Heilaþvegnir nothæfir vitleysingar

Vel skipulögð og vel fjármögnuð mótmæli við Teslu-stöðvar og -sölustaði eiga sér nú stað víðsvegar í Bandaríkjunum og skemmdarverkin eru gjörsamlega hömlulaus og virðing fyrir eignum og öryggi fólks engin. Að baki þessum mótmælum standa spillt hagsmunaöfl sem hafa gengið að fé skattgreiðenda sem vísum hlut og óttast að verið sé að skola beinagrindum þeirra úr skápnum. Þau ráða til verka nothæfa vitleysinga sem mála skilti þar sem segir að Elon Musk sé fasisti.

Þetta eru bandarísk innanlandsmál sem koma Íslendingum ekkert við og það olli mér því gapandi undrun að sjá nokkra af nothæfu vitleysingunum stofna til mótmæla við Teslu-umboðið á Íslandi, væntanlega alveg launalaust. 

Það trúir því ekki nokkur maður að Elon Musk sé fasisti, hvorki í upprunalegu skilgreiningu hugtaksins (ríki og stórfyrirtæki reki í sameiningu samfélagið og eignarétturinn ekki til í raun) eða þeirri nútímalegu (allir sem vilja ekki gelda börn og galopna landamærin eru fasistar). Að baki bandarísku mótmælunum standa ekki aðilar sem eru í raun að berjast gegn fasisma, heldur aðilar að verja eigin ítök í rotnu kerfi sem er verið að taka til í. 

Það eina sem má hrósa nothæfu vitleysingunum á Íslandi fyrir er að mótmæli þeirra virðast vera friðsöm. Engir mólatoff-kokkteilar við fjölfarnar götur eða íkveikjur í íbúðarhverfum. Bara skilti, og bara 10 hræður.

Þótt ég sjái sjálfur ýmsa galla við rafmagnsbíla eins og Teslurnar þá vona ég nú samt að almenningur á Íslandi láti ekki breyta ákvörðunarmyndun sinni á neinn hátt til að þóknast spilltum, bandarískum auðkýfingum með báðar lúkur djúpt í vösum skattgreiðenda. 


mbl.is Mótmæli fyrir utan Tesla-umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sykurhúðað vandamál

Foreldrar í Neðra-Breiðholti sjá sig nú tilneydda til að eyða kvöldstundum sínum á rölti í hverfinu til að leysa upp slagsmál og hringja á lögregluna ef illa gengur. Tilgangurinn er  „ekki vera að vakta ein­hvern ákveðinn hóp, held­ur snú­ist þetta um að full­orðnir séu sýni­leg­ir í hverf­inu og að börn­in geti gengið að þeim vís­um“ enda er „fullt af fleiri vit­leys­ing­um að gera ein­hverja vit­leysu niðri í Bökk­um“, þ.e. aðrir en nokkrir nemendur á miðstigi í Breiðholtsskóla.

Sniðugt, ekki satt? Svo sniðugt að foreldrar í fleiri hverfum hljóta að vera hugleiða eitthvað svipað, jafnvel þótt enginn hópur nemenda á miðstigi í grunnskóla hverfisins sé búinn að fá að áreita, meiða og ógna svo misserum skiptir, og borgaryfirvöld búin að reyna sópa yfir ástandið í álíka langan tíma.

En engir slíkir foreldrahópar eru á ferð. Á meðan hverfið er laust við hóp nemenda á miðstigi hverfisskólans sem áreitir, meiðir og ógnar, og skólayfirvöld taka ekki á, þá sjá foreldrar enga ástæðu til að eyða kvöldstundum sínum á rölti um hverfið, tilbúnir að hringja á lögregluna.

Það er því auðvitað svo að foreldrar í Neðra-Breiðholti eru eingöngu að eyða kvöldstundum sínum á röltinu, tilbúnir að hringja á lögregluna, til að vakta ákveðinn hóp nemenda á miðstigi Breiðholtsskóla.

Eftir stendur þá spurningin: Af hverju í ósköpunum fær þessi hópur nemenda á miðstigi í Breiðholtsskóla að taka heilt hverfi í gíslingu?

Er það af því innan hópsins (jafnvel meirihlutinn) eru innflytjendur, jafnvel brúnir á hörund, múslímatrúar og illa mælskir á íslensku? Ég veit það ekki en miðað við upplýsingaflæðið þá er auðvelt að álykta sem svo. Að hérna gildi sérstakar reglur fyrir ákveðinn hóp, eða regluleysi nánar tiltekið, sem enginn þorir að taka á af ótta við að vera kallaður kynþáttahatari.

Eða má skrifa veik hné sveitarfélags og skólastjórnar á alveg gapandi getuleysi í starfi og vanmætti til að bera ábyrgð? 

Hvort er það? Óttinn við að vera kallaður kynþáttahatari, eða getuleysi í starfi? Skyldir hlutir, en aðskildir.

En kannski er vandamálið einfaldlega foreldrasamfélagið í Neðra-Breiðholti (eða þeir sem eru ekki flúnir). Þeir eru „ekki vera að vakta ein­hvern ákveðinn hóp“ sem er kannski nákvæmlega það sem þeir ættu að vera að gera, og ekki annað. Fólk með slíka dómgreind er kannski ekki alsaklaust af vandamálum samfélags síns.


mbl.is Foreldrar í Breiðholti taka málin í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar eitthvað flókið verður einfalt

Sumt er flókið og erfitt að skilja. Sumt er einfalt og flókið að skilja. Sumt er einfalt og einfalt að skilja. Sumt er flókið og einfalt að skilja.

Þetta síðastnefnda, að eitthvað sé flókið en einfalt að skilja, er það sem ég vil ræða núna. Hvernig stendur á því að hið opinbera spænir sig í gegnum sífellt stærri upphæðir án þess að skila af sér betri þjónustu, innviðum og lífskjörum? Jú, því á botni þess baðkars er niðurfall sem stækkar bara og stækkar.

Það skiptir ekki máli hvað þú dælir miklu fé í þetta baðkar ef niðurfallið stækkar í sífellu.

Sem dæmi: Stjórnir opinberra fyrirtækja. Auðvitað kostar stjórnarseta því með henni er aðgengi fengið að vitru og reynslumiklu fólki sem hefur brennt alla puttana oftar en einu sinni og hefur lært af þeim mistökum.

En stjórnarseta í opinberum fyrirtækjum? Hverja færðu í slíka? Kjörna fulltrúa! Fulltrúa sem kunna í mesta lagi á reiknivél af því það vildi svo til að einhver verðmætaskapandi einstaklingur úr atvinnulífinu ákvað að skera laun sín niður um 70% til að gerast stjórnmálamaður. Það gerist, en er sjaldgæft. 

Í þessum stjórnum er fólk sem kann lítið, veit lítið og nennir minna. Kjörnir fulltrúar hafa fyllt dagatalið sitt af fundum við aðra kjörna fulltrúa og nenna í mesta lagi að eyða klukkutíma eða tveimur á mánuði í að kynna sér málin áður en þeir mæta á fund og þiggja nálægt því 200 þúsund krónur á klukkutímann að ræða innkaup á slökkviliðsbúnaði eða viðbætur við höfn.

Gagnslaus og glórulaus sóun á fé og tíma allra, nema þeirra sem fengu borgað.

Um daginn var sagt frá því að stjórn Tryggingastofnunar væri hér með gufuð upp, og enginn fann fyrir neinum mun, nema mögulega þeir sem voru á spenanum. Þetta ætti að verða að skínandi fordæmi fyrir allar stjórnir allra opinberra eða hálf-opinberra stofnana og fyrirtækja. Stjórnir mannaðar málglöðum en innihaldsrýrum kjörnum fulltrúum mættu mögulega allar hverfa á einu bretti án annarra áhrifa en þeirra jákvæðu áhrifa að skattgreiðendur finna fyrir minni þrýstingi á veski sín.

Af hverju er hið opinbera botnlaus hít? Það er flókið mál, en hérna er dæmi um einfalda skýringu á því. Flókið mál en einfalt að skilja.


mbl.is Með 187 þúsund til 281 þúsund á tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel gert, ráðherra!

Það er þá kannski einhver alvara í því að vilja spara fé í íslenskri stjórnsýslu? Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að leggja niður stjórn Tryggingastofnunar. Við það sparast fé og ekkert tapast. 

Hvað ætli leynist margar svona gagnslausar og kostnaðarsamar stjórnir innan hins opinbera? Stjórnir sem hafa aðallega það hlutverk að veita atvinnulausum flokkssystkinum einhverjar aukakrónur og þá tálsýn að þau hafi eitthvað merkilegt til málanna að leggja. 

Og hvaða þóknanir er verið að veita? Hundruð þúsunda á mánuði fyrir einn fund og einn fjarfund á mánuði eins og eitt dæmið er um. 

Nú hlaða einkafyrirtæki vissulega á sig fitu líka en þar gilda aðrir hvatar. Þegar spikið er orðið of mikið þá myndast taprekstur. Við því er brugðist. Ég hef upplifað uppsagnarlotur þar sem um fjórðungi starfsmanna var sagt upp á einu bretti sem þýðir að allir sem eftir voru þekktu fjölda manns sem missti starfið sitt. Sárt, en nauðsynlegt. Og það segir mér enginn að hið opinbera þurfti 100% mannafla síns. Ef svo er þá er ástæðan langar boðleiðir, ákvörðunarfælni, skortur á umboði eða innbyrðis flækjur sem gera einföldustu mál langdregin og kostnaðarsöm.

Eins og afleiðingalaus uppgufun stjórnar Tryggingastofnunar er nú dæmi um.


mbl.is Inga leggur niður stjórn Tryggingastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fara í boltann, ekki manninn

Í fótbolta er regla þegar kemur að tæklingum: Ef tæklingin miðar á boltann en ekki manninn þá er hún lögleg, jafnvel þótt maðurinn sem var með boltann detti á rassgatið í kjölfarið. Fari tæklingin beint í manninn, og miðar á hann en ekki boltann, þá er gefin aukaspyrna eða spjald.

Reglan er sú að það sé í lagi að fara í boltann en ekki manninn.

Þetta má auðvitað heimfæra á mjög margt, en ég tek hérna stjórnmálin sem dæmi.

Segjum sem svo að einhver bendi á að milljónir af skattfé fossi úr sjóðum skattgreiðenda og inn á reikning lögfræðistofu af því að einhver yfirmaður innan sýslumannsembættisins, og meðeigandi sömu lögfræðistofu, hefur beint öllum ágreiningsmálum í ákveðna átt. Er sá sem afhjúpar þá svikamyllu glæpamaðurinn og ber að húðskamma fyrir að stuðla að lægri tekjum lögfræðinga, eða sá sem mjakaði milljónunum í eigin sjóði?

Væntanlega augljóst svar, en maður veit aldrei.

Þegar einhver hrópar að keisarinn sé nakinn er aldrei að vita hvort viðkomandi fái hrós eða skammir. Það virðist skipta meira máli hver hrópar en hvað hann hrópar. Þetta er ekki uppbyggilegt. Miklu frekar ætti að taka slíkar upphrópanir með fyrirvara, rannsaka sannleiksgildið og taka síðan næsta skref. Var rétt frá sagt? Var um lygi að ræða? Ef sá sem hrópaði var að ljúga má vitaskuld benda á að trúverðugleiki viðkomandi hafi skaðast. Hafi viðkomandi sagt rétt frá, þvert á andmæli ríkjandi viðhorfa, þá má hrósa fyrir að benda á nakinn keisara. 

Að fara í boltann en ekki manninn er samt ekki í tísku.

Þetta blasir við þegar evrópsk fjölmiðlaumfjöllun um bandarísk stjórn- og samfélagsmál ber á góma. Þar skiptir eingöngu máli hver sagði hvað, en ekki hvað viðkomandi sagði.

Þetta blasir við þegar fjölmiðlar utan Þýskalands fjalla um stjórnmál í Þýskalandi, og vilja meina að fjórðungur Þjóðverja sé orðinn að öfgahægrimönnum.

Þetta blasir við þegar við fjöllum um orkuframleiðslu og væga gagnrýni á að treysta algjörlega á vindinn, vatnið og sólina til að hita hús og knýja skip, bíla, ljósaperur og eldavélar.

Það er gaman að horfa á fótboltaleik þar sem leikmenn fara í boltann en ekki manninn. Kannski eru flestir sammála því en finnst svo hið gagnstæða eiga betur við þegar kemur að því að ræða stjórnmál og samfélagsmál. Þá það, en ég reyni að fylgja fótboltareglunum.


Ekkert-að-marka stéttirnar

Það er ánægjulegt að sjá allskyns stjórnmálamenn, ýmis yfirvöld og opinberar stofnanir og jafnvel leyniþjónustur smátt og smátt viðurkenna að aðgerðir gegn veiru voru sóun á tíma og fé, orsökuðu fleiri vandamál en þær leystu, skildu eftir sig sviðna jörð sem tekur mörg ár að gróa og komu ekki í veg fyrir neitt slæmt á meðan margt gott var sett í ruslatunnuna.

En hverjir eru það sem tjá sig nú þegar sönnunargögnin hrannast upp? Jú, þeir sem klöppuðu fyrir aðgerðunum á sínum tíma, eða framfylgdu þeim, eða þögðu bara.

Er eitthvað að marka þetta fólk? Nei.

Er þetta fólkið sem er hægt að treysta á til að greina atburði líðandi stundar í dag? Nei.

Það lá fyrir, í rækilega ritrýndum vísindarannsóknum, vorið 2020, að þessi veira væri ekki meiri ógn við mannkynið en skæð flensa, og jafnvel vægari en það fyrir flesta aldurs- og sjúklingahópa.

Vorið 2020.

Næstu tvö ár fóru samt í að loka og læsa, banna, ritskoða og eyðileggja alla gjaldmiðla með peningaprentun og mokstri á auði úr vösum skattgreiðendum í vasa hluthafa hjá stórum lyfjafyrirtækjum og skjólstæðinga þeirra.

Það er fínt að vera vitur eftir á, og neyðast til að segja satt án þess að biðjast afsökunar og sýna fram á betri dómgreind í dag. En það er engin dyggð. 

Sérfræðingarnir, fjölmiðlarnir og stjórnmálamennirnir brugðust í slíkum mæli að traust á þessum talandi stéttum er hvað mig varðar horfið, með örfáum undantekningum.

Samsæriskenningar og raddir þeirra ritskoðuðu höfða frekar til mín, a.m.k. til að hjálpa mér að móta afstöðu.

Ekkert-að-marka stéttirnar eru bara það: Stéttir sem er ekkert að marka. 


mbl.is Daði: Vafasamt met Íslands með covid-aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugamenn

Það kemur ekki sjaldan fyrir að ég hugsi með mér að stjórnmálastéttin á Íslandi sé mönnuð að miklu leyti af áhugamönnum, þ.e. fólki sem veit ekki alveg hvað það er að gera, hvernig á að skila af sér vinnu og hvernig á að taka skynsamlegar ákvarðanir. Auðvitað á ekki að taka einstaka fréttir af eintaka klúðri of langt og byrja að alhæfa um alla byggt á klúðri fárra, en að nokkrar fréttir á viku fái mig til að hugsa svona kemur mér einfaldlega á óvart.

Kannski laða stjórnmálin að sér of marga sem hafa enga reynslu í atvinnulífinu eða raunhagkerfinu þar sem samskipti þurfa að vera í lagi og samvinna sömuleiðis því annars tapast mikið fé og mikill tími.

Kannski er of auðvelt að gerast stjórnmálamaður á Íslandi - of margir lausir stólar miðað við mannfjölda. Sveitastjórnarstólarnir eru margir og ráðherraembættin mörg. Allir hafa svo sína aðstoðarmenn og ráðgjafa, skrifstofustjóra og varamenn. Ég sé fyrir mér skipurit með 100 einstaklingum þar sem 40 af þeim sitja í stjórnendastöðum, 20 þeirra mynda stoðdeildir og eftir standa 40 einstaklingar til að halda uppi öllu saman.

En þarf ekki lög og reglur? Ekki viljum við ringulreið! Það þarf að gefa út leyfi og halda úti eftirliti svo menn byggi ekki svalir sem hrynja eða steiki kjúklinginn of lítið, ekki satt?

Gott og vel, en hérna missir kerfið líka marks. Fólk úti í bæ er látið hamast svo mánuðum og árum skiptir að sækja um allskyns leyfi sem engu skipta á meðan á öðrum stað rís risavaxinn veggur sem skyggir á heilt fjölbýlishús. Fyrirtæki eru kaffærð í eftirlitsmönnum á meðan hvergi sést til lögreglumanns. 

Stækkunarglerið er á einu auganu en leppur á hinu og kerfið labbar í hringi í kringum sjálft sig.

Það væri kannski til ráða að fækka töluvert öllum þessum stólum og stofnunum, fækka reglum og færa þær nær heilbrigðri skynsemi og krefjast þess að frambjóðendur sýni starfsferilskrár sínar þegar þeir sækjast eftir kjöri. Mig grunar að að gæti bætt aðeins úr áhugamennskunni sem virðist ríkja núna.


mbl.is Töldu það ekki sitt að upplýsa bæjarstjórann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þöggunartilburðir

Ennþá leynast þeir á bak við hóla og hæðir þessir sem vilja þagga niður í skoðunum annarra. Það er eins og sumt fólk laði að sér allskyns vísindi og sannindi“ og verði nánast vitstola við að sjá einhvern tjá sig á annan hátt. Engin leið er fyrir þetta fólk að hrista af sér þessi „vísindi og sannindi“, sama hvað sönnunargögnin gegn þeim „vísindum og sannindum hrúgast mikið upp (veirusprauturnar sem lækning verri en sjúkdómurinn hérna augljóst dæmi).

Um daginn varð ég fyrir frumlegri tilraun til að þagga niður í mér sem rann vitaskuld út í sandinn enda ríkir í Danmörku málfrelsi (að fólk ritskoði sjálft sig af ótta við álit annarra er annað mál). Ég varð þrátt fyrir það hugsi. Þessi tilraun gekk út að reyna kalla mig allskyns nöfnum, frá kynþáttahatara til stuðningsmanns Pútíns og fleira slíkt, og náði til uppnefna um efni sem ég hef ekki skrifað um svo mánuðum skiptir, svo einhver vann heimavinnuna sína vel. En hvað ef tilraunin hefði tekist? Væri heimurinn betri? Einni rödd færra í umræðunni? Einum færri til að rífast við í athugasemdum? 

Nei, auðvitað ekki. Raunar hefur þöggun af ýmsu tagi að mörgu leyti rústað opinberri umræðu og leitt til þess að fjölmargir valkostir við hefðbundna fjölmiðla hafa sprottið upp til að fylla skarðið. Morgunblaðið hefur að mestu leyft frjálsa tjáningu á þessu svæði sem betur fer en margir aðrir miðlar hafa bæst við og auðgað umræðuhefðina á Íslandi (sama hvað mönnum finnst um innihaldið). Menn geta hrópað sig hása af reiði yfir allri þessari frjálsu tjáningu en hún er þarna og verður ekki svo auðveldlega tröðkuð niður, sérstaklega ekki þegar í raun allir geta orðið miðlar án hindrana.

Í stað þess að reyna þagga niður í öðrum gæti verið gagnlegra að annaðhvort hunsa þá eða takast á við þá með málefnalegum rökum. Þessu gerðu menn sér grein fyrir þegar var loksins búið að steypa af stóli þrúgandi einræðiskonungum og draga úr áhrifum frekar íhaldssamrar kirkju miðalda. 

Ég þoli alveg uppnefnin og jafnvel fúkyrðin en ef það er reynt að þagga niður í óvinsælum skoðunum þá skipti ég skapi, og jafnvel þótt þögguninni sé beint að röddum sem ég er gjörsamlega ósammála. Því málfrelsið er ekki frelsi til að segja frá vinsælum skoðunum, heldur vörn fyrir þá sem hafa óvinsælar skoðanir.


Frétt: Foreldri hefur ekki fengið að sjá börnin sín í marga mánuði þrátt fyrir úrskurð

Í frétt á DV er sagt frá foreldri sem hefur ekki fengið að sjá börnin sín í marga mánuði þrátt fyrir úrskurð um annað.

Eða eitthvað sem margir vinir og kunningjar mínir kalla venjulegan virkan dag.

En þeir eru feður. Þeirra mál rata ekki í fréttir. Í mörg ár hefur félag um foreldrajafnrétti bent á framkvæmd yfirvalda í forræðismálum og og hvernig hið opinbera beitir sér, eða beitir sér ekki þegar það ætti að beita sér, til að stuðla að föðurleysi barna.

Þetta hefur hingað til ekki þótt fréttnæmt en núna er það móðirin sem verður fórnarlamb kerfisins og þá er slegið í stóra fyrirsögn.

Um leið leiðir þetta hugann að aðeins stærra samhengi: Þeim fjölmörgu fréttnæmu málum sem blaðamenn gætu hæglega tekið upp á arma sína, fengið út á það mikla athygli og jafnvel verðlaun, og væri um leið þjóðþrifaverk að fjalla ítarlega um. Mál sem hanga lágt á trénu og er auðvelt að týna ef einhver þorir: Aðskilnaðarstefna yfirvalda fyrir fráskilda feður og börn þeirra, bruðl með almannafé, byrlunarmál á Efstaleiti (mál sem hefur loksins komist lengra en bloggsíðurnar), baktjaldamakk með lóðir Reykjavíkur (að einhverju leyti komið fram), dauðsfallafaraldur í kjölfar mRNA-sprautnanna og margt annað. 

Kannski þarf bara að finna í öllum þessum dæmum karlmann sem braut á konu. Sýslumann af karlkyni sem neitaði konu um umgengni við barn. Lækni af karlkyni sem skaddaði konu með sprautu. Karlmann sem skipulagði byrlun á kvenmanni. Er það málið? Eða hvaða aðrar kröfur gera blaðamenn til að leggja í umfjöllun á viðkvæmu máli?


Borgarstjórn: Ekki fleiri leikskóla í Reykjavík

Reykjavíkurborg vill reyna að banna einkafyrirtækjum að byggja og reka eigin leikskóla. Slíkt gæti jú leitt til betri kjara fyrir menntaða leikskólakennara og það er vandamál. Slíkt gæti veitt börnum leikskólapláss í stað þess að hafa ekki slíkt og það er vandamál. Slíkt gæti fært umsjón á börnum úr höndum opinberra starfsmanna og í hendur starfsmanna einkafyrirtækja og það er vandamál.

„En það er skort­ur á kenn­ur­um. Það er eitt. Það er skort­ur á leik­skóla­kenn­ur­um og það er stærsti vandi leik­skól­anna í dag,“ segir mennta- og barnamálaráðherra. En bíddu nú við, ef einkaframtakið má ekki hækka laun og laða að sér fleiri menntaða leikskólakennara hvernig á þá að fjölga þeim?

Heldur ráðherra að fjöldi menntaðra leikskólakennara sé föst stærð? Svona eins og sumir ráðherrar halda að fjöldi menntaðra hjúkrunarfræðinga sé föst stærð. Manneskja sem afgreiðir í bókabúð í dag gæti alveg orðið að hjúkrunarfræðing eða leikskólakennara á morgun. Margir menntaðir sérfræðingar hafa flúið fagið sitt vegna álags og lágra launa. Einkaframtakið gæti lokkað þá til baka með betri kjörum og þar með minnkað álagið á aðra. 

„Lausn­ir einkafram­taks­ins geta verið og eru gríðarlega mik­il­væg­ar en þetta þarf að skoða út frá öll­um þátt­um og að hér skap­ist ekki tvö­falt kerfi, og það er al­veg ljóst að það þarf að stíga hér inn,“ segir mennta- og barnamálaráðherra. Tvöfalt kerfi já? Börn sem hafa fengið leikskólapláss og þau sem hafa ekki fengið það. Þetta er tvöfalda kerfið í dag. Er verra að hafa tvöfalt kerfi þar sem öll börn fá leikskólapláss, en hjá mismunandi aðilum? 

En kannski er afstaða barnamálaráðherra ekki skrýtin heldur miklu frekar afhjúpun á eldrauðum sósíalista sem vill ekki að hið opinbera missi neina spóna úr aski sínum, heldur ekki þá vanræktu. Flokkur fólksins? Já, þess sem er fast heima hjá sér, tekjulaust, með barn á leikskólaaldri sem fær ekki leikskólapláss því ríki og borg gera allt sem í valdi þeirra stendur til að hamla fjölgun menntaðra leikskólakennara.


mbl.is Leikskólar fyrst og fremst fyrir börn, ekki foreldra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband