Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2025

Þegar Íslendingar voru sjálfstæð þjóð

Í sumar verður liðin hálf öld frá því að lögsaga Íslands var færð út í 200 mílur, en með því hófst þriðja og síðasta þorskastríðið sem lauk með samningum ári síðar í Noregi. Sú útfærsla krafðist hugrekkis og því að standa í kokinu á evrópskum nýlenduherrum, taka mál alla leið fyrir dómstóla og sigra með notkun réttlætis og sterkrar röksemdarfærslu.

Á svipuðum tíma reistu Íslendingar líka sínar fyrstu stóru virkjanir og beisluðu náttúruöflin til að standa undir auðsköpun og velmegun. Þeir stofnuðu flugfélög, byggðu stórar brýr, boruðu jarðgöng og lögðu hitaveitu.

Við í dag lifum svolítið á grunninum sem var lagður á þessum árum - frá miðbiki 20. aldar og einhverja áratugi eftir það. Kannski mætti segja að lítið hafi bæst við síðan í raun. Jú, einhverjar virkjanir en ekki nógu margar og stórar til að anna eftirspurn. Meira malbik vissulega en ennþá treðst öll umferð Suðurlands í gegnum eina brú við Selfoss svo það sé nefnt. Rafmagn framleitt á Austurlandi kemst ekki á Suðurlandið, og öfugt. Fiskvinnslan var komin í rafmagn en hefur núna snúið sér aftur til olíunnar - andstæða þeirra orkuskipta sem stefnt var að.

Þessi stöðnun í innviðaframleiðslu á sér hliðstæðu í utanríkisstefnu Íslands. Ef undan er skilinn sigur Íslands á Bretlandi og Hollandi í Icesave-deilunni er eins og utanríkisstefna Íslands sé bara óskýr spegilmynd af þeirri sem Evrópusambandið heldur á lofti hverju sinni (þar sem það er ákveðið hver er góði kallinn og hver er vondi kallinn, hvaða stríð á að fjármagna og hvaða minnihlutahópum má útrýma án mótmæla). Stoltir og framkvæmdaglaðir Íslendingar þorðu að halda á lofti eigin utanríkisstefnu. Þeir sem falla á hnén þegar útlendingar skammar þá er heldur ekki að fara ráðast í metnaðarfullar framkvæmdir fyrir land og þjóð.

Maður hefði haldið að þessi þjónkun við erlendar reglugerðir væri farin að skila sér í breyttri hegðun kjósenda og breyttum áherslum stjórnmálastéttarinnar en eru einhver merki um slíkt?

Kannski væri ráð að hringja til landsstjórnar Færeyja og fá góð ráð þar um hvernig á að standa í lappirnar gagnvart erlendur ofríki, bora í gegnum fjöll og slaka á þegar einhver hrópar heimsfaraldur.


mbl.is Hálf öld frá útfærslu í 200 mílur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri og vinstri samsæriskenningar

Hvað eigum við að kalla það þegar fjölmiðlar, yfirvöld, læknar og prófessorar héldu því fram að sprauturnar gegn COVID-19 væru öruggar og virkuðu, þvert á margar vísbendingar frá upphafi spraututíma og jafnvel fyrr?

Lygar?

Barnslega trú?

Áróður?

Samsæriskenningu?

Ekki var það sannleikurinn og þaðan af síður sannanleg og vísindalega rökstudd afstaða.

Eigum við að kalla það vinstri samsæriskenningu? Vinstri, því hún snérist um að fá alla til að taka sömu ákvörðun. Vinstri, af því þetta var eitthvað sem yfirvöld töldu vera best fyrir alla? Vinstri, af því ríkisvaldinu var beitt eins og kylfu á heilbrigðistengdar ákvarðanir einstaklinga rétt eins og skattkerfið lemur á launatekjum fólks?

Kannski gagnast það ekki neinum að búa til einhvern stimpil á ákveðnar skoðanir. Að kalla eitthvað samsæriskenningu sem sagan sýnir svo að er alveg hárrétt afstaða sem sönnunargögnin halda áfram að hlaða undir svo árum skiptir.

En kannski er það einföldun sem fólk skilur. Ég tala nú ekki um að nota hugtökin „hægri samsæriskenning“, þar sem efast er um að sprautur af ýmsu tagi séu hollt meðal, og „vinstri samsæriskenning“, þar sem þeirri samsæriskenningu er haldið á lofti að yfirvöld stundi engin samsæri.


Þegar heykvíslarnar fara á loft

Það er stundum erfitt að skilja mannkynssöguna.

Hvernig tókst þjóðernissósíalistum í Þýskalandi að fá almenning til styðja við málstað sinn um yfirburði hvíta kynþáttarins, útrýmingu Gyðinga og allsherjarstríð á svo gott sem allan umheiminn?

Hvernig tókst kommúnískum sósíalistum að halda á lífi svo áratugum skiptir stjórnarfyrirkomulagi sem gerði almenning fátækari og fátækari á meðan afgangur heimsins dúndraðist upp í lífskjörum?

Hvernig tókst að fá vestrænan almenning til að samþykkja grímur, sprautur, samkomubönn og lokun fyrirtækja í tvö og jafnvel þrjú ár?

Svarið er í öllum tilvikum það sama: Almenningur slekkur á gagnrýninni hugsun og heilbrigðri skynsemi, lætur óttann taka völdin, samþykkir einhvers konar frásögn (narrative) sem segir hvað er rétt og rangt og við hæfi að gera og styðja, og stekkur svo eins og læmingjahópur fram af hengibrún og niður í eigin tortímingu.

IMG_20250415_154658932Mér datt þetta í hug í dag þegar ég labbaði framhjá tómri hleðslustöð fyrir Teslu-bíla á fjölförnum ferðamannastað í Danmörku þar sem öll önnur stæði fyrir bíla voru svo gott sem full og annars konar hleðslustöðvar á öðrum stöðum í bænum sæmilega fullar. 

Hvernig stendur á því í landi þar sem Teslan er nokkuð algeng (10% allra nýrra afhentra bíla í fyrra)? 

Jú, Teslu-eigendur þora ekki lengur að keyra bílum sínum. Því hefur verið haldið fram að slíkt sé stuðningsyfirlýsing við rasisma og fasisma. Slíkir bíleigendur eru áreittir og bogna um leið í hnjánum. Teslan, sem var einhvers konar stöðutákn fyrir góða fólkið fyrir ekki löngu síðan, er horfin af götunum, eða allt að því.

Sama fólkið og lét plata sig til að eyða morðfjár í rándýran lúxusbíl til að bjarga heiminum frá tortímingu loftslagsbreytinga hefur núna samþykkt að einhver frumkvöðull í Bandaríkjunum sé fasisti og rasisti.

Ekki aðalritari Kína, sem er helsti samkeppnisaðili sama frumkvöðuls og heldur í raun uppi útrýmingarbúðum og framkvæmir þjóðarhreinsanir, heldur frumkvöðullinn sem býr til græjur sem keyra eða fljúga, og er þessa dagana að fletta ofan af gengdarlausri sóun á fé bandarískra skattgreiðenda (launalaust). 

Þetta segir mér það að yfirvöld muni ekki eiga í neinum vandræðum með að skella samfélaginu í lás aftur, banna samkomur, loka fyrirtækjum, setja jarðarfarir í myndbandsstreymi og taka skólalífið af krökkunum. Og auðvitað að halda áfram að ryksuga vasa skattgreiðenda til að fjármagna vindmyllur (bókstaflega) og stríð.

Og kannski eru einhver áform nú þegar í bígerð. Það er því mögulega við hæfi að byrja að undirbúa sig andlega fyrir að vera skammaður í búðum fyrir grímuleysi og sektaður af lögreglu fyrir að halda partý á tímum samkomubanns. Og þér er boðið.


Íslendingar stefna að kerfi sem Danir voru að leggja niður

Í Danmörku voru nemendur í efstu bekkjum grunnskóla lengi vel metnir á félagslegum og faglegum forsendum hvort þeir væru tilbúnir í næsta skólastig.  

Þetta þýddi að kennarar litu ekki bara til einkunna heldur líka til þátttöku í hópastarfi, mætingar og til þess á hvaða vegferð nemandi var á: Voru einkunnir á uppleið eða niðurleið? Var þátttaka í kennslunni að aukast eða minnka?

Væri nemandi ekki metinn tilbúinn þá beið hans einfaldlega að endurtaka seinasta árið í grunnskóla. Hann fengi ekki að sækja um næsta skólastig ef hann væri ekki metinn tilbúinn til þess. 

En Danir hafa núna breytt þessu fyrirkomulagi og líta núna mun meira til einkunna og mun minna til annarra þátta.

Frá skólaárinu 2024-25 þurfa nemendur í 8., 9. og 10. bekk ekki lengur að gangast undir mat á undirbúningi fyrir nám (UPV) áður en þeir geta fengið inngöngu í framhaldsskóla.
Afnám UPV þýðir að nemendur þurfa ekki lengur að vera metnir út frá persónulegum, félagslegum og verklegum forsendum.
 
Ekki man ég eftir rökstuðningi að baki þessari breytingu. En það sem mér sýnist vera að gerast á Íslandi er að verið sé að stefna að kerfinu sem Danir voru að leggja niður. Væri það ekki alveg rosalega sniðugt?
 
Ég man vel eftir 10. bekk og kapphlaupinu að undirbúa sig fyrir samræmdu prófin. Ég man í kjölfarið eftir spennunni að sjá hvort fyrsta val í framhaldsnám færi í gegn. Og ég man mjög vel eftir þeim sem komust inn í metnaðarfullan menntaskóla á grundvelli búsetu og var skolað hratt út á fyrsta námsárinu. Samræmdu prófin virkuðu mjög vel sem mælikvarði og gaf framhaldsskólum góða möguleika á að fá réttu nemendurna fyrir þeirra tiltekna námsframboð.
 
Svona rétt eins og hitamælir er ljómandi góður til að mæla hitastig vatns. Það þarf ekki að innleiða sjónrænt mat á uppgufun, mæla að auki leysni vatnsins eða telja fjölda loftbóla í því. Hitastigsmælingin er alveg næg, og raunar alveg frábær.
 
Eða þar til stjórnmálamenn fara að mynda sér skoðun.

mbl.is Segir ósanngjarnt að meta nemendur út frá einkunnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þarf að þvinga þig til að fagna fjölbreytileikanum?

Mikið er rætt og skrifað um stefnu bandarískra yfirvalda að falla frá kröfum um einhvers konar stefnu sem fagnar fjölbreytileikanum - að ráðningar þurfi að snúast um að skoða kynfæri og húðlit umsækjenda, auka hlutfall ákveðinna húðlita og kynfæra innan stjórna og deilda og kennslustofa og vísa frá þeim sem eru of hvítir eða karlkyns af þeirri ástæðu einni.

Á Íslandi eru víst lög sem kveða á um að banna slíka mismunun á grundvelli húðlitar og tegund kynfæra. 

En er einhver þörf á slíkri löggjöf?

Þarf að þvinga þig til að horfa á einstaklinga á grundvelli persónuleika, frammistöðu og framlags frekar en húðlits og kynfæra? Eru Íslendingar virkilega svo uppteknir af því að allir séu hvítir og karlkyns að aðrir fái ekki möguleika á starfsframa eða að fái sanngjörn tækifæri?

Ég hélt ekki, en ef það þarf löggjöf til að spyrna gegn slíku hugarfari þá er það líklega lausnin.

Ég hefði haldið að slík lög ættu meira erindi í ríkjum þar sem aðrir en innfæddir eru meðhöndlaðir eins og ódýrir þrælar, en ekki á Íslandi.

Kannski Íslendingar séu svo meðvitaðir um fordóma sína að þeir vilja að löggjafinn hjálpi þeim að draga úr öllum fordómum sínum. Ísland, sem kaus fyrst allra forseta af kvenkyni. Ísland, þar sem konur eru áberandi á öllum sviðum samfélagsins, í ábyrgðar- og valdastöðum.

En kannski er þetta bara afurð löggjafar. Kannski Íslendingar séu upp til hópa með mikla tilhneigingu til að mismuna og að það hafi þurft að banna slíka tilhneigingu. Kannski Íslendingar, eins og þú, séu með þeim fordómafyllri sem finnast í heiminum en fengu löggjöf til að siða þá til.

Ef ekki, þá má afnema alla þessa löggjöf í kringum fjölbreytileika og mismunun, en þá þarft þú, kæri lesandi, að hætta að vera þessi rasisti og kvenhatari sem löggjafinn telur þig vera.

Ræður þú við það?


Hvað er hægri öfgahyggja?

Ég er hægrimaður. Mjög mikill hægrimaður. Langt til hægri í stjórnmálum. 

Þetta þýðir að mér er alveg sama hvaða trú menn hafa, gæti ekki verið meira sama um klæðaburð annarra, hvað fólk kallar sig, hvaða húðlit fólk hefur og hvaða kynhneigð það hefur. Allt eru þetta einkamál hvers og eins. Auðvitað geta fyrirtæki og stofnanir sett reglur um klæðaburð og húsfélög geta bannað losun á sorpi á stigaganginum en slíkt leiðir af eignaréttinum sem er bakaður djúpt inn í hægrimennskuna. Án hans er enginn sjálfsákvörðunarréttur og allt sem kallast að vera til hægri hverfur.

Þetta þýðir að ég samþykki ekki að ein lög eigi að gilda fyrir einn og einhver önnur fyrir annan því mikilvægasta lögmálið er friðsemdarlögmálið - að ekki sé réttlætanlegt að hefja að fyrra bragði árás á annan.

Af þessu leiðir að skattheimta er óréttlætanleg og eigi í besta falli að samþykkja sem þjófnað um hábjartan dag sem er ekki hægt að verjast því þá sendir ríkisvaldið hermenn sína af stað til að ráðast á fólk og loka inni. Ég kýs frekar að borga í hverjum mánuði lausnagjald mitt en að verða stungið í steininn.

Af þessu leiðir að mér finnst öll ríkisútgjöld vera fjármögnuð með þýfi. Það er kannski huggun í harmi að þýfið er notað til að fjármagna þjónustu og inniviði sem nýtast mér og öðrum í daglegu lífi, en þýfi er það samt. 

Af þessu leiðir að umburðalyndi mitt gagnvart vali annarra í lífinu eða ráðstöfun á eigin fé er svo gott sem óendanlegt. Fari ríkisvaldið hins vegar að neyða menn til að þegja eða klæða sig á ákveðinn hátt, framfylgja samkomubanni eða fjármagna heilaþvott á börnum mínum þá fær það sama hlutverk og maður sem gengur um með kylfu og lemur fólk af handahófi: Ofbeldismaður sem þarf að stöðva.

Allt þetta tilheyrir því að vera hægrimaður, og jafnvel öfgafullur sem slíkur.

Það kemur mér því spánskt fyrir sjónir að lögreglan á Íslandi telur harðlínumenn í Íran vera boðbera hægri öfgahyggju. Þau eru allt nema hægrisinnuð. Í raun algjör andstaða. Þau skipta sér af öllu, neyða fólk til að klæðast á ákveðinn hátt, setja ákveðna kynhneigð í löggjöfina til að banna hana og heilaþvo börnin. Slík yfirvöld eru miklu skyldari kommúnískum yfirvöldum en hægrisinnuðum. Þau aðhyllast vinstri öfgahyggju, ekki hægri.

Þetta segir okkur auðvitað það að hugtökin hægri og vinstri eru með öllu ónothæf þegar við erum komin út fyrir stjórnmálalitrófið innan ákveðins ríkis þar sem hægri þýðir einhvers konar skerðing á völdum ríkisvaldsins og skattaþörf þess og vinstri þýðir aukning á völdum ríkisvaldsins og skattaþörf þess. Um leið og alræðisstjórnir múslímaríkjanna eru færð inn í umræðuna þá ruglast allt, svart verður hvítt og vinstri verður hægri. Sem er ástæða þess að blaðamenn ættu kannski aldrei að ræða alþjóðamál og bara halda sig við innanlandsþræturnar. Og hið sama gildir um skýrslugerðarmenn lögreglunnar.

Það er gott að vera hægrisinnaður. Það dregur úr þörf minni til að hafa skoðun á vali annarra í lífinu, í hvað fólk eyðir launum sínum og hvað það kallar sig fyrir framan spegilinn eða hefur áhuga á að gera í svefnherberginu. Að aðhyllast hægri öfgastefnu er friðsæl, umburðarlynd og mannvæn lífsskoðun sem ég mæli með.


mbl.is Aukin ógn vegna ofbeldisfullrar hægri öfgahyggju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vókið sem kom og fór og skildi eftir sig mikla eyðileggingu

Vókið, eða vælumenningin eins og sumir vilja kalla það, virðist loksins vera á útleið. Og það er ekki vegna Trump heldur vegna þess að venjulegt fólk er einfaldlega komið með upp í kok af vókinu og þorir í auknum mæli að segja það upphátt.

Þetta vók var alveg drepleiðinleg della sem gekk út á að þykjast vera umburðarlyndari og góðhjartaðri en næsti maður. Það gengur út á að skammast í öllum og uppnefna í allar áttir. Það gengur út á að taka gleðina úr lífinu og troða því í litla kassa. Þú ert karlmaður og þar með karlremba. Þú er kona og fórnarlamb sem vinnur ókeypis á þriðju vaktinni. Þú ert með annan húðlit en bleikan og því hluti af ofsóttum minnihlutahóp. Þú segist vera kona og ert því kona - skilgreiningin á konu er að segjast vera kona og skilgreiningin á orðinu því sú sama og orðið en ekki hvað í því felst: Einhver tiltekin líffæri, gen eða hormón.

Farið hefur fé betra en þessi þvæla. Vóksins verður ekki saknað og þegar er búið að lagfæra skemmdirnar verður vonandi langt þangað til að álíka rugl verði allt í einu að heilögu trúarbragði. Trúarbragði sem fékk að heilaþvo krakka og fullorðna, svipta konum einkarýmum sínum og flokka fólk eftir húðlit og tegund kynfæra í gott og vont. Rasismi sem segist vera andrasískur, og fasismi sem segist vera andfasískur.


Kvenréttindaafnámsherferðin

Svolítið áhugavert á sér stað núna og hefur átt sér stað seinustu árin: Afnám á réttindum kvenna.

Ég kalla það kvenréttindaafnámsherferðina. Ætla ekki að sækja um að fá það vörumerki eða annað slíkt, svo notist að vild.

Sú herferð gengur út á að:

  • Taka af konum íþróttir þar sem konur keppa við konur (píka á píku, svo það sé á hreinu)
  • Taka af konum búningsklefana, þar sem þær afklæðast og standa naktar í sturtuklefum
  • Taka af konum verðlaunin sem fást þegar sigur er unnin í íþróttum
  • Taka af konum næðið, friðhelgina og fjarlægð frá typpum í allskyns aðstæðum þar sem nektar er krafist

Taka af þeim nokkuð margt, satt að segja.

Þeir sem mótmæla þessari herferð fá auðvitað yfir sig holskeflu skammayrða og slíkt en að auki árásir á pósthólf (þekki það sjálfur) og jafnvel meira. Röng skoðun! 

Það er því fínt að hafa hugtak eins og kvenréttindaafnámsherferðina til að lýsa ekki bara skoðun sinni á vegferðinni heldur líka innihaldi hennar. Ertu konu, með píku? Ertu kona, að keppa í íþrótt? Ertu kona, í sturtu? Vertu velkomin í furðuheiminn þar sem þú ert kona, við hlið karlmannslíkama. Þegar þú keppir. Þegar þú afklæðist og baðar þig. 

Kannski er þessi furðuheimur að hverfa, og ég vona það, en á meðan vona ég að menn standi upp og mótmæli því að refurinn sé sendur í hænsnabúrið til að leggja sig. Það gæti endað illa.


Nýr rektor, hvað með það?

Ekki man ég nafnið á rektor Háskóla Íslands þegar ég var þar í námi. Kannski af því það skipti ekki máli. Kennslan fór fram í VR-II að mestu sem er gamalt en hlýlegt hús. Samlokugrillið var mikið notað. Bókasafnið var ljómandi fínt. Þegar kom að því að skrifa lokaritgerðina fékk ég hluta af skrifstofu út af fyrir mig og borðtölvu til afnota. 

Einstaka sinnum þurfti að fara yfir Suðurgötuna þar sem lögfræðingarnir, tungumálin, viðskiptafræðin og annað var til húsa. En sem betur fer sjaldan. 

Námið var líka ágætt þótt kennararnir hafi verið af öllu tagi: Undirbúnir eða ekki, góðir að útskýra eða ekki, miklir um sig á sviðinu eða ósýnilegir með öllu. Mér gekk betur og betur eftir því sem leið á námið og toppaði á lokaárinu. Þá var maður líka búinn að læra hvar aðstoð var að finna og hvaða prófessorar nenntu að veita hana. 

En ekki vissi ég hvað rektor skólans hét. Það skipti ekki máli.

Einu sinni stefndi Háskóli Íslands hátt þegar kom að mælingum á gæðum námsins. Núna snýst allt um fjölbreytileikann. Ekki veit ég til þess að hann hafi nokkurn tímann vantað í Háskóla Íslands. Það vantaði fleiri tölvuver á sínum tíma en fartölvurnar hafa líklega tekið við af þeim.

Einu sinni var talið hollt fyrir nemendur að takast á við mikið af erfiðu heimanámi en að auki rækta félagslíf og kynnast fólki og gera háskólanámið nánast að lífi sínu á meðan sá stutti tími varði. Kannski er áherslan í dag komin annað - á fórnarlambamenninguna sem rektor virðist ætla að keyra fast á frá fyrsta degi í embætti.

Ég vona að þjáningasystkini mín í VR-II séu samt ekki þar heldur djúpt í Matlab-kóða og Calculus-æfingum og að hamast langt fram á nótt við skilaverkefni í tölulegri greiningu. Þeir geta svo yljað sér við þá staðreynd að þótt hver einasta formúla muni ekki nýtast þeim á vinnumarkaðinum þá mun skrápurinn sem námið myndar tvímælalaust gera það. 


mbl.is Ekki að kjósa enn eina konuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannfórnir

Sumir velta því fyrir sér hvers vegna Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði af sér ráðherraembætti.

Var það vegna gamalla ástarmála? Nei, því hún veit betur en RÚV hvað er satt og rétt í því máli. Það ætti enginn að svo mikið sem blikka þegar RÚV heldur einhverju fram.

Var það vegna afsláttar banka á húsi? Kannski, en ég held nú að fólki finnist bara ágætt að bankar hirði aðeins minna og að fólk fái aðeins meira, og þótt það sé fréttnæmt þá veldur það engu uppnámi. Allir eiga þennan ættingja sem togar í spotta fyrir mann án þess að hafa hátt um það. Sumir vinna í banka. Stundum kemst það upp, en oftast ekki.

Eftir stendur hið augljósa: Þrýstingur á að segja af sér vegna einhvers annars. Kannski andstöðu við ríkisstjórnarfrumvarp sem gefur Evrópusambandinu sjálfkrafa aðgang að íslensku löggjafarvaldi. Kannski andstöðu við enn einn landsbyggðarskattinn sem tæmir seinustu sjávarþorpin af vinnustöðum. Kannski eitthvað annað. En óþægur ljár í þúfu þurfti að hverfa á braut.

Það er jú valkyrjustjórn, og hvað er valkyrja? Úr Gylfaginningu:

Þessar heita valkyrjur. Þær sendir Óðinn til hverrar orustu. Þær kjósa feigð á menn og ráða sigri. Gunnur og Rota og norn hin yngsta er Skuld heitir ríða jafnan að kjósa val og ráða vígum.

Valkyrjur ráða því hverjir falla í baráttu og þær völdu Ásthildi Lóu. Sjaldan hefur nafn á ríkisstjórn verið meira við hæfi. Spurningin er ekki hvort þær hafi nú þegar fellt fyrsta liðsmanninn heldur hver er næstur. 

Stjórnarandstöðuflokkarnir þurfa ekki að eyða krónu í næstu kosningabaráttu. Fylgið sópast að þeim dag frá degi í boði ríkisstjórnarinnar. Sama á sér raunar stað í Reykjavík. Skrýtnir tímar valkyrja og kryddpía verða bráðum fyndin og sorgleg minning um skort á fagmennsku í íslenskum stjórnmálum.


mbl.is Ýjar að Ásthildi Lóu hafi verið fórnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband