Laugardagur, 3. maí 2025
Frétt eða frásögn?
Að blaðamenn taki sér sterka afstöðu og boði hana í gegnum fréttaflutning sem er sagður vera hlutlaus er ekkert nýtt. Þeir eru yfirgnæfandi til vinstri í stjórnmálum. Þetta hafa kannanir sýnt fram á ítrekað. Köllum þetta bara staðreynd.
Það er því ekki furðulegt að þegar hægrimenn eru við völd að þá er aðhaldið úr öllum áttum. Hver einasta setning er krufin og greind og minnstu túlkunaratriði alltaf látin halla í ákveðna átt. Kannski bara hið besta mál, svo því sé haldið til haga.
En um leið er ekki furðulegt að þegar vinstrimenn eru við völd að þá er aðhaldið svo gott sem ekkert. Auðvitað eru einn eða tveir fjölmiðlar á tánum eins og sést í dag hjá Viðskiptablaðinu og Morgunblaðinu, en hinir steinþegja yfir jafnvel allra stækustu þvælunni.
Og þannig er það bara. Við vitum það, búumst við því og ættum að geta bent á áróðurinn þegar hann er boðaður með ákveðnu vali á viðmælendum, vali á því sem er fjallað um og hvað ekki, hvaða stóra mál fær litla fyrirsögn og hvaða litla mál fær stóra fyrirsögn.
Ég rakst á nýlegt dæmi um frétt sem er sögð á mismunandi hátt, allt eftir því hvaða blaðamaður heldur á pennanum. Samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum þá bættust 177 þúsund störf við bandaríska atvinnumarkaðinn í apríl, og yfirgnæfandi í einkageiranum. Eru þetta góðar fréttir eða vonbrigði fyrir yfirvöld? Vísbending um jákvæða þróun eða neikvæða?
Jákvæða, segir Hvíta húsið, enda mun hærri tala en greinendur höfðu búist við (rúmlega 130 þúsund störf).
Neikvæða, segja blaðamenn, því mánuðinn á undan sköpuðust mun fleiri störf og vöxturinn því að hægja á sér. Vöxturinn var bara rétt yfir spám.
Það mætti kannski segja að bæði sé rétt og að með því að lesa tvær túlkanir á sömu tölfræði megi fá einhvers konar heildarmynd. Því miður hafa blaðamenn samt sjaldan áhuga á slíku. Þeir eru ýmist í stjórnarandstöðu eða hlutverki illa launaðra blaðamannafulltrúa valdhafa. Einhver teikn eru á lofti að þetta gæti verið að breytast, meðal annars vegna mikillar vinnu óháðra blaðamanna og hlaðvarpsstjórnenda sem stóru miðlarnir neyðast til að fylgjast með og taka mark á, en höldum ekki í okkur andanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. maí 2025
Skattar eru innanlandstollar
Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig Donald Trump laðar fram það besta í fólki. Nú hefur honum tekist að galdra fram einarða andstöðu við tolla hjá andstæðingum sínum, sem margir hverjir hafa hingað til ekki lagst mikið gegn því að ríkið geri upptækan hluta af sjálfsaflafé fólks og fyrirtækja.
Svona er skemmtilega komist að orði í aðsendum pistli á Viðskiptablaðinu og má svo sannarlega taka undir.
Það þarf ekki að vera aðdáandi Trumps eða taka undir það sem hann segir til að sjá að ef hann gerir eitthvað eða segir þá telja flestir andstæðuna vera hið rétta.
Hann gæti kallað himininn bláan og langar greinar birtast um að himininn sé í raun grænn eða litlaus.
Þetta eru ekki að mínu mati nein Trump-áhrif. Trump er bara einn stjórnmálamaður af mörgum sem kemur og fer. Þetta er miklu frekar dæmi um áhrifagirni okkar. Okkur er sagt hverjir eru vitleysingar og hverjir ekki, hverjum má og hreinlega á að trúa á og hverjum ekki, og svo tekur við að rekja orð vondu kallanna og taka sér andstæða afstöðu.
Frekar en að reyna finna sannleikskornið eða mótrökin.
Við treystum kjörnum fulltrúum og blaðamönnum fyrir því að sía svona úr upplýsingastreyminu endalausa og endum oftar en ekki á að sprauta eða skattleggja okkur til dauða, eða fjármagna sprengjuregn á saklaust fólk.
Kannski er hægt að gera betur en þetta, kannski ekki.
Eftir stendur að heimurinn lítur núna illum augum á tolla, og það er alveg ljómandi gott. Aukist sá skilningur til að ná yfir skatta líka - enn betra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 1. maí 2025
Hvað eiga milljónamæringar að gera við hlutabréfin sín?
Óvissa er ekki góð. Hún getur verið taugatrekkjandi. Hún hefur áhrif á hegðun og getur leitt til slæmra ákvarðana. Hún getur jafnvel leitt til átaka.
En stundum er hún nauðsynleg. Krabbameinssjúklingurinn þarf að takast á við hana áður en hann samþykkir meðferð sem er í sumum tilvikum banvænni en sjúkdómurinn. Ökumaðurinn þarf að halda út í óvissu þegar hálka leggst á vegina og lögreglan búin að skipa öllum að skipta yfir á sumardekk. Óvissa er alltaf og á öllum stundum einhver hluti af daglegu lífi.
Svo er það þetta með óvissu á hlutabréfamörkuðunum þar sem lífeyrissparnaður margra flækist á milli hlutabréfa í leit að ávöxtun. Óvissa dregur úr fyrirsjáanleika í óvissum heimi. Svo má auðvitað hafa samúð með milljónamæringunum sem reyna á hverjum degi að kaupa og selja til að auka verðmæti eignasafns síns. Hvað á að segja við þá til að hugga þá þegar óvissa leggst yfir hlutabréfamarkaðina? Að alþjóðaviðskipti séu í hættu? Að þeir eigi að búa sig undir gjaldþrot? Að almenningur þurfi að búa sig undir skort?
Það er oft við hæfi að taka eitt skref afturábak og kíkja aðeins á heildarmyndina.
Eru hlutabréfamarkaðir á leið í ræsið?
Kíkjum á Nasdaq og Dow Jones í Bandaríkjunum þar sem óvissan er hvað mest samkvæmt fjölmiðlum:
Nei, greinilega ekki.
Hvað með loftslagið? Er það ekki að gjörbreytast? Nei. Það er auðvitað alltaf að breytast en ekki á neinn hátt sem er ekki hægt að takast á við.
Hvað með stríðsátök? Fer þeim ekki fjölgandi? Nei, því þrátt fyrir fjölgun í fréttunum þá er söguleg lægð í gangi enn. Það er raunar einhvers konar kraftaverk miðað við hvað margar tilraunir eru gerðar til að hefja átök.
Hvað með farsóttir? Hvað með lýðræðið? Er ekki að komast á ný heimsskipan? Kannski, en áfram heldur lífið.
Auðvitað er margt raunverulega slæmt í gangi sem þarf að stöðva: Óheft innflytjendaflæði, atlaga að hagkvæmri orku, sífellt meiri skattheimta í skiptum fyrir sífellt minni innviði, valdatilfærsla frá kjósendum til embættismanna, afnám einkavæða kvenna og sífellt veikara málfrelsi. En þetta eru ekki vandamálin sem okkur er sagt að takast á við. Við erum hrædd með ímynduðum skrímslum sem eiga að leynast undir hverju rúmi en eru svo ekki þar þegar að er gáð.
Ég skil alveg áhyggjur margra af hlutabréfasöfnum milljónamæringa sem hafa fjárfest í vindmyllum og bóluefnum. Ekki viljum við að þau komist í uppnám! En að taka skref afturábak og kíkja á þróunina einhverja mánuði og jafnvel ár og áratugi aftur í tímann getur verið róandi aðgerð sem ég mæli með.
![]() |
Alþjóðaviðskipti í hættu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. apríl 2025
Ekki hafa áhyggjur af hópnauðgunum á stúlkum
Fólk eigi ekki að breyta sínu daglega lífi vegna frásagna af hópnauðgun, segir í fyrirsögn á Visir.is.
Ekki það nei?
Okkur er sagt að hata hina og þessa sem eru engin ógn við Íslendinga. Okkur er sagt að óttast veðrið og loftslagið. Okkur er sagt frá allskonar ógnum sem flæma okkur frá hagkvæmum lausnum í daglegu lífi.
En að það sé að fæðast hópnauðganamenning á Íslandi, í boði yfirvalda? Slakaðu á, samsæriskenningasmiðurinn þinn! Leigubílstjórinn sem býðst til að keyra dóttur þína heim er ekki að fara skilja hana eftir í bílskúr í Kópavogi í sundurtættri nærbrók!
Ég legg til að óttast það sem þarf að óttast og ekki annað en heldur ekki minna en það.
Hópnauðgunarmenningin er komin til Íslands og það kallar á breytingar.
Sunnudagur, 27. apríl 2025
Hópnauðganafaraldurinn evrópski
Svo virðist sem hópnauðganafaraldurinn evrópski hafi náð til Íslands. Hann kom með fjöldainnflutningi á fólki sem hefur verið kennt frá blautu barnsbeini að konur eru verðlausar skepnur í eigu karlmanna. Þetta er afbrigði af heimsmynd múslíma en þó fjarri því allra múslíma svo það sé nefnt og virðist bundin við ákveðin múslímaríki umfram önnur. Kannski heimsmynd sambærileg við heimsmynd sumra kristinna manna á miðöldum þegar þeir lögðu undir sig fólk sem aðhylltist önnur trúarbrögð og fóru með eins og skepnur.
Kristnir menn lærðu með tíð og tíma þann boðskap Jesú Krists að öll erum við manneskjur sem eiga allar að njóta sömu mannréttinda en sú hugsun hefur alls ekki náð inn í alla menningarheima og raunar fjarri því. Hérna rekast því á tvær heimsmyndir: Sú sem fordæmir hópnauðganir á konum, og sú sem fordæmir þær ekki.
Það er erfitt að halda því fram að þegar Íslendingar ákváðu að endurtaka mistök annarra Evrópuríkja í innflytjendamálum að þá mætti búast við annarri niðurstöðu. Ef þú borðar eitrið þá verður þú lasinn og þaðan af verra. Íslendingar völdu samt að trúa einhverju öðru. Sennilega eru einhverjir Íslendingar nú þegar byrjaðir að aðlagast eins og Danir þegar þeir biðja um H.C. Andersen leigubíl til að vera viss um að fá innfæddan Dana á bak við stýrið. Hvað segja menn á Íslandi til að tryggja sér íslenskan bílstjóra? Biðja kannski Jón Sigurðsson leigubíl?
Ákveðin hverfi í evrópskum borgum eru orðin að öðrum menningarheimi þar sem kristnir og innfæddir eru illa séðir. Er eitthvað slíkt að eiga sér stað í Reykjavík, Reykjanesbæ og víðar? Þegar verst lætur þá flæma íbúar lögregluna í burtu, slíkt er ástandið.
Það er auðvitað hægt að víkja af þessari braut, svo sem með því að senda fólk til síns heimalands í stórum stíl, en slíkt krefst pólitísks hugrekkis og þess að kjósendur verðlauni slíkt hugrekki. Mér sýnist Íslendingar upp til hópa ekki vera komnir þangað. Fleiri hópnauðganir þurfi til og ungum stúlkum fórnað á það bál.
Eða hvað? Íslendingar láta ekki alltaf flækja sig í net pólitísks rétttrúnaðar eða regluverksins. Þegar eldgos ógnar innviðum þá reisa þeir varnargarða. Þegar veturinn feykir burtu háspennulínum þá vaða menn snjó og byl til að koma rafmagni aftur á. Kannski bregðast Íslendingar núna hratt við hópnauðgunarfaraldrinum til að bjarga stúlkum sínum. Eða hvað?
Föstudagur, 25. apríl 2025
RÚV sagði frá einhverju fréttnæmu í 5 mínútur
Hvernig lífi myndir þú lifa ef þú óttaðist það helst af öllu í lífinu að vera kallaður kynþáttahatari? Eða ásakaður um að hreinalega vilja afmá tilveru ákveðins fólks af yfirborði Jarðar? Eða ásakaður um að afneita raunveruleikanum? Eða ásakaður um að vera vond manneskja, jafnvel án mikils rökstuðnings? Ásakaður um að vilja frekar stríð en frið?
Þú myndir væntanlega lifa í miklum ótta. Forðast að ræða hluti sem lægju á hjarta þínu. Kinkar jafnvel kolli þegar einhver fjarstæða er borin á borð.
Auðvitað er hægt að vera afstöðulaus um ákveðin málefni, eða að vera sammála um að eitthvað þurfi að gera en af öðrum ástæðum en haldið er á lofti. Þannig finnst mér sjálfsagt að skoða valkosti við jarðefnaeldsneyti en án þess að liggja svefnlaus af áhyggjum yfir loftslagsbreytingum.
Svo má auðvitað vera ósammála.
Eða hvað?
Nú virðist sem svo að atvinnusvæði leigubílstjóra við Keflavíkurflugvöll sé orðið að átakasvæði og yfirvöld, landeigandi, fjölmiðlar, stjórnmálamenn og almenningur segir ekkert. Þorir því ekki. Ertu múslímahatari? Ertu útlendingahatari?
Ertu rasisti?
Gott. Þá máttu þegja.
Sem betur fer hafa nokkrar hugrakkar sálir ekki sætt sig við þetta og tókst jafnvel að lokka fréttamann RÚV á svæðið til að skoða málin. Vitaskuld var allt sem allir sögðu staðfest og strax í kjölfarið búið að endurnýja hlutverk kaffistofu sem kaffistofu frekar en bænahúss.
Gott. Það getur alveg borgað sig að tjá sig og þótt RÚV segi bara frá einhverju fréttnæmu eða athyglisverðu í 5 mínútur á ári þá er það betra en ekkert, sem hefur hingað til verið venjan.
Annars held ég að þetta sé komið gott af því að skipta um þjóð á Íslandi, en til vara mætti skipta Íslendingum út fyrir Pólverja. Þeir vita að það er rangt að gelda börnin og þykjast vera veikur til að sleppa við vinnu.
![]() |
Isavia neitar að tjá sig um bænahald í kaffiaðstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 24. apríl 2025
Fasísk orðræða
Ég þarf því miður að bíta í það súra epli að ég kemst ekki á blað þegar menn ræða boðbera fasískrar orðræðu á Íslandi.
En lítið blogg á kannski ekki slíkt skilið.
Það er að renna upp fyrir fleirum en mér að miðað við skilgreiningunni á fasista á dag - sá sem vill ekki gelda ókynþroska börn, manna erlend glæpagengi, skvetta sýru á kvenfólk og sprauta fólk til dauða - þá erum við fleiri fasistarnir en þessir sem halda á hljóðnema. Mögulega miklu fleiri.
Ekki fasistar sem væru Hitler og Mussolini að skapi, en skilgreiningar á orðum breytast og oft í að verða algjör andstæða upprunalegrar skilgreiningar.
Fannst bara rétt að halda því til haga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 23. apríl 2025
Dulin skattheimta
Þau gera þetta bæði, sveitarfélögin og ríkisvaldið: Mjólka fyrirtæki í sinni eigu eins mikið og þau geta, eða fegra þau á bókhaldinu til að fegra eigin fjárhagsstöðu. Fyrirtæki sem áttu að tryggja góða og trausta innviði á sanngjörnu verði. Þau eru núna orðin að mjólkurbeljum.
Þetta er auðvitað ekkert annað en dulin skattheimta. Þegar hið opinbera mjólkar fyrirtækin sín í sjóði sína þá þurfa þau að finna leiðir til að fjármagna framkvæmdir með hærri verðum. Ekki skemmir fyrir að það er orkuskortur sem leiðir til enn hærra verðlags sem þýðir enn meiri arður sem hið opinbera getur sogað til sín. Það er jafnvel þess virði að hugleiða hvort orkuskortur yfirvalda sé viljaverk, ætlaður til að halda uppi verði og þar með arðgreiðslum til sín. Ef ekki þá er um vanhæfni að ræða.
Hvort er það? Samsæri eða vanhæfni? Aðrir möguleikar eru ekki í boði.
Óháð því þá er fórnarlambið það sama í öllum tilvikum: Íslenskur almenningur. Hann fær að borga ef gengi krónunnar er lágt og kaupmáttur lélegur. Hann fær að borga ef gengið er hátt og dollarinn minna virði. Hann fær að borga fyrir orkuskortinn og arðgreiðslurnar. Og hann fær að borga mikið fyrir vanrækta innviði.
Því árið er 2025 og of langt liðið síðan Íslendingar hófu þrjú þorskastríð gegn Bretum og unnu þau öll til að einhver muni hvað þýðir að vera sjálfstæð þjóð á eldfjallaeyju í miðju úthafi. Blauti draumurinn um pláss á Evrópuþinginu hefur tekið yfir.
![]() |
Landsvirkjun látin brúa gengismun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 21. apríl 2025
Þegar Íslendingar voru sjálfstæð þjóð
Í sumar verður liðin hálf öld frá því að lögsaga Íslands var færð út í 200 mílur, en með því hófst þriðja og síðasta þorskastríðið sem lauk með samningum ári síðar í Noregi. Sú útfærsla krafðist hugrekkis og því að standa í kokinu á evrópskum nýlenduherrum, taka mál alla leið fyrir dómstóla og sigra með notkun réttlætis og sterkrar röksemdarfærslu.
Á svipuðum tíma reistu Íslendingar líka sínar fyrstu stóru virkjanir og beisluðu náttúruöflin til að standa undir auðsköpun og velmegun. Þeir stofnuðu flugfélög, byggðu stórar brýr, boruðu jarðgöng og lögðu hitaveitu.
Við í dag lifum svolítið á grunninum sem var lagður á þessum árum - frá miðbiki 20. aldar og einhverja áratugi eftir það. Kannski mætti segja að lítið hafi bæst við síðan í raun. Jú, einhverjar virkjanir en ekki nógu margar og stórar til að anna eftirspurn. Meira malbik vissulega en ennþá treðst öll umferð Suðurlands í gegnum eina brú við Selfoss svo það sé nefnt. Rafmagn framleitt á Austurlandi kemst ekki á Suðurlandið, og öfugt. Fiskvinnslan var komin í rafmagn en hefur núna snúið sér aftur til olíunnar - andstæða þeirra orkuskipta sem stefnt var að.
Þessi stöðnun í innviðaframleiðslu á sér hliðstæðu í utanríkisstefnu Íslands. Ef undan er skilinn sigur Íslands á Bretlandi og Hollandi í Icesave-deilunni er eins og utanríkisstefna Íslands sé bara óskýr spegilmynd af þeirri sem Evrópusambandið heldur á lofti hverju sinni (þar sem það er ákveðið hver er góði kallinn og hver er vondi kallinn, hvaða stríð á að fjármagna og hvaða minnihlutahópum má útrýma án mótmæla). Stoltir og framkvæmdaglaðir Íslendingar þorðu að halda á lofti eigin utanríkisstefnu. Þeir sem falla á hnén þegar útlendingar skammar þá er heldur ekki að fara ráðast í metnaðarfullar framkvæmdir fyrir land og þjóð.
Maður hefði haldið að þessi þjónkun við erlendar reglugerðir væri farin að skila sér í breyttri hegðun kjósenda og breyttum áherslum stjórnmálastéttarinnar en eru einhver merki um slíkt?
Kannski væri ráð að hringja til landsstjórnar Færeyja og fá góð ráð þar um hvernig á að standa í lappirnar gagnvart erlendur ofríki, bora í gegnum fjöll og slaka á þegar einhver hrópar heimsfaraldur.
![]() |
Hálf öld frá útfærslu í 200 mílur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. apríl 2025
Hægri og vinstri samsæriskenningar
Hvað eigum við að kalla það þegar fjölmiðlar, yfirvöld, læknar og prófessorar héldu því fram að sprauturnar gegn COVID-19 væru öruggar og virkuðu, þvert á margar vísbendingar frá upphafi spraututíma og jafnvel fyrr?
Lygar?
Barnslega trú?
Áróður?
Samsæriskenningu?
Ekki var það sannleikurinn og þaðan af síður sannanleg og vísindalega rökstudd afstaða.
Eigum við að kalla það vinstri samsæriskenningu? Vinstri, því hún snérist um að fá alla til að taka sömu ákvörðun. Vinstri, af því þetta var eitthvað sem yfirvöld töldu vera best fyrir alla? Vinstri, af því ríkisvaldinu var beitt eins og kylfu á heilbrigðistengdar ákvarðanir einstaklinga rétt eins og skattkerfið lemur á launatekjum fólks?
Kannski gagnast það ekki neinum að búa til einhvern stimpil á ákveðnar skoðanir. Að kalla eitthvað samsæriskenningu sem sagan sýnir svo að er alveg hárrétt afstaða sem sönnunargögnin halda áfram að hlaða undir svo árum skiptir.
En kannski er það einföldun sem fólk skilur. Ég tala nú ekki um að nota hugtökin hægri samsæriskenning, þar sem efast er um að sprautur af ýmsu tagi séu hollt meðal, og vinstri samsæriskenning, þar sem þeirri samsæriskenningu er haldið á lofti að yfirvöld stundi engin samsæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)