gera að þeim atlögu. Ef aðhaldið hverfur, svo ekki sé minnst á áhuga yfirvalda og ákæruvalds, þá freistast sumt fólk hvar sem er til að ganga lengra og lengra og valda sífellt alvarlegri skemmdarverkum.
Þegar þetta er sagt er áhugavert að Morgunblaðið hafi nú loks sýnt áhuga á byrlun Páls Steingrímssonar, sem virðist hafa verið liður í atlögu blaðamanna og opinberrar stofnunar að sjálfstæðu fyrirtæki og stjórnendum þess. Lesendur Páls Vilhjálmssonar, fyrrum blaðamanns, og Fréttarinnar og Útvarps Sögu, og að einhverju leyti áskrifendur Brotkast.is, hafa fylgst með þessu byrlunarmáli svo mánuðum og misserum skiptir og væntanlega flestir hrist hausinn ítrekað yfir því að helstu leikarar í því sjónarspili séu enn þann dag í dag í góðum störfum og geta labbað um göturnar eins og heiðvirðir borgarar.
Kannski hefur Morgunblaðið núna ákveðið að nýta krafta sína sem stærri fjölmiðill til að bora djúpt í þetta mál og moka öllum beinagrindunum úr skápnum, og með sínar ástæður til að gera það. Kannski missir blaðið áhugann. Þetta kemur í ljós. En málið er ekkert einsdæmi. Óteljandi önnur mál, sem stærri fjölmiðlar hafa engan áhuga á en þeir minni hafa fjallað mikið um, bíða álíka athygli. Dettur mér í hug veirusprauturnar og fórnarlömb þeirra sem augljóst mál sem þarf að borga dýpra í, en alls ekki það eina.
Kannski er stóri lærdómurinn hér að varfærni blaðamanna, og hollusta þeirra við yfirvaldið, sé vandamál sem óháðir og oft minni fjölmiðlar leysa, og að við ættum því að endurskoða það alvarlega hvar við sækjum fréttirnar okkar. Þá þurfum við kannski ekki að láta okkur nægja fjögurra ára gamlar fréttir.
![]() |
Játaði byrlun og aðkomu fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. febrúar 2025
Ekki hægri-vinstri, heldur þá og nú
Um daginn hlustaði ég á áhugaverða stjórnmálaskýringu í bandarísku samhengi. Þar var vitaskuld rætt um Trump, trans-iðnaðinn, loftslagshræðsluna og fleira slíkt, auk skerðinga á málfrelsi og flótta stofnanablaðamanna frá sannindum sem velta nú upp á yfirborðið. Skýrandinn velti því fyrir sér hvort villta vinstrið myndi ekki bara snúa aftur til fyrri tíma ef völd skipta um hendur þar á bæ, en hann hélt ekki.
Af hverju ekki?
Því nú þegar lygarnar afhjúpast hver af annarri, svo sem í kringum USAID (ekkert að sjá hér) en líka allskyns ritskoðun sem er verið að vinda ofan af, þá rís almenningur loks upp og segir: Hingað og ekki lengra! Ég þaggaði niður í sjálfum mér í mörg ár, en ekki lengur! Ég lét blekkja mig, en ekki aftur! Ég lét féfletta mig, en það stoppar núna!
Þetta séu ekki átök hægri og vinstri heldur er heimurinn einfaldlega að hefja nýja vegferð og þú ert annað hvort með og tekur breyttum tímum fagnandi, eða þurrkast út eins og margir fjölmiðlar eru að gera um þessar mundir - þá aðallega þeir sem klöppuðu fyrir yfirvöldum á veirutímum.
Þetta snúist heldur ekki um Trump. Hann sest í helgan stein eftir fjögur ár og er bara nýjasta dæmið um róttæka stefnubreytingu kjósenda og ekki einu sinni það róttækasta. Nei, þetta er fjöldahreyfing almennings sem verður ekki tröðkuð svo auðveldlega í svaðið. Hún er jafnvel alþjóðleg.
Á þessu nýja sviði eru bæði hægri- og vinstriflokkar en þeir eru sammála um að snúa aftur til heilbrigðrar skynsemi, eða að því marki sem stjórnmálamenn geta það.
Ekki hægri á móti vinstri heldur skynsemi, rökhugsun og vísindi á móti heilaþvotti, lygum og Vísindunum (með ákveðnum greini).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Miðvikudagur, 12. febrúar 2025
Ráfað um án mælikvarða
Í sérhverri starfsemi er stuðst við mælikvarða. Fyrirtæki reyna að skila hagnaði, heimili reyna að eiga afgang þegar allir reikningar hafa verið greiddir. Verslanir reyna að fjölga viðskiptavinum og opinberar stofnanir reyna að vera röngu megin við núllið í lok fjárlagaársins til að missa ekki af fé við næstu úthlutun.
Mælikvarðar, mælingar, gagnasöfnun og eftirfylgni þegar tölurnar þróast í ranga átt.
Með því móti þarf ekki að treysta á stöðupróf frá útlöndum til að sjá að allt er komið í kalda kol.
Nema í grunnskólum Reykjavíkur auðvitað.
Þar þykir of dýrt og tilgangslaust að prenta út nokkur skrifleg próf til að meta stöðu menntunar. Fyrirtæki sem væri svona rekið væri komið á hausinn ansi fljótt eftir að hafa eytt um efni fram í yfirbyggingu og stjórnendastöður í stað viðskiptaþróunar og aðlögunar á úrvali vöru og þjónustu að síbreytilegum markaði.
Sonur minn er í gagnfræðiskóla í Kaupmannahöfn. Hann var í stöðuprófi í nokkrum fögum um daginn. Í kjölfarið fer fram mat á því hvar hann er sterkur og hvar þarf að bæta aðeins í. Í lok næsta vetrar, eftir nokkur stöðupróf í viðbót, er úr því skorið hvort hann sé tilbúinn í framhaldsskóla eða þurfi að endurtaka eitthvað á grunnskólastigi. Allt er þetta tekið mjög alvarlega og byggt á ítrekuðum mælingum. Í þessu er engin nýlunda því svona man ég líka eftir mínum grunnskólaárum í Árbæjarskóla þar sem voru tvö próftímabil á ári og meira að segja hægt að velja hægfærð, miðferð og hraðferð í helstu fögum eftir því hvað maður sjálfur taldi við hæfi. Þetta endaði svo á samræmdum prófum sem var mikil stemming í kringum og framhaldsskólar gátu svo nýtt sér einkunnir til að vega og meta hvaða nemendur voru taldir líklegir til að komast í gegnum námsefni þeirra (nema í tilviki þeirra sem gátu kallað þann framhaldsskóla hverfisskóla sinn, en þeir voru flestir dottnir út eftir fyrsta árið og var sennilega ekki gerður neinn greiði með þeim vonbrigðum og sóun á tíma).
Einfalt, gegnsætt, vel prófað, skilvirkt og - vil ég leyfa mér að fullyrða - hagkvæmt. Gott ef gervigreindin geti ekki séð um megnið af yfirferðinni í dag!
En í Reykjavík verður matsferillinn, nýtt samræmt námsmat, prufukeyrður í 26 skólum - einhvers konar hringrás með gátlistum sem ofkeyrðir kennarar eiga nú að bæta á sig ofan á allt annað, gegn því að fá óbreytt laun en kannski aðeins lengri vinnutíma.
Góður maður sagði mér einu sinni frá X-grafinu svokallaða sem sýndi annars vegar einkunnir á stígandi uppleið en námsárangur samkvæmt PISA-prófum á sígandi niðurleið. Það segir ýmislegt um þá blindu vegferð sem grunnskólakerfið hefur verið sett á: Eyðsla upp, laun niður. Einkunnir upp, námsárangur niður. Kennsla aukin, menntun minnkar. Námsskrá lengd, nám minnkað. Samræmd próf tekin út, samræmd rýrnun á grunnskólagöngunni innleidd.
![]() |
Dýr og flókin framkvæmd með lítinn tilgang |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 11. febrúar 2025
Eru það Trump-áhrifin, eða Trump sem afleiðingin?
Mikið er talað um Trump-áhrifin: Það að Trump sé núna að taka á hallarekstri ríkis og skuldsetningu skattgreiðenda, ná stjórn á landamærum, stöðva eiturlyfjasmygl, endurheimta búningsherbergi kvenna, stíga á loftslagshræðsluna ef hún þýðir hærra orkuverð fyrir almenning, veifa tollahamrinum og vona að allir hlýði, og svona mætti lengi telja.
En er Trump ekki miklu frekar afleiðing frekar en drifkraftur? Var hann ekki kosinn af því fólk var orðið þreytt á þvælunni frekar en að vera einhver sem kallaði loksins að keisarinn væri nakinn?
Afurð kjósenda, frekar en frumkvöðull?
Forstjóri sem var ráðinn af starfsmönnum til að leysa ákveðin vandamál frekar en forstjóri sem var ráðinn til að finna upp á einhverjum lausnum?
Ekki töluðu menn um Trump-áhrifin í Hollandi þegar kjósendur þar snéru öllum valdablokkum á hvolf. Eða í Ítalíu, Bretlandi og víðar í Evrópu. Eða þegar kjósendur verðlaunuðu gömlu góðu jafnaðarmannaflokkana á Norðurlöndunum þegar þeir vildu stíga á bremsuna í innflytjendamálum.
Menn tala stundum eins og að það séu stjórnmálamenn frekar en kjósendur sem ráða ferðinni. Það er kannski rétt í sumum tilvikum - þegar almenningur er svo innilokaður í rétthugsun og ást á eigin siðfræði að það þarf sterka leiðtoga til að stíga fram og skora þá á hólm - en almennt held ég að kjósendur séu nokkurn veginn við stjórnvölinn. Þeir geta ráðið örlögum sínum. Í Reykjavík velja þeir að lifa á lánum og borga fyrir það vexti, en í Argentínu velja þeir að herða beltið í eitt ár eða tvö til að losna við slíkt. Í Kanada velja þeir að láta taka af sér málfrelsið, í Bandaríkjunum velja þeir að endurheimta það.
Ég veit að á Íslandi, þar sem yfir 90% fólks vill alltaf eins vinstrisinnaðan forseta Bandaríkjanna og hægt er, óháð því hver er í framboði, er mikil óánægja með Trump. En kannski er Trump bara afurð frekar en fyrirbæri í sjálfu sér. Afurð sem kjósendur bjuggu til svo leysa mætti vandamál sem plöguðu þá sífellt meira. Nokkuð sem er erfitt fyrir þegna annarra ríkja að setja sig inn í.
Það held ég. Trump-áhrif? Nei. Trump til að leysa vandamál kjósenda, að beiðni þeirra? Já.
Mánudagur, 10. febrúar 2025
Nýja gaseldavélin
Alltaf þegar ég held að hið opinbera geti ekki lengur komið mér á óvart með botnlausri sóun á almannafé þá afsannar það þá hugsun.
Núna er okkur sagt frá því að endurbætur á íbúðarhúsi forseta Íslands kostuðu rúmar 120 milljónir. Í upphaflegri kostnaðaráætlun var gert ráð fyrir 86 milljónum.
Ekki kemur fram hvort krossinn hafi fengið að snúa aftur á kirkju Bessastaða, en látum það eiga sig í bili.
Hluti kostnaðarins fólst í því að breyta barnaherbergjum í herbergi fyrir uppkomin börn milljónamærings sem virðast ekki geta flutt að heiman. Látum það líka eiga sig.
Rúmar 12 milljónir fóru í lýsingar, gardínur og rafmagnsvinnu. Magnað.
Ný gaseldavél var keypt fyrir tæpa hálfa milljón króna og ísskápur og frystir kostuðu um 780 þúsund. Dýrasta gaseldavélin hjá Heimilistækjum kostar 350 þúsund krónur og dýrasti ísskápurinn kostar 600 þúsund krónur, svo menn hafa leitað lengra eftir tækjum sem voru nógu góð fyrir forsetann, forsetamakann og uppkomnu börnin. Með öðrum orðum: Bara allradýrustu tækin eru nógu góð fyrir forseta Íslands, sem hefur það að aðalstarfi að skrifa langar en innihaldsrýrar ræður og klippa á borða.
Ég veit að allir vita að hið opinbera fer alltaf vel fram úr öllum kostnaðaráætlunum svo nemur tugum prósenta. En að uppfæra heimili ætti nú að vera létt verk að áætla og jafnvel standa við þá áætlun, jafnvel þótt lagnavinna reynist erfið. Ef það er ekki hægt að skipta um lagnir og rafmagn og endurnýja nokkur heimilistæki, húsgögn og gardínur án þess að fara 40% yfir kostnaðaráætlun, sem var vægast sagt rífleg til að byrja með, þá hefur hið opinbera í eitt skipti fyrir öll sýnt og sannað að því er skítsama um nýtingu á launafé þínu.
Og þér jafnvel líka, en það kemur í ljós.
![]() |
Framkvæmdir á Bessastöðum kostuðu um 120 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. febrúar 2025
Kannski best að gera ekkert
Borgarstjórnarmeirihlutinn er sprunginn og mikið er rætt um að mynda nýjan meirihluta sem fyrst. Ekki gangi að borgin sé án borgarstjórnar.
Eða hvað?
Halda skattgreiðslur ekki áfram að berast og starfsmenn borgarinnar að fá laun? Halda tannhjólin ekki áfram að snúast?
Það er a.m.k. reynsla Belga sem voru án ríkisstjórnar í nálægt því 600 daga fyrir ekki mörgum árum síðan. Ekki var blásið í ný gæluverkefni á þeim tíma og mig minnir að ég hafi lesið grein um að ástand efnahagsins hafi hreinlega batnað á þessu tímabili.
Kannski myndun nýs meirihluta sé óþarfi. Það blasir við að afstaða kjósenda í borginni til flokkanna í ráðhúsinu hefur gjörbreyst á þremur árum. Borgarfulltrúar eru vissulega í umboði kjósenda en þessir kjósendur hafa skipt um skoðun.
Kannski menn geti hreinlega róað sig. Að vísu vofir stanslaust greiðsluþrot yfir borginni sem þarf í sífellu að skvetta nýjum lántökum á, á yfirdráttavaxtakjörum, en það getur þá bara haldið aðeins áfram. Það er ekki eins og ný borgarstjórn sé að fara gera nokkuð af viti til að laga það ástand á einu ári.
Þetta er a.m.k. hugmynd á borðinu: Að mynda ekki nýjan borgarstjórnarmeirihluta sem hvort eð er afspeglar ekki afstöðu kjósenda enda þeir tilbúnir að breyta atkvæðum sínum í stórum stíl við næsta tækifæri.
![]() |
Skoða meirihlutasamstarf með öðrum flokkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |